Maður er nefndur Björn Bjarnason. Hann er fyrirfarandi eitt og annað og núverandi hitt og þetta. Og mikill ritari. Meðal annars skrifaði hann milljóna grein fyrir Norðurlandaráð, grein um vígbúnað, enda formaður Varðbergs, vináttufélags íslenskra hermangara og stríðsmanna. Fyrir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skrifaði hann aðra milljóna grein, úttekt á framtíð landbúnaðarins. Þetta eru víst hvort tveggja afbragðs greinar, vel skrifaðar og fullar af fróðleik og sannindum ef marka má skrif Björns Bjarnasonar um þessi ritverk sín, en fáir ef nokkur hefur skrifað jafn vel um sjálfan sig og verk sín og Björn Bjarnason. Hér verða hvorki nefndar þær greinar sem hann hefur skrifað um það óréttlæti sem Samherji hefur orðið fyrir, ritverk hans um Ógnarstjórnina í Eflingu né talin til mýgrútur greina út frá réttlætiskennd hans. Hins vegar er ekki hjá því komist að benda á eitt einkenni þeirra; hatur hans og fyrirlitningu á Ríkisútvarpinu, Kjarnanum og Stundinni og öðrum þeim fjölmiðlum sem iðka rannsóknarblaðamennsku.
En, í öllum bænum lesið greinarinnar hans. Þær birtast daglega á bjorn.is og í Morgunblaðinu, stundum nafnlausar í Staksteinum, en oftar undir nafni með ljósmynd af höfundinum.
Þegar rætt er um falsfréttalausa fjölmiðla kemur annar maður til sögu. Sá er alþingismaður og fyrrverandi blaðaútgefandi, Óli Björn Kárason. Hann skrifar vikulegar greinar í Morgunblaðið, fer afar sjaldan rétt með, og fjallar um eitt og annað af svo djúpri visku og falinni kímnigáfu að með fádæmum er. Hann er hatursmaður fjölmiðla sem stunda rannsóknir. Einkum RÚV. og sakar það um ofríki, ósannindi og ofsóknir á hendur annarra fjölmiðla og vandaðra manna. Til eru þeir sem halda því fram að þessi óvild þingmannsins stafi af því að hann setti DV á hausinn fyrir nokkrum árum, en þegar hann tók við því var það vel rekið blað og fyrirtæki og skilaði hagnaði. Ekkert veit ég um það. Hitt veit ég að margir vandaðir menn eiga hönk upp í bakið á honum; allir þeir sem greitt hafa kostnaðinn af framboðbrölti hans.
Fréttaskýringaþættir eru með þörfustu dagskrárliðum fjölmiðla. Einn slíkur þáttur er Silfrið, sem fluttur er vikulega í Sjónvarpi. Þegar þetta er skrifað er Silfrinu ný lokið, sunnudaginn 7. nóvember. Þar var fyrst talað við Ingileifi Jónsdóttur, prófessor í ónæmisfræðum um Covid 19, þá Aðalstein Kjartansson, blaðamann á Stundinni og Hönnu Katrínu Friðriksson, alþingismanns um ónýta skýrslu sjávarútvegsráðherra af eignarhaldi stórútgerðar á kvóta og fyrirtækjum í óskyldum rekstri, og loks var þar ítarlegt viðtal við Sólveigu Önnu Jónsdóttur, fráfarandi formann Eflingar um innri mál félagsins.
Öll var þessi umræða afar upplýsandi. Og þörf í moldrokinu.
Í ljós kom að blaður dómsmálaráðherra og annarra ungpía í Sjálfstæðisflokknum um Covidið er markleysishjal, skýrslan um eignastöðu sjávarútvegsfyrirtækja ónýtt plagg af ásetningi skýrsluhöfunda, hrákasmíð frá sjávarútvegsráðherra, og að Sólveig Anna situr undir falsyrðum og óhróðri sem dreift er um hana.
Sumsé:
Sá sem aðeins læsi greinar Björns Bjarnasonar og Óla Björns Kárasonar um þjóðfélagsmál væri haugfullur af ranghugmyndum. Og líka ef hann hefði tekið mark á orðum dómsmálaráðherra um heimsfaraldurinn. Því ætti það að vera þjóðfélagsleg skylda þeirra sem vilja fremur heyra það sem sannara reynist en bullið bert, að slá skjaldborg um þá fjölmiðla sem fara rétt með.
Höfundur er rithöfundur.