Samantekt
Tuttugasta öldin varð öld steinsteypunnar á Íslandi. Þótt vissulega væri líka byggt úr timbri má segja að steypan hafi í raun leyst af torfhýsin, sem ekki héldu vatni og voru bæði rök og köld. Læknar töldu þau óheilbrigð og orsök sjúkdóma. Þetta hafði sitt að segja um það að steinsteypan varð aðalbyggingarefnið á Íslandi alla tuttugustu öldina.
Steinsteypan er margslungið og vandmeðfarið efni þótt grunnuppskriftin sé einföld: Sandi, möl og sementi er blandað saman við vatn og blandan látin harðna. En þótt auðvelt sé að búa hana til verður hún ekki endilega góð og það er ekki sama hvernig blöndunarhlutföllin eru. Rétt hlutföll vatns og sements eru forsenda þess að steypan verði vatnsheld og endingargóð.
Eiginleikar góðrar steypu eru mikil ending, styrkur og þéttleiki. Góð steypa tekur ekki í sig vatn eftir að hún er fullhörðnuð. Of hátt hlutfall vatns í steypu veldur því hins vegar að hún verður gegndræp eftir hörðnun og heldur því ekki vatni, sem leiðir til myglu, frostskemmda og fleiri vandamála.
Rannsóknir á vegum Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins (RB) og Sementsverksmiðju Ríkisins með aðkomu Steinsteypunefndar leiddu á sínum tíma til þess að alkalískemmdir í íslenskri steinsteypu heyra sögunni til. Það á nú einnig við um Nýsköpunarmiðstöð Íslands, sem tók við keflinu af RB árið 2007.
En nú er enn eitt vandamálið komið upp og það er myglan. Í stað kuldans og rakans með öllum sínum heilsuvandamálum í gömlu torfkofunum er það hitinn og rakinn í nýju steinsteyptu húsunum, sem býður myglugróðri hagstæð vaxtarskilyrði og skapar um leið ný heilsuvandamál.
Og þótt Sementsverksmiðjunni og RB hafi tekist að komast fyrir alkalískemmdir í íslenskri steinsteypu þá lauk Steinsteypunefnd aldrei upphaflegu verkefni sínu, sem var að koma í veg fyrir grotnun og skemmdir í íslenskri steypu og finna leið til að forðast leka og raka í íbúðarhúsum. Niðurstaða rannsókna Steinsteypunefndar á grunnorsökum steypuskemmda á Reykjavíkursvæðinu kom fram í skýrslu dr. Ríkharðs Kristjánssonar, sem út kom kringum 1990. Þar kom fram að þær væru vegna of hás hlutfalls vatns móti sementi við gerð steypunnar og ófullnægjandi eftirmeðhöndlunar hennar á byggingarstað.
Var þessi niðurstaða í samræmi við niðurstöður erlendra rannsókna um að hönnuðir og byggingaraðilar bæru mesta ábyrgð á skemmdunum. Því hlýtur nú að teljast nauðsynlegt að stofna nýjan starfshóp, „Myglunefnd“, til þess að leysa þennan vanda byggingariðnaðarins, þ.e. ofnotkun vatns við niðurlagningu steypunnar.
Það kallar á að fulltrúar byggingariðnaðarins, hönnuðir og verktakar taki virkan þátt í að leysa vandann ásamt hinu opinbera. Enn vantar rannsóknaraðstöðu eftir að bæði RB og Nýsköpunarmiðstöð hafa verið lagðar niður. Væri nú ef til vill ráðlegt að byggingarannsóknirnar fari aftur til Háskóla Íslands, þar sem þær voru í árdaga?
Fyrstu kynni af steypunni
Ég hafði ekki náin kynni af gerð steinsteypu fyrr en ég var kominn á fullorðinsár og tekinn að starfa við Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins ( RB ) og síðar Sementsverksmiðju ríkisins ( SR ). Ég ólst upp á prestssetri norður í Fljótum Skagafirði. Fyrstu minningar mínar af steypugerð voru rétt fyrir heimsstyrjöldina síðari. Smáframkvæmdir, þar sem steypa var hrærð með skóflum á trépalli.
Ég fékk að prófa að aka upp sliskjuna. Tók ég þá eftir því, að steypan í hjólbörunum var óvenjulega þurr, eiginlega eins og kökkur í börunum. En ég fann að aksturinn upp sliskjuna var miklu einfaldari með þurra steypu en fljótandi, sem hefði runnið aftur úr börunum. Ég ályktaði að þetta væri ástæðan, þar sem þeir sem tóku við steypunni uppi á hæðinni kvörtuðu oft um óþægilega þurra steypu við niðurlögnina. Síðar kynntist ég því, að of mikið vatn skaðaði endingu steypunnar. Ég vona að þessi þurra steypa hafi gagnast í prestshúsinu.
Steinsteypan og Rannsóknastofnun Byggingariðnaðarins
Eftir hefðbundna gegnumferð menntaskóla hóf ég háskólanám í ólífrænni efnafræði í Þýskalandi. Ég tók þar svo doktorspróf, sem byggðist á rannsóknum á samböndum kísils ( silísíum ) og köfnunarefnis. Að því loknu sóttist ég eftir starfi á Íslandi. Það fékk ég við nýskipaða stofnun fyrir byggingariðnaðinn, Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins ( RB ).
Stofnunin var hluti af nýsköpun rannsóknamála atvinnulífsins, sem áður var á hendi Atvinnudeildar Háskóla íslands ( AHÍ ). RB hóf starfsemi í janúar 1965 og var framkvæmdastjóri hennar Haraldur Ásgeirsson verkfræðingur, sem áður hafði stjórnað byggingardeild AHÍ . Ég var einn af nýráðnum verkfræðingum stofnunarinnar. Haraldur var efnaverkfræðingur eins og ég, hinir voru byggingarverkfræðingar. Fyrsta verkefni mitt við stofnunina var við gatnagerð, að rannsaka viðloðun vegaolíu við steinefni, en þarna var að hefjast notkun á nýju yfirborðsefni fyrir vegi og götur, svonefndri olíumöl.
Ári síðar eða svo kom þáverandi Vita- og -hafnamálastjóri í heimsókn til að ræða steypugæði fyrirhugaðra hafnarmannvirkja í Þorlákshöfn. Á þessum tíma voru einnig að hefjast miklar virkjanaframkvæmdir á Þjórsársvæðinu. Þetta leiddi af sér umræður um þessi nýju framtíðarverkefni hjá RB. Fram að þessu höfðu steypurannsóknir ekki verið mikið stundaðar hérlendis og snerust þá aðallega um steypuhráefni . Það breyttist með tilkomu Haraldar Ásgeirssonar í byggingarannsóknirnar. Í stöðu sinni hjá AHÍ hafði hann aflað nokkurs tækjabúnaðar til mælinga á steypustyrk og öðrum grunntækjum við steypurannsóknir.
Meðal verkfræðinga hjá hinni nýstofnuðu Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins hófst nú lífleg umræða um íslenska steinsteypugerð. Þarna var ég skyndilega kominn inn í umræður á sviði sem ég hafði litla þekkingu á, því menntun mín var bundin við grunnrannsóknir á flóknum samböndum kísils og köfnunarefnis. Þar að auki var reynsla mín af störfum utan rannsóknastofu takmörkuð. Þar höfðu byggingarverkfræðingarnir samstarfsmenn mínir meiri reynslu.
Steinsteypuvæðing Íslands
Um þetta leyti var rúm hálf öld liðin frá því að þekking á steinsteypugerð barst fyrst til Íslands. Rétt fyrir aldamótin 1900 kom frá námi í Kaupmannahöfn ungur læknir, Guðmundur Hannesson. Honum ofbauð hversu léleg húsakynni Íslendinga voru. Taldi hann gömlu torfhúsin, sem héldu hvorki veðri né vatni, hinar mestu sýklastíur og hóf að tala fyrir betri byggingarhefð. Lagði hann mikla áherslu á gæði steinsteypunnar, hins nýja byggingarefnis, sem m.a. varði híbýli manna fyrir vatni.
Fékk steypan hér strax góðar viðtökur og varð brátt aðalbyggingarefnið enda mikil framför frá torfbyggingum þeirra tíma. Mikið hafði þar að segja hversu einfalt var að búa hana til, nánast eingöngu þurfti að afla tiltölulega hreinnar blöndu af sandi og möl og hræra saman við sement og vatn.
Gæðaþróun steypunnar hélt svo áfram þegar leið á tuttugustu öldina. Í upphafi var mest litið til styrks hennar, bæði þrýsti- og beygjutogþols hennar. Síðar hófust athuganir og rannsóknir á endingu steypunnar, þ.e. hvernig hún stóðst álag ýmissa utanaðkomandi áhrifa, svo sem frosts og þíðu, jarðhræringa, saltefna ýmiss konar o.s.frv.
Hráefni, hrærsla og niðurlagning
Rannsóknirnar sýndu að gæði steinsteypunnar voru mjög mismunandi eftir samsetningu hennar og hrærslu. Upphaflega var talið að með auknum styrk myndu ending og aðrir jákvæðir eiginleikar batna. Þetta reyndist ekki alls kostar rétt og með vaxandi notkun steinsteypu var farið að leita að bestu samsetningu hennar og bestu aðferðum við hrærsluna. Kom þá í ljós að meðferð steypunnar við að koma henni fyrir á byggingarstað hafði ekki síður afgerandi áhrif á gæði hennar í mannvirkinu en framleiðsla hennar.
Þessi þekking leiddi til þess, að allar rannsóknir á steinsteypu beinast í dag að þessum þremur þáttum við gerð hennar, þ.e. hráefnunum, hrærslunni og meðhöndlun við niðurlagningu hennar. Á rannsóknastofu eru rannsóknir á hráefnum og hrærslu steypunnar gerðar í samræmi við mannvirkið, sem hún skal notast í. Eftir hörðnun og mælingar á styrk steypunnar eru endingarlíkur hennar metnar í sérstökum veðrunarstöðvum, þar sem steypan er útsett fyrir áhrifum, sem gætu haft áhrif á endingu hennar í viðkomandi mannvirki.
Efnafræði sements og Sementsverksmiðja Ríkisins
Efnafræði sementsins var Haraldi Ásgeirssyni mjög hugleikin, en hann hafði stundað rannsóknir á henni í námi sínu í Bandaríkjunum. Þar voru ýmsir vísindamenn um þetta leyti að rannsaka sérstaklega áhrif svonefndra possólanefna á þéttleika steypunnar. Possólanefni eru gosefni, þekkt í sögu steinsteypunnar allt frá upphafi hennar. Hóf Haraldur þegar rannsóknir á possólaneiginleikum íslenskra gosefna við AHÍ. Þær sýndu að þeir voru víða ríkulega fyrir hendi hér á landi.
Nú bættust við umræður um sementsframleiðsluna í Sementsverksmiðju Ríkisins (SR) á Akranesi. Þótti íslenska sementið illa standast styrkleikakröfustaðla og svo bættist við að innihald þess af alkalísöltum (natríum- og kalíumsöltum) reyndist mjög hátt.
Mikið magn alkalísalta í íslenska sementinu var talið mjög varhugavert, þar sem rannsóknir höfðu sýnt að þau gætu við aðkomu vatns myndað hlaup í steypunni, sem aftur kallaði fram innri þrýsting og sprungumyndun í henni. Því var talin hætta á að ekki væri hægt að nota íslenska sementið í þær viðamiklu framkvæmdir við virkjana- og hafnarmannvirki, sem þá voru á döfinni. Aftur á móti höfðu rannsóknir erlendis sýnt að steypu í þurru umhverfi, svo sem í íbúðarbyggingum, stafaði ekki hætta af alkalísöltunum.
Í þjóðfélaginu spunnust nú áfram miklar umræður um rekstur SR, sem urðu hatrammar og pólitískar á þessum árum. Haraldur hafði kynnst rannsóknum á fyrrnefndum skemmdaráhrifum á steypu í Bandaríkjunum. Þar hafði m.a. verið reynt að verjast þeim með íblöndun possólanefna í steypuna. Haraldur taldi því að mögulega mætti koma í veg fyrir hættu af hinni svonefndu alkalíþenslu með íblöndun possólanefna í íslenska sementið og hafði þar þegar til hliðsjónar rannsóknir frá AHÍ. Hann taldi að þarna væri um þjóðhagslegt hagsmunamál að ræða og lagði til að þeir aðilar sem hefðu með mannvirkjagerð af þessum toga ( vatnamannvirki ) að gera, legðust á eitt við að leysa vandamálið.
Á þetta féllst iðnaðarráðherra, sem árið 1967 skipaði nefnd með fulltrúum frá öllum valdastofnunum landsins, sem höfðu með mannvirkjagerð að gera. Nefndin fékk hið viðeigandi og lýsandi nafn, Steinsteypunefnd.
Steinsteypunefnd
Steinsteypunefnd var ætlað að vinna gegn grotnun í íslenskri steinsteypu og greina hversu mikil áhrif eiginleikar íslenska sementsins hefðu á myndun steypuskemmda, sérstaklega í steyptum vatnamannvirkjum. Þær valdastofnanir sem höfðu með mannvirkjagerð á vegum hins opinbera að gera og skipuðu Steinsteypunefnd voru: Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, Vita- og hafnamálastofnun, Vegagerð ríkisins, Landsvirkjun, Borgarverkfræðingur, Sementsverksmiðja ríkisins, og svo Meistarasamband byggingamanna. Formaður nefndarinnar var skipaður Haraldur Ásgeirsson forstjóri RB. Gert var ráð fyrir að Steinsteypunefnd hefði aðsetur hjá RB og að stofnunin væri ábyrg fyrir framkvæmd rannsóknanna.
Nefndin hóf þegar störf og hélt fjölmarga fundi. Með tilliti til þess sem síðar varð er áhugavert að skoða þá lausn á vandamálinu, sem þáverandi iðnaðarráðherra, Jóhann Hafstein, lagði upp með. Hann sá að hér var um þjóðhagslegt tæknivandamál að ræða, sem leysa yrði í sameiningu af forstöðumönnum opinberra framkvæmda á breiðum grundvelli. Áhugavert er einnig að minnast þess, að á þessum tíma voru allir forstöðumenn þessara opinberu stofnana verkfræðingar með sérþekkingu og reynslu hver á sínu sviði. Á þessu hefur síðan orðið breyting í áranna rás, því miður, en ljóst er að það er afturför sem illa þjónar gerð og þróun mannvirkja í landinu.
Þá er einnig athyglisvert í þessu sambandi, að fulltrúi Meistarasambands byggingamanna tók lítinn þátt í starfi nefndarinnar. Skýringin á því er væntanlega sú, að vandamálið sem nefndinni var ætlað að leysa, þ.e.a.s. samsetning íslenska sementsins og efnaferill alkalíþenslunnar, var fyrst og fremst talið af efnafræðilegum toga. Aftur á móti voru fulltrúar steypustöðvanna í Reykjavík brátt kallaðir í nefndina, sérstaklega vegna samsetningar, hreinsunar og þvottar hráefna í steypuna.
Aukinn kraftur í rannsóknir
Haraldur setti á laggirnar sérstaka steypurannsóknadeild innan RB, sem fékkst við verkefni Steinsteypunefndar. Þar sem íslenska sementið var upphaf og endir þessa verkefnis var mér falið umsjón með því. Leysa skyldi vandamálið með efnafræðilegu inngripi í hörðnunarferil steypunnar. Á þessum árum hafði alkalíþensla ekki verið þekkt lengi sem skemmdavandamál í steinsteypu og var að auki nokkuð staðbundin.
Ég hóf starfið með því að afla mér þekkingar og upplýsinga um sement almennt, en einnig sérstaklega um þetta nýja skemmdaafbrigði. Þessi þekkingarleit tók alllangan tíma, enda hafði ég þá afar takmarkaða þekkingu á sements- og steypuframleiðslu. Mjög snemma var hafin leit að erlendri ráðgjöf og danski verkfræðingurinn dr. Gunnar Idorn fenginn til starfans. Í gegnum hann kynntumst við því, að steypusérfræðingar ýmissa vestrænna landa höfðu myndað með sér sérstakt samband rannsakenda, til þess að ráða bót á alkalíþenslunni. Var okkur boðið að tengjast hópnum.
Þegar voru fyrir hendi bandarískir staðlar við að mæla þensluna. Rannsóknirnar hér hófust með því að safna saman sýnum af vænlegum possólanefnum í nágrenni Akraness. Lengdarmælingar steypustrendinga sýndu í öllum tilfellum umtalsvert minni þenslu með íblöndun þessara efna eftir fínmölun.
Blanda þurfti allt að 10% þessara efna í steypuna, til þess að standast kröfur staðalsins. Þótti þetta góður árangur, nú var aðeins eftir að blanda efnunum í sementsmölunina á Akranesi og reyna efnin í alvöru steypu. Mikill ókostur var þó, að með aukinni íblöndun possólana í sementið lækkaði byrjunarstyrkur þess, sem þýddi lengri þornunartíma. Það var ekki að skapi byggingarverktaka, sem töldu lengingu á byggingartíma auka byggingarkostnað, sem þó var ærinn fyrir.
Vel löguð steypa er vatnsþétt
Possólanrannsóknirnar staðfestu einnig upplýsingar erlendra tilrauna, sem sýndu að alkalíþensla kom ekki fram í þurri steypu og því var steypa í íbúðarbyggingum ekki talin vera í hættu, heldur eingöngu steypa, sem var í stöðugri snertingu við vatn. Þar sem vitað var að vindþrýstingur var mikill á Íslandi og regnálag á útveggi húsa (slagregn) líka, gerðum við til öryggis aukalega tilraun með að beina vatni úr háþrýstidælu á steypuvegg, sem við síðan boruðum úr steypukjarna. Steypukjarninn sýndi að vatnið komst minna en 1 mm inn í hann. Þótti okkur þetta góð sönnun á vatnsþéttleika íslensku steypunnar.
Á alþjóðlegri ráðstefnu, sem alþjóða- alkalísambandið hélt hér á landi árið 1975 kom þetta málefni til tals. Voru þar saman komnir tugir sérfræðinga á sviði alkalírannsókna. Þeir voru allir sammála um, að alkaíþensla kæmi ekki fram í þurri steypu.
Batnandi sement og betri steypa
Niðurstöður possólanrannsókna okkar hjá RB birtust árið 1971. Þá var farið að hægjast um málefni Sementsverksmiðju ríkisins, en enn var þó mikið deilt um hvort gæði íslenska sementsins væru næg. Var þess farið á leit við mig að taka við framkvæmdastjórn verksmiðjunnar, sem ég féllst á, eftir að hafa rætt við gagnrýnendur og stjórnvöld um að reyna til hins ítrasta að auka gæði sementsins.
Ég hóf störf í byrjun árs 1972 og hafist var handa strax sama ár að blanda 2% af fínmöluðu líparíti ( possólanefni ) í sementið. Einnig var fínmölun sementsins aukin, til að vega upp á móti þeirri minnkun á byrjunarstyrk steypunnar, sem steypuframleiðendur töldu að possólaníblöndunin ylli.
Þá voru einnig hafnar tilraunir með notkun meira magns af possólaníblöndun í sement sem ætlað var til notkunar i nokkur fyrirhuguð vatnamannvirki, t.d. Sigölduvirkjun. Var þróað og framleitt possólansement með 25% líparítíblöndun ( Sigöldusement ). Tilraunir með það stóðust allar prófanir og var það samþykkt í Sigöldu- og Hrauneyjafossvirkjanir og nokkur hafnarmannvirki að auki.
Í Steinsteypunefnd ríkti ánægja með árangurinn. Miðað við upprunalega verklýsingu hafði nefndin í raun þegar leyst verkefnið sem henni var falið, þar sem alkalískemmdir kæmu ekki fram í íbúðarhúsum og ekki var vitað að þannig skemmdir hefðu komið fram hér á landi.
Bakslagið: Alkalískemmdir í íbúðarhúsum
Það var svo árið 1976 sem bakslagið kom, þegar fyrstu alkalískemmdirnar fundust í íbúðarhúsi í Garðabæ. Það var árið eftir að alþjóðaráðstefna um alkalískemmdir var haldin í Reykjavík, en þar voru allir sérfræðingar á einu máli um, að alkalískemmdir kæmu ekki fram í þurri steypu og þar af leiðandi ekki í íbúðarhúsnæði. Því var brýnt að finna skýringu á þessu fráviki frá þessum viðteknu sannindum.
Vegna þeirrar miklu viðbótarhættu sem fundur alkalískemmda í íbúðarhúsnæði leiddi í ljós hóf Sementsverksmiðjan leit að sterkara possólanefni en líparíti. Tekið var til rannsóknar fíngert kísilryk sem féll til við framleiðslu kísiljárns í Járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga, rétt hjá Akranesi. Reyndist þetta ryk hafa miklu sterkari áhrif til minnkunar alkalíþenslu en líparítið.
SR, kísilrykið og Sérsteypan
Þegar Járnblendiverksmiðjan hóf framleiðslu árið 1979 var Sementsverksmiðjan tilbúin með allan tækjabúnað og blandaði nú 7.5% kísilryki og 2.5% líparíti í sementið. Sement með íblöndun kísilryks hafði ekki verið framleitt á markað áður í heiminum og fékk nú inni sem sérsement í nýjum sementsstaðli Evrópubandalagsins og reyndist hafa hátt gæðastig.
Tilkoma kísilryksins og gæðaáhrif þess bæði fyrir sementið og steypu úr því leiddi af sér umræður milli Sementverksmiðjunnar og Járnblendiverksmiðjunnar um möguleika að nýta kísilrykið betur en aðeins sem íblöndun í sement, enda byrjað að gera margs konar tilraunir í þá veru víða um heim. Var þá stofnað rannsóknafyrirtæki nefnt Sérsteypan sf. árið 1985, sem starfaði í tíu ár á Akranesi. Var fyrirtækið í jafnri eigu fyrirtækjanna tveggja.
Í Sérsteypunni sf. voru rannsökuð og þróuð byggingarefni sem byggðust á notkun sements og kísilryks sem bindiefni. Helst var þróunin bundin við viss byggingarefnasvið svo sem tilbúnar múr- eða viðgerðarblöndur ásamt búnaði til notkunar þeirra, nýrrar gerðar massasteypu í vega- og virkjanagerð, svonefndrar þjappaðrar þurrsteypu, svo og gerð ýmissa tegunda af trefjasteypu.
Fleira en sement fer í steypu
Steinsteypunefnd hélt starfi sínu ótrauð áfram. Almenn ánægja var með niðurstöður possólanrannsóknanna og að Sementsverksmiðjan skyldi hefja íblöndun possólanefnanna þegar í stað. Þá var næsta skref að kanna steypuefnin, önnur en sement.
Á höfuðborgarsvæðinu hafði verið vandkvæðum bundið að fá nægilega hrein steypuefni. Dælufyrirtækið Björgun hafði þá hafið vinnslu efnis af sjávarbotni, svonefnt Hvalfjarðarefni. Það var vel hreint en hafði þann ókost að vera alkalívirkt, þ.e. það innihélt efni, sem gátu myndað þenslumyndandi alkalíhlaup. Taldi nefndin þó í lagi að nota það, þar sem possólanrannsóknirnar höfðu verið framkvæmdar með því án vandræða.
Steypustöðvunum var aftur á móti uppálagt að þvo allt saltvatn úr steypuefnunum fyrir notkun. Komið var upp þvottaaðstöðu hjá steypustöðvunum og rannsóknir og tilraunir settar í gang, sem miðuðu að því að auka gæði steypunnar, t.d. með loftblendiefni gegn frostskemmdum, þjálniefni til að auðvelda niðurlögn steypunnar o.fl. Steinsteypunefnd kom svo á eftirliti bæði hjá Sementsverksmiðjunni og steypustöðvunum með sýnatöku og rannsóknum á sýnunum hjá RB.
Með þessum aðgerðum og kröfum um vissar rannsóknarniðurstöður taldi Steinsteypunefnd að gæði steypu frá framleiðendum hennar væri tryggð. Nú var aðeins eftir að rannsaka hvernig til hefði tekist með steypugerð á liðnum árum. Það var almennt álit að steypuskemmdir væru of algengar í húsbyggingum, sérstaklega á syðri helmingi landsins. Steinsteypunefnd setti þá í gang viðamikla rannsókn á ástandi húsa á Reykjavíkur- og Akureyrar-svæðinu árið 1977.
Rannsókn staðfesti gagnsemi possólanefna og gæði sements
Hákon Ólafsson og dr. Ríkharður Kristjánsson, starfsmenn Steinsteypunefndar, fóru fyrir þessari rannsókn. Voru fyrst skoðuð hús byggð á árunum 1956 – 1972, en lokaskýrsla kom svo um 1990.
Nokkur hundruð hús sem byggð voru á þessu rúmlega 30 ára tímabili voru dregin út af handahófi, skoðuð og sýni boruð úr þeim og rannsökuð. Í ljós komu miklar sprunguskemmdir á steypunni og orsakir flestra þeirra reyndust frostþensla eða alkalíþensla, sem hvort tveggja benti til skemmdaáhrifa vatns.
Má segja að á þessum tímapunkti hafi starfi Steinsteypunefndar lokið, þar sem hennar hlutverk hafði verið að finna vörn gegn alkalískemmdunum. Við umræður um niðurstöður sprunguskýrslu Hákonar og dr. Ríkharðs vakti sá síðarnefndi hins vegar sérstaka athygli á því, að þannig gæti Steinsteypunefnd ekki skilið við verkefnið. Eftir væri að skýra þann mikla raka sem væri í steyptum húsum og því, að frostskemmdir héldu áfram þó að alkalíþenslan væri horfin.
Böndin berast að rangri meðhöndlun á byggingarstað
Nýjar upplýsingar frá erlendum steypurannsóknastofnunum bentu eindregið til þess að helsta orsök steypuskemmda, sérstaklega sprungumyndana, væri röng meðhöndlun steypunnar á byggingarstað og því á ábyrgð hönnuða húsanna og byggingaraðila. Þetta varð til þess að ég skrifaði bréf í nafni Sementsverksmiðjunnar til Iðnaðarráðuneytisins, með beiðni um opinbera rannsókn á íslenskri steypugerð í ljósi þessara rannsóknarniðurstaðna.
Fram til þess tíma voru jú orsakir steypuskemda taldar liggja í hráefnunum; sementinu og/eða steypuefnunum. Þessi umleitan mín fékk ekki brautargengi á þessum tíma, en síðar staðfesti húsarannsókn Steinsteypunefndar að hér giltu sömu lögmál og erlendis (sjá neðar).
Á þessum árum voru svo líka að koma upplýsingar og efni, sem stuðluðu að því að steinsteypan gæti varið sig fyrir vatni. Þetta voru ýmis vatnsfráhrindandi efni á grunni kísilsýru svo sem silan, siloxan o.fl. Voru þegar hafnar viðamiklar rannsóknir við RB og athuganir á notkun þessara efna í íslenska steypu. Með þessum rannsóknum náðist umtalsverður árangur og hófu íslenskir byggingaraðilar að nota efnin á byggingarstað og við viðhald steyptra bygginga.
Heldur íslensk steypa ekki vatni?
Steinsteypunefnd hafði nú starfað í 30 ár og fulltrúar þeirra stofnana sem í henni sátu voru þá sammála dr. Ríkharði um það, að svona gæti nefndin ekki skilið við verkefnið. Var samþykkt að lengja líf nefndarinnar og beina rannsóknunum að orsökum óvenju mikils raka í útveggjasteypu, sérstaklega í byggingum á Reykjavíkursvæðinu.
Þegar þarna var komið sögu höfðu byggingaryfirvöld reyndar sætt sig við, að íslensk steinsteypa héldi ekki vatni. Farið var að verja hana vatnsálagi með margskonar klæðningum og grín var gert að ofurtrú tæknimanna á vatnsheldni steypunnar.
Þá kom fram hugmynd að nýrri hönnun á steyptum útvegg, þar sem einangrun veggjarins var utan á steypta veggnum en ekki innan hans eins og hefðin var hérlendis. Dr. Ríkharður Kristjánsson var upphafsmaður þessa veggjakerfis, sem var nefnt Íslenska múrkerfið. Það reyndist vel og náði brátt mikilli útbreiðslu.
Hin innri gerð íslenskrar steinsteypu
Árið 1991 var steypuskemmdaverkefninu haldið áfram undir nafninu „Innri gerð íslenskrar steinsteypu, ástandsskoðun.“ Hafði stofnuninni þá áskotnast nýr rannsóknarbúnaður, fullkomin bergsmásjá þar sem greina mátti innri gerð steypunnar, holrými, örsprungur, hlutfall vatns, sements og annarra efna o.fl.
Áfram var verkefnið fjármagnað sameiginlega af Steinsteypunefnd og Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins og lauk 1994. Boraðir voru kjarnar úr um 100 húsum, sem byggð voru á árunum 1976 – 1990. Margt áhugavert kom fram í niðurstöðum rannsóknarinnar um gæði steypunnar á þessum tíma.
Það voru helst tvö atriði sem vöfðust fyrir mönnum. Annað þeirra var sú almenna skoðun að raki í húsasteypu næði ekki því magni sem til þyrfti til þess að alkalíhlaup þendist nægjanlega út til að sprengja sundur þokkalega sterka steypu. Rannsóknirnar sýndu að til þessa þyrfti hlutfallsraki í steypunni að komast yfir 80%.
Rannsóknir á skemmdum húsum sýndu hins vegar að svo mikill raki náði að verða til og safnast upp í steypunni, og þá var spurningin hvers vegna það gat gerst. Ýmsar kenningar voru uppi. Veðurfarsrannsóknirnar bentu til meiri vatnsþrýstings á steypuna en víðast var þekkt erlendis. Reyndar kom fljótt fram að veggjasteypa skv. kröfum byggingarreglugerðar stóðst þann vatnsþrýsting án þess að vatn kæmist nokkuð inn í steypuna.
En annað kom einnig í ljós við rannsóknir og ástandskönnun RB. Það var, að húsasteypan í Reykjavík var ekki eins góð og reiknað hafði verið með. Helst var það vatns-sementshlutfallið sem var of hátt, oftast yfir 0,6 sem jók hættu á hárpípuverkun og jafnframt myndun á örsprungum ( þurrkrýrnun ).
Hárpípuverkun og örsprungur valda vatnsísogi sem eykst enn frekar við áhrif slagregns, sem algengt er á Reykjavíkursvæðinu eins og fram kom í veðurfarsrannsóknunum. Alkalíhlaup fannst svo ekki í húsum byggðum 1979 og síðar, því varð niðurstaða Steinsteypunefndar sú, að of mikið vatn eða raki í steypunni væri orsök steypuskemmdanna.
Málið leyst og RB lögð niður
Á tíunda áratug aldarinnar fylgdist ég minna með starfi Steinsteypunefndar og hætti þátttöku í henni 2002. Umsvif nefndarinnar urðu minni á þessum árum enda var talið nokkuð öruggt að niðurstöður fyrrgreindrar rannsóknar á alkalí- og frost-skemmdum væru réttar. Þær niðurstöður voru settar fram með afdráttarlausum hætti í bók Verkfræðingafélags Íslands „ Í ljósi vísindanna“ árið 2005, þar sem segir:
„Nærtækast er að kenna steypugæðunum um flestar þessar skemmdir. Helst má ætla að of mikið vatn hafi verið notað við gerð steypunnar, sem veldur því að hún sogar í sig vatn. Skortur á aðhlynningu og að mótum hefur verið slegið frá of snemma veldur einnig þurrkrýrnun og örsprungum, sem valda vatnsísogi.“
Hjá Nýsköpunarmiðstöð fór síðar fram vönduð rannsókn á grunnforsendum rakaflutnings í íslenskri steinsteypu. Var rannsóknin framkvæmd af dr. Birni Marteinssyni og sýndi hliðstæðar niðurstöður og fyrri rannsóknir RB.
Nýtt vandamál leysir þau gömlu af hólmi
Af rannsóknaröð Steinsteypunefndar var nú aðeins stærsta verkefnið eftir, að framkvæma ástandskoðun á skemmdum steinsteyptum húsum síðustu áratugina. Það innibar ástandskönnun skemmdra steinsteyptra húsa, til þess að hægt væri að gera sér grein fyrir hversu stór hluti þeirra væri skemmdur og hversu illa. Einnig yrði að reyna að finna hagkvæma lausn á því hvernig betur mætti meðhöndla steypuna á byggingarstað og hvernig hersla hennar færi fram.
En nú kom fram nýtt vandamál. Á árunum kringum aldamótin 2000 fór að bera á annars konar byggingarskemmdum í íbúðarhúsnæði en áður. Voru þessar skemmdir myglumyndun, sem hafði í för með sér alvarleg heilsuvandamál. Mygluvandamálið kemur eins og þekkt er aðeins fram þar sem raki er fyrir hendi í byggingum. Rakamyndunin í steinsteypunni í rannsóknum Steinsteypunefndar kom nú strax fram í hugann. Myglumyndunin var reyndar ekki aðeins bundin steinsteypunni sjálfri, heldur einnig lekavanda af öðrum orsökum, t.d. hönnunargöllum, óþéttum gluggum o.s.frv.
Mygluvandamálið fór hægt af stað síðustu áratugi tuttugustu aldarinnar, en herti á sér með tímanum. Samkvæmt þeim aðilum sem fengust við þennan nýja vanda, t.d. NMÍ og ýmsum verkfræðistofum, var talið að viðgerðarkostnaður vegna þessa vágests hlypi á tugum milljarða, sem þýddi að hann væri engu minni vandi en alkalívandamálið á árum áður.
Mygluvandinn kallar á markvissar rannsóknir og aðgerðir
Um 2020 var svo farið að ræða um enn eina breytingu á rannsóknum fyrir byggingariðnaðinn , þ.e. að leggja Nýsköpunarmiðstöð Íslands niður og finna slíkum rannsóknum annan samastað. Enn hafa engin skref verið tekin í átt til þess að hýsa allar rannsóknir fyrir byggingariðnaðinn á einum stað, en gagnvart þessu mygluvandamáli liggur nærri sú hugmynd að stjórnvöld skipi hliðstæða nefnd eða vinnuhóp og Steinsteypunefnd, til að leysa þau vandamál sem tengjast raka í húsum og hýbýlum.
Það þyrfti að gerast fljótt, því ástandsrannsóknir á byggingum taka langan tíma og eru kostnaðarsamar. Ljóst er að samsetning slíks vinnuhóps yrði önnur en Steinsteypunefndar árið 1967.
Þar sem orsakaböndin hafa nú borist að hönnuðum og byggjendum híbýlanna er ljóst að þeirra framlag til ástandskannana á húsum og rannsóknum þeim tengdum verður miklu stærra en áður. Og ef hér er um stórfenglega byggingargalla að ræða verður lausn ekki fundin á þeim án aðgerða af þeirra hálfu. Fullkomin rannsóknaraðstaða þarf að koma til. E.t.v. væri klókt að flytja byggingarannsóknirnar aftur til Háskóla Íslands.
Hér er um stórvægilega ákvarðanatöku stjórnvalda að ræða, sem varla er hægt að leysa öðruvísi en með sameiginlegu opinberu átaki, svipað og Steinsteypunefnd var ætlað að gera á sínum tíma. Þar duga ekki fumkenndar lausnir einstakra aðila, sem leysa mál sín á millum með skaðabótagreiðslum.
Hér verða að koma til víðtækar heildarlausnir byggðar á tæknilegum forsendum, þar sem ráðist verður að grunnorsökum vandans, þ.e.a.s. vatnsþéttleika steypunnar.
Höfundur er fyrrverandi framkvæmdastjóri tæknimála hjá Sementsverksmiðju ríkisins.
Heimildir:
https://sites.google.com/view/islenskt-possolansement/heim