Ég er eindreginn Evrópusambandssinni og geri mér jafnframt grein fyrir að ESB er ekki fullkomið fyrirbæri, frekar en önnur mannanna verk.
Við erum frjáls og fullvalda örþjóð. Við höfum því val um hvar við viljum vera í samfélagi þjóðanna.
Viljum við standa ein, hlutlaus og óvarin í miðju Atlantshafi, eða viljum við tengjast einhverjum blokkum í heiminum?
Megin blokkirnar eru fimm: Kína, Rússland, Bandaríkin, Evrópusambandið og Atlantshafsbandalagið. Við höfum sem sagt úr sex möguleikum að velja:
- Ein og „hlutlaus“? Reynslan hefur sýnt að það virkar ekki, en býður hættunni heim.
- Bandalag við Kína? Hver er til í það?
- Bandalag við Rússland? Svari hver fyrir sig!
- Bandalag við USA? Þó nokkrar líkur eru á að Trump verði næsti forseti.
- Við erum fullgildir félagar í Nato, þar sem saman koma mörg Evrópulönd og Bandaríkin. Hvað gerist með Nato ef Trump verður næsti forseti?
- Bandalag við ESB? Skásti kosturinn við þessar aðstæður er að ganga í Evrópusambandið við fyrsta tækifæri. Bandalagið er að þétta raðir sínar vegna utanaðkomandi ógnar og ofríkis. Það var stofnað sem friðarbandalag, rétt eins og Nato.
Nato er gott svo langt sem það nær. Vitað er að bandalagið er ekki í neinu uppáhaldi hjá Trump, líklegum forsetaframbjóðanda í USA. Þá stendur eftir samtaka og þétt bandalag evrópskra þjóða - ESB.
Höfundur er fæddur í lok annarrar heimsstyrjaldar og hefur brennandi áhuga á að framtíð afkomenda sinna og allra annarra verði sem öruggust á þessari jörð.