Landspítalinn hefur verið mikið í umræðunni undanfarin misseri – eins og reyndar oft áður. Umræðan er jafnan á heldur neikvæðum nótum, fjárhagsvandi, mönnunarvandi, langir biðlistar o.fl. Ég hef unnið á Landspítalanum í um 25 ár. Eftirfarandi er mitt sjónarmið um stöðu Landspítalans, helstu áskoranir og hvaða breytingar eru nauðsynlegar. Rétt er að taka fram að ég vinn á Barnaspítala Hringsins. Sú eining Landspítalans hefur á margan hátt gengið vel; mönnun hefur verið ásættanleg, starfsandi mjög góður og húsnæði og tækjabúnaður betri en víðast á Landspítala. Augljóslega er umtalsverður hluti þessarar stöðu Barnaspítala Hringsins vegna ómetanlegs stuðnings kvenfélags Hringsins, allt frá opnun Barnaspítalans 1957. Bygging Barnaspítala Hringsins var reist með öflugum stuðningi Hringsins og verulegu fjárframlagi. Nánast öll tæki Barnaspítalans (og þau eru mörg og dýr) eru keypt fyrir gjafafé frá. Hringnum. Þessi stuðningur verður seint fullþakkaður. En Landspítalinn sem heild býr við erfiðari stöðu. Sú staða er til umfjöllunar í þessari grein.
Fjárhagsvandi
Fjárhagsvandi Landspítalans er algegnt umræðuefni í fjölmiðlum. Ljóst er að almenningur á Íslandi vill eindregið að betur sé búið að Landspítalanum og heilbrigðiskerfi okkar. Dæmi um þessa skoðun er viðamikil undirskriftasöfnun að frumkvæði Kára Stefánssonar um að fjárframlög til íslenska heilbrigðiskerfisins verði sambærileg því sem þekkist á öðrum Norðurlöndum. Þátttakan var fádæma góð. Margir ráðamenn þjóðarinnar tóku heilshugar undir efni undirskriftalistans. Svo virðist sem sá mikli áhugi hafi enst þar til kjörstöðum var lokað.
Í grein í Vísbendingu Kjarnans í fyrra gerði prófessor Gylfi Zoega grein fyrir mati sínu á fjármögnun heilbrigðiskerfisins frá aldamótum (1). Niðurstaða Gylfa var harla afgerandi. Í fjármálahruninu var verulega skorið niður í fjármögnun heilbrigðiskerfisins. Í kjölfarið hefur aukningin verið afar hæg. Að teknu tilliti til aukinna verkefna Landspítalans, fjölgunar þjóðarinnar og aldurssamsetningar er hækkunin vart umfram almennar launahækkanir og verðhækkanir í landinu samkvæmt greiningu Gylfa (mynd 1). Fjárveitingar nú eru því svipaðar og voru í kjölfar fjármálahrunsins. Það er því ekki að undra að Landspítalinn og heilbrigðiskerfið sé í miklum kröggum.
Það er athyglisvert hversu vel ráðamönnum íslensku þjóðarinnar hefur tekist að aðstoða við enduruppbyggingu fjármálakerfisins á Íslandi. Hagnaður þriggja stærstu bankanna á Íslandi nam á síðasta ári rúmlega áttatíu þúsund milljónum (>80.000.000.000 kr) eða rúmlega einum og hálfum milljarði í hverri viku ársins (2). Þá hefur uppgangur sjávarútvegsins verið ótrúlegur og er hreinn hagnaður mældur í tugum milljarða. Eignir stærstu sjávarútvegsfyrirtækjanna munu vera yfir eitt hundrað milljarðar (3). Í þessu samhengi er erfitt að átta sig á því að ekki sé hægt að fjármagna íslenskt heilbrigðiskerfi á sómasamlegan máta.
Þekking og þjónusta
Það virðist nokkuð óljóst hvers konar stofnun eða fyrirtæki Landspítalinn er. Umfjöllunin er oft á þann veg að spítalinn virðist einhvers konar framleiðslufyrirtæki eða rekstrarfélag. Það er slæmt viðhorf. Framleiðslufyrirtæki eru allra góðra gjalda verð, þau geta framleitt margs konar vörur. En Landspítalinn er ekki framleiðslufyrirtæki og sjúklingar eru ekki vörur.
Á Íslandi eru ýmis rekstrar- og eignarhaldsfélög. Árangur þeirra er mældur í krónum og aurum og markmiðið er að afla tekna. Landspítalinn er að mínu mati mesta gróðafyrirtæki Íslands (og ekki síst Barnaspítali Hringsins!) þótt árangurinn sé ekki mældur í krónum og aurum. Flestir Íslendingar hafa sjálfir eða þeirra nánustu notið árangurs starfsins frá fæðingu, á barnsaldri eða seinna á ævinni. Einstaklingar meta ekki þann árangur í krónum.
Þjónustufyrirtæki á Íslandi eru mörg og þeim fer fjölgandi, t.d. í ferðamannageiranum. Fyrirtæki þessi reyna eftir bestu getu að veita góða þjónustu, eðli málsins samkvæmt. Einnig eru nokkur þekkingarfyrirtæki og stofnanir, þeirra markmið er fyrst og fremst að auka þekkingu og skilning á ýmsum málum. Dæmi eru Háskóli Íslands og Íslensk erfðagreining. Þessi skipting er auðvitað ekki alltaf einföld og t.d. eru dæmi um fyrirtæki sem eru bæði þekkingar- og framleiðslufyrirtæki. Þar má nefna fyrirtæki eins og Marel og Össur.
Hvernig fyrirtæki eða stofnun er þá Landspítalinn? Eins og fram er komið er spítalann ekki framleiðslufyrirtæki og árangur starfsins ætti því varla að meta einungis í fjölda inniliggjandi sjúklinga, hverja þarf að flytja annað, hversu margir bíða, hver er biðtíminn o.s.frv. Einnig er stundum ofur áhersla lögð á rekstrarþáttinn. Vissulega þarf spítalinn að vera vel rekinn en markmiðið, bætt heilsa og betra líf, verður að vera í forgrunni. Að mínu mati á Landspítalinn að vera þekkingar- og þjónustustofnun. Við viljum veita eins góða þjónustu og kostur er sem byggð er á góðri, nýrri og sannreyndri þekkingu. Þetta er reyndar í samræmi við lög um að Íslendingar skuli eiga kost á bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á. Mér virðist stundum skorta á að þetta markmið sé öllum ljóst.
Við sameiningu spítalanna í Reykjavík var yfirlýst stefna að byggja ætti upp öflugt háskólasjúkrahús. Í ljósi stöðunnar nú, tveimur áratugum síðar, má velta fyrir hvers vegna það tókst ekki eins og til var ætlast. Svo virðist sem sparnaðarkrafan hafi frá upphafi verið sterk og niðurskurðurinn bitnað bæði á þjónustunni og vísindastarfi.
Rannsóknir, þekking, þróun og framfarir
Rannsóknir leiða til aukinnar þekkingar. Aukin þekking og betri menntun leiða til framfara. Í heilbrigðiskerfinu eru framfarir metnar í betri árangri, bættri heilsu og betra lífi. Sú staðreynd að rannsóknum á Landspítala hefur fækkað verulega á undanförnum áratugum vekur ugg. Þekking er vissulega dýr en þekkingarleysi er miklu dýrara. Veruleg hætta er á að hnignun rannsókna á Landspítalanum geti haft neikvæð áhrif á þekkingu, menntun og árangur þeirrar þjónustu sem þar er veitt.
Í nýlegir skýrslu alþjóðlega ráðgjafafyrirtækisins McKinsey sem unnin var fyrir íslensk stjórnvöld var gerð úttekt á stöðu Landspítalans(4). Í skýrslunni var margt staðfest sem komið hefur fram í almennri umræðu um Landspítalann, m.a. vanfjármögnun, afleit starfsaðstaða í mörgum óheppilegum húsum og óvissa um það hvernig spítalinn sé í stakk búinn að veita auknum fjölda Íslendinga þjónustu, bregðast við auknum verkefnum o.s.frv. Þessar niðurstöður komu því miður ekki á óvart.
Niðurstaða úttektar McKinsey á stöðu rannsókna á Landspítalanum var mjög alvarleg. Skýrsluhöfundar báru saman áhrifastuðul rannsókna nokkurra háskólasjúkrahúsa á Norðurlöndum samkvæmt úttekt NordForsk (mynd 2).
Slíkur áhrifastuðull er mælikvarði á magn og gæði rannsókna. Um aldamót stóð Landspítalinn framarlega í þessum samanburði. Frá þeim tíma hafa flest háskólasjúkrahús Norðurlandanna hækkað heldur á þessum mælikvarða. Áhrifastuðull Landspítalans hefur hrunið. Í nýlegri grein eftir prófessor Magnús Gottfreðsson í Vísbendingu Kjarnans(5) voru þessar niðurstöður einnig til umfjöllunar og niðurstaðan sú sama. Augljóslega er hér um grafalvarlegt mál að ræða. Hnignun rannsókna getur hratt leitt til lakari þekkingar og þar með ógnað árangri.
Þegar erfiðleikar hafa steðjað að íslenskum fyrirtækjum eins og Marel og Össuri sem áður voru nefnd, var ekki brugðist við með miklum niðurskurði á rannsóknum og þróun. Þvert á móti voru rannsóknar- og þróunardeildir efldar með auknum kostnaði og frekari sigrar unnir með aukinni þekkingu að leiðarljósi. Góður árangur þessara fyrirtækja á alþjóðavettvangi ber þess merki. Því miður hefur leið Landspítalans verið önnur.
Áskoranir framundan
Staða Landspítalans er alvarleg. Það á reyndar við um flesta þætti íslensks heilbrigðiskerfis. Fjárframlög hafa verið af skornum skammti um áraraðir og jafnt og þétt koma afleiðingarnar í ljós. Húsnæðið svarar illa kalli tímans og er allt of takmarkað. Tækjabúnaður er í mörgum tilfellum gamall, t.d. í meðhöndlunar- og rannsóknartækjum, og ekki mögulegt að taka upp nýjungar. Starfsfólk á mörgum klínískum deildum er of fátt og álag of mikið. Verulega hnignandi rannsóknir og lítil áhersla á vísindastarf og þekkingaröflun getur vissulega haft slæm áhrif á árangur. Slíkri óheillaþróun er erfitt að snúa við og tekur tíma að byggja upp rannsóknarvinnu og vísindastarf hafi það glatast. Við slíkar aðstæður mun reynast erfiðara að laða til Landspítalans hæft og metnaðarfullt starfsfólk. Skortur á slíku starfsfólki ógnar enn frekar bættum árangri.
Það er afar mikilvægt að ráðamenn (og e.t.v. að hluta til einnig stjórnendur Landspítala) geri sér grein fyrir þessari ógnandi stöðu. Ráðamenn þjóðarinnar verða að draga hausinn upp úr sandinum og horfast í augu við staðreyndir. Landspítalinn er og hefur verið vanfjármagnaður um áratuga skeið. Hann rís tæpast undir nafni sem háskólasjúkrahús sem fyrr en síðar kemur niður á árangri. Brýnt er að horfast í augu við staðreyndir áður en hnignunin verður enn meiri.
Höfundur er prófessor í barnalækningum og yfirlæknir og forstöðumaður fræðasviðs á Barnaspítala Hringsins.
Heimildir:
- Um vísitölur, heilbrigðismál og kosningar. Gylfi Zoega. Vísbending 2021; 39:30.
- Kynning fyrir fjárlaganefnd, 21. febrúar 2022:Sala eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka hf.
Bankasýsla ríkisins: https://www.althingi.is/altext/erindi/152/152-3176.pdf. - Ársuppgjör Samherja 2021: Góð afkoma af rekstri og sölu eigna. Samherji: https://www.samherji.is/is/frettir/arsuppgjor-samherja-2021-god-afkoma-af-rekstri-og-solu-eigna.
- Stjórnarráð Íslands, Heilbrigðisráðuneytið desember 2021, Framtíðarþróun þjónustu Landspítala.
- Magnús Gottfreðsson, Vísbending, 3 3 .tbl . 2 0 2 1.