Í morgun var tilkynnt hverjir hljóta Friðarverðlaun Nóbels í ár. Það eru Malala Yousafzay frá Pakistan og Kailash Satyarthi frá Indlandi. Í umsögn verðlaunanefndarinnar segir meðal annars að þau séu verðlaunuð fyrir baráttu sína í þágu barna og rétti barna til menntunar.
Stúlkan frá Swat
Malala er einn magnaðasti friðarboðberi okkar tíma. Heimsbyggðin fylgdist með baráttu hennar fyrir lífi sínu og heilbrigði eftir að hún var skotin í andlitið á leiðinni í skólann, af öfgamanni sem þoldi
ekki að stúlkur sæktu sér menntun. Malala hafði vakið eftirtekt Talibana fyrir að tala fyrir rétti stúlkna til að ganga í skóla og því varð hún skotmark öfgamanna sem gera allt til að koma í veg fyrir jafnrétti kynjanna á þessu sviði sem öðrum.
Kristín Þórunn Tómasdóttir
sóknarprestur í Laugarneskirkju.
Malala lifði árásina af og fyrir mikla náð beið hún ekki varanlegan skaða af. Það sem er jafnvel enn áhrifameira er að þessi stórkostlega unga manneskja lét ofbeldismennina ekki slá sig út af laginu eða hræða sig til þagnar. Í áhrifamiklu sjónvarpsviðtali við Jon Stewart sem var tekið fyrir árisíðan, lýsir hún því sem gerðist þegar Talibanar náðu völdum í héraðinu hennar, lokuðu skólum og beittu öllum meðölum til að hindra skólagöngu stúlkna. Þá hafi það runnið upp fyrir henni að hún sjálf vildi gera eitthvað, hún ætti ekki að bíða eftir sjórnvöldum, eftir hernaðaryfirvöldum, eftir einhverjum öðrum, til að mótmæla og til að vekja athygli á ofbeldi og yfirgangi öfgamannanna.
Máttur og möguleikar manneskjunnar
Og þótt henni væri hótað hætti hún ekki. Og svo varð hún fyrir árásinni sem hefði auðveldlega getað kostað hana lífið. En sú reynsla fékk hana ekki til að hætta að trúa á málstaðinn sinn eða vekja upp í henni reiði og aggressjón gagnvart ofbeldismönnunum.
Hún lýsir því í viðtalinu að eitt sinn hefði hún íhugað hvernig hún ætti að bregðast við ef Talibani kæmi til að ganga endanlega frá henni, og það fyrsta sem kom henni í hug var að hún myndi grípa skóinn sinn og berja hann. En svo hugsaði hún lengra og sagði við sig, Malala, ef þú lemur hann í hausinn með skónum þínum, ertu engu betri en hann!
Og svo hélt hún áfram að ímynda sér hvernig samskipti þeirra yrðu, því hún vildi ekki berjast gegn honum sjálfum með því að beita valdi, heldur með friði, samtali og menntun. “Ég myndi segja honum hvað menntun er mikilvæg og að ég myndi líka berjast fyrir rétti barnanna hans til að ganga í skóla” sagði Malala í viðtalinu. “Og svo myndi ég bæta við, þetta er það sem ég vil segja við þig, svo nú mátt þú gera það sem þú vilt við mig.”
Eins og Jesús
Þessi sterki vitnisburður um frið og að mæta illu með góðu kemur frá múslímskri stúlku sem var á þessum tíma 14 ára gömul. Við heyrum hana enduróma hvatningu Jesú um að elska óvini okkar og óska þeim velfarnaðar sem ofsækja okkur (Mt 5.44). Eins og Jesús var Malala tilbúin að hætta öllu, líka lífi sínu, fyrir málstaðinn sem hún trúir á. Eins og Jesús svarar hún illu með góðu og heldur áfram að trúa á mátt menntunarinnar og möguleika manneskjunnar til að gera gott.
Gegn öfgamönnum og ofbeldi í öllum myndum
Mér finnst sú staðreynd að Malala sprettur upp úr menningu sem lítur ekki til Jesú eða Nýja testamentisins í trúarlegri mótun, gera þessa hliðstæðu ótrúlega sterka og sláandi. Er hún kannski að kenna okkur á vesturlöndum dýrmæta lexíu um mátt og fegurð friðarins og ógæfu ofbeldis og hernaðar?
Undir það gæti norska verðlaunanefndin tekið, því þau sem deila friðarverðlaunum Nóbels í ár, eru hindúi og múslími; Indverji og Pakistani, sem saman berjast fyrir menntun og gegn öfgamönnum í eigin löndum.