Í greininni er reifuð sú óvissa sem ríkir um námsmat við lok grunnskóla vorið 2016. Greinarhöfundar telja að óskipuleg framsetning nýrra hugmynda og skortur á leiðsögn af hálfu menntayfirvalda setji skólafólk í erfiða stöðu við að gefa nemendum lokaeinkunnir næsta vor. Höfundar eru skólastjórnendur.
Vorið 2016 mun námsmat nemenda sem útskrifast úr grunnskólum birtast með öðru móti en áður hefur verið. Breytingin er skilgreind í aðalnámskrá grunnskóla sem var gefin út í tveimur hlutum, almennur kafli árið 2011 og hæfniviðmið greinasviða árið 2013.
Frá árinu 2011 hefur verið unnið að innleiðingu aðalnámskrárinnar í öllum grunnskólum. Segja má að innleiðingarferlið nái allt aftur til ársins 2008 en þá tóku ný grunnskólalög gildi.. Í kjölfarið voru ýmsar skipulagsbreytingar gerðar og skerpt á verklagi mikilvægra grunnstoða: starf skólaráða, starf nemendaverndarráða, viðmið um skólabrag, áætlanir gegn einelti, viðmið um skólareglur o.fl.. Helstu verkhlutar við innleiðingu á aðalnámskránni hafa verið:
1. Að byggja sex grunnþætti menntunar markvisst inn í allt skólastarf þvert á árganga og greinasvið. Grunnþættirnir eru læsi, sjálfbærni, sköpun, jafnrétti, lýðræði og mannréttindi, heilbrigði og velferð.
2. Að skilgreina vinnu með lykilhæfni nemenda í öllu skólastarfi, þvert á árganga og greinasvið. Lykilhæfninni er skipti í fimm megin svið: tjáningu og miðlun; skapandi og gagnrýna hugsun; sjálfstæði og samvinnu; nýtingu miðla og upplýsinga; ábyrgð og mat á eigin námi.
3. Að skilgreina hæfniviðmið og matsviðmið í skólanámskrá fyrir allar námsgreinar í öllum árgöngum út frá þeim grunni sem lagður er í aðalnámskrá 2013. Hæfniviðmið gera grein fyrir víðtækari hæfileikum nemenda en þekkingarmarkmið gera í fyrri námskrám. Þessi áherslubreyting er hluti af alþjóðlegri bylgju sem hefur haft áhrif á nám og kennslu á öllum skólastigum. Breytingin þjónar m.a. þeim tilgangi að skólar leggi meira af mörkum til að undirbúa nemendur fyrir þátttöku í samfélagi sem markast af örum breytingum á sviði tækni, atvinnulífs og fleiri þáttum. Menntamálastofnun birti sérstakan vef um þennan þátt í september 2015.
4. Að breyta áherslum í kennsluháttum og námsmati í þá átt að námsmarkmið séu nemendum sýnileg og að í gegnum leiðsagnarmat fái þeir stöðuga endurgjöf á stöðu sína í náminu og leiðbeiningar um næstu skref.
5. Að setja upp gagnagrunn, í samráði við þau kerfi sem notuð eru til að skrá og halda utan um námsmat og samskipti skóla við nemendur og forráðamenn, sem heldur utan um leiðsagnarmat og námsferil nemenda og dregur námsferilinn saman í vitnisburð í lok skólaárs.
Ólíkt er milli skóla í hvaða röð þessi verkefni hafa verið unnin og hvaða áherslur hafa verið settar og er það í anda þess frelsis og sveigjanleika sem námskráin gerir ráð fyrir að einstakir skólar hafi. Í öllum skólum hefur umtalsverð vinna farið í innleiðingarverkefnin og mikilvæg framfaraskref hafa verið tekin. Í fáum, ef nokkrum, skólum er verkefninu lokið enda er viðamiklu starfi grunnskóla þannig háttað að ávallt er hægt að þróa það áfram.
Í haust hefur verið vaxandi þungi í umræðu um námsmat við lok grunnskóla. Skólastjórnendur hafa um hríð kallað eftir skýrari leiðsögn og úrlausnum frá yfirstjórn menntamála um frágang námsmats sem byggir á matsviðmiðum aðalnámskrár og rafrænu útskriftarskírteini. Menntamálaráðherra og fleiri aðilar hafa furðað sig á því að grunnskólar virðast ekki tilbúnir að útskrifa nemendur skv. nýrri námskrá vorið 2016 eins og ráðuneytið hefur gert kröfu um. Í ágætri samantekt Morgunblaðsins þann 4. október 2015 er ljóst að allir aðilar eru sammála um ágæti þeirra breytinga sem námskráin frá 2011/2013 boðar. En hvert er þá vandamálið?
Ef litið er til allra þeirra þátta sem aðalnámskráin snertir er vandi skólanna lítill og jafnvel mætti segja að hann sé tæknilegur. Stjórnendur grunnskóla hafa varpað til ráðuneytis og Menntamálastofnunar spurninga á borð við eftirfarandi:
· Hvernig er best að draga einkunnir nemenda í ótal verkefnum sem unnin eru yfir skólaárið saman í eina lokaeinkunn á sanngjarnan hátt? Á að nota talnakvarðann 1-4 til að þýða bókstafseinkunnir? Má þýða D til A yfir á prósentukvarða svipaðan einkunnaskalanum 1-10? Má taka tíðni bókstafseinkunna, leggja hana á ákveðinn kvarða og lesa þannig út lokaeinkunnir? Ef notast á við tíðnimælingar, hvaða kvarða á þá að leggja til grundvallar?
· Ef nemandi sýnir minni hæfni í verkefnum í lok vors en hann hefur sýnt fyrr á skólaárinu, hvor myndin er þá réttari? Á seinna verkefnið að draga árangur í því fyrra niður eða á að láta nemandann njóta þess besta sem hann nær að sýna, óháð því hvenær það gerist?
· Enn hefur samræmt útskriftarskírteini ekki verið birt. Mun það gera grein fyrir átta greinasviðum eins og þau eru tilgreind í aðalnámskrá eða verður hægt að gera grein fyrir fleiri eða færri sviðum/námsgreinum? Verður aðskilin einkunn gefin fyrir ensku og dönsku sem skv. námskránni eru eitt og sama greinasviðið? Verður gefin ein eða fleiri einkunnir fyrir greinasviðið list- og verkgreinar? Verða gefnar ein eða tvær einkunnir fyrir íþróttir og sund?
· Ef nemandi hefur lokið grunnskólanámi á ákveðnu greinasviði fyrr en í 10. bekk, þ.e. í 8. eða 9. bekk, verður þá hægt að tilgreina það á samræmda útskriftarskírteininu? Þessari spurningu var svarað af Mennta- og menningarmálaráðuneytinu í september 2015 en það svar leysir ekki stöðu þeirra nemenda sem nú eru í 10. bekk því það er ekki tækt að ákveða eftirá að árangur vinnu í 8. bekk komi fram á útskriftarskírteini tveimur árum síðar. Hvort mun á endanum vega þyngra, ákvæði grunnskólalaga um að námsmat við lok grunnskóla byggi fyrst og fremst á því námi sem fram fór á lokaári grunnskóla, eða seinni tíma áform um að gefa eina einkunn fyrir hvert greinasvið?
Við þessum spurningum hafa ekki fengist skýr svör að öllu leyti. Þetta veldur vandræðum í skólunum sem í upphafi skólaárs birta kennsluáætlanir þar sem fram á að koma á hvaða grunni námsmat skólaársins byggir. Vandræði í skólanum skila óöryggi hjá nemendum og forráðamönnum. Því miður er það staðan um þessar mundir. Við teljum það rétt nemenda að við upphaf skólaárs fái þeir allar upplýsingar um það hvernig mati á námi þeirra verður háttað.
Tilraunir kennara og stjórnenda til að taka af skarið og leggja upp það námsmatskerfi sem hentar starfi viðkomandi skóla hafa ekki náð fram að ganga að fullu leyti vegna þess að um er ræða umfangsmikla breytingu. Það er mikil ábyrgð falin í því að útskrifa nemendur úr grunnskóla. Útskrift úr grunnskóla er stjórnsýsluákvörðun og um hana gilda stjórnsýslulög. Einstakir skólar geta ekki tryggt gagnsæi, jafnræði og málefnalega meðferð þegar þeir hafa enn ekki séð það útskriftarskírteini sem notast á við eftir nokkra mánuði. Þá er útilokað að tryggja skýr skilaboð til framhaldsskólanna þegar ljóst er að skólar eru að þróa ólíka kvarða og ólíkar leiðir til að gera grein fyrir stöðu nemenda gagnvart matsviðmiðum aðalnámskrár.
Stjórnendur grunnskóla eru ekki að kalla eftir mötun eða algjörri samræmingu í skólastarfi á Íslandi. Þeir eru að kalla eftir því að yfirvöld menntamála gangi þannig frá innleiðingu aðalnámskrár að tryggt sé að hún sé framkvæmanleg. Samráðshópar af ýmsu tagi hafa fjallað um ólíka þætti námskrárinnar en samkvæmt okkar upplýsingum eiga þeir það flestir sameiginlegt að hafa lítið sem ekkert hist síðastliðin tvö ár. Kennarar og stjórnendur grunnskóla hafa komið aðalnámskránni í verk á margvíslegan hátt. En útskrift nemenda úr grunnskóla er ekki einkamál þeirra heldur verkefni sem kallar á samstillta krafta grunnskóla, menntamála yfirvalda og framhaldsskóla.
Sjálfsagt hefði staðan verið önnur nú ef ráðuneyti menntamála hefði staðið við fyrirheit sín frá árinu 2013 um að gefa út sérstakar leiðbeiningar um nýja hugsun í námsmati. Ekkert bólar á þeim og allar upplýsingar frá opinberum aðilum eru brotakenndar. Ef ráðuneytið er hætt við að gefa út slíkar leiðbeiningar er nauðsynlegt fyrir skólana að fá upplýsingar um það og skilaboð um að verkefnið sé í þeirra eigin höndum.
Í september 2015 birtist yfirlit frá Menntamálastofnun á vef Menntamálaráðuneytisins þar sem taldir eru upp ýmsir verkþættir sem ráðuneytið hefur staðið fyrir í innleiðingarferli aðalnámskrárinnar. Undirritaðir skólastjórnendur og samstarfsmenn þeirra hafa tekið þátt í öllum þessum verkefnum, fylgst með þeim gögnum sem þar hafa birst og tekið þau inn í innleiðingarferlið í hverjum skóla. Samt er fyrirséð að umtalsverð óvissa muni einkenna útskrift nemenda úr grunnskóla vorið 2016. Við köllum eftir því að menntayfirvöld veiti grunnskólanum fyllri upplýsingar og taki faglega forystu við innleiðingu á námsmatsþætti nýrrar aðalnámskrár. Ef af því verður erum við fullviss um að útskrift nemenda úr grunnskólanum vorið 2017 verði í fullu samræmi við kröfur aðalnámskrár.