Um nokkra ára skeið hefur verið rakin í fjölmiðlum ýtarlega og í smáatriðum ákæra ákæruvaldsins gegn Jóni Baldvin Hannibalssyni fyrir að hafa átt að strjúka rass gestkomandi stúlku við matarborð á heimili þeirra hjóna í Salobrena á Spáni. Ákæruvaldið krafðist skilorðsbundins fangelsisdóms yfir Jóni Baldvin fyrir þessi alvarlegu brot, sem ákæruvaldið bar upp á hann. Tvívegis var kærunni vísað frá héraðsdómi með vísan til þess að lög hefðu ekki verið brotin og tvívegis var málinu aftur vísað til héraðsdóms með kröfu um efnislega afstöðu og hófst þá þriðja lotan. Allan þennan raunatíma allt frá árinu 2019 fjölluðu fjölmiðlar þar á meðal RÚV ítarlega um ákæruefnin, um þann, sem ákærður var, um þá, sem ákærunni hrundu af stað og um það hvernig hið opinbera ákæruvald gerði sakargiftirnar af sínum og krafðist þess aftur og ítrekað að héraðsdómur fjallaði efnislega um þessar alvarlegu ákærur.
Upp rann stundin
Þá kom loks að því nú í morgun (mánudagsmorgun) að héraðsdómari kvað upp sinn efnislega dóm. Í allan þann dag hefi ég verið upptekinn við að undirbúa utanlandsför og því ekki haft neinn tíma til þess að fylgjast með fréttum. Hugsaði mér því gott til glóðarinnar þegar þeim verkum var lokið og settist við sjónvarpið í kvöldfréttatíma til þess að hlýða á frásögn sjónvarps RUV af málinu. Hver var efnisleg niðurstaða dómarans? Hver var rökstuðningur hans fyrir dóminum? Hvert var álit hans á vitnisburði annars vegar þeirra, sem ákærðu fyrir þetta brot, og hins vegar hinna, sem viðstaddir voru á vettvangi? Hver var afstaða dómarans til hins mikla málskostnaðar, sem svo löng dómgæslusaga hlaut að hafa leitt af sér fyrir hinn ákærða?
Ný fjölmiðlamenning
Nú er ég orðinn aldraður maður – eins og Jón Baldvin. Og ef til vill ekki jafn samgróinn íslenskri fjölmiðlamenningu eins og ég og jafnaldrar mínir í fjölmiðlaheiminum voru (og eru sumir enn) Þess vegna veit ég ekki hið samtímalega rétta svar við þessari einföldu spurningu: Myndi sjónvarp RÚV í kvöldfréttatíma hafa látið vera að skýra frá því ef krafa ákæruvaldsins hefði dæmst rétt vera og JBH gert að sitja undir skilorðsbundinni fangelsisrefsingu fyrir gróft kynferðisafbrot? Hvernig er þeirri spurningu svarað? Með þegjandi þögninni frá RUV – nema hvað!
Höfundur var í nokkur ár ritstjóri Alþýðublaðsins.