Í dag greiða mörg lítil og meðalstór sjávarútvegsfyrirtæki árlega fullt markaðsverð fyrir veiðiheimildir! Þessi fullyrðing hljómar kannski einkennilega í eyrum fólks. Það markaðsverð er ekki nema að litlum hluta í formi veiðigjalda til ríkisins, sem var 13,8 kr. en verður 10,62 kr. á þessu ári. Stærsti hlutinn er fjármagnskostnaður vegna kaupa á veiðiheimildum. Fyrirtæki sem voru stofnuð eftir að framsalinu var komið á, 1991, og hafa þurft að kaupa allan sinn kvóta, eru mörg hver mjög skuldsett. Ef ég tek lán til að kaupa tonn af veiðiheimildum á þorski, þá kostar það mig að lágmarki tvær milljónir, með vaxtabyrði upp á 90.000 kr. miðað við 4,5% ársvexti, en mörg fyrirtæki greiða mun hærri vexti en það.
Einhver gæti spurt: Er þá ekki réttlætanlegt að lækka veiðigjöldin á þessi fyrirtæki, miðað við þessa stöðu? Að lækka veiðigjöld á aflaheimildum sem eru á virkum markaði eins og þessum, með nokkuð hundruð þátttakendum, er eins og að pissa í skóinn, það veitir smá yl en aðeins í skamma stund. Ef markaðurinn virkar, þá mun lækkun á veiðigjöldum verða til þess að verð á aflaheimildum hækkar, sem með tímanum eykur skuldsetningu þessa hóps, þar sem nýir aðilar þurfa að borga meiri fjármagnskostnað vegna kaupa á aflaheimildum.
Þessi skuldsetning er innbyggð í kerfi sem stuðlar beinlínis að því að beina umframrentunni, svigrúminu sem er til staðar í kerfinu umfram rekstrarkostnað, til banka og fjármálastofnana. Þessi litlu og meðalstóru fyrirtæki eru því að greiða fullt markaðsverð á veiðiheimildum og það rennur allt á höfuðborgarsvæðið, að litlum hluta beint í ríkissjóð í gegnum veiðileyfagjald, en að mestum hluta til banka.
Þessi fyrirtæki standa því ekkert sérstaklega vel og eru svo notuð sem brjóstvörn fyrir allt kerfið, sem réttlæting fyrir að lækka veiðigjöld, einnig fyrir hinn hluta kerfisins, sem býr í allt öðrum veruleika. Hinn hluti kerfisins, stóru fyrirtækin, eiga flest kvóta sem þau hafa átt frá upphafi og hafa því ekki þurft að skuldsetja sig mikið vegna kvótakaupa, fyrir utan það að hafa aðgang að mun ódýrari lánum frá erlendum bönkum. Hér er ég að tala um aflaheimildir á botnfiski. Það eru líka þessi stóru fyrirtæki sem eiga megnið af aflaheimildum í uppsjávarfiski, eins og loðnu, síld og makríl, og í þessum veiðum eru aðallega fáir og stórir aðilar og kvótinn hefur lítið skipt um hendur.
Hinn mikli hagnaður sem verið hefur í greininni undanfarinn áratug hefur að mestu leyti verið hjá þessum fyrirtækjum. Rentan þar hefur runnið í bætta eiginfjárstöðu þessara fyrirtækja og í arðgreiðslur til eigenda og hluthafa. Auðvitað detta einhverjir brauðmolar til byggðanna, til íþróttafélaga og samfélagsverkefna, en það er sáralítið brot af þessum hagnaði. Til samanburðar má nefna að stuðningur Samherja við fiskidaga á Dalvík er aðeins um 20% af því sem útgerðin greiðir árlega í taprekstur Morgunblaðsins.
Landsbyggðin hefur því litlu að tapa en til mikils að vinna, kannski meira en nokkur annar, að breyta þessu fyrirkomulagi, að sækja eitthvað af þessum tugmilljörðum sem nú er að renna til fjármálastofnana og hluthafa stórfyrirtækja. Til eru útfærslur á uppboðskerfi á aflaheimildum sem tryggja aðgengi og nýliðun og krefjast ekki mikillar skuldsetningar vegna kaupa á veiðiheimildum. Má ekki hugsa sér þjóðarsátt þar sem megnið af því sem kemur inn af slíku uppboði renni til sveitarfélaganna, í þróunar- og nýsköpunarsjóð fyrir landsbyggðina og til að reka Hafrannsóknarstofnun, Fiskistofu og Landhelgisgæsluna?
Höfundur er framkvæmdastjóri, heimspekingur og einn af stofnendum „Auðlinda í almannþágu".