Margir hafa líklega rekið upp stór augu við lestur á orkureikningnum sínum undanfarin misseri, hafi þeir á annað borð tekið eftir yfirliti þar sem fram kemur að hluti þeirrar orku sem íslensk orkufyrirtæki afhenda viðskiptavinum sínum sé framleiddur úr jarðefnaeldsneyti og kjarnorku, orkugjöfum sem segja má að hafi farið fremur hljótt í raforkuframleiðslu hér á landi. Ástæðan er þó ekki sæstrengur sem lagður var í skjóli nætur eða leynileg gasorku- og kjarnorkuver í afdölum, heldur sala íslenskra orkufyrirtækja á svokölluðum upprunaábyrgðum til Evrópu. Sala upprunaábyrgða hefur aukist hröðum skrefum undanfarin ár og samkvæmt nýrri samantekt Orkustofnunar fyrir árið 2013 telst nú vel innan við helmingur, eða 39%, af seldri raforku á Íslandi, endurnýjanleg orka. Stærsti hlutinn, 61%, telst hins vegar eiga rætur að rekja til kjarnorku og jarðefnaeldsneytis.
Viðskipti með upprunaábyrgðir
En hvað eru upprunaábyrgðir og hvernig stendur á að vatns- og jarðvarmaorkan sem notuð er hér á landi breytir um nafn við að þessar ábyrgðir eru seldar úr landi? Segja má að upprunaábyrgð sé nokkurs konar gæðavottun á raforku sem felur í sér staðfestingu á að hún sé framleidd með orkugjöfum sem skilgreindir hafa verið sem endurnýjanlegir. Framleiðsla endurnýjanlegrar eða hreinnar orku er yfirleitt dýrari en framleiðsla orku af öðrum uppruna, svo sem kola- eða gasorku. Til að auka framleiðslu endurnýjanlegrar orku ákvað Evrópusambandið að bæta framleiðendum hennar upp erfiða samkeppnisstöðu með því koma á fót kerfi sem gerir þeim kleift að selja, óháð orkunni sjálfri, þá staðreynd að orkan sé endurnýjanleg. Með þeim hætti eru framleiðendur endurnýjanlegrar orku hvattir til aukinna umsvifa, auk þess sem stuðlað er að nýfjárfestingum sem ekki hefðu verið hagkvæmar án kerfisins.
Kaupendur upprunaábyrgða eru fyrst og fremst fyrirtæki í Evrópu sem hafa ekki aðgang að endurnýjanlegri orku en vilja styðja við framleiðslu hennar. Með því að kaupa upprunaábyrgðir öðlast fyrirtækin rétt til að lýsa því yfir að orkan sem þau ýmist nota sjálf eða selja öðrum sé endurnýjanleg. Í staðinn skuldbinda seljendur upprunaábyrgða sig til að selja samsvarandi hluta af hreinu orkunni sinni undir þeim formerkjum að hún sé framleidd úr jarðefnaeldsneyti og kjarnorku, sem er hin dæmigerða samsetning orkugjafa í Evrópu. Með einfölduðum hætti má líkja þessu við að tveir kaupmenn, sem selja sams konar vörur en af mismunandi gæðum, geri samkomulag um að víxla innihaldslýsingum á vörum sínum áður en þær eru afhentar kaupendum. Þótt slíkar æfingar teldust í flestum tilvikum andstæðar góðum viðskiptavenjum er rétt að benda á að viðskipti með upprunaábyrgðir eru í fullu samræmi við lög og reglugerðir sem settar hafa verið hér á landi í samræmi við EES-samninginn.
[embed]http://issuu.com/kjarninn/docs/2014_06_19/46[/embed]
Er hægt að selja sama hlutinn tvisvar?
Einstaklingar og fyrirtæki í Evrópu verða sífellt meðvitaðri um uppruna orkunnar og áhrif orkunotkunar á losun gróðurhúsalofttegunda. Með því að kaupa upprunaábyrgðir geta fyrirtæki bætt ímynd sína, lokkað til sín viðskiptavini og jafnvel uppfyllt lagalegar kröfur, enda heimila upprunaábyrgðirnar þeim að lýsa því yfir að starfsemi þeirra nýti hreina orku og valdi minni losun gróðurhúsalofttegunda og minni kjarnorkuúrgangi en ella.
En lítum á hina hliðina á peningnum. Meginforsenda þess að kerfið virki sem skyldi er að hver upprunaábyrgð sé aðeins notuð einu sinni, enda yrðu áhrif á orkunýtingu og losun gróðurhúsalofttegunda lítil ef heimilt væri að margnýta þennan eftirsóknarverða eiginleika orkunnar. Þess vegna gera reglur um upprunaábyrgðir ráð fyrir að seljendur afsali sér rétti sínum til að auglýsa orkuna sem endurnýjanlega og lýsi því beinlínis yfir að hún teljist framleidd úr jarðefnaeldsneyti og kjarnorku, líkt og íslensk orkufyrirtæki gera nú á rafmagnsreikningum viðskiptavina sinna. Kaupendum þessarar orku, til dæmis stóriðjufyrirtækjum og gagnaverum hér á landi, er því tæplega stætt á að segjast eingöngu nota hreina orku í starfsemi sinni, nema þau kaupi upprunaábyrgðir eða upprunavottaða orku.
Ávinningur af sölu upprunaábyrgða og áhrif á ímynd Íslands
Upprunaábyrgðir eru ný tekjuöflunarleið fyrir framleiðendur endurnýjanlegrar orku. Af hraðri söluaukningu milli ára verður ekki dregin önnur ályktun en sú að íslensk orkufyrirtæki ætli sér að nýta þessa tekjuöflunarleið til hins ítrasta. Þrátt fyrir þetta hefur lítil opinber kynning eða umræða farið fram um viðskiptin og því síður um hvað þessi gagngera breyting á bókhaldslegri orkusamsetningu Íslands hefur í för með sér fyrir íslensk fyrirtæki og ímynd landsins. Þá virðist gengið út frá því að fjárhagslegur ávinningur af sölu upprunaábyrgða sé meira virði en að íslensk orka verði áfram endurnýjanleg – á pappírunum jafnt sem í reynd.
Það kemur því á óvart að markaðsverð íslenskra upprunaábyrgða er með því lægsta sem þekkist í Evrópu og að hagnaður orkufyrirtækja af viðskiptunum er að sama skapi lítill. Í því sambandi skiptir máli að kaupendur upprunaábyrgða eru í auknum mæli reiðubúnir að greiða hærra verð ef þeir geta verið vissir um að fjárstuðningur þeirra stuðli að raunverulegum árangri í að auka framleiðslu endurnýjanlegrar orku, einkum ef sá árangur verður í þeirra nágrenni. Sem dæmi má nefna að hollenskir kaupendur upprunaábyrgða greiða margfalt hærra verð ef ábyrgðirnar eru gefnar út vegna vindorkuframleiðslu í Hollandi en vegna vatnsaflsorku í Noregi. Til að bregðast við þessu hafa fjölmörg erlend orkufyrirtæki hlotið formlega viðurkenningu á að tekjur af sölu upprunaábyrgða renni til nýfjárfestinga í endurnýjanlegri orkuframleiðslu. Íslensk fyrirtæki hafa hins vegar ekki sóst eftir viðurkenningu af þessu tagi og virðast ekki hafa mótað sér stefnu um hvernig ágóðanum skuli varið.
Umhverfisleg áhrif viðskiptanna
Markmið kerfis með upprunaábyrgðir er að auka notkun endurnýjanlegrar orku og draga þannig úr losun gróðurhúsalofttegunda. Hafa verður í huga að hver upprunaábyrgð sem seld er frá Íslandi hefur í för með sér að einhvers staðar í Evrópu er notuð óhrein orka undir þeim formerkjum að um endurnýjanlega orku sé að ræða. Markaðsverð íslenskra upprunaábyrgða er lágt og því má segja að með þessu fyrirkomulagi sé orkunotendum í Evrópu gert kleift að réttlæta áframhaldandi notkun óhreinnar orku með litlum tilkostnaði, án þess að nokkur aukning verði á framleiðslu endurnýjanlegrar orku hér á landi umfram það sem orðið hefði hvort sem er. Það er því við hæfi að enda þessar hugleiðingar á að spyrja hvort sala íslenskra orkufyrirtækja á upprunaábyrgðum sé til þess fallin að stuðla að aukinni notkun endurnýjanlegrar orku – eða hvort það sé hugsanlegt að hún hafi öfug áhrif?
Höfundar vinna hjá Environice – Umhverfisráðgjöf Íslands
Greinin birtist fyrst í nýjasta Kjarnanum. Lestu hann í heild sinni hér.