Undanfarnar vikur hefur mikið verið rætt um stöðu fjölmiðla á Íslandi. Helstu dæmi má nefna stöðu N4 og ákall þeirra um að ríkið komi til móts við rekstur þeirra. Sú barátta gæti liðið undir lok um mánaðarmótin þar sem N4 sér ekki fram á að halda áfram rekstri. Einnig má nefna sameiningu Stundarinnar og Kjarnans, en sjálfbær rekstur er ein forsenda þeirrar sameiningar. Að lokum má nefna að nýverið tilkynnti Torg að Fréttablaðinu yrði ekki lengur dreift inn á heimili fólks enda er kostnaðarsamt að bera blaðið út. Áætlað er að dreifingarkostnaður fyrir árið 2023 hefði getað verið í kringum einn milljarð króna. Það getur verið erfitt að reka fjölmiðil á Íslandi.
En afhverju er erfitt að reka fjölmiðil á Íslandi? Flest spjót beinast að Ríkisútvarpinu. Félagið er á háum framlögum frá ríkinu og á auglýsingamarkaði. Þingmenn, fjölmiðlar og almenningur benda alltaf á einföldustu lausnina að taka RÚV af auglýsingamarkaði. Er það svarið við rekstrarvanda fjölmiðla? Einfalda svarið er nei. Það sýndi sig bæði á Spáni og í Frakklandi að það eitt að taka ríkismiðlana af auglýsingamarkaði skilaði tekjum ekki til einkarekinna fjölmiðla, heldur dróst markaðurinn saman. Þess má geta að Samband íslenskra auglýsingastofa gagnrýndi einmitt frumvarp nafna míns Óla Björns Kárasonar um að taka Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði enda myndi það hafa neikvæð áhrif á starfsemi auglýsingastofa.
Nýverið sat ég málþing um framtíð blaðamennsku og svæðisbundna fjölmiðlun í Háskólanum á Akureyri. Þar kom meðal annars fram að þegar svæðisútsendingar Ríkisútvarpsins hættu á Austurlandi hafi fjölmiðlar á svæðinu haldið að þá myndu auglýsingatekjur skila sér til þeirra. En það var ekki raunin, heldur dróst markaðurinn saman á svæðinu og auglýsingar rötuðu á samfélagsmiðla.
Árið 2021 voru auglýsingatekjur samfélagsmiðla 9,5 milljarðar, en það eru 43,5% allra auglýsingatekna á Íslandi það árið. Skattur af þessum auglýsingatekjum skilar sér ekki til ríkisins enda eru samfélagsmiðlar ekki skattskyldir á Íslandi. Þarna gæti íslenska ríkið séð sér leik á borði með því að skattleggja auglýsingatekjur hjá samfélagsmiðlum og af áskriftargjaldi streymisveitna. Gefið að tekjuskattur af auglýsingatekjum samfélagsmiðla sé um 22%, tökum svo þessa 9,5 milljarða sem fóru í auglýsingar til samfélagsmiðla. Þessar tekjur myndu skila ríkinu yfir tvo milljarða í kassann.
Þessi nýi tekjustofn ríkisins gæti runnið í sjóð sem ég ætla leyfa mér að kalla „Fjölmiðla- og menningarsjóð“. Með slíkum sjóði væri hægt að efla starfsemi Fjölmiðlanefndar eða hreinlega efla starfsemi einkarekinna fjölmiðla á Íslandi. Heildarupphæð styrkja gæti verið hærri en þær 400 milljónir á ári sem nú er, og fjölmiðlar á landsbyggðinni gætu fengið væna sneið af þeirri köku.
Þetta eru aðeins mínar hugmyndir hvernig væri hægt að koma á kerfi sem styður við fjölmiðla á Íslandi. Fjölmiðlar gegna lykilhlutverki í lýðræði samfélagsins og er það mikilvægt að þeir leggist ekki af eða lendi í höndum fárra einstaklinga. Þess vegna tel ég mikilvægt að ríkið beiti sér í málefnum fjölmiðla enda rekstrarumhverfið erfitt.
Höfundur er fjölmiðla- og boðskiptafræðingur