Það kemur okkur Íslendingum kannski ekki mjög á óvart þegar við ferðumst til fjarlægra landa að þurfa að útskýra nánar hvar Ísland er á jarðarkringlunni. Íslendingar eru ekki þeir einu sem lenda í því að hitta fólk sem hefur aldrei heyrt heimalandsins getið. Slík ríki eru í raun um allan heim en hér er ætlunin að segja frá litlu lýðveldi í Karíbahafinu þar sem búa rétt rúmlega 70.000 manns og fáir hafa heyrt um.
Á eyjum Karíbahafsins búa alls tæpar 40 milljónir manna, ef talið er frá norðurströnd Venesúela í suðri og að Flórídaskaganum í norðri. Alls eru um 30 ríki á þessu svæði sem hafa mismunandi þjóðréttarlega stöðu. Sum eru sjálfstæð lýðveldi, önnur hafa stöðu héraðs í öðru fjarlægu landi og enn önnur eru sjálfstjórnarsvæði eða nokkurn veginn sjálfstæð ríki en undir bresku krúnunni.
Fyrst heyrði ég af Dóminíku snemma á árinu 2011 þegar ég fregnaði að ÍSOR, þar sem ég starfa, væri í samningaviðræðum við stjórnvöld á Dóminíku um jarðhitarannsóknir og boranir. Ég taldi fyrst að ferðinni væri heitið til Dóminíska lýðveldisins, en það er á svipuðum slóðum.
Þegar betur var að gáð kom í ljós að svo var ekki og hafði ég aldrei heyrt af fyrrnefndu ríki. Ég sökkti mér ofan í rannsóknir á landi og þjóð, fann eyjuna á Google Earth og svipaðist um. Samningar voru undirritaðir við ÍSOR og Jarðboranir hf. og var jarðbornum Sleipni og öðrum tólum og tækjum, ásamt efni í þrjár rannsóknarborholur, skipað út í Hafnarfjarðarhöfn í nóvember 2011. Búnaður ÍSOR, sérútbúinn mælingabíll og rannsóknarstofa í gámi, fékk að fljóta með.
Þegar ég fór fyrst til Dóminíku, í lok nóvember 2011, var fyrst flogið til London og síðan til eyjarinnar Antígva. Frá Antígva var flogið með fimmtíu sæta Dash-8 flugvél til Dóminíku og tók flugið um þrjátíu mínútur. Stærstu flugvélar sem geta lent á flugvellinum á Dóminíku eru upp undir 100 sæta þotur en flugsamgöngur við nærliggjandi eyjar eru aðallega með smærri vélum. Flugstöðin er lík þeirri sem er á Egilsstöðum og ein dráttarvél er til taks til að draga vagn með farangri. Farangursfæribandið er sett í gang ef töskurnar eru óvenju margar. Starfsmaðurinn í vegabréfaskoðuninni var hinn almennilegasti, skoðaði vegabréf og dvalarleyfi gaumgæfilega og spurði mig síðan hvað ég væri að fara að gera. Ég svaraði því til að ég væri að fara að vinna við fyrirhugað jarðhitaverkefni og þá kannaðist hann við það mál allt saman og bauð mig innilega velkominn og óskaði mér allra heilla.
Höfuðstaðurinn Roseau, eða „höfuðborgin“ eins og hún er kölluð af heimamönnum, er á suðvesturhorni eyjarinnar og þar búa um 15.000 manns eða litlu færri en á Akureyri. Flugvöllurinn er hins vegar á norðaustur horni eyjarinnar og í beinni loftlínu eru einungis um 30 kílómetrar þar á milli. Eyjan er afar fjalllend og því er vegurinn á milli flugvallarins og Roseau um 40 km langur en það tekur um einn og hálfan tíma að sniglast eftir honum. Einungis nýverið hefur veginum verið komið í það stand að geta kallast fólksbílafær.
Ísland er með formlegt stjórnmálasamband við Dóminíku sem komið var á í undanfara umsóknar Íslands um sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Stjórnvöld á Dóminíku hafa ekki skipað sendiherra til Íslands en fastafulltrúi Íslands í New York er sendiherra Íslands gagnvart Dóminíku og reyndar öllum öðrum ríkjum í Karíbahafinu.
Sagan og fólkið
Kristófer Kólumbus sigldi fyrst að Dóminíku sunnudaginn 3. nóvember 1492. Gaf hann eyjunni nafnið Dominica þar sem hún fannst á sunnudegi og fer ekki meiri sögum af því. Dóminíkubúar sjálfir gantast oft með það að ef Kólumbus kæmi aftur til Karíbahafsins þá væri Dóminíka eina eyjan sem hann myndi þekkja aftur því þar hefur lítið sem ekkert breyst.
Þegar fyrstu Evrópubúarnir komu til eyjarinnar settust þeir að í grennd við núverandi höfuðstað og á norðvesturhorni eyjarinnar á nesi sem kallast Cabrits. Þar reistu Bretar virki og hefur verið unnið að því síðustu ár að endurbyggja húsakost staðarins og koma upp vísi að sögusafni. Bretar og Frakkar réðu Dóminíku sitt á hvað í gegnum aldirnar og Bretar frá miðri nítjándu öldinni og fram til þess að landið fékk sjálfstæði. Eyríkið hlaut sjálfstæði frá Bretum þann 3. nóvember árið 1978 og lýðveldi var stofnað, réttum 486 árum eftir að Kólumbus sá eyjuna í fyrsta sinn.
Saga frumbyggja eyja í Karíbahafi er sorgarsaga en setur þó Dóminíku í nokkurt öndvegissæti hvað þá sögu varðar. Þegar Evrópubúar taka að vaða yfir eyjar í Karíbahafi og brjóta land til ræktunar á sykurreyr eru frumbyggjarnir sem þá bjuggu þar ýmist flæmdir burtu, þeir hnepptir í þrældóm eða þeir stráfalla vegna sjúkdóma og farsótta sem Evrópubúarnir báru með sér.
Frumbyggjar Dóminíku eru fremur ljósir á hörund, móeygðir með slétt svart hár og komu frá meginlandi mið-Ameríku. Þeir voru orðnir ráðandi á Dóminíku og eyjunum í kring um árið 1200. Kalinago-frumbyggjarnir, eins og þeir eru kallaðir, ruddu úr vegi og blönduðust Taino-frumbyggjum (Arawak) sem voru þar fyrir og höfðu verið um langan aldur. Talið er að menn hafi fyrst komið til eyja Karíbahafsins frá meginlandinu fyrir um 4600 árum. Frumbyggjar nefndu eyjuna „Waitukubuli“.
Frumbyggjarnir voru snemma kallaðir Karíbar (Caribs) meðal Evrópubúa en það nafn er til orðið vegna þess orðspors sem kaþólska kirkjan á Spáni lét út ganga skömmu eftir landafundina þess efnis að þeir leggðu sér mannakjöt til munns (cannibals). Ekkert er talið styðja það – fornleifauppgröftur og annað í þeim dúr – og því einungis um að ræða herbragð kirkjunnar til að mega með réttu refsa þeim fyrir ókristilegt mannát og drepa þá.
Í dag eru Kalinago-frumbyggjar (Karíbar) á Dóminíku rétt um 3 prósent þjóðarinnar. Breski landstjórinn sem réði eyjunni fyrrum gerði samning við Karíba árið 1903 og úthlutaði þeim sjálfstjórnar- eða verndarsvæði á norðaustanverðri eynni sem þeir hafa haldið síðan. Karíbar á Dóminíku hafa nýlega unnið talsvert í að hefja arfleifð sína til vegs og virðingar. Nýlega samþykktu þeir að framvegis skuli þeir vera kallaðir Kalinago-fólk og hafa vísað í samþykkt sem ættbálkaráð frumbyggja á norðurslóðum gerði árið 1982 en þeir samþykktu að samheiti ættbálka frumbyggja í kringum norðurheimskautið skyldi vera „Ínúítar“ og leggja skyldi af notkun orðsins „Eskimói“. Sama er upp á teningnum með Kalinagó-fólkið og virðist þessi ákvörðun vera virt og njóta almenns stuðnings.
Meirihluti íbúa Dóminíku dagsins í dag eru hins vegar af afrísku bergi brotnir og afkomendur fólks frá vesturstönd Afríku sem flutt var til Karíbahafsins nauðugt viljugt. Þeir eru mismikið blandaðir Kalinago-fólki og Evrópubúum. Þeir eru líkir íbúum eyríkja og einangraðra staða í háttum og eru forvitnir um aðkomumenn – taka þeim fagnandi og finnst gaman þegar gesti ber að garði og eru almennt greiðviknir og bóngóðir. Enska er töluð á Dóminíku en einnig frönsk kreóla-tunga sem er einnig töluð á nálægum eyjum.
Land og lega
Dóminíka er 15 gráðum norðan við miðbaug og hitafar afar stöðugt. Lægsti hiti sem mælst hefur á Dóminíku síðan mælingar hófust eru 16°C en hiti yfir daginn er að jafnaði um 27-28°C og um 21-23° að nóttu.
Mikil úrkoma setur mark sitt á eyjuna og mikið rof í landslagi, djúpir árfarvegir, gil og gljúfur eru einkennandi fyrir þessa hálendu eldfjallaeyju en hæsti fjallstindur hennar rís 1447 m yfir sjávarmál. Eyjan er um 750 km2 að flatarmáli og er nær öll klædd gróskumiklum regnskógi. Þar sem aðstæður leyfa hafa menn brotið land undir ræktun og ekki er óalgengt að sjá banana ræktaða í snarbröttum fjallshlíðum.
Á stöku stað finnast flatir blettir og þar vex og dafnar alls kyns grænmeti og ávextir. Halli lands er fremur afstætt hugtak meðal Dóminíkubúa. Land sem kallað er í fasteignaauglýsingum „gently sloping“ getur verið með allt að 30° halla þannig að allt sem hallar minna er nánast flatlendi í þeirra huga.
Helsta náttúrufarslega ógn Dóminíku eru hitabeltislægðir eða fellibyljir sem renna sér upp að eyjunni í ágúst og september. Þann 29. ágúst 1979 gekk fellibylur í flokki 5 yfir Dóminíku, en það eru með allra kröftugustu fellibyljum. Eyðileggingin var gríðarleg og um 70 prósent íbúa misstu heimili sín, nær öll uppskera fór forgörðum og 56 manns fórust, mest af völdum skriðufalla og flóða.
Dóminíkubúar minnast fellibylsins David með harm í huga en höfðu blessunarlega sloppið við aðrar slíkar náttúruhamfarir allt þar til þann 27. ágúst 2015. Veðurstofur sáu fyrir mikla hitabeltislægð sem myndaðist við Grænhöfðaeyjar, hinum megin í Atlantshafinu og var lægðin nefnd „Tropical Storm Erika“. Erika stefndi þvert yfir hafið með miklum vindstyrk, beint á austanvert Karíbahafið. Vindstyrkurinn gekk niður þegar nær dró og þegar lægðin kom yfir Dóminíku var hún nær vindlaus en henni fylgdi gríðarleg úrkoma. Á tólf tímum nam úrkoman um 300 millimetrum, mikil leifturflóð runnu niður snarbrattar fjallshlíðarnar og sakleysislegustu sprænur breyttust á augabragði í beljandi stórfljót. Heilu þorpin skoluðust á haf út og gríðarmikið tjón varð, mest á suðaustanverðri eynni. Alls er talið að 32 hafi farist. Til allmargra hefur ekkert spurst enn og eru þeir grafnir undir skriðum eða hafa borist til hafs.
Landið var algjörlega lamað í nokkra daga og öll kerfi gengu úr lagi, skortur var á drykkjarvatni og flugvöllur eyjarinnar varð ónothæfur. Nokkurn tíma tók því að koma hjálpargögnum til landsmanna en yfirvöld i Venesúela og á nágrannaeyjunum Guadaloupe og Martinique brugðust skjótt við og sendu þyrlur og skip til að bjarga fólki sem var innlyksa og til að færa þeim nauðsynlega lífsbjörg.
Tjónið sem varð er talið nema um 480 milljónum bandaríkjadala. Ljóst var að það myndi taka landið langan tíma að rétta úr kútnum og komast yfir þetta áfall en ógæfan reið ekki við einteyming í Karíbahafinu. Þann 18. september 2017 náði fellibylurinn María ströndum Dóminíku með gríðarlegum veðurofsa. Fellibylurinn var í flokki 5, vindstyrkur náði 280 km/klst. (78 m/s), loftþrýstingur var 908 hPa og úrkoma gríðarlega mikil á skömmum tíma.
Veðrið brast á eftir að tók að dimma og við tók skelfileg og ógnvekjandi nótt hjá Dóminíkubúum. Skemmst er frá því að segja að allt fauk sem fokið gat og hvarf í sortann. Allt lauf hreinsaðist af trjám og eftir stóðu einungis berir stofnar stærstu trjáa. Um fjórðungur allra húsa eyðilagðist algjörlega en nær öll hús á eyjunni urðu fyrir meiri eða minni skemmdum. Skriður lokuðu samgönguleiðum, síma- og veitukerfi skemmdust og ekkert lífsmark var merkjanlegt dagana eftir að fellibylurinn gekk yfir.
Ekki náðist neitt samband við eyjuna og ættingjar og vinir á nærliggjandi eyjum og í öðrum löndum óttuðust um afdrif fólksins. Eftir nokkurra daga óvissuástand náðist talstöðvarsamband við radíóamatör á Dóminíku og menn ferðuðust yfir fjöll og dali til að koma skilaboðum til og frá.
Alls er talið að 65 manns hafi farist af völdum fellibylsins Maríu og af þeim eru 34 sem ekkert hefur spurst til. Tjónið sem varð nam 225 prósent af þjóðartekjum Dóminíku (GDP 2016) eða 1,3 milljörðum bandaríkjadala. Alþjóðasamfélagið brást við og bárust hjálpargögn víða að, meðal annars sendi Rauði krossinn á Íslandi sendifulltrúa á staðinn til að aðstoða við skráningu fólks og skipulagningu. Um einu ári eftir fellibylinn Maríu var enn talsverður fjöldi íbúa á Dóminíku án rafmagns og uppbyggingarstarf hefur gengið fremur hægt og verið samfélaginu erfitt og kostnaðarsamt.
Atvinna og lifibrauð
Flestir Dóminíkubúar starfa með einum eða öðrum hætti við akuryrkju en ferðaþjónustu hefur vaxið fiskur um hrygg á síðustu árum. Um miðja síðustu öld voru bananar helsta útflutningsvara Dóminíku og voru þeir fluttir með skipum til meginlands Evrópu og Bretlands.
Oft hef ég heyrt það sagt að það sem ruddi brautina og stuðlaði að vexti og viðgangi bananaræktunar hafi verið Toyota Hilux. Pallbíllinn knái var landbúnaðartækið sem olli straumhvörfum og gerði fólki kleift að flytja afurðirnar úr fjalladölum og úr mikilli hæð niður brattar brekkur til skips. Þessir afbragðsgóðu pallbílar sjást enn á götum Dóminíku en eru margir orðnir talsvart laskaðir eftir langa og dygga þjónustu.
Árið 2012 varð fyrst vart við skæða sveppasýkingu á bananaplöntum á Dóminíku (Sikatoka) og hefur bananarækt stórlega dregist saman síðan þá. Unnið er að því að fá önnur yrki banana til eyjarinnar sem hafa meira þol gagnvart sjúkdómum og vonandi tekst að koma fótunum aftur undir þessa mikilvægu útflutningsgrein.
Skemmtiferðaskip eru burðarásinn í ferðamannabransanum á Dóminíku en á ári hverju ári eru ríflega 200 komur skemmtiferðaskipa til eyjarinnar. Tímabilið er frá því í byrjun október og fram í maí þegar fellibyljatíminn gengur í garð. Skipin leggjast að snemma á morgnana og farþegarnir rölta í land þegar þeir eru búnir að snæða morgunverð um borð og nesta sig fyrir daginn. Smárútur og leigubílar fara svo með þá rúnt um eyjuna, sýna þeim fossa og gil, gróður og mannlíf og aka þeim svo aftur til skips í kvöldmat.
Viðbúið er að einn og einn farþegi kaupi vatnsflösku og minjagrip á hafnarbakkanum en þeir eyða vart meiri peningum í landi. Útgerðir skipanna sjá um að selja miða í skoðunarferðir og nær allur arður af þessum ferðamönnum situr eftir hjá útgerðum skemmtiferðaskipanna. Mörgum eru skemmtiferðaskipin þyrnir í augum og benda iðulega á að það sé ekkert upp úr þessu að hafa.
Vandinn liggur í því að ekki er úr mörgu öðru að moða því það er ekki margt fólk sem leggur leið sína til Dóminíku á eigin vegum. Gistinætur ferðamanna á Dóminíku eru því fremur fáar og tómlegt og lítið að gera utan skemmtiferðaskipatímans. Í seinni tíð hefur þó tekist að koma upp nokkrum „eco-resort“ hótelum sem bjóða gistingu í smáhýsum úti í regnskóginum og eru helst sniðin að þörfum efnameiri ferðamanna.
Ferðaþjónusta á Dóminíku hefur lagt talsvert í að markaðssetja eyjuna sem áfangastað náttúruunnenda, lífrænt ræktaða fólksins og annarra sem hugnast ekki mannmergð, sólarstrendur og skyndibiti. Gríðarmiklir möguleikar eru fyrir áhugafólk um gönguferðir og náttúruskoðun, heilsusamlegan og upprunalegan mat og hreina óspillta náttúru. Helsta slagorð ferðamálaráðs Dóminíku er „The Nature Island of the Caribbean“ og talsvert miklu af takmörkuðum fjárráðum hins opinbera er varið í markaðsstarf og kynningu. Leit á netinu að „Discover Dominica“ skilar áhugaverðum niðurstöðum.
Fiskveiðar eru nokkuð veigamikill atvinnuvegur. Mest allur afli fer til neyslu innanlands og er seldur á bryggjunni. Mjög aðdjúpt er við Dóminíku og því eru uppsjávarfiskar uppistaðan í aflanum, ýmsar tegundir af sverð- og túnfiski sem veiddar eru á línu og makríll og smáfiskur sem gengur í torfum og veiddur er í nót.
Það sem hamlar fiskveiðum aðallega er aðstöðuleysi til að verka aflann og skortur á tryggri raforku til frystingar og geymslu. Smábátahöfn og frystiaðstaða er í Roseau þar sem sjómenn geta jafnframt fengið ís. Japanir byggðu höfnina og frystihúsið árið 2000 – að því er talið er til að liðka fyrir góðu atkvæði í Alþjóðahvalveiðiráðinu. Að verki loknu sáu Dóminíkubúar frekar möguleika á hvalaskoðun og lögðust öndverðir gegn hvalveiðum.
Jarðhitarannsóknir og eldfjallasaga
Dóminíka er að mestu hlaðin upp í eldsumbrotum síðustu árþúsunda. Hina langa keðja eyja í austan- og sunnanverðu Karíbahafi er svokallaður eyjabogi. Hann verður til á plötuskilum þar sem önnur platan þrýstist niður undir hina. Þegar úthafsplatan gengur niður í möttulinn bráðnar hún að hluta til, bergkvikan leitar í kvikuhólf innan við plötuskilin og við og við rís bráðin bergkvika til yfirborðs og eldgos verður á hafsbotni. Upp hleðst eyja og með tímanum verður til röð eða keðja af eyjum samsíða plötuskilunum.
Eyjabogi Karíbahafsins er síður en svo einsdæmi. Margir slíkir eyjabogar eru þekktir og víðast hvar er þar mikil eldvirkni og jarðskjálftar tíðir. Kvika sem kemur upp er ísúr og seigfljótandi, afar gasrík og verða oftast öflug sprengigos á eyjunum með gríðarmiklu gjóskufalli og gjóskuflóðum. Nýleg dæmi eru gosvirkni í eldfjallinu Soufrière Hills á Montserrat sem var með hléum frá 1995 til 2010 og allmikið sprengigos varð í Soufrière eldjallinu á St. Vincent árið 2021. Þá fórust um 29 þúsund manns í gjóskuflóði er eldfjallið Mont Pelée á eyjunni Martinique gaus árið 1902.
Stórt eldgos varð síðast á Dóminíku fyrir um 30.000 árum. Það var gríðarmikið sprengigos og eru mörg hundruð metra þykk gjóskulög á sunnan- og vestanverðri eyjunni mynduð í því gosi. Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur átti stærstan þátt í að kortleggja útbreiðslu gjóskulaga á hafsbotni í grennd við Dóminíku og stundaði um árabil rannsóknir á eldvirkni eyjabogans. Einu umbrotin sem hefur orðið vart við á síðustu árhundruðum eru gufusprengingar á suðaustanverðri eyjunni þar sem mikil jarðhitavirkni er á yfirborði.
Orkumál – endurnýjanleg orka
Nær allar smærri eyjar Karíbahafsins eru háðar jarðefnaeldsneyti til raforkuframleiðslu og á Dóminíku eru 60-70 prósent af raforku eyjarinnar framleidd með díselrafstöðvum. Eitt stöðuvatn (4-5 hektarar) er á hálendinu upp af Roseau-dalnum austur af höfuðstaðnum og eru fjórar litlar vatnsaflsvirkjanir sem nýta fallið á leiðinni til sjávar.
Alls eru framleidd 6,4 MW með vatnsafli. Heildar uppsett afl á Dóminíku eru 26,5 MW en mesta raforkuþörf er um 17,5 MW og því er rafmagn framleitt með vatnsafli allt að þriðjungur af allri raforku sem þar er notuð.
Rafmagn er dýrt (0,36 USD/kWh) og notkunin því að sama skapi lítil og hamlandi fyrir þróun atvinnulífs, iðnaðar og þjónustu. Á Dóminíku eru tækifæri til jarðhitanýtingar. Vel heppnuð nýting jarðhita til raforkuframleiðslu verður án efa mikið framfaraskref fyrir Dóminíku og mun minnka útblástur og losun gróðurhúsalofttegunda.
Margir hverir og laugar eru á Dóminíku og hafa eyjaskeggjar notað hveravatnið til baða og þvotta um aldir. Á áttunda áratug síðustu aldar var hrundið af stað rannsóknarverkefni til að kanna útbreiðslu jarðhita á eyjum í sunnanverðu Karíbahafi. Var það verkefni að undirlagi samtaka Ameríkuríkja (OAS) en um miðjan níunda áratuginn tók franska jarðfræðistofnunin (BRGM) við verkefninu.
Gefin var út lokaskýrsla árið 2008 um þá staði sem líklegastir voru taldir til nýtingar. Vísindamenn töldu einsýnt að Dóminíka væri vænlegasti kosturinn og var lagt til að boraðar yrðu rannsóknarholur til að kanna jarðhita í iðrum eyjarinnar. Verkið var boðið út og áttu Jarðboranir hf. hagstæðasta tilboðið og samið var við ÍSOR um jarðfræðirannsóknir, borholumælingar, efnasýnatöku og afkastamælingar. Áður hafði ÍSOR unnið að gerð útboðsgagna fyrir stjórnvöld á Dóminíku og hannað borholurnar, tengd mannvirki og búnað.
Borun fyrstu holunnar hófst í nóvember 2011 og lauk rétt um áramót. Þá var flutt yfir á næstu holu, hún kláruð í febrúar 2012. Þriðja rannsóknarholan var kláruð í kjölfarið og lauk borun hennar í mars 2012. Holurnar voru allar afkastamældar í blæstri og ýmsar rannsóknir gerðar og gagna aflað um gerð og eðli jarðhitakerfisins sem borað var í.
Fjármagn til þessara rannsóknaborana fékkst frá franska þróunarsjóðnum (AFD), þróunarsjóði ESB og heimamenn greiddu um 10 prósent af kostnaðinum. Um mitt ár 2013 tókst stjórnvöldum á Dóminíku að semja við franska þróunarsjóðinn um lánsfé til borunar einnar niðurrennslisholu og einnar vinnsluholu til viðbótar og var því verki lokið í mars 2014.
Starfsmenn ÍSOR héldu síðan á vettvang í júní 2014 og mældu hita og afköst vinnsluholunnar. Ótruflaður hiti í jarðhitakerfinu reyndist vera um 270°C, kerfið er með fersku vatni og vel opið og lekt og gufan sem kom úr holunni myndi duga til að framleiða 8-9 MW af rafmagni. Verðmiðinn á borholu til vinnslu jarðhita úr háhitakerfi er almennt í grennd við um 5-10 milljónir bandaríkja. Stjórnvöld á Dóminíku hófu viðræður við hóp franskra opinberra og einkarekinna fyrirtækja þegar vinnslugeta jarðhitakerfisins var orðin nokkuð vel þekkt og hugmyndin var að reisa 7-10 MW jarðhitavirkjun til að þjóna innanlandsmarkaði en frönsku aðilarnir höfðu einnig hug á frekari uppbyggingu með útflutning á raforku í huga til nálægra eyja um sæstreng. Upp úr þeim viðræðum slitnaði og lítið gerðist í málinu um hríð.
Stjórnvöld á Nýja-Sjálandi sýndu verkefninu áhuga og lögðu til fjármagn og sérfræðiþekkingu til að mjaka málinu áfram. Stofnað var félag um rekstur jarðhitaauðlindarinnar og raforkuframleiðslu og er það að fullu í opinberri eigu. Undir forystu nýsjálensks framkvæmdastjóra voru gerðar áætlanir um byggingu virkjunar og var undirbúningur virkjunarinnar gerður að hluta stefnu stjórnvalda um aðgerðir í loftslagsmálum. Undir hatti þess verkefnis var sótt um styrk til Alþjóðabankans og fékkst styrkur upp á um 20 milljónir bandaríkjadala til að styrkja innviði í kringum jarðhitanýtinguna, vegi, lagnir og veitukerfi, ásamt regluverki og löggjöf um jarðhitanýtingu, eignarhald og afgjald auðlindarinnar.
Hugmyndin er síðan að fá til þess bæra aðila til að byggja og reka áðurnefnda 7-10 MW jarðhitavirkjun. Raforkukaupasamningur hefur verið gerður við fyrirtæki sem sér um dreifingu raforku á Dóminíku en umrætt fyrirtæki (Domlec) var að stærstum hluta í eigu einkaaðila. Stjórnvöld á Dóminíku keyptu meirihluta í Domlec og fara nú með ráðandi hluta en forsætisráðherra landsins hefur lýst yfir að innviðir eins og raforku- og neysluvatnsdreifing eigi að vera í höndum ríkis en ekki einkaaðila.
Verkið var boðið út á alþjóðlegum vettvangi og fimm borverktakar skiluðu inn tilboðum. Jarðboranir hf. á Íslandi áttu hagstæðasta tilboðið en fyrirtækið var auk þess talið búa yfir mestri reynslu og þekkingu á aðstæðum á Dóminíku, enda búið að bora þar fimm holur áður. Í byrjun október hófust flutningar á tækjum og efnum til að bora tvær 1500-1700 metra djúpar stefnuboraðar jarðhitaholur og hófst borun um miðjan nóvember. Áhöfn borsins er að stórum hluta íslensk og með verkeftirliti og stjórnun má ætla að allt að tuttugu Íslendingar séu nú að störfum á Dóminíku.
Fram undan eru síðan samningar stjórnvalda á Dóminíku við aðila sem er reiðubúinn að setja upp gufuaflsvirkjun sem myndi framleiða 7-10 MW til að selja inn á raforkudreifikerfi eyjarinnar. Það má hiklaust benda á mikilvægi verksins fyrir loftslagsmarkmið Dóminíku.
Ef verkefnið gengur samkvæmt áætlun og virkjunin rís, mun Dóminíka komast í hóp ríkja sem nýta nær eingöngu endurnýjanlega raforku til innanlandsnotkunar. Þar með kemst Dóminíka í hóp með Íslandi, Noregi og Costa Rica þar sem öll raforka er framleidd með vatnsafli og jarðhita. Vonir allra standa til þess að til verksins verði fenginn aðili sem finnur sig í að þjóna samfélagslegum markmiðum en lætur ekki hagnaðarvonina eina leiða sig áfram. Allar aðstæður lofa góðu um að jarðhitavirkjun á Dóminíku verði eftirtektarverð framkvæmd og til fyrirmyndar fyrir aðra sem hyggjast ná loftslagsmarkmiðum með nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa auk þess sem framkvæmdin rennir styrkum stoðum undir orkuöryggi þjóðarinnar.
Höfundur er jarðhitasérfræðingur hjá Íslenskum orkurannsóknum, ÍSOR.