Því miður er sú hugsun enn mjög rótgróin í samfélaginu, að fatlað fólk eigi helst að vera inni á stofnunum, í svokölluðum búsetukjörnum eða háð aðstandendum sínum að öllu leyti, t.d. foreldrum eða mökum. Þess hugarfars gætir enn mjög, að fatlað fólk geti ekki skerðingar sinnar vegna verið sjálfstætt í lífi sínu, búið í eigin húsnæði, stofnað fjölskyldu, farið út í búð, hitt vini sína, notið afþreyingar, ferðast, stundað vinnu eða gert hvað annað sem það vill gera.
Það þarf að segja það oft, og endurtaka það: Þetta hugarfar til fatlaðs fólks er úrelt. Fatlað fólk á rétt til sjálfstæðs lífs og rétt til þess, eins og aðrir, að búa við mannréttindi. Það á rétt á því að velja hvernig það vill haga lífi sínu. Það þýðir ekki að öllum stofnunum verði lokað á morgun, í næstu viku eða að ári heldur einfaldlega að bætt sé við lögbundnum jafnréttháum valkosti í þjónustu, notendastýrðri persónulegri aðstoð, svo fatlað fólk sem vill ekki fara á stofnun sé ekki þvingað þangað inn.
NPA
Yfir fimmtíu fatlaðar manneskjur hafa gert samning um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) við sveitarfélagið sitt. Þessir samningar eru hluti af innleiðingarverkefni, sem snýst um að gera NPA að lögbundnum valkosti í þjónustu við fatlað fólk, eins og Alþingi hefur ákveðið með lögum og þingsályktunum að skuli gert.
NPA snýst um það, að fatlað fólk ráði sér aðstoðarfólk sjálft og taki stjórn á eigin lífi, með fjárframlagi frá sveitarfélaginu og ríkinu, sem miðast við metna þörf þess á aðstoð. Með innleiðingu NPA getur fatlað fólk raunverulega kosið sér það þjónustuform sem best tryggir möguleikann á sjálfstæðu lífi. Mannréttindi standa til boða.
Meinlokan í umræðunni
Við yfirfærslu á málaflokki fatlaðs fólks frá ríki til sveitarfélaga var vitlaust gefið. Þessi staðreynd er að koma sífellt betur í ljós. Of lítið fjármagn fylgdi verkefninu og nokkuð ljóst að fjárþörf sveitarfélaganna þarf að endurmeta, svo þau geti sinnt þessum mikilvæga málaflokki af nauðsynlegum metnaði.
Í þessari umræðu viljum við þó gera þunga athugasemd við eina meinloku, sem sí og æ gerir vart við sig í orðræðu fulltrúa ríkis og sveitarfélaga um hinn fjársvelta málaflokk, og hún er þessi: NPA er of dýrt. NPA er ekki fjármagnað. Það er út af NPA sem málaflokkurinn er fjársveltur.
Förum aðeins yfir þetta.
Í fyrsta lagi: Málaflokkurinn í heild sinni er vanfjármagnaður og hefur verið í áraraðir. Það er engin ástæða til þess að taka NPA sérstaklega út úr því mengi. NPA er einfaldlega vanfjármagnað þjónustuform, eins og önnur þjónustuform. Því miður.
Í öðru lagi: Það fólk sem nýtur NPA samninga mun þurfa þjónustu. Það hverfur ekki af yfirborði jarðar. Sú þjónusta mun kosta peninga, og líklega meiri peninga en NPA, og með verri nýtingu fjármuna.
Í þriðja lagi: Sú pólitíska spurning sem blasir við eftir yfirfærslu málaflokksins til sveitarfélaga er einfaldlega sú, hvort til standi að þjónusta fatlað fólk með viðunandi hætti eða ekki. Við trúum því að svarið við þessari spurningu sé augljóst. Að sjálfsögðu á að þjónusta fatlað fólk. Ef þjónusta er ætlunin, þá er NPA líklega besta þjónustuformið sem völ er á, bæði þegar litið er til kostnaðar og ábata.
Skoðum samanburðinn
Það er óneitanlega niðurlægjandi að sífellt þurfi að tala um fatlað fólk sem kostnað, en gott og vel, við skulum skoða tölur fyrst þetta þykir svona flókið.
Borgarráð samþykkti á síðasta ári áætlun um bygging búsetukjarna fyrir fatlað fólk með miklar og sértækar þjónustuþarfir. Samkvæmt áætluninni munu 28 einstaklingar fá tilboð um búsetu og þjónustu innan þessara nýju kjarna. Byggingarkostnaður er áætlaður 800 - 900 milljónir en árlegur rekstrarkostnaður verður um 540 milljónir. Það þýðir að meðalkostnaður á hvern einstakling í þessum búsetakjarna er 19.3 milljónir á ári. Er þá byggingakostnaðurinn ekki tekinn með í reikninginn.
Samkvæmt svari frá félagsmálaráðherra við nýlegri fyrirspurn á Alþingi, er meðalkostnaður við þann 51 einstakling sem nýtur NPA samnings um 13,5 milljónir á ári. Ríkið greiðir 20% af því til móts við framlag sveitarfélaganna. Meðalkostnaður sveitarfélaga við hvern samning er því 11,3 milljónir. Hér er einnig um töluverða þjónustuþörf að ræða.
Bæði dæmin byggja á tölum frá 2014, en áhrif kjarasamninga og fleira ættu að hafa hækkað allar þessar tölur nú. Samkvæmt þessu er NPA að jafnaði 8 milljónum ódýrara úrræði á mann fyrir sveitarfélög í þjónustu við fatlað fólk heldur en boð um búsetu og þjónustu innan búsetukjarna. Munurinn á kostnaði í þessu dæmi er um 40%, NPA í vil. Auk þess er enginn kostnaður við steinsteypu í NPA. Allt fjármagnið fer í þjónustuna.
Niðurstaða
Það er fullkomlega fáránlegt að okkar mati að bæði ríki og sveitarfélög skuli því miður vera uppvís að því að draga lappirnar um þessar mundir þegar kemur að innleiðingu NPA. Það er líka út í hött að það fólk sem hefur NPA samning skuli vera látið búa við stanslausa óvissu um framtíð sína, sem birtist þessa dagana einkum í því að aðstoðarfólk þess er ekki látið njóta almennra kjarabóta með nauðsynlegu viðbótarfjármagni til samninganna. Þetta er algjörlega ólíðandi.
Staðreyndin er þessi: NPA er þjónustuform sem allir þeir sem koma að málefnum fatlaðs fólks, bæði notendur og fjármögnunaraðilar, ættu að taka fagnandi og byggja upp af krafti. Betri nýting fjármuna er varla til, - fjármuna sem er þá varið í að skapa skilyrði fyrir fatlað fólk, sem er á heimsvísu talinn vera sá hópur sem er hvað mest jaðarsettur, til þess að njóta þeirra viðurkenndu mannréttinda að búa við frelsi, sjálfstæði, viðunandi lífskjör, betri heilsu og friðhelgi frá ofbeldi og útskúfun.
Höfundar eru þingmaður og varaþingkona Bjartrar framtíðar.