Þegar líður að áramótum horfir maður gjarnan til baka og veltir fyrir sér því sem gerst hefur. Sem þingmaður finnst mér viðeigandi að fara örstutt yfir nokkur verkefni, bæði þau sem komin eru í höfn og þau sem framundan eru, enda kjörtímabilið hálfnað.
Að starfa í ríkisstjórn sem þverar hið pólitíska litróf hefur verið lærdómsríkt og vissulega krefjandi á köflum. Að mínu mati getum við Vinstri græn sannarlega verið stolt af því sem við höfum áorkað, enda mörg gamalgróin baráttumál okkar komin til framkvæmda.
Það er ekki hægt að líta yfir árið sem er að líða án þess að minnast á þær miklu kjarabætur sem fylgja lífskjarasamningnum sem undirritaður var í vor í tengslum við kjarasamninga. Þar er sérstakt fagnaðarefni að búið sé að lengja fæðingarorlofið. Það mikla jafnréttismál hefur í mörg ár verið baráttumál okkar Vinstri grænna. Jafn réttur foreldra til fæðingarorlofs er gríðarlega mikilvægt verkfæri í því að koma í veg fyrir launamun kynjanna. Gögnin sýna að í þeim tilvikum sem gagnkynja pör eignast barn fellur það oftar í hlut kvenna að taka út þá viðbót sem óskipt er af fæðingarorlofi foreldra. Þetta leiðir til þess að konur eru lengur utan vinnumarkaðar með tilheyrandi tekju – og réttindatapi auk þess sem börn verða af mikilvægum tíma til að tengjast báðum foreldrum í frumbernsku.
Fæðingarorlofið er þó ekki eina stóra skrefið sem tekið var í jafnréttismálum á árinu en ný lög um þungunarrof voru samþykkt í vor. Sú breyting felur í sér að sjálfsákvörðunarréttur konunnar er virtur enda er það enginn annar sem getur tekið ákvarðanir en konan sjálf. Það hefur verið baráttumál kvennahreyfingarinnar allt frá stofnun að tryggja fólki örugga heilbrigðisþjónustu á meðgöngu og var þessi breyting því mikið fagnaðarefni.
Frá árinu 2015 hafa þingmenn VG unnið að lagabreytingu til að auka réttindi trans- og intersexfólks. Í fyrstu var vinnan í höndum Svandísar Svavarsdóttur sem vann þétt með félögunum Trans Ísland og Intersex Íslands. Talsmenn þessara hópa hafa lengi talað fyrir slíkri lagabreytingu, enda hafði Ísland dregist afturúr í réttindum hinsegin fólks á heimsvísu vegna skorts á lögfestum réttindum þeirra hér á landi. Í vor urðu svo loks til lög um kynrænt sjálfræði sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra lagði fram. Með þeim voru tryggð aukin réttindi trans og intersex fólks og einnig tryggður sá réttur að geta háttað kynskráningu sinni eins og þau kjósa. Löngu tímabær breyting, enda er fólk best til þess fallið að skilgreina sig sjálft.
Búið er að koma á þriggja þrepa skattkerfi á ný. Það kerfi gengur í raun lengra en það sem var hér í tíð vinstristjórnarinnar 2009-2013. Með nýju grunnþrepi sem dregur úr skattbyrði tekjulægsta hópsins og eykur með því ráðstöfunartekjur hans. Einnig voru skerðingamörk barnabóta hækkuð talsvert sem eykur ráðstöfunartekjur barnafólks.
Heilbrigðismálin stór áskorun
Það er ótal margt sem áunnist hefur í heilbrigðismálum á þessum tveim árum með góðan leiðtoga í brúnni í heilbrigðisráðuneytinu. Fyrsta heilbrigðisstefnan var samþykkt á þessu ári sem er afskaplega mikilvægt til að ná enn betur utan um og skilgreina þjónustuna sem veita á. Til að létta á sérhæfðri þjónustu hefur heilsugæslan verið efld sem fyrsti viðkomustaður. Ákalli um aukna geðheilbrigðisþjónustu hefur sömuleiðis verið svarað, m.a. með því að hafa þverfagleg geðheilsuteymi á heilsugæslustöðvum um allt land. Gjaldskrá tannlækninga aldraðra og öryrkja hafði ekki verið uppfærð í 14 ár en því var kippt í liðinn sem og aukinn stuðningur við tannlækningar barna.
Og áfram verður haldið í því að jafna aðgengi fólks að heilbrigðisþjónustu því komugjöld í heilsugæsluna verða felld niður í áföngum á næstu árum. Þá verður dregið úr kostnaðarþáttöku fólks vegna lyfja, hjálpartækja, búnaðar fyrir sykursjúka og ferðakostnaðar sem við landsbyggðarfólk höfum kallað mikið eftir. Þá er ótalin sú mikla uppbygging hjúkrunarrýma sem stendur yfir sem og bygging meðferðarkjarna Landspítalans en skemmst er að minnast að tekið var í notkun nýtt sjúkrahótel.
Óveðrið og innviðir
Ýmis verkefni eru þó með öllu ófyrirsjáanleg og þó við Íslendingar séu vön ýmsu þegar kemur að veðrinu þá held ég að óveðrið í byrjun desember hafi almennt komið landsmönnum í opna skjöldu. Við blasti veruleiki sem margir íbúar landsbyggðarinnar, undirrituð meðtalin, hafa verið meðvituð um í langan tíma – að innviðir á landsbyggðinni eru ekki nógu öflugir. Þar er auðvitað helst að nefna raforkuöryggi, fjarskipti og samgöngur. Við þessu verðum við að bregðast og gera allt sem í okkar valdi stendur til að fólk og fyrirtæki þurfi ekki að búa við slíkar aðstæður aftur og held ég reyndar að allir þeir sem að þessum málum komu fari í naflaskoðun um hvað má betur fara.
Seinni hálfleikur – miðhálendisþjóðgarður og loftslagsmálin
En þó að við höfum þegar komið ýmsu í verk eru næg verkefni framundan á seinni hluta kjörtímabilsins. Nú rétt fyrir jól voru birt í samráðsgátt drög að frumvarpi um miðhálendisþjóðgarð. Vernd hálendisins okkar er afar mikilvæg, ekki bara fyrir friðelskandi og fjallagrasaétandi göngugarpana í Vinstri grænum, heldur fyrir landsmenn alla og ekki síður fyrir komandi kynslóðir.
Málið er umdeilt og það vitum við vel. Um er að ræða stórt landsvæði og er eðlilegt að heimamenn í nærsveitum þjóðgarðsins séu með varann á þegar undir er náttúra sem þeim er kær. Það er einnig skiljanlegt að fólk hafi efasemdir gagnvart því að „sérfræðingar að sunnan“ taki yfir skipulag á svæðinu í stjórn þjóðgarðsins. En mikilvægt er að halda því til haga að það stendur ekki til að taka völdin af heimafólki enda sveitarstjórnarfólk með meirihluta bæði í aðalstjórninni og í umdæmisstjórnunum enda er hér um að ræða þjóðgarð okkar allra. Ef vel tekst til verður um að ræða stórt svæði þar sem heldur utan um okkar allra fallegustu og berskjölduðustu náttúru. Mörg höfum við komið í slíka þjóðgarða erlendis og yrði það landi og þjóð til sóma að sjá miðhálendisþjóðgarð verða að raunveruleika.
Náttúran er enda stóra málið þessa dagana og þá sérstaklega loftslagsmálin. Það hefur ekki farið framhjá okkur þingmönnum. Hvert sem litið er og hvaða mál sem er til umræðu virðist fólk verða meðvitaðra um mikilvægi þess að taka tillit til umhverfisins og loftslagsmála. Fyrir þingmenn Vinstri grænna, sem í mörg ár var gert grín af vegna áherslu sinnar á umhverfisvernd, er þetta fagnaðarefni. Það vefst þó ekki fyrir neinum að þessi umræða er nú orðin svo áberandi vegna þeirra gríðarlegu áskoranna sem mannkynið stendur frammi fyrir. Þar skiptir aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar miklu máli þar sem verulega verður aukið við fjárfestingar og innviði í rafvæðingu samgangna auk þess sem ráðist verður í umfangsmikið átak við endurheimt votlendis, birkiskóga og kjarrlendis, stöðvun jarðvegseyðingar og frekari landgræðslu og nýskógrækt til að vinna sérstaklega að markmiði um kolefnishlutleysi. Margt annað er að finna í aðgerðaráætluninni sem verður endurskoðuð reglulega enda breytast aðstæður hratt og nauðsynlegt að vera á tánum.
Allir að borðinu
Ég heyri því oft fleygt fram að stjórnvöld geri ekki nóg og séu ekki nógu róttæk. Það er eitthvað sem við sem sitjum á Alþingi verðum að hlusta á. Það er vont ef þau góðu mál sem við höfum vissulega komið til framkvæmda í umhverfismálum ná ekki eyrum fólks. Þar má til dæmis nefna tímamótamál umhverfisráðherra frá því í vetur þegar bann var lagt við notkun svartolíu í lögsögu Íslands. Þá má einnig nefna bann við því að gefa plastpoka í verslunum. Það kann að virðast lítill dropi í hafið en mikilvægt skref í því að úthýsa einnota plasti. Einnota er einmitt orð sem við verðum að aflæra. Að vissu leyti þurfum við að horfa til fortíðar í þeim efnum, við verðum að vera nýtnari. Að stoppa í sokka, fara með fjölnotapoka í búðina, hætta að henda mat og svo framvegis. Allt eru þetta hlutir sem hver og einn getur tileinkað sér.
Hins vegar verður ekki hjá því litið að mesta ábyrgðin í loftslagsmálum liggur hjá stóriðju og stórfyrirtækjum, bæði hérlendis og um heim allan. Það var því sérstakt fagnaðarefni þegar fulltrúar stóriðjunnar, Orkuveitu Reykjavíkur og ríkisstjórnarinnar undirrituðu viljayfirlýsingu í sumar um kolefnishreinsun og bindingu. Það skiptir sköpum að fá alla að borðinu í þessum efnum.
En nú líður að lokum þessa viðburðaríka árs og þingflokkur Vinstri grænna heldur ótrauður áfram að vinna að góðum málum fyrir land og þjóð, sumt hefur gengið hægar og annað eins og til stóð. Ég held inn í nýja árið með bjartsýni og jákvæðni að leiðarljósi enda næsta víst að þá ganga verkin betur.
Gleðilega hátíð og megi gæfa og gleði fylgja ykkur öllum á komandi ári.
Höfundur er þingflokksformaður Vinstri grænna.