Á árinu 1983 voru uppi hugmyndir hjá þáverandi Framleiðsluráði landbúnaðarins, um að skipuleggja framleiðslu á eggjum, kjúklingum og svínakjöti. Hugmyndin var að takmarka framleiðslu á þessum afurðum, með það að markmiði að ekki þrengdist um of að kindakjötinu. Hvers vegna eggin voru með í myndinni skýrist af því að Framleiðsluráðið vildi gæta hagsmuna ákveðinna framleiðenda, sem það taldi að ættu undir högg að sækja.
Þáverandi Framleiðsluráð landbúnaðarins og Stéttasamband bænda, voru óhress með í hvað stefndi varðandi kjötframleiðslu í landinu. Og ekki er með öllu útilokað að þáverandi framleiðsluráðsfulltrúar hafi áttað sig á því, ekki inn við beinið heldur inn við merginn miðjan, að íslenska sauðkindin væri ekki sérlega gott kjötframleiðsludýr. Væri skepna sem ekki væri líkleg til að standast öðrum snúning í samkeppninni og jafnvel ekki þó mokað væri ómældum fjármunum í framleiðsluna úr ríkissjóði.
„Þeir trúðu á sauðkindina og heilaga jómfrú,“ svo vitnað sé í skáldið.
Þeim þótti því rétt að grípa í taumana og koma á þannig fyrirkomulagi, að þeir, þ.e. sauðfjárbændur og nokkrir vildarvinir þeirra í hinum nýju búgreinum (alifugla og svína), sætu að framleiðslu á takmörkuðu magni hinna ,,frjálsu" kjöttegunda. Það átti síðan að gera með því, að koma á skömmtunarkerfi varðandi framleiðslu alifugla- og svínabænda.
Ekki nóg með það: Framleiðslumagni á eggjum vildu þeir einnig koma í magnstýringu á sínum vegum.
Allt var þetta gert undir því yfirskini, að ef menn fengju að framleiða eins og þeir vildu, þá myndu þeir fara sér að voða í rekstrinum. Raunverulegur tilgangur var annar og hann var sá, að þeir sem væru þóknanlegir og innmúraðir í bændasamtökin sætu óskiptir að markaðnum.
Skömmtunarkerfið svokallað var mönnum í fersku minni á þessum tíma og eflaust hafa sumir séð það í hillingum eins og margt fleira frá liðinni tíð.
Ekki er hægt að skilja við þetta, án þess að drepa á þátt Grænmetisverslunar landbúnaðarins. Þar var mörg kúgunin stunduð og margvíslegur klíkuskapur í gangi; sumir voru jafnari en aðrir og dæmi voru þess að skorið væri af vöru sem lögð var inn vegna meintra galla. Einn bónda þekkti ég vel, sem lét reyna á vöruflokkunina eftir að skorið hafði verið af hjá honum, en í ljós kom að hún var síðan seld í óopnuðum umbúðum út úr fyrirtækinu og án allrar verðskerðingar. Bændur höfðu kallað eftir því að tekið yrði til dreifingar lítið eitt smærri kartöflur vegna lítillar uppskeru haustið 1975. Því var hafnað. Þegar vorið 1976 var orðið nærri óskaði Grænmetisverslunin eftir smáu kartöflunum sem það hafði ekki áður viljað. Þá voru þær orðnar að stórum hluta ósöluhæfar vegna geymslu, en líka var búið að henda einhverju af þeim, enda ekki annað við þær að gera eftir höfnun Grænmetisverslunarinnar áður.
En aftur að bændasamtökunum.
Undirritaður ritaði grein í þáverandi DV 1983, sem flögraði upp í hendur hans um daginn, en hafði verið löngu gleymd, sem varð til þess að hann fór að hugsa um þessi mál einu sinni enn!
Hvers vegna er verið að rifja þetta upp, kann einhver að spyrja. Er þetta ekki allt orðið breytt og komnir nýir tímar?
Ekki er það nú alveg svo og þráast hefur verið við, að viðurkenna ýmsar stórar búgreinar sem fullgildar væru af Bændasamtökunum. Hagsmunum þeirra hefur meira að segja verið blygðunarlaust fórnað fyrir hagsmuni sauðfjárræktarinnar þegar það hefur þótt henta, svo sem gert var 2015 og oftar.
Fyrir fimm árum töldu menn sér trú um að til væri raunverulegur markaður fyrir kindakjöt í ESB- löndum. Samið var um innflutning á tilteknu magni til þeirra landa gegn því að þaðan mætti síðan flytja inn til Íslands ákveðið magn af svína, alifugla, nautakjöti og ostum.
Nú þótti sem sagt sjálfsagt, að fórna hagsmunum nautgriparæktarinnar á altari ríkisrekinnar offramleiðslu í sauðfjárrækt og þótti nú mörgum sem trúin á kindakjötið væri farin að keyra um þverbak. Allt gekk þetta fram og landbúnaðarráðherrann þáverandi, tilkynnti kúabændum á fundi á Selfossi og kannski víðar, að þeir yrðu bara að standa sig!
Og svona standa málin og Bændasamtök Íslands eru í vanda.
Í Bændablaðinu 18.06.2020 er heilsíðugrein þar sem sagt er frá því að til standi að taka til í félagsskapnum og eins og þar má sjá, er rætt um að 12 búgreinafélög sameinist formlega Bændasamtökum Íslands.
Fyrst svona er rætt um félagsaðild að samtökunum, þá má gera ráð fyrir að búgreinafélögin hafi ekki átt aðild að samtökunum hingað til, nema þá með „óformlegum“ hætti.
Það kemur þeim sem kunnugir eru málum ekki mikið á óvart; vitandi að fram á síðustu ár hafa samtökin nánast verið framlenging af því sem einu sinni var og hét Landbúnaðarráðuneyti, en er nú undir Atvinnuvega og nýsköpunarráðuneyti.
Að komin upp sú staða að til standi að gera samtökin að samstarfsvettvangi allra landbúnaðargreina er meira en tímabært.
Bændasamtökin eiga að vera slíkur vettvangur og gæta heildarhagsmuna landbúnaðarins, en ekki eins og verið hefur, að hagsmunagæslan snúist um: í fyrsta lagi sauðfjárbúskap, í öðru lagi kúabúskap og í þriðja lagi garðyrkju.
Lengra hefur það ekki náð svo nokkru nemi og lengi vel snerist hagsmunagæslan um að kveða niður landbúnaðargreinar sem ekki þóttu þóknanlegar, svo sem nefnt var hér í upphafi.
Ritstjóri Bændablaðsins segir á þá leið í upphafi umfjöllunar sinnar, að B.Í. vinni að einföldun á félagskerfinu og að það eigi að gera með því, að taka með formlegum hætti 12 búgreinafélög inn í samtökin. Hann telur þau upp og í ljós kemur að um er að ræða:
Landssamband sauðfjárbænda, Landssamband kúabænda, Landssamtök skógareigenda, Samband garðyrkjubænda, Samband íslenskra loðdýrabænda, Félag svínabænda, Félag kjúklingabænda, Félag eggjaframleiðenda, Félag hrossabænda, Félag ferðaþjónustubænda, Æðaræktarfélag Íslanda og Geitfjárræktarfélag Íslands.
Stór hópur, en upptalningunni er ekki lokið, því nokkrir eru eftir:
Ellefu sérstök búnaðarsambönd, félagsskapurinn Beint frá býli, Verndun og ræktun – samtök bænda í lífrænum landbúnaði og að lokum Samtök ungra bænda.
Sé farið yfir þetta kemur í ljós að efast má um að allir sem þar eru taldir eigi erindi í félagsskapinn.
Spyrja má svo dæmi sé tekið, hvenær bændur séu ungir og hvenær gamlir og eru þeir sem þar eru til taldir ekki þegar fyrir í búgreinafélögunum?
Sama má segja um Beint frá býli, eru þeir ekki þegar fyrir í búgreinafélögum?
Það má líka spyrja hvenær landbúnaður hætti að vera lífrænn og ef hann er það ekki, hvað er hann þá? Er hann ólífrænn og á það þá við um allan venjulegan búskap?
Sama gildir um ferðaþjónustubændur, eru þeir ekki með tvöfalda félagsaðild og ættu þeir kannski frekar að vera með ferðaþjónustuhlutann innan Samtaka ferðaþjónustunnar?
Það ætti flestum að vera ljóst að Búnaðarsamböndin eiga ekki erindi á aðalfund Bændasamtakanna, þ.e. Búnaðarþing. Búnaðarsamböndin eru fyrst og fremst starfseiningar og fulltrúakjör á búnaðarsambandsþingin og áfram þaðan á Búnaðarþing eru ótrúlega sovéskt fyrirkomulag.
Oddný Steina Valsdóttir segir að ekkert sé annað að gera en að einfalda kerfið og gera það skilvirkara. Hún er varaformaður bændasamtakanna og ætti að vita talsvert um hvað málin snúast.
Oddný bendir á hið augljósa að það þarf að bregðast við og við hljótum að skilja það, því eins og hún kemur inn á, þá er félagsgjaldið að samtökunum, þ.e. Búnaðargjaldið ekki lengur við líði, enda fáheyrt að félagsgjöld til hagsmunagæslusamtaka, sé skattur sem lagður á af Alþingi!
Í greininni er sagt frá því, að lögð hafi veri fram tillaga (á nýlega afstöðnu Búnaðarþingi) um að breyta félagskerfi bænda í átt að því sem sé hjá dönskum bændum. Fram kemur að fulltrúar á þinginu voru ekki tilbúnir til að samþykkja tillöguna, en hafi falið stjórn B.Í. að vinna að endurskipulagningu samtakanna.
Ekki kemur fram í umfjöllun Bændablaðsins hvernig danska fyrirkomulagið er. Upplýsingar um það verðum við að fá eftir öðrum leiðum og vonandi hafa þeir sem ekki vildu samþykkja tillöguna verið búin að kynna sér danska félagsformið.
Af þessu má sjá að Bændasamtök Íslands eru í umtalsverðum vanda. Regluverki um fyrirkomulag aðildar hefur ekki verið sinnt til fjölda ára ef ekki áratuga. Samtökin eins og þau eru núna, endurspegla engan veginn landbúnaðinn í landinu eins og hann er. Og þau endurspegla heldur ekki landbúnaðinn eins og hann var fyrir nokkrum áratugum og í fálmkenndum tilraunum til að fylgja breyttum tímum, hafa verið teknar inn til aðildar „undirdeildir“, sem þegar betur er að gáð, eru í raun þegar fyrir hendi.
Hvort Bændasamtök Íslands verða Bændasamtök Íslands eftir endurskipulagninguna sem þau eru í – með hangandi hendi eftir því sem virðist – er ekki gott að segja. Tregðan er vafalaust mikil.
Ekki er líklegt að hin fjölmenna sauðfjárbændastétt sé tilbúin til að horfast í augu við það að það er ekki fjöldi framleiðenda einn sem skiptir máli.
Það skiptir svo dæmi sé tekið, mun meira máli að markaður sé til fyrir vöruna sem framleidd er og að framleiðslan standi að jafnaði undir þeim kostnaði sem til fellur við framleiðslu hennar.
Höfundur er fyrrverandi bóndi.