Í knæpu í einhverju krummaskuði á hrjóstrugum hásléttum Villta vestursins mun hafa staðið skilti yfir barnum með áletruninni: Skjótið ekki píanóleikarann. Hann gerir sitt besta. Hvort heldur sem þetta sé uppspuni eða sannleikur þá eru skilaboðin skýr. Láttu reiði þína eða hefndarþorsta bitna á réttum aðila. Ekki skjóta sendiboðann eða gleðigjafann. Mér datt þetta í hug þegar varla var hægt að þverfóta fyrir fordæmingu á Seðlabankanum eftir ákvörðun hans að hækka stýrivexti. Blásið var í gyllta lúðra. Nú vita það flestir að Seðlabankanum er falið það hlutverk að spyrna fótum við verðbólgunni. Það tæki sem honum er handhægast er stýrivaxtahækkun. Auðvitað má og á að deila um hvort sú ákvörðun var í samræmi við efnahagslegar og samfélagslegar aðstæður. Hitt hefði líka verið gagnrýnt eftirá ef verðbólgan hefði farið vaxandi í þeim efnahagslega uppgangi sem, þökk sé ferðamennskunni, ríkir hér. En við megum ekki gleyma því að Seðlabankinn er að bregðast við ekki kveikja nýja elda. Viðskiptabönkunum ber engin skylda til að bregðast við stýrivaxtahækkun með hækkun eigin útlánavaxta.
Seðlabankinn ræður þó illa við verðbólguna þótt hann hækki stýrivexti. Verðbólgan fóðrar sjálfa sig með auknu peningamagni í umferð og lækkandi gengi krónunnar. Bankinn getur haft áhrif á peningamagnið einkum í bráð. Krónan dansar hins vegar sinn eigin menúett. Meðan hún gengur nokkurn veginn lausbeisluð um haglendi íslensks efnahagslífs getur bankinn lítið aðhafst.
Brexit, Krónan og þögnin
Það er með íslensku krónuna eins og umræður í Bretlandi um Brexit. Bretar vita að það eru fyrst og fremst neikvæðar afleiðingar af Brexit sem herja á breskt efnahagslíf. Ekkert af þeirri gósentíð sem Brexitleiðtogar lofuðu landsmönnum hefur raungerst. Þvert öfugt. Óháðir fagaðilar segja það fullum fetum: Eymdarlegt ástand bresks efnahagslífs er afleiðing Brexit.
Vaxtamunurinn er himinn hár
En við vorum að ræða stýrivexti. Þeir eru viss áhrifavaldur á vaxtaákvarðanir viðskiptabankanna. Á öldinni sem leið var oft um það rætt í bankaráði Seðlabankans hver æskilegur vaxtamunur milli stýrivaxta og vaxta viðskiptabankanna væri. Staldrað var við 2,5 – 3.0 %. Væru stýrivextir Seðlabankans 3,5%, mættu útlána vextir í hæsta lagi vera 6.5 %. Bankinn minn var með 12,5% útlánsvexti fyrir almenn útlán, fyrir síðustu stýrivaxtahækkun. Þarna liggur hundurinn grafinn. Bankarnir eru blindaðir af gullgirnd. Þetta himinháa vaxtabil er meginorsakavaldur þeirrar vaxtaánauðar sem almennir landsmenn búa við. Já, almennir landsmenn, því fjöldi fyrirtækja stunda bankaviðskipti sín erlendis ýmist í evru eða dollar. Krónan er fyrir okkur hin. Landsbankinn er eign ríkisins. Hann gæti veitt einkabönkunum verðugt aðhald með því að ríða á vaðið með lægri vaxtamun, því núverandi vaxtamunur þjónar aðeins eigendum í hagnaðardrifinni ákefð sinni. Tug milljarða gróði bankanna er afleiðingin. En þar leikur íslenska krónan stórt hlutverk. Hér ætti forystufólk verkalýðshreyfingarinnar að beina spjótum sínum og reiði. Þarna liggur meinið. Ekki skjóta píanóleikarann.
Höfundur er hagfræðingur.