Varla verður sagt að ríkisstjórnin hafi tekjujöfnun að markmiði í skattamálum. Lækkun veiðigjalda, fyrirhugað afnám orkugjalds og auðlegðarskatts og boðaðar breytingar á beinum sköttum bætir hag þeirra sem fénýta auðlindir þjóðarinnar í eigin þágu og hátekju- og stóreignafólks en veltir kostnaði af samfélagslegum rekstri á bök annarra. Þetta dapurlega atferli má þó ekki verða til þess að halda að allt sem frá stjórninni kemur í skattamálum sé sama marki brennt.
Einföldun
Fjármálaráðherra boðar að hækka skatt á matvæli úr 7% í 12% og hefur það orðið tilefni til gagnrýni úr ýmsum áttum á þeim forsendum að slík breyting muni bitna á tekjulágu fólki. Sú gagnrýni byggist á þeirri einföldun að lækkun matarskatts gagnist þeim öðrum fremur því þeir eti fyrir stærri hlut tekna sinna. Saga matarskattsins allt frá upptöku hans 1993 byggist á þessari hentikenningu popúlista úr röðum stjórnmálamanna, forystumanna á vinnumarkaði, sérhagsmunahópa og neytendafrömuða.
Lækkun matarskatts er ekki lækkun skatta. Ef ríkisútgjöldin haldast óbreytt frá því sem var verður að afla tekna fyrir þeim með öðrum hætti. Það gerist varla án þess að það lendi á almenningi. Almennir neysluskattar svo sem VSK leggjast yfirleitt þyngra á lágar tekjur en háar einfaldlega af þeirri ástæðu að stærri hluti lágra tekna fer í kaup á skattsskyldum vörum. Séu útgjöld ríksins lækkuð til að mæta tekjutapinu er líklegt að það komi fram í skertri þjónustu m.a. í heilbrigðiskerfinu, hækkaðri kostnaðarhlutdeild sjúklinga osfr. Í hvoru tilvikinu sem er, hækkun annarra skatta eða lækkun ríkisútgjalda, mun það bitna á tekjulágum ekki síður en öðrum. Meginrökin fyrir lækkun matarskatts eru einfaldlega röng.
Leyfi maður sér að lifa í þeim ímyndaða heimi að lækkun skatta sé möguleg án annarra áhrifa og að lækkun matarskatts skili sér að fullu til neytandans en lendi ekki í vasa vörusala er ávinningur tekjulágra af aðgerðinni samt sem áður afar lítill. Í athugun sem ég gerði eftir lækkun matarskattsins og fleiri liða úr 14% í 7% kom fram mest möguleg lækkun heimilisútgjalda miðað upplýsingar Hagstofu Íslands um útgjöld heimila eftir tekjuflokkum. Lækkunin var frá um 5.000 krónum á mánuði í lægsta tekjufjórðungi upp í um 7.500 kr. í þeim hæsta. Ávinningur hinna tekjuhærri er meiri í krónum talið en sem hlutfall af neysluútgjöldum er lækkunin um 1,8% í tekjulægsta hópnum en um 1,6% í þeim hæsta. Þannig má ljóst vera að jafnvel við kjöraðstæður er tekjujöfnun af lækkun matarskatts afar takmörkuð.
Ekkert nýtt
Þetta eru ekki ný tíðindi. Við lækkun matarskattsins 1993 lágu fyrir skýrslur um athuganir, m.a. frá Noregi og Englandi, sem sýndu þetta svart á hvítu. Þeim var stungið undir stól. Ríkisendurskoðun var í framhaldi af lagasetningunni falið að gera úttekt á áhrifum af henni. Niðurstaða hennar[i] var einhlít. Tekjujöfnunaráhrifin voru lítil og mikið minni en af jafndýrum breytingum á tekjuskattskerfinu og barnabótum. Ekkert var gert með þá niðurstöðu.
Við lækkun matarskattsins úr 14% í 7% var að hluta til byggt á starfi nefndar sem skipuð var fulltrúum hagsmunaaðila en vegna missættis í nefndinni skilaði formaður hennar einn skýrslu um starf hennar[ii]. Í nefndarstarfinu virðist ekkert ekkert tillit hafa verið tekið til fyrirliggjandi gagna um virkni svona breytinga en byggt á sömu hentikenningum og fyrr. Samkvæmt frumvarpi ríkisstjórnarinnar á árinu 2006[iii] átti matvælaverð að lækka um heil 16% og vísitala neysluverðs að lækka um 2,3% á einu ári.
Sú verðþróun gekk ekki eftir. Vísitala neysluverðs lækkaði ekkert og lækkun á matarverði var lítil og ekki viðvarandi. Í stað þess að lækka og haldast síðan lægri en vísitala neysluverðs hækkaði vísitala matvælaverðs fljótt aftur og hefur haldist svipuð eða hærri en almenna vísitala allar götur síðan. Séu vísitölur settar á hundrað í janúar 2006 er vísitala neysluverðs komin í 166,5 í janúar 2014 en vísitala matar og drykkjavöru í 172,2. Þetta ætti ekki að koma þeim á óvart sem trúa því að verðlag ráðist á markaði af framboði, eftirspurn og samkeppni. Það sem reynslu og þekkingu um lækkun virðisaukaskatts á matvæli segir er í fyrsta lagi að áhrif á verðlag eru óviss og minni en gengið hefur verið út frá og í öðru lagi að sú lækkun sem kann að nást hefur lítil sem engin áhrif til tekjujöfnunar eða til að bæta stöðu lægri tekjuhópanna.
Draga lærdóm af þessu
Upptöku lægri skatts á matvæli hér á landi 1993 fylgdi tímabil mikilla hækkana á tekjuskatti og mikil hækkun skattbyrði fólks með lágar tekjur og miðlungstekjur en litlar breytingar og jafnvel lækkun hjá hinum tekjuhæstu. Á sama tíma lækkuðu bætur í skattkerfinu, barnabætur og vaxtabætur. Tekjutapi af lækkun VSK á matvæli var þannig velt yfir á fólk í neðri hluta tekjuskalans. Frá árinu 1993 til ársins 2005 hækkaði tekjuskattshlutfall að frádregnum bótum (barnabótum og vaxtabótum) að meðaltali um 5 prósent af tekjum sem er mun meira en lækkun matarskattsins nam. Hækkun tekjuskattsins var misjöfn eftir tekjuhópum. Hún var meira en 10% af tekjum hjá hjónum í lægsta fjórðung tekna, 5 - 10% í næstlægsta fjórðungi, 2,5 - 5% í næst efsta fjórðungi og innan við 2% í efsta fjórðungnum. Hjá topp 10% lækkaði skatthlutfallið reyndar. Tölur þessar er úr skýrslu nefndar á vegum fjármálaráðuneytisins um íslenska skattkerfið[iv] frá árinu 2008 sem fór hljóðlega í skjalageymslu þess. Í lok þessa tímabils þegar öllum mátti ljós vera sú þróun sem orðið hafði kom dúsan, lækkun matarskatts úr 14% í 7%.
Þeir sem bera hag hinna verr settu í þjóðfélaginu fyrir brjósti ættu að draga af þessu lærdóm. Barátta gegn hækkun matarskatts mun ekki gagnast skjólstæðingum þeirra en hún mun draga athyglina frá þeim breytingum á sköttum sem skipta máli fyrir tekjujöfnun í skattkerfinu til lengri tíma litið. Baráttan verður um stundarsakir blóm í hnappagati lýðskrumara en tekjutapið af fækkun skattþrepa í tekjuskatti, lækkun fjármagnstekjuskatts, afnámi auðlegðarskatts, lækkun veiðigjalda og afnámi orkuskatts mun hvíla á baki hinna verr settu í samfélaginu af fullum þunga lengi eftir að það blóm er fölnað.
Tilvísanir í Heimildir:
[i] Ríkisendurskoðun, Skýrsla um áhrif skattbreytinga skv. lögum nr. 122/1993. Október 1994
[ii] Heimasíða forsætisráðuneytis. Skýrsla formanns nefndar sem forsætisráðherra skipaði 16. janúar 2006 til þess að fjalla um helstu orsakaþætti hás matvælaverðs áÍslandi og gera tillögur sem miða aðþvíaðfæra matvælaverð nær þvísem gengur og gerist í nágrannaríkjum Reykjavík 13. júlí2006
[iii] Heimasíða forsætisráðuneytisins: Tillögur ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til aðlækka matvælaverðo.fl. 9.10.2006
[iv] Heimasíða fjármálaráðuneytis. Íslenska skattkerfið: Samkeppnishæfni og skilvirkni, Skýrsla nefndar, 11. september 2008