Í stuttu máli
Þetta er löng grein þannig að ég ætla að gera stutta grein fyrir niðurstöðum mínum í þessum kafla. Ef þú, lesandi góður, vilt skoða nánar hvernig ég komst að þeirri niðurstöðu sem ég fer hér yfir þá endilega haltu áfram að lesa eftir þennan kafla.
Ég spyr einfaldrar spurningar, hefur ríkisstjórnin verið að efla heilbrigðiskerfið, nánar tiltekið sjúkrahúsþjónustu, á kjörtímabilinu? Svarið sem ég fæ er að í mesta lagi hefur 2 milljörðum verið bætt við - ég myndi persónulega segja að það sé nær einum milljarði, jafnvel minna - sem samsvarar tæplega 2% af fjárveitingum í málaflokkinn. Miðað við hvað við vissum um stöðu heilbrigðiskerfisins fyrir þetta kjörtímabil og þá stöðu sem við búum nú við þá verður hver og einn að svara hvort 2 milljarðar hafi verið nóg.
Fjármálaráðherra segir að ekki sé hægt að henda peningum í heilbrigðiskerfið og búast við betrumbótum. Forstjóri Landsspítalans segir að hver króna sé vel nýtt. Auðvitað þurfum við að fá að vita að fjármunir komi að góðum notum og hverfi ekki ofan í einhverja holu sem nýtist ekki sjúklingum. Stjórnvöld hafa hins vegar ekkert gert til þess að skýra það út hvernig nýtingin er, hvorki fyrir þingi né þjóð. Staðan er því algjörlega á þeirra ábyrgð, ekki þingsins og ekki heilbrigðiskerfisins. Staðan er að ríkisstjórnin hefur mætt vanda heilbrigðiskerfisins með í mesta lagi tveimur milljörðum, líklega nær einum milljarði, á fjórum árum.
Samhengi mála
Heilbrigðiskerfið er ekki á góðum stað í dag. Spítalinn er kominn á hættustig aftur og hver bendir á annan. Fjármálaráðherra segir að það sé ekki hægt að leysa bara vandann með meiri pening og skammast út í að skilvirkni hafi ekki aukist samhliða auknum fjárheimildum. Forstjóri Landspítala segir að ekki sé hægt að kenna skilvirkni spítalans um, þar sé hver króna nýtt til hins ítrasta. Hvað er satt og rétt í þessu öllu? Það er langt frá því að vera einfalt að svara hluta þeirrar spurningar í þessari grein. Mjög mikilvægum hluta að mínu mati, en það snýr að fullyrðingum ríkisstjórnarinnar um hversu mikið þau hafi styrkt heilbrigðiskerfið á þessu kjörtímabili.
Til þess að halda nákvæmni, af því að það skiptir máli þegar svara á svona flókinni spurningu, þá skipti ég svarinu í tvennt. Annars vegar skoðum við tillögur stjórnvalda í fjárlögum og hins vegar afgreiðslu Alþingis. Fjárlögin koma frá ríkisstjórninni og bera með sér hvað stjórnvöld vilja gera. Afgreiðsla þingsins er flóknari og lýsir sér í pólitískri niðurstöðu eftir gagnrýni stjórnarandstöðu, eftir sem áður á ábyrgð stjórnarflokka sem fara meirihlutavaldið.
Einnig ætla ég einungis að skoða málefnasvið sjúkrahúsþjónustu. Það væri alveg gagnlegt að skoða einnig málefnasvið heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa og hjúkrunar- og endurhæfingaþjónustu en þau málefnasvið segja í raun alveg sömu sögu, verri sögu fyrir ríkisstjórnina ef eitthvað er. Þannig að við einbeitum okkur að sjúkrahúsþjónustunni, hún er jú þungamiðja þess álags sem hér um ræðir. Fjárlögin sem skipta máli eru fjárlög fyrir árið 2018 til fjárlaga fyrir árið 2021.
Hluti ríkisstjórnar
Sjúkrahúsaþjónusta skiptist í þrjá málaflokka: Sérhæfða, almenna og erlenda sjúkrahúsþjónustu. Sérhæfð sjúkrahúsþjónusta er Landsspítalinn og sjúkrahúsið á Akureyri. Almenn sjúkrahúsþjónusta eru heilbrigðisstofnanir í þeim umdæmum öðrum en þar sem Landsspítalinn og sjúkrahúsið á Akureyri eru. Til erlendrar sjúkrahúsþjónustu telst brýn meðferð sem veitt er erlendis og sjúkrakostnaður sem til fellur vegna veikinda og slysa á erlendri grundu.
Fjárframlög alls
Hér í töflunni fyrir neðan eru þær viðbótarfjárheimildir sem ríkisstjórnin lagði fram í fjárlögum hvers árs, á verðlagi hvers árs fyrir sig. Tölurnar eru viðbót við árið á undan og safnast saman. Án þess að verðlagsbæta tölurnar þá eru þetta rúmir 28 milljarðar aukalega á fjárlögum 2021 miðað við stöðuna eins og hún var 2017.
Stórar tölur, er það ekki? Þetta er líka hátt hlutfall af fjárhæð hvers árs, allt að 10%. Þessar tölur segja þó ekki alla söguna, það er jú verið að byggja heilt nýtt sjúkrahús vegna þess að núverandi húsnæði er löngu komið á tíma. Sá kostnaður er hluti af eðlilegri uppbyggingu en ekki sérstök efling heilbrigðiskerfisins. Það fjármagn sem fer í byggingu nýja spítalans hefur einnig engin áhrif á stöðu heilbrigðiskerfisins í dag, sem er sá vandi sem þarf að leysa. Byggingin klárast ekki fyrr en í fyrsta lagi 2024. Þetta er fjárfesting inn í framtíðina, mikilvæg sem slík að vísu, en er samt ekki framlag til rekstursins eins og hann er í dag. Spurningin verður því að vera, hvað er ríkisstjórnin búin að vera að gera til þess að leysa vandann þangað til? Drögum því fjárfestingar vegna nýs spítala frá og skoðum þær tölur.
Fjárframlög án nýbygginga
Samtals eru þetta þá tæpir 12 milljarðar árið 2021 miðað við stöðuna eins og hún var 2017. Þetta eru allt aðrar tölur en þær svara samt ekki spurningunni hvað stjórnvöld hafa gert til þess að leysa vandann. Til þess þarf að skoða hvað liggur á bak við tölurnar. Stór hluti af upphæðinni er svokallaður kerfislægur vöxtur sem endurspeglar bæði fjölgun og öldrun þjóðarinnar. Drögum þá fjárhæð líka frá því það er sjálfvirk uppfærsla til þess að koma í veg fyrir hrörnun kerfisins.
Fjárframlög án fjölgunar og öldrunar
Allt í lagi, þetta svarar spurningunni er það ekki um hvað ríkisstjórnin er búin að gera til þess að koma til móts við vandann í heilbrigðiskerfinu? Samtals tæplega sex milljarðar frá því 2017?
Nei, því miður. Sem dæmi þá var milljarði bætt við árið 2018 til þess að laga mygluvanda Landspítalans. Þar er ekki verið að efla heilbrigðiskerfið, þar er verið að koma í gera við slys þannig að hægt sé að halda uppi starfsemi sem var þegar til staðar. Það er ekki verið að efla neina starfsemi með því að fjarlægja myglu. 400 milljónir voru sett í almenn viðhaldsverkefni. Það er ekki efling, það er nauðsynlegt til þess að koma í veg fyrir skerðingu á þjónustu. 640 milljónir til þess að þjónusta erlenda ferðamenn, það er vissulega efling en það er efling á móti kerfislægum vexti utan frá. Þarna eru fjárheimildir vegna tækjakaupa sem má rökstyðja sem hvort tveggja, viðhalda eðlilegri þjónustu og skipta út úreldum tækjum eða að kaupa ný og betri tæki. Búum til enn nýja töflu þar sem kostnaður vegna viðhalds og annara verkefna til þess að koma í veg fyrir skerðingu á þjónustu er fjarlægður.
Fjárframlög til að koma í veg fyrir skerta þjónustu
Þessar tölur endurspegla tækjakaup, sem að hluta til ættu að teljast sem eðlileg uppfærsla en ég tel þær tölur í heild sinni sem eflingu frekar en að reyna að skipta því eitthvað upp. Upphæðin um “eflingu” heilbrigðiskerfisins er þannig frekar hærri en hún er í raun og veru, ef eitthvað er. Þó það sé ekki eins nákvæm framsetning og ég myndi vilja, þá er ég að minnsta kosti ekki að draga frá ósanngjarnar upphæðir. Ég leyfi vafanum að vera ríkisstjórnarmegin hérna. Þau verkefni sem eftir standa, sem hægt væri að segja að efli heilbrigðiskerfið eru þá framlag til reksturs sjúkrahótels, rekstur jáeindaskanna, rekstur útskriftadeildar á Landakoti, framlag til tækjakaupa, tæki fyrir Brjóstamiðstöð, efling geðheilbrigðisþjónustu, efling á mönnun í sjúkrahúsaþjónustu, þjónsta við þolendur kynferðisofbeldis, efling göngudeildar á Landsspítala og efling geðheilbrigðisþjónustu á BUGL.
Ég gæti dregið frá rekstur sjúkrahótels þar sem það ætti að vera hluti af viðbrögðum við kerfislægum vexti en það mætti einnig setja slíkt spurningamerki við önnur af þeim atriðum sem að ofan eru talin. En þar sem kerfislægur vöxtur er reiknaður sér er sanngjarnt að segja að þetta sé viðbót við kerfislægan vöxt, til þess að bregðast við slæmu ástandi í heilbrigðiskerfinu. Samtals um 3 milljarðar króna frá 2017, tæplega 3% af heildarframlögum ríkisins til sjúkrahúsþjónstu til þess að efla kerfið og þá er covid framlag upp á 1,8 milljarða talið með. Án covid erum við þá að tala um rétt rúman milljarð á fjórum árum til þess að efla sjúkrahúsaþjónustu. Það bætist við rétt um 1% af heildarfjárframlögum til þess að efla rekstur sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnanna. Allt annað er nauðsynlegt viðhald til þess að skerða ekki þjónstu vegna mygluvandamála eða öldrunar þjóðarinnar.
Hluti þingsins
Þingið gerir aðallega tæknilegar breytingar á málefnasviði sjúkrahúsa, millifærsla fjárheimilda frá einum stað á annan eða uppfærsla vegna breytingar á launatölum og þess háttar. Einnig var fjárheimild til byggingar á nýjum landsspítala lækkuð um samtals 6 milljarða vegna tafa við framkvæmdir. Ég sleppi þeim tölum og legg bara saman þær tölur sem gætu flokkast sem efling á starfsemi sjúkrahúsþjónustu. Þetta eru fjárveitingar sem eru sagðar vera vegna þarfagreiningu á nýrri leguálmu á sjúkrahúsin á Akureyri. Það gæti auðveldlega flokkast sem nauðsynleg uppfærsla vegna fjölgunar og öldrunar þjóðarinnar. Einnig er eflingar og þróun sérhæfðrar göngudeildarþjónustu, styrking á rekstrargrunni sjúkrahússins á Akureyri, Landspítala og heilbrigðisstofnanna. Styrking á sjúkrasviði sérstaklega og endurnýjun á myndgreiningarbúnaði.
Það væri auðveldlega hægt að flokka allt hérna sem fjárframlag til þess að koma til móts við veikleika, til þess að forða hallarekstri á venjulegri þjónustu en gefum okkur að þetta sé til þess að efla þjónustu en ekki til þess að koma til móts við vanmat á fjölgun og öldrun þjóðarinnar eða vegna venjulegs viðhalds og nauðsynlegrar uppfærslu á tækjabúnaði. Þá líta tölurnar svona út.
Meirihlutinn á Alþingi bætir um 900 mlljónum við þann milljarð sem ríkisstjórnin hefur lagt í eflingu heilbrigðiskerfisins. Eftir stöndum við árið 2021 með rétt tæpa tvo milljarða umfram eðlilega uppbyggingu og viðhald í eflingu sjúkrahúsþjónustu. Ég met það sem svo að hér sé ég að vera örlátur á upphæðina, það sé mjög auðvelt að sýna fram á lægri upphæð, en án nákvæmari gagna get ég ekki með góðri samvisku gert þetta nákvæmara.
Staðan í dag
Hver er staðan í dag eftir að ríkisstjórnin er búin að efla sjúkrahúsþjónustu um tæpa tvo milljarða? Ég býð ekki í að spá því hvernig ástandið væri án þessara tveggja milljarða en hvort staðan í dag sé ásættanleg eftirlæt ég öðrum að meta. Mér finnst samt sjálfum staðan augljóslega vera óásættanleg, en ég er klárlega hlutdrægur í því mati. Ég vona þó að ég hafi sett stöðu mála nægilega skýrt fram til þess að fólk sjái að mín afstaða er ekki ósanngjörn og sjái einnig hver staða heilbrigðiskerfisins sjálfs er. Með því samhengi sem ég sýni hér, ætti hver og einn að geta svarað spurningunni um hvort sjúkrahúsþjónusta hafi í raun og veru verið efld í þeim mæli sem ríkisstjórnin vill hrósa sér fyrir.