Þú ert ekki nærri nóg’r
nú orðið, svarti skór,
þar sem ég hef búið í 30 ár
og þorað vart, eins og fótur sár
og hvítur, að hnerra eða anda.
Svo hefst eitt þekktasta ljóð bandarísku skáldkonunnar Sylviu Plath, „Pabbi.“ Í ljóðinu má lesa innri baráttu ljóðmælanda við föður sinn, sem er jafnframt nasisti. Innri baráttan snýst ekki síst um baráttuna við að komast úr skugga föðursins, jafnvel löngu eftir að hann er horfinn á braut í líkamlegum skilningi. Tilfinningaflækjan er enn meiri, vegna móður ljóðmælanda
Með sígaunaformóður, farsæld völu
og fullan pakka af tarok spilum
gæti ég verið af gyðingaætt.
Ljóðmælandi er því gyðingur, sem lifir undir hæl nasista, en þráir það þó heitast að þóknast honum. Falla undir heimsýn nasistans, því
Allar konur elska fasista:
spark í andlitið, illskuhjarta
illskufanta sem þín.
Íslensk þýðing Hallberg Hallmundsson
Kolbrún Bergþórsdóttir og Eva Hauksdóttir virðast vera á þeirri skoðun, að engin þörf sé á kvenréttindabaráttu eða femínisma. Konur hafi enda frjálsan vilja til að taka sjálfstæðar ákvarðanir, meðal annars um að sitja fyrir fáklæddar í auglýsingum. Gagnrýni einhver slík uppátæki benda þær á „rétttrúnaðarfemínisma“ - stefnu sem snúist um innrætingu og kröfu um að allir hugsi í takt.
Þetta þykir mér mjög miður. Hér er rætt um hugmyndafræðilega stefnu, sem er gagnrýni á ríkjandi félagslega þjóðskipan. Stefnan er til komin, vegna þess að samfélagið er karllægt. Það ríkir ekki jafnrétti. Það ríkir ekki jafnvægi. Femínismi snýst um að gagnrýna ójafnvægið. Hann snýst alls ekki um að allir hugsi í takt, þvert á móti um að allir fái jöfn tækifæri í félagslegu umhverfi sínu til að taka sjálfstæðar ákvarðanir með frjálsan vilja að vopni. Það er ekki sjálfstæð ákvörðun ungrar konu, jafnvel barns (skoðið aldurinn á fyrirsætum Elite-keppninnar), að fækka fötum fyrir framan myndavél. Ákvörðunin er afleiðing fjötra karllægs samfélags, félagslegs taumhalds, sem er ríkjandi félagsskipan. Þetta er grunnatriði í Frelsi Johns Stuarts Mills, sem ætti í raun að hljóma vel fyrir frjálshyggjukonuna Evu Hauksdóttur. Þess má auðvitað geta, að Mill var einnig femínisti.
Innrætingin er til staðar, femínisminn er gagnrýnin - og sýnir okkur að við þurfum ekki að taka félagslegri innrætingu sem fastri breytu. Segi þær Kolbrún og Eva, að ekki séu til rannsóknir um félagslega innrætingu kynjakerfa í vestrænu samfélagi, ættu þær ef til vill að kynna sér höfuðrit Íslandsvinarins Betty Friedan, The Feminine Mystique. Þar er á ferðinni nákvæm greining á hlutverkum kynjanna og hlutgervingu kvenna eins og hún birtist í auglýsingum og annarri fjölmiðlun í Bandaríkjunum í byrjun 7. áratugarins.
Athyglisverðast við The Feminine Mystique í dag er, að mati undirritaðs, hve lítið hefur í raun og veru breyst. Þeir sem þekkja heimildamyndina Miss Representation geta vottað um það. Þar er markmiðið að benda á þann skort sem virðist vera á kvenkyns fyrirmyndum. Um þessar mundir eru til verkefni, sem miða að því að benda á kvenfyrirmyndir, með því einungis að gera konur sýnilegri. Má þar sérstaklega minnast á frábært verkefni ungra femínista í Reconesse Database - sem vinna að því að útrýma sögulegu ójafnvægi og benda á jákvæðar kvenfyrirmyndir. Af nógu er að taka, en skortur á konum í sögubókum er ein af mörgum birtingarmyndum karllæga samfélagsins sem hefur umvafið okkur öldum og árþúsundum saman.
Femínismi er ekki öfgakenndur, í eðli sínu getur hann ekki verið það. Femínismi er ekki herská stefna. Í nafni hans hafa aldrei verið rekin stríð, femínismi hefur engann drepið - nema þá súffragetturnar sem fórnuðu eigin lífi til að berjast fyrir réttindum kvenna. Femínismi gengur út á að viðurkenna að konur eru undirskipaðar. Þess vegna er furðulegt, þegar svo háværri, tilfinningaríkri og jafnvel ofbeldisfullri gagnrýni gegn honum er haldið á lofti. Fjölmörgum femínistum var hótað líkamsmeiðingum og kynferðislegu ofbeldi, fyrir það eitt að benda á ungan mann, sem stundaði einmitt félagslega innrætingu meðal ungra karlmanna - um að ofbeldi gegn konum væri í góðu lagi. Það er absúrd. Það er ekki kúl. Hugsi allir í þannig takt, þá vil ég gjarnan vera taktlaus.
Ég vil þó benda á að ég er vissulega sammála Kolbrúnu - um að það er ekkert hafið yfir gagnrýni. En hún þarf að muna, að femínismi er gagnrýni á ríkjandi skipulag sem hallar á konur. Það er ekki tilviljun að laun kennara sem hlutfall af meðallaunum, fóru hríðlækkandi alla 20. öldina eftir því sem körlum fækkaði í stéttinni. Einu sinni var drjúgt að vera ungur læknir á Íslandi en nú flytja unglæknar erlendis í hrönnum. Gæti það verið að tekjur lækna hafa dregist saman, einmitt því það hafa aldrei verið fleiri konur sem eru unglæknar?
Téður John Stuart Mill gekk svo langt að líkja mætti kúgun kvenna við kúgun þeldökkra þræla. Það var árið 1833. Þau hjónin, John og Yoko Ono Lennon, gerðu slíkt hið sama í lagi Plastic Ono Band, „Woman, is the Nigger of the World.“ Eins og segir í textanum, þá þarftu bara að hugsa um það.
Við gerum lítið úr henni í sjónvarpinu á hverjum degi
Og veltum fyrir okkur, hvers vegna hún hafi ekki dug og þor
Á unga aldri eyðum við frelsisvilja hennar
og á meðan við segjum henni að vera ekki svona klár, gerum við lítið úr henni fyrir að vera heimsk
Konan, er niggari heimsins.
Við látum hana mála á sér andlitið og dansa!
Að lokum má einmitt velta fyrir sér hvernig er Íslandsvinurinn Yoko Ono er alltaf kynnt í fréttum hér á landi? . „Yoko Ono, ekkja Bítilsins Johns Lennons, er stödd hér á landi til að kveikja á friðarsúlunni.“ Hljómar kunnuglega? Það hljóta allir að vera sammála að undirskipun þrælsins endurspeglast í því að vera skilgreindur út frá meistara sínum - eiginmanninum. Annað kynið, hitt kynið. Enn í dag, árið 2014, 65 árum eftir að Simone de Beauvoir benti okkur á þetta ójafnvægi.
Tökum okkur til og brjótumst undan hæl föður okkar. Hættum að gera honum til geðs.