Ferðaþjónustan á landinu öllu kemur saman árlega á Mannamótum Markaðsstofa landshlutanna. Sýningin hefur það að markmiði að efla tengsl á milli fyrirtækja á höfuðborgarsvæðinu og fyrirtækja allra landshluta auk þess að kynna vel nýjungar á svæðunum og auka sölumöguleika. Þennan frábæra dag er auðvelt að sjá hvers vegna erlendir ferðamenn flykkjast til landsins og hvers vegna áhuginn á Íslandi eykst ár frá ári. Kraftur og sköpunargleði einkennir fólkið í ferðaþjónustu sem sér tækifæri hvert sem litið er. Ótrúlegt er að sjá fjölbreytni og sérstöðu þeirrar þjónustu sem í boði er.
Það er gríðarlega mikilvægt ef tryggja á áframhaldandi vöxt ferðaþjónustunnar og góð áhrif hennar á hagvöxt í landinu að hlúa vel að þeim frumkvöðlum sem hafa drifið áfram þróunina undanfarin ár. Þetta fólk og þeirra fyrirtæki hafa staðið af sér miklar breytingar, farið í gegnum mjög hraðan vöxt sem fylgdi mikil þörf fyrir innviðauppbyggingu, álag á þjónustu, þróun, breytingar í starfsmannamálum og áhersla á gæði. Mikil áhersla hefur verið á að gera Ísland að heilsárs ferðaþjónustulandi og hafa ferðaþjónustuaðilar staðið vaktina varðandi það að byggja upp opnunartíma á veturna þegar lítið hefur verið að gera á mörgum svæðum.
Samhliða mikilli nýsköpun og þróun ferðaþjónustufyrirtækja er framundan mikil vinna stjórnvalda við að byggja upp samgöngur og innviði í landinu þannig að ferðaþjónustan geti vaxið og dafnað á sjálfbæran hátt. Ferðamenn kalla á að komast á aðra staði og á öðrum tíma heldur en við erum vön. Stöðugt eru að koma í ljós og að þróast áfram nýir áfangastaðir vítt og breytt um landið sem á örskömmum tíma geta orðið gríðarlega vinsælir og kalla á aukna þjónustu og innviði. Með góðu samstarfi stjórnvalda og ferðaþjónustunnar getum við séð þessa stærstu atvinnugrein þjóðarinnar vaxa og dafna á næstu árum og byggt upp grunn að öflugu atvinnulífi og byggð um allt land á sjálfbæran hátt.
Höfundur er talsmaður Markaðsstofa landshlutanna og framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands.