Síðan í ársbyrjun 2021 hefur ríkissjóður niðurgreitt kaup bílaleigufyrirtækja á bensínbílum fyrir hundruð milljóna í nafni orkuskipta og aðgerða gegn loftslagsbreytingum.
Þetta er gert á grundvelli vörugjaldsívilnunar sem var lögfest í árslok 2020 og felur í sér að bílaleigur fá allt að 400 þúsund króna afslátt af vörugjaldi vegna allra bíla sem þær kaupa, hvort sem bílarnir ganga fyrir jarðefnaeldsneyti eða öðrum orkugjöfum, svo lengi sem hlutfall bensín- og dísilbíla af heildarinnkaupum er ekki hærra en 85% árið 2021 og 75% árið 2022. Þingmenn Vinstri grænna, Framsóknarflokksins, Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins studdu lagabreytinguna en Samfylkingin, Píratar, Viðreisn og Flokkur fólksins lögðust gegn henni.
Í vikunni barst efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis minnisblað frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu þar sem umrætt lagaákvæði er gagnrýnt harðlega og eindregið varað við framlengingu þess. Fram kemur að vörugjaldsafslátturinn hafi kostað ríkissjóð alls 839 milljónir króna síðan hann var innleiddur, en ætla verður að stærstur hluti kostnaðarins sé vegna kaupa á bensín- og dísilbílum sem enn eru mikill meirihluti þeirra bíla sem bílaleigufyrirtæki kaupa. Ég hef lagt fram fyrirspurn til skriflegs svars þar sem óskað er eftir ítarlegri upplýsingum um kostnaðinn og hve stór hluti hans rennur til kaupa á bílum sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti.
Fjármála- og efnahagsráðuneytið telur að vörugjaldsafslátturinn hafi verið óskilvirk aðgerð. „Afslátturinn gerir jarðefnaeldsneytisbíla ódýrari og vinnur því að hluta til gegn rafvæðingu bílaleigna,“ segir í minnisblaðinu. Bent er á að hjá bílaleigum sem náð hafa tilskilinni hlutdeild vistvænna bíla skapi kerfið hvata til að kaupa jarðefniseldsneytisbíla sem síðan fara í endursölu að 1-2 árum liðnum. „Í ljósi mikils veltuhraða í nýskráningum og endursölu bílaleigubíla er hætta á að slíkt fyrirkomulag geti verið til þess fallið að tefja orkuskiptin, einkum sé tekið tillit þess að tekjutap ríkisins í formi eftirgjafar af vörugjaldi er ígildi fórnaðra framlaga til annarra aðgerða í þágu loftslagsmála.“
Það er ekki oft sem ráðuneyti gagnrýna ákvarðanir löggjafans með svo afgerandi hætti, en þarna var full ástæða til. Orkuskiptin í samgöngum mega ekki verða átylla fyrir ómarkvissar peningagjafir til stórfyrirtækja – og þeim verður svo sannarlega ekki náð fram með hundruða milljóna niðurgreiðslu ríkisins á bílum sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti.
Höfundur er þingmaður Samfylkingarinnar.