„Við berum ekki aðeins ábyrgð á gjörðum okkar, heldur einnig því sem við látum ógert“ - Moliére
Fyrirsögnin hér að ofan er fengin að láni frá Sturlu Pálssyni, sem samkvæmt frásögnum virðist hafa verið einhvers konar „troubleshooter“ í fjörbrotum Seðlabankans á síðustu dögum Davíðs. Sturla var að lýsa því í minnisblaði, hverra kosta væri völ að hans mati, væntanlega fyrir stjórnendur bankans, ef ekki okkur öll, í aðdraganda Hruns.
Og það var ekki fjarri lagi. Þriðja stærsta gjaldþrot mannkynssögunnar. Það munar um minna! Það tók Svisslendinga 300 ár að byggja upp bankageira, sem nam áttfaldri vergri landsframleiðslu (VLF). Það tók íslensku banksterana 5 ár að nífalda VLF. Allt í skuld. Eigið fé, sem íslensku bankarnir stærðu sig af, var allt fengið að láni. Eftir Hrun kærðu 27 alþjóðlegir bankar vanskil íslenskra banka og kröfðust bóta.
„Við komumst að því, að FME (fjármálaeftirlitið íslenska) skilur ekki áhættu“, sögðu bankamenn frá Barclays, um leið og þeir tóku fyrir frekari lán til Íslands (sjá. bls. 59). Það er nú eiginlega það eina, sem fjármálaeftirliti er ætlað að skilja. Bregðist það er fokið í flest skjól. Það er athyglisvert að norski olíusjóðurinn komst að þeirri niðurstöðu, að besta fjárfestingin á Íslandi væri að kaupa tryggingu fyrir vanskilum. Það væri pottþétt. Svo eru íslenskir rithöfundar að dunda sér við að skrifa smákrimmasögur, sem eru þýddar á ótal tungumál og seljast eins og heitar lummur um allar trissur.
Köngulóarvefurinn
En glæpareyfarinn, sem hér er spunninn af norska seðlabankastjóranum, sem við fengum að láni til að losna við Davíð árið 2009, er miklu meira spennandi. Enda meira lagt undir. Tíföld þjóðarframleiðsla að veði. Eigendur banka tæmdu þá með lánum til sjálfra sín – og hirtu gjaldeyrisvarasjóð Seðlabankans í kaupbæti með hinum frægu „ástarbréfum“ – endanlega til eignarhaldsfélaga sinna, sem áttu sér heimilisfesti í pósthólfum á pálmaeyjum Karíbahafsins. Og lífsstíll hinna nýríku var eftir því: Einkaþotur og lystisnekkjur, sukk og svallveislur, fótboltafélög til að leika sér með, og fjölmiðlar til að réttlæta allt saman og fegra ímyndina.
Eftir á spyrja menn sjálfa sig og hver annan, furðulostnir: Hvers vegna gerði enginn neitt? Allt gerðist þetta á vakt tveggja formanna Sjálfstæðisflokksins. Geirs Haarde í forsætisráðuneytinu og Davíðs Oddssonar í Seðlabankanum. Hvers vegna gerðu þeir ekki neitt? Báðir tilheyrðu þeir á yngri árum hinum fræga klúbbi, sem kenndur var við Eimreið og boðaði fagnaðarerindi nýfrjálshyggjunnar. Undir þeirra stjórn var Ísland orðið að tilraunastofu nýfrjálshyggjunnar. Samkvæmt kenningunni átti jú ekki að gera neitt. Markaðirnir áttu að sjá um þetta. Samkvæmt því var afskiptaleysið ekki mistök, heldur stefna sem átti að framfylgja.
Svikin loforð
Seðlabankastjórar Norðurlanda funda saman þriðja hvern mánuð. Á fundi þeirra þann 14. maí, 2008 bað seðlabankastjóri vor um hjálp – gjaldeyrisskiptasamning. Hinir seðlabankastjórarnir settu skilyrði. Þeir kröfðust þess, að íslenska bankakerfið yrði minnkað – langtímamarkmiðið var, að það drægist saman um a.m.k. helming. Þeir létu hringja í Geir Haarde, forsætisráðherra Íslands, af fundinum. Geir lofaði öllu fögru. Næsti fundur seðlabankastjóranna var haldinn eftir fall Lehmans. Þá lá allt fyrir: „Ekki hafði verið uppfyllt neitt þeirra skilyrða, sem sett höfðu verið fram í maí. Sagan endurtók sig“, segir Stefan Ingves, sænski seðlabankastjórinn, sem var hertur í eldi sænsku fjármálakreppunnar upp úr 1990.
Fjórum dögum eftir hrun Lehmans, 19. september, 2008 birti íslenski Seðlabankinn stöðumat sitt á minnisblaði. Viðbrögð sænska seðlabankastjórans voru þessi: „Þá þegar var nánast allt farið til fjandans. Algerlega. Enginn trúði orði af því, sem þarna var sagt og skrifað“ (sjá bls. 104). – Svo segja menn, að bankastarfsemi snúist um traust!
Ísland var rúið trausti. Skömmu seinna var það lagt inn á gjörgæsludeild IMF – Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Dramb er falli næst
Af hverju gerði enginn neitt? Samkvæmt þáverandi forseta Íslands, Ólafi Ragnari Grímssyni, (fyrrverandi formanni Alþýðubandalagsins) var engin ástæða til að gera neitt. Hann var á þessum árum vildarvinur og helsta klappstýra útrásarvíkinganna, sem svo voru kallaðir. Þann 3. maí, 2005 flutti hann ræðu í Lundúnum, sem fræg varð að endemum. Textinn ætti að vera innrammaður uppi á vegg í ráðuneytum og stjórnarstofnunum Íslands, öllum til viðvörunar um hin fornu sannindi, að dramb er falli næst.
Lýsir þetta ekki fyrst og fremst aðdáunarverðri sköpunargáfu við öfugmælasmíð? Væri ekki nær að klóna höfundinn fremur en hundinn?
Viðvörunarmerkin
Var Hrunið fyrirsjáanlegt? Já, segir seðlabankastjórinn norski. Viðvörunarmerkin blöstu alls staðar við. Menn hlutu að vera slegnir (hugmyndafræðilegri) blindu til að sjá þau ekki. Já, en – var það fyrirbyggjanlegt? Aftur segir norski seðlabankastjórinn já. Hann vitnar í „míni-krísuna“ árið 2006 og lýsir því með dramatískum hætti: „Sunnudagurinn 26. mars, 2006 markar þá stund á Íslandi, þegar ekki varð aftur snúið“, segir bankastarfsmaður (sjá bls. 151).
„Landsbankinn hafði tilkynnt yfirvöldum, að bankanum yrði ekki kleift að greiða afborgun, sem féll í gjalddaga daginn eftir. Þann dag var haldinn neyðarfundur á heimili seðlabankastjóra með fulltrúum bankanna þriggja“.... „Okkur var ljóst, að eitthvað væri að“, segir starfsmaður seðlabankans. ...“á miðjum fundinum þann 26. mars tilkynnti Landsbankinn, að fjármögnunarvandi bankans væri leystur. Peningarnir væru tiltækir. Þarna misstu menn af tækifæri til þess að grípa í taumana“, segir Norsarinn.
„Hefði verið reynt að ná tökum á efnahagskerfinu daginn þann, hefði mátt forðast hvellinn“ (bls. 151).
Er þetta rétt? Svarið er já. Ekki í þeim skilningi, að Ísland hefði þar með sloppið við áhrif amerískrar fjármálakreppu, sem barst með smitberum vítt og breitt um heiminn. En það hefði mátt minnka skaðann verulega. Forða fjölda fólks frá harmkvælum. Hvernig? Með því að færa aðalstöðvar bankanna (alla vega stærsta bankans) til Lundúna, þaðan sem þeir stýrðu umsvifum sínum vítt og breytt um heiminn. Með því að breyta útibúum bankanna erlendis í dótturfélög, sem þar með yrðu rekin með bankaleyfi og á ábyrgð tryggingarsjóða gistiríkja, eins og reyndar stóð til boða (Icesave o.fl.). Seinustu forvöð til að gera þetta hefðu verið á fyrstu mánuðum 2008, með því að framfylgja neyðarráðstöfunum, sem Buiter og Sibert lögðu til – en tillögum þeirra var sem kunnugt er stungið undir stól.
Seðlabankar hafa margvísleg önnur ráð til að minnka umsvif og draga úr skuldasöfnun viðskiptabanka. „Fjármálaeftirlitið er ekki með neina peninga. Það er seðlabankinn sem er með peningana. Sá sem er yfir seðlabankanum á að gæta peninganna“.
„Sumir segja, að stjórnvöld, seðlabankinn og viðskiptabankar, hefðu lítið getað aðhafst 2006 og 2007. Það er einfaldlega ekki rétt“ – segir sá norski (sjá bls. 152).
Að gera illt verra
„Í stað þess að draga úr umfangi eigna sinna keyptu bankarnir eigin hlutabréf, juku lán til eigenda sinna og lögðu fram enn meiri peninga, þegar þrýst var á eigendurna út af fyrirtækjasamsteypum, lystisnekkjum og þotum. Mikið af þessari gegndarlausu eyðslu var fjármagnað með skammtímalánum úr seðlabankanum“(sjá bls. 152).
Meðvitundarleysi
Þetta rímar við niðurstöður Rannsóknarskýrslu Alþingis. Þar segir (sjá bls. 153):
„Fyrir liggur, að í ríkisstjórn Íslands var allt fram að falli bankanna lítið rætt um stöðu bankanna og lausafjárkreppuna, sem hófst undir lok sumars 2007. Hvorki verður séð af fundargerðum ríkisstjórnarinnar né frásögnum þeirra sem gáfu skýrslur fyrir rannsóknarnefnd Alþingis að þeir ráðherrar ríkisstjórnarinnar, sem fóru með efnahagsmál (forsætisráðherra), bankamál (viðskiptaráðherra) eða fjármál ríkisins (fjármálaráðherra) hafi gefið ríkisstjórninni sérstaka skýrslu um vanda bankanna eða hugsanleg áhrif hans á efnahag og fjármál ríkisins frá því að þrengja tók að bönkunum og þar til bankakerfið riðaði til falls 2008. Það er fánýtt að ræða um það, hvaða ráðherrum og embættismönnum sé um að kenna. Allir viðstaddir, sem sáu hvað var að gerast, hefðu átt að lýsa yfir áhyggjum sínum og hefja aðgerðir til þess að tryggja umbætur. Eða segja af sér“ (sama bls.).
En það gerði enginn neitt. Það sagði enginn af sér. Og því fór sem fór.
(Framhald á morgun: „Upp skalt á kjöl klífa“ – leið Íslands út úr Hruninu)
Höfundur er fyrrverandi utanríkisráðherra.