Samtök atvinnulífsins (SA) stilltu upp mjög villandi mynd af kröfum Eflingar gagnvart Reykjavíkurborg í Fréttablaðinu í vikunni.
Þar fór saman skökk talnameðferð og mikið heimsendaraus um hættu á höfrungahlaupi og eyðileggingu Lífskjarasamningsins.
Ástæða er til að leiðrétta þetta gönuhlaup SA-manna og ritstjóra markaðskálfs Fréttablaðsins.
Megininntak leiðréttingarinnar sem Efling hefur lagt til við Reykjavíkurborg felst í því að endurskoða starfsmat fyrir algeng láglaunastörf hjá Reykjavíkurborg, sem einkum er sinnt af konum.
Þetta myndi lyfta þeim í launatöflunni sem eru á lægstu launum með sérstakri taxtahækkun á bilinu 20 til 50 þúsund.
Mest fá þeir sem eru á lægstu launum og síðan fjarar leiðréttingin út við 450 þús. kr. á mánuði.
Áfram er virkur stígandi í launatöflunni, en bara ekki alveg jafn mikill og nú er. Þannig er það einmitt sem á að leiðrétta þá sem neðst í launastigum eru.
En hvers vegna er ástæða til að leiðrétta þennan hóp sérstaklega?
Í fyrsta lagi vegna þess að það er mjög erfitt að ná endum saman á þessum lægstu launum, einkum í Reykjavík þar sem húsnæðisverð er langhæst á landinu öllu.
Í öðru lagi er ástæðan sú að grunnlaun fyrir sambærileg störf eru heldur hærri á almennum markaði en hjá Reykjavíkurborg. Auk þess er meira um aukatekjur á almennum markaði í formi bónusa, álagsgreiðslna og yfirvinnu.
Samanburður á borg og almennum markaði
Muninn á grunnlaunum í völdum störfum hjá borginni og á almennum markaði má sjá á töflunni hér að neðan (t.d. í dálki 3).
Tölurnar eru í grunninn frá Hagstofunni fyrir almenna markaðinn en fyrir Reykjavíkurborg koma þær úr starfsmati og launatöflu borgarinnar (Heimild: Ragnar Ólason, sérfræðingur hjá Eflingu).
Tölurnar eru settar fram eins og þær verða eftir að hækkanir Lífskjara-samningsins eru að fullu komnar fram. Ekki er gert ráð fyrir sérstökum hækkunum desember- og orlofsuppbóta.
Eins og sjá má í dálki 3 eru grunnlaun í þessum störfum á bilinu 27 til 80 þúsund krónum hærri á almennum markaði. Þannig er það nú og verður áfram eftir að hækkanir Lífskjarasamningsins koma til – að öðru óbreyttu.
Með leiðréttingunni fara lægri störfin hjá borginni aðeins framúr grunnlaunum sambærilegra starfa á almennum markaði (7 til 18 þús. kr. á mán.), en það er til að bæta fyrir meiri möguleika á aukatekjum á almennum markaði vegna bónusa, álagsgreiðslna og vakta- og yfirvinnu (sjá dálk 4).
Vel þekkt er að starfsfólk sveitarfélaga hefur í mörgum tilfellum mjög takmarkaðan aðgang að slíkum aukatekjum og er það skýring þess að það mælist jafnan með lægstu heildartekjur allra á íslenskum vinnumarkaði.
Þetta er því bæði þörf og málefnaleg leiðrétting sem Efling fer fram á fyrir láglaunafólkið hjá borginni.
Er hætt á höfrungahlaupi?
Þar sem leiðréttingin er bundin við afmarkað launabil og stiglækkandi að auki á ekki að vera hætta á smitun launahækkunarinnar upp launastigann.
Hins vegar er ástæða til þess að leiðréttingin nái einnig til meðlima Sameykis sem eru í sambærilegum störfum hjá borginni á sambærilegum kjörum.
Það fólk á sömuleiðis rétt á að fá jöfnun gagnvart markaðslaunum.
Í þessari leiðréttingu felst hins vegar ekkert fordæmi fyrir aðra launahærri hópa.
Þessu til viðbótar má hins vegar benda á að ríkið hefur þegar samið við nokkra hópa háskólamenntaðs starfsfólks með hækkunum í hæstu töxtum sem eru talsvert umfram hækkanir Lífskjarasamningsins (sjá hér).
SA-menn og vanstillti skrifarinn á Fréttablaðinu hafa ekki gert athugasemdir við þetta, enda virðast þeir hafa meiri samúð með hálaunafólki en þeim sem verst standa.
Hefur borgin efni á þessari leiðréttingu?
Reykjavíkurborg afgreiddi fjárhagsáætlun sína fyrir árið 2020 með 2,5 milljarða afgangi.
Ef leiðréttingin kæmi að fullu til framkvæmda á þessu ári myndi hún kosta um 1,2 milljarða fyrir Eflingarfélaga og svipað fyrir Sameykis-fólk.
Heildarkostnaður yrði innan rekstaraafgangsins og ekki þarf því að koma til hækkunar skatta eða gjalda vegna þessa.
Þá gerir borgin ráð fyrir mun meiri afgangi á seinni árum samningstímans, sem einmitt er ástæða til að láta skila sér að hluta til láglaunafólksins hjá borginni – ekki síst ef borgaryfirvöld eru hlynnt jafnaðarstefnu.
Þetta er því auðvelt fyrir borgina að framkvæma og mun hjálpa til við lausn á langvarandi mönnunarvanda á leikskólum og víðar hjá borginni.
Höfundur er prófessor við HÍ og sérfræðingur í hlutastarfi hjá Eflingu-stéttarfélagi.