Það er búið að vera ljóst í mörg ár að breyta þarf lífeyrissjóðakerfinu. Sjálfur talaði ég um þetta í mörgum greinum og sjónvarpsviðtölum fyrir um áratug og margir bentu á vandann á undan mér. Margir voru ósammála. En nú er aftur byrjað að tala um þetta. Og það er vel. En það er grundvallaratriði sem á að ræða: þurfum við sjóðsöfnunarkerfi?
Verður þjóðin sem heild að spara líkt og heimili?
Ætlanin með lífeyriskerfum, hvort sem þau eru (svokölluð) gegnumstreymis- eða sjóðsöfnunarkerfi, er að bæta lífsskilyrði elli-, örorku- og makalífeyrisþega. Stuðningsfólk sjóðsöfnunarkerfa benda á að þau eigi að minnka þrýstinginn á fjárhagsstöðu hins opinbera m.v. gegnumstreymiskerfi. Og stuðningsfólk íslenska lífeyriskerfisins er duglegt að benda á að það sé, m.v. landsframleiðslu, eitt stærsta sjóðsöfnunarkerfi í heimi – og gefa þar með í skyn að fjárhagslegt öryggi íslenskra lífeyrisþega sé betra en þeirra sem fá sinn lífeyri í gegnum gegnumstreymiskerfi.
Myndina að baki sjóðsöfnunarkerfi er auðvelt að skilja: á sama hátt og heimili verður að leggja fyrir til að eiga fyrir útgjöldum í framtíðinni verður þjóðin í heild að leggja fyrir til að hún eigi fyrir útgjöldum þegar hún, eða stórir hlutar hennar, er orðin gömul.
En þessi mynd er röng: Íslendingar sem heild þurfa ekki að leggja fyrir sé ætlanin að tryggja ákveðin fjárhagsleg framlög til elstu Íslendinganna.
Rekstur ríkissjóðs er ekki eins og rekstur heimilis
Ríkissjóður gefur út sína eigin mynt, þ.e. íslensku krónuna. Það er staðreynd sem enginn getur hrakið að útgefendur mynta eru ekki fjárhagslega takmarkaðir á sínum útgjöldum í viðkomandi mynt. Þannig er ríkissjóður Íslands með ótakmarkaða fjárhagslega getu til þess að fjármagna útgjöld í íslenskri krónu, óháð skattheimtu á sama tíma: allt það sem er til sölu í íslenskri krónu getur ríkissjóður Íslands keypt, sama hvert veðrið er. Þetta gerir vitanlega rekstur ríkissjóðs gjörólíkan rekstri heimilis en heimilið gefur ekki út sína eigin mynt og verður að eiga eða taka að láni fjármuni til þess að kaupa hvað það sem það vill kaupa.
En þótt ríkissjóður hafi fjárhagslega getu til þess að gera þetta er ekki þar með sagt að hann eigi að gera það. Auki ríkissjóður útgjöld sín of mikið leiðir það til verðbólgu – sama þótt efnahagslega hættan á gjaldþroti hans þegar kemur að skuldbindingum í íslenskri krónu sé engin. Og spurningin um hvort það leiði til verðbólgu er háð því hversu mikið af öllu (vörum, þjónustu) er framleitt í hagkerfinu. Og sú spurning er m.a. háð því hvernig slík framleiðsla er fjármögnuð af fjármálakerfinu.
Þetta skiptir máli þegar kemur að umræðunni um lífeyriskerfið. Ólíkt t.d. Frökkum, sem gefa ekki út sína eigin mynt, gefa Íslendingar út sína eigin mynt. Þar með er geta ríkissjóðs Íslands til þess að fjármagna fjárhagsleg útgjöld, t.d. ellilífeyri, í íslenskri krónu ótakmörkuð á sama hátt og geta ríkissjóðs Bandaríkjanna, sem gefur út sína eigin mynt, er ótakmörkuð þegar kemur að útgjöldum ríkissjóðs Bandaríkjanna í bandarískum dollar. Þetta gildir ekki í Frakklandi því Frakkar gefa ekki út sína eigin mynt.
Alan Greenspan, fyrrum seðlabankabankastjóri Bandaríkjanna, orðaði þessa getu ríkissjóðs Bandaríkjanna á eftirfarandi hátt (í lauslegri þýðingu höfundar). Hið sama gildir um fjárhagslega getu ríkissjóðs Íslands þegar kemur að útgjöldum ríkissjóðs í íslenskri krónu:
Ég myndi ekki segja að gegnumstreymiskerfi sé óöruggt í þeim skilningi að það er ekkert sem kemur í veg fyrir að ríkisstjórnin skapi eins mikla peninga og hún vill og noti þá til að borga einhverjum [fyrir hvað sem er].
Hvernig tryggjum við að framleiðslan sé til staðar þegar lífeyririnn er greiddur út?
Greenspan, í beinu framhaldi af orðum sínum hér á undan, benti einnig á eftirfarandi:
Spurningin er: hvernig seturðu upp kerfi sem tryggir að vörur og þjónusta eru búin til sem þessir peningar eru notaðir til að kaupa?
Svo þetta er ekki spurning um öryggi. Þetta er spurning um uppbyggingu fjármálakerfis sem tryggir að vörur og þjónusta eru framleidd til handa eftirlaunaþegum, ólíkt ellilífeyrinum sjálfum. Það er fínt að hafa fjárhagslegu eignirnar til að borga út bætur, en líta verður á þær í samhengi við vörur og þjónustu sem eru búnar til á þeim tíma sem þessar bætur eru greiddar út, svo þú getir keypt téðar vörur og þjónustu með bótunum sem greiddar eru út – sem eru vitanlega peningar.
Þetta er vandamálið sem Íslendingar standa frammi fyrir: hvernig á að tryggja að vörur og þjónusta séu til staðar þegar ellilífeyririnn er greiddur út, hvort heldur sem þessi ellilífeyrir komi frá ríkissjóði eða frá sjóðsöfnunarkerfi?
Á næstu vikum og mánuðum í umræðunni um lífeyriskerfið verða margir álitsgjafar sem munu hanga á atriðinu um að gegnumstreymiskerfi sé ríkissjóði ofviða og þess vegna, og eingöngu þess vegna, verði Íslendingar að viðhalda sjóðsöfnunarkerfinu. Ég hélt þetta sjálfur fyrir tæpum áratug. En í dag veit ég betur: spurningin er ekki um fjárhagslega getu ríkissjóðs til þess að borga út lífeyri í formi íslenskra króna. Spurningin er hvort, og þá í hvaða mynd, gegnumstreymis- eða sjóðsöfnunarkerfi sé betra þegar kemur að því að tryggja að vörur og þjónusta séu framleidd á þeim tíma sem lífeyririnn er greiddur út, hvort heldur sem sá lífeyrir komi frá ríkissjóði eða frá sjóðsöfnunarkerfi.
Höfundur er með doktorspróf í hagfræði.