Fyrir rétt rúmu ári skilaði starfshópur forsætisráðherra um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu skýrslu sem vakti nokkra athygli um það leyti sem hún kom út. Ólíkt mörgum skýrslum sem framleiddar eru á vegum eða í tengslum við stjórnsýsluna hefur hún líka haft viss áhrif. Stjórnvöld gengu til samninga við Siðfræðistofnun um ráðgjöf um siðfræðileg efni eins og hópurinn lagði til. Sömuleiðis hefur frumvarp um vernd uppljóstrara verið lagt fram og von er á frumvarpi um varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdavalds. Fleiri mál sem tillögur hópsins náðu til eru í farvatninu, en þær voru 25 talsins.
Enn bólar þó ekki á að farið sé eftir því sem kannski má – ekki síst í ljósi Samherjamálsins – telja hvað mikilvægustu tillögu starfshópsins. Þessi tillaga, þær eru reyndar tvær, varðar sérstaklega leiðir til að ná betur utan um lobbíisma í íslenskum stjórnmálum og stjórnsýslu með því að annars vegar að láta lobbíista – sem í skýrslunni eru nefndir hagsmunaverðir – skrá sig, hins vegar með því að gera vandaða úttekt á því hverskonar reglur eðlilegt væri að setja um lobbíisma á Íslandi.
Margsinnis hefur verið bent á hvílík spillingarhætta getur falist í opnum og óheftum aðgangi tiltekinna sérhagsmunaafla að stjórnkerfinu, en því miður mega fulltrúar atvinnulífsins ekki heyra á það minnst að á því sé tekið. Bæði Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð fóru hörðum orðum um þessar tillögur Traustskýrslunnar og töldu reglur um lobbíisma sérstaklega til þess fallnar gera fyrirtækjum erfitt fyrir.
En þetta er mikil skammsýni. Vandinn hér er einmitt sá að lobbíismi er ekki formgerður og þess vegna halda menn gjarnan að hann sé ekki til. Það gagnast það bæði atvinnulífinu, stjórnvöldum og almenningi að átta sig í fyrsta lagi á umfangi og eðli hans og í framhaldi af því átta sig á hvernig koma megi í veg fyrir misnotkun. Það er sorglegt að mikilvæg samtök á borð við Samtök atvinnulífsins skuli ekki taka þátt í því með stjórnvöldum að setja eðlilegar reglur um hagsmunavörslu – lobbíisma sem tryggja gagnsæi og geta leitt til þess að auka sjálfstæði stjórnkerfisins gagnvart sterkum hagsmunaaðilum.
Það er ekkert að lobbíisma sem slíkum – það er ósköp eðlilegt að hagsmunaaðilar reyni að ná eyrum stjórnvalda og séu jafnvel með fólk í vinnu við það. En þessi samskipti eru ekki gagnsæ í dag. Því fer fjarri. Þess vegna eru íslensk stjórnsýsla og stjórnmál að mörgu leyti jafn berskjölduð fyrir spillingu og kollegarnir í Namibíu, þótt með ólíkum hætti sé.
Höfundur er prófessor við Háskóla Íslands og var formaður Starfshóps um eflingu trausts í stjórnmálum og stjórnsýslu.