Þjóðernisátök og hagsmunir

ukraina_kjarninn_vef.jpg
Auglýsing

Í fréttaflutningi átökum sem nú standa yfir í austurhluta Úkraínu er gjarnan fjallað um að þar berjist stjórnarher Úkraínu við „rússneskumælandi aðskilnaðarsinna“ eða „rússneskumælandi þjóðarbrot“. Það er hins vegar villandi að tala um átök aðskilnaðarsinna í Austur-Úkraínu við stjórnvöld í Kænugarði sem þjóðernisdeilu, átök á milli þjóðarbrota eða tungumálahópa. Réttara er að tala um baráttu hagsmuna.

Þó svo að leiðtogar aðskilnaðarsinna og rússnesk stjórnvöld kjósi að nota orðræðu þjóðernis- og tungumálahópa sem ramma utan um deiluna er hann ekki endilega réttur. Með því að nálgast deiluna frá þessum sjónarhóli er því haldið fram að það að tilheyra einhverjum þjóðernishópi sé gefin stærð og að hægt sé að nota hópinn sem verkfæri til að greina deiluna af skynsamlegu viti. Þessi nálgun gefur sér einnig að hver og einn einstaklingur tilheyri einum einstökum þjóðernis­hópi. Loks er verið að tengja þjóðernishugtakið við öryggi einstaklinganna og ýjað að því að hægt væri að koma í veg fyrir átök á borð við þau sem nú eiga sér stað í Austur-Úkraínu ef hver þjóðernis- og tungumálahópur hefði yfir sínu „heimalandi“ að ráða. Rökrétt afleiðing slíks hugsunar­háttar er þjóðernishreinsanir og kúgun minnihlutahópa.


Fyrir utan siðferðislega annmarka þessarar nálgunar er hún órökrétt. Í síðasta manntali Úkraínu frá árinu 2001 sögðust tæplega 40 prósent íbúa Donetsk-héraðs vera úkraínskir en færri en helmingur þeirra sagði úkraínsku vera móðurmál sitt. Í lok tíunda áratugarins voru gerðar kannanir á tungumálanotkun í Úkraínu þar sem á bilinu 15-23 prósent aðspurðra sögðust vera tvítyngd á úkraínsku og rússnesku. Í sömu könnunum sögðust 33-46 prósent landsmanna aðallega notast við rússnesku í daglegu tali en 23 prósent sögðust vera af rússnesku bergi brotin. Þessar tölur sýna að orðræðurammi þjóðernis- og tungumálahópa heldur ekki þegar fjallað er um átökin í Austur-Úkraínu; margbrotin sjálfsvitund íbúanna leyfir ekki slíka einföldun. Hann þjónar mun frekar þeim tilgangi að réttlæta átökin og dylja það sem liggur að baki deilunni, sem er hagsmunabarátta deiluaðilanna.

Auglýsing

Hagsmunir Rússlands í Úkraínu

Þó svo að Vladimír Pútín, forseti Rússlands, hafi látið þau orð falla að hann telji upplausn Sovétríkjanna vera mestu landfræðipólitísku hamfarir 20. aldarinnar verður að teljast ólíklegt að markmið hans með íhlutun í Úkraínu sé allsherjar endurskipulagning landamæra Austur-Evrópu. Innlimun Krímskaga í Rússland í maí síðastliðnum er líklegast einstakt atvik sem kom til vegna hernaðarlegs mikilvægis skagans og tækifæris sem skapaðist í upplausnarástandi í kjölfar sjálfskipaðrar útlegðar Viktors Janúkóvits, þáverandi forseta Úkraínu, í byrjun árs.


Líklegra verður að telja að markmið rússneskra stjórnvalda sé að koma upp nokkurs konar stuðpúða á milli sín og aðildar­ríkja Evrópusambandsins og Atlantshafsbandalagsins. Síðan rússnesk stjórnvöld hafa endurheimt sjálfstraustið eftir fall Sovétríkjanna hafa þau ekki dregið dul á að þau líta á fyrrverandi Sovétlýðveldin sem sitt áhrifasvæði. Þessi ríki eru í daglegu tali kölluð „nærri útlönd“ í þeim skilningi að þó svo að þau séu ekki formlega hluti af Rússlandi séu þau fylgiríki þess. Í tilfelli Úkraínu er það lýsandi að í rússneskri málnotkun er gjarnan talað um að vera „á“ Úkraínu en ekki „í“ Úkraínu. Nafnið „Úkraína“ þýðir eitthvað í líkingu við „landamæri“ og í þessu samhengi er merkingin sú að hver sem er á Úkraínu er innan marka Rússlands í andlegum skilningi. Í Kænugarði er þessi málnotkun túlkuð sem aðför að sjálfstæði ríkisins.

Frosin átök

Til þess að tryggja að leið Úkraínu að ESB og NATO verði lokuð næstu áratugina þjónar það hagsmunum rússneskra stjórnvalda að deilan dragist á langinn án þess að annar hvor deiluaðilanna nái fram endanlegum markmiðum sínum, aðskilnaði frá Úkraínu eða fullnaðarsigri á aðskilnaðarsinnum. Langvinn átök eru sorgleg arfleifð Sovétríkjanna. Frá suðurhluta Kákásus-svæðisins til vesturstrandar Svartahafs vinnur Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) að lausn þriggja aðskilnaðardeilna sem rekja má til upplausnar Sovét­ríkjanna. Engin sátt ríkir um lausn þessara deilna en deiluaðilar hreyfa ekki við ríkjandi ástandi og er því fjallað um þessar deilur sem frosin átök.


Umfram allt hefur ÖSE stöðugleika alþjóðakerfisins að leiðarljósi og vinnur að því að koma í veg fyrir að vopnuð átök brjótist út þegar undirliggjandi deilur eru óleystar. Stofnunin er samráðsvettvangur 57 þátttökuríkja frá Vancouver til Vladivostok og felst styrkur hennar í því að halda samskiptaleiðum opnum þegar slær í brýnu á milli ríkja. Þar sem allar ákvarðanir eru teknar samhljóða ræðast þátttökuríkin við í augnhæð. Þetta fyrirkomulag er líka helsti veikleiki ÖSE, þar sem hvert og eitt ríki hefur í rauninni neitunarvald og útkoman því gjarnan lægsti samnefnari. Vegna þessarar sérstöðu er oftast hægt að koma böndum á átök sem blossa upp á milli þátttökuríkja með því að setja þau í sérstakt ferli innan ÖSE en nánast vonlaust er að finna endanlega lausn á þeim.

Hagsmunir Kænugarðs

Tíminn vinnur gegn úkraínskum stjórnvöldum í átökunum, þar sem stuðningur við stjórnvöld í Kænugarði mun þverra eftir því sem líður á haustið og almenningur finnur fyrir áhrifum hefts innflutnings á rússnesku gasi. Einnig reynir á þolinmæði auðmanna í austurhluta landsins, þar sem vopnuð átök koma illa niður á efnahag svæðisins og takmarka gróða viðskiptamanna og verksmiðjueigenda. Auk þess hefur Rússland gefið til kynna að það muni hefta innflutning á landbúnaðarafurðum frá Úkraínu, en slíkar aðgerðir kæmu helst niður á landbúnaðarsvæðum í vesturhluta landsins og myndu grafa undan stuðningi við stjórnvöld.


Það er því skiljanlegt að úkraínsk stjórnvöld kjósi að sækja áfram með fullum þunga þrátt fyrir að alþjóða­samfélagið hvetji þau til friðarviðræðna við aðskilnaðarsinna. Til þess að tryggja það að deilan í Austur-Úkraínu dragist sem mest á langinn þurfa rússnesk stjórnvöld hins vegar að styðja við bakið á aðskilaðarsinnum og aðstoða þá við að halda uppi hernaðaraðgerðum í Donetsk- og Lugansk-héruðum. Bein hernaðarleg íhlutun er hins vegar of kostnaðar­söm, bæði efnahagslega og pólitískt, til að rússneski herinn fari opinberlega yfir landamæri Úkraínu. Samtímis hvetur Kreml til þess að lausn deilunnar verði komið í diplómatískan farveg og leggur áherslu á mikilvægi ÖSE við lausn hennar og við eftirlit á svæðinu. Með þessari tvöföldu nálgun fylgja rússnesk stjórnvöld því langtíma­markmiði að ýta undir óstöðugleika í Úkraínu, gera ríkinu þannig ófært að taka virkan þátt í vestrænni samvinnu og tryggja áhrif sín á stefnumótun í Kænugarði.

Hagsmunir Íslands

Jafnvel þótt það verði að teljast nánast óhugsandi að ÖSE finni lausn á deilunni í Austur-Úkraínu getur aðkoma stofnunarinnar verið mikilvæg á tvo máta. Reynslan sýnir að aðkoma ÖSE að vopnuðum átökum getur verið til þess fallin að draga úr ofbeldi og hörku átakanna. Fyrir utan stríðið í Georgíu árið 2008 hafa ekki brotist út meiriháttar vopnuð átök í tengslum við þau frosnu átök sem stofnunin vinnur að lausn að. Með því að gera Krímskaga hluta af ferli innan ÖSE gæfist alþjóða­samfélaginu færi á því að neita innlimun hans í Rússland lögmætis á skýrari hátt en nú er gert.


Fyrir mjög smátt ríki eins og Ísland er mikilvægt að berjast gegn því að hervaldi sé beitt í samskiptum ríkja og styðja við pólitískar lausnir á alþjóðlegum deilumálum, sem byggja á alþjóðalögum og venjum alþjóðasamfélagsins. Að þessu leyti virðast íslensk stjórnvöld vera á réttri braut í Úkraínudeilunni, en utanríkisráðuneytið hefur tvisvar þegið boð úkraínskra stjórnvalda að kynna sér ástand mála í austurhluta landsins innan ramma samþykkta ÖSE og Ísland tekur virkan þátt í eftirliti stofnunarinnar í landinu.


Íslensk stjórnvöld ættu að halda áfram uppbyggilegri aðkomu að deilunni auk þess að styðja við ferli sem miða að því að halda Krímskaga innan ramma friðarumleitana. Það er á ábyrgð utanríkisráðherra að standa vörð um gildi sem eru herlausu smáríki lífsnauðsynleg. Að sama skapi bera fjölmiðlar ábyrgð á því að fjalla um alþjóðlegar deilur og átök af fagmennsku og ættu þeir að forðast að taka upp orðræðu deiluaðila gagnrýnislaust. Aðeins þannig skapast andrými fyrir upplýsta umræðu sem getur lagt sitt af mörkum til lausnar slíkra deilna.


[embed]http://issuu.com/kjarninn/docs/2014_07_17/52[/embed]

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Sjókvíaeldi hefur aukist hratt á síðustu árum
Sjókvíaeldi hefur 13-faldast á sex árum
Umfang laxeldis hefur margfaldast á síðustu árum og útlit er fyrir að það muni vaxa enn frekar í náinni framtíð. Gangi spár eftir mun sjókvíaeldi á laxi árið 2023 verða tæplega helmingi meira en það var samanlagt á árunum 2010-2018.
Kjarninn 7. maí 2021
Eldgos hófst í Geldingadölum í Fagradalsfjalli þann 19. mars síðastliðinn.
„Nýr ógnvaldur“ við heilsu manna kominn fram á suðvesturhluta Íslands
Lungnalæknir segir að lítið sé vitað um langtímaáhrif vegna gasmengunar í lágum styrk til lengri tíma og áhrif kvikugasa í mjög miklum styrk í skamman tíma á langtímaheilsu. Nauðsynlegt sé að rannsóknir hefjist sem fyrst.
Kjarninn 7. maí 2021
Viðsnúningur Bandaríkjanna í óþökk lyfjarisa
Óvænt og fremur óljós stefnubreyting Bandaríkjanna varðandi afnám einkaleyfa af bóluefnum gegn COVID-19 hefur vakið litla kátínu í lyfjageiranum. Deildar meiningar eru um hvort afnám einkaleyfa kæmi til með að hraða framleiðslu bóluefna.
Kjarninn 7. maí 2021
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Ísland skoðar að kaupa 100 þúsund skammta af Spútnik V og vill fá þorra þeirra fyrir 2. júní
Viðræður hafa átt sér stað milli fulltrúa íslenskra stjórnvalda og þeirra sem framleiða og markaðssetja hið rússneska Spútnik V bóluefni. Ísland myndi vilja fá að minnsta kosti 75 þúsund skammta fyrir 2. júní.
Kjarninn 7. maí 2021
Tæknivarpið
Tæknivarpið
Tæknivarpið – Sonos fær uppreist æru og Framsóknarmaður vill aldurstakmark á snjalltæki
Kjarninn 7. maí 2021
Bólusetningar ganga nú mjög hratt fyrir sig á Íslandi og samhliða dregur úr takmörkunum.
Fjöldatakmarkanir hækkaðar í 50 manns frá og með næsta mánudegi
Opnunartími veitingastaða verður lengdur um klukkustund, leyfilegur fjöldi í verslunum tvöfaldast, fleiri mega vera í sundi og fara í ræktina. Grímuskylda verður hins vegar óbreytt.
Kjarninn 7. maí 2021
Skálað á kaffihúsi í Danmörku.
Ýta við ferðaþjónustunni með 32 milljarða króna „sumarpakka“
Danska ríkisstjórnin ætlar að setja 1,6 milljarða danskra króna, um 32 milljarða íslenskra, í „sumarpakka“ til að örva ferðaþjónustu landsins.
Kjarninn 7. maí 2021
Kvótinn um 1.200 milljarða króna virði – Þrjár blokkir halda á tæplega helmingi hans
Miðað við síðustu gerðu viðskipti með aflaheimildir þá er virði þeirra langtum hærra en bókfært virði í ársreikningum útgerða. Í næstu viku munu örfáir eigendur útgerðar selja tæplega 30 prósent hlut sinn í henni.
Kjarninn 7. maí 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar
None