Til er orðtak sem snýr að þeirri flónsku að stinga höfðinu í sandinn og fullyrt að strútar geri það þegar að þeim stafar ógn. Þetta atferli er oft notað sem dæmi um hugleysi manna sem forðast það að horfast í augu við vanda sem við þeim blasir. Nú hef ég farið vítt og breytt um Netið og komist að því að sú meinta hegðun strúta er ekkert annað en þjóðsaga. Strútar stinga höfðinu alls ekki í sand en á hinn bóginn má til sanns vegar færa að margt mannfólk vill ekki horfast í augu við þann raunveruleika og á stundum ógnir sem við þeim blasa. Á þessum tíma upplýsingar, eftir tilkomu alnetsins, skortir oft dýpt í þeirri umræðu sem tíðkuð er á þeim miðlum sem notaðir eru til skoðanaskipta. Nú eða bara til að deila myndum af krúttlegum köttum.
Þó að sagan af strútnum sé ekki sönn kemur það ekki í veg fyrir að hún er notuð í trúarbragðafræðum, stjórnmálum, við stjórnunarstörf og víðar til að vekja fólk til umhugsunar um að betra sé að takast á við og leysa vandamál í stað þess - já, að stinga höfðinu á kaf í sandinn og gera ekki neitt.
Hvað eru sjö milljónir ára fyrir strút og mann?
Fyrir meira en sjö milljónum ára dreifðust strútar um Afríku. Snemma uppgötvaði San fólkið, sem er talið vera ein af fyrstu þjóðum Afríku, að kjöt strúta er gómsætt. Strútar þurfa ekki mikla umhirðu og fjaðrir þeirra eru mjög hentugar til að skreyta sig með. Hella-málverk sem talin eru vera eftir frumbyggjana sýna að þessir stóru, ófleygu fuglar sem eru afkomendur risaeðla voru mikils metnir til forna. Myndir af strútum má sjá í egypskum grafhvelfingum, rómverskir herforingjar og konur þeirra skreyttu sig með fjöðrunum við hátíðleg tækifæri og Arabar stunduðu það að veiða þá sér til gamans. Fjölbreyttar afurðir strúta eru nýttar í samtímanum; kjöt, leður, fjaðrir og egg eru allt nýtanlegar afurðir fuglsins. Kjötið af þeim líkist alls ekki hænsnakjöti heldur er það líkara nautakjöti og er rautt á litinn. Það er þó talið hollara en nautakjöt þar sem það er ekki eins feitt og kólesterólinnihald þess er mun minna.
Strúturinn getur orðið allt að 2,4 metra hár og 155 kíló að þyngd. Aðlaðandi er að rækta hann vegna þess hve afurðirnar eru margar og hann er mun léttari á fóðrum en nautgripir. Fóðurþörf strúta er talin vera 3,5 á móti einum á meðan nautgripir þurfa 6 á móti einum. Því þarf strútarækt mun minna landsvæði en nautgriparækt sem er hið besta mál þar sem nautgriparækt stuðlar að landeyðingu um víða veröld. Til að mynda eru skógar Amasón-svæðisins ruddir í stórum stíl til þess eins að leggja landsvæðið undir nautgriparækt. Mengun fylgir alltaf matvælaframleiðslu. Það á vitaskuld einnig við um þann úrgang sem fylgir strútaræktun.
Þótt strútar séu ófleygir eru þeir mjög sterkbyggðir og sprettharðir, þeir geta náð allt að 65 kílómetra hraða á klukkustund. Strútar sparka óskaplega fast þannig að þeir geta beygt járn og brotið bein með vöðvastæltum fótunum sem búnir eru sterkri hælkló.
Strútur eða ekki strútur?
En af hverju er ég að tala um strúta hér? Nokkrar ástæður liggja þar að baki og loftlagsmál og hnattræn hlýnun koma sérstaklega upp í hugann. Eins og minnst var á hér að ofan hentar strúturinn mun mun betur til matvælaframleiðslu en nautgripir. Þeir gefa meira af sér, eru ekki eins kresnir á fóður og þurfa minna landrými. Kjötið af þeim er auk þess talið hollara en nautgripakjöt.
Eftir að hafa fylgst lengi með loftslagsmálum og hnattrænni hlýnun og þeim afleiðingum sem stefnir í að aðgerðarleysi manna í þeim málum hafi á framtíð mannkyns á jörð, kom sögnin um blessaðan strútinn upp í hugann.
Hvernig varð þjóðsagan um strútinn til?
Sagan á hugsanlega upptök sín hjá rómverska hugsuðinum Plinius hinum eldri sem var upp á árunum 23 til 79 eftir Krist. Hann hét fullu nafni Gaius Plinius Secundus og var forvitinn mjög um heiminn. Frændi hans Plinius yngri skrifaði eftirfarandi um hann; „Hann var árrisull mjög og fór á fætur fyrir sólarupprás. Hann skrifaði nótur um allt sem hann las og sagði að engin bók væri svo slæm að ekki væri hægt að finna eitthvað gott í henni.” Plinius eldri taldi að það væri tímaeyðsla og mesti slæpingsháttur að sitja auðum höndum.
Plinius skrifaði líklegast fyrsta alfræðiritið sem var í 37 bindum. Verkið var einstakt afrek á þessum tíma en hann reyndi að skrá hvaðeina það sem Rómverjar vissu um umhverfi sitt. Plinius sagðist hafa fjallað um tuttugu þúsund efnisatriði sem hann las um í tvöþúsund bókum sem höfðu verið skrifaðar af eitthundrað höfundum. Hann var meðal þeirra fyrstu sem tilgreindi höfund þess efnis sem hann vitnaði í. Alfræðirit Pliniusar var uppspretta þekkingar fyrir menntamenn í Evrópu á miðöldum. Það má samt til sanns vegar færa að ekki hafi allt sem rataði í alfræðiritið góða verið hárrétt. Plinius skrifaði til dæmis eftirfarandi um strúta; „þeir ímynda sér að allur líkami þeirra sé falinn þegar þeir fela höfuðið í runnanum.”
Sumir sagnfræðingar telja að þessi setning sé upphaf þjóðsögunnar um það að strútar stingi höfði í sand þegar þeir verða hræddir. Enn og aftur, strútar gera það ekki! Hinsvegar leggja þeir höfuðið á jörðina og gleypa sand og smásteina til að auðvelda meltingu fæðunnar. Úr fjarlægð gæti strúturinn virst hafa stungið hausnum í sandinn við þetta athæfi. Svona verða þjóðsögur til.
Þessi vitneskja veldur því að ekkert er gaman að því lengur að líkja þeim mönnum við strúta, sem vilja ekki sjá, heyra né skilja. Þetta er mjög miður því að hegðun okkar varðandi loftlagsvánna verður eiginlega best lýst með dæmisögunni um strútinn og hvernig hann á að stinga höfðinu í sandinn.
Erum við öll með höfuðið í sandinum?
Í ár er enn eitt afskaplega heitt sumar víða í Evrópu, hitamet falla hér á landi og á Grænlandi, svæði í Bandaríkjunum, Tyrklandi og Grikklandi brenna og þar láta fólk og dýr lífið af völdum eldanna og lofthitans sjálfs. Flóð valda miklu eignatjóni og mannskaða í Þýskalandi, Belgíu og annars staðar í álfunni. Mikil flóð eru í Kína og á Kóreuskaga. Ofurstormar hamra á heimsbyggðinni og hitastigið á pólunum hefur ekki áður mælst jafn hátt.
Vísindamenn hafa löngum varað við þessari þróun og ástæður hennar eru vel þekktar. Maðurinn og þarfir hans hafa sett allt úr skorðum á jörðinni. Það er að bera í bakkafullan lækinn að tala enn og aftur um gróðurhúsaáhrifin og þá staðreynd að mengun af völdum koldíoxíðs lokar hita frá sólinni inni í lofthjúpi jarðar og þar af leiðandi hækkar lofthiti.
Í skýrslu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál (IPCC) sem kom út 9. ágúst 2021 kemur fram að öfgar í veðri hafi færst í aukana. Þar er einnig staðfest skýr fylgni með atferli mannkyns og uppsöfnunar gróðurhúsalofttegunda. Grípa þurfi til róttækra aðgerða til að komast hjá því að hlýnun verði meiri en þær ein og hálf gráða, umfram meðalhita fyrir iðnbyltingu, sem stefnt er að með Parísarsamkomulaginu. Það sé gerlegt, vilji sé allt sem þarf.
Að efast er alltaf gott... eða hvað?
Enn er til fólk sem efast um að við séum óðfluga að nálgast þann tímapunkt að ekki verði snúið til baka frá þeirri óheillaþróun sem hefur verið að gerast á nokkuð löngum tíma. Þrotlausar rannsóknir eru stundaðar út um víða veröld. Leitað er leiða til að greina með enn meiri nákvæmni og vissu hvaða afleiðingar núverandi lífshættir okkar hafa á lífríkið og framtíð lífs á jörðu. Borað er eftir sýnum djúpt í ísalög pólanna og jökla heimsins. Þær rannsóknir snúast um að greina setlög sem geta sagt til um þróun hitastigs, loftgæða og fleiri umhverfisþátta langt aftur í aldir. Þetta er gert svo bera megi stöðuna í fortíð saman við það ástand sem nú ríkir. Vísindamenn tala nánast einróma um að eftir að iðnbylting hófst á seinni hluta 18. aldar hafi maðurinn í síauknum mæli haft afgerandi áhrif á lífríkið á jörðinni, líkt og staðfest er í skýrslu IPCC.
Í byrjun sumars þegar ferðatakmörkunum og öðrum höftum vegna farsóttarinnar var aflétt hér á landi lögðust margir Íslendingar í ferðalög innanlands. Á ferðum sínum upplifði fólk mikinn hita á Norður- og Austurlandi sem var mjög kósý en víða um land rak fólk upp ramakvein og bölsótaðist yfir lúsmýi sem plagaði það mjög. Þetta er tegund mýs sem áður var óþekkt hér á landi en er nú orðið að skaðræði sem veldur miklum óþægindum og fólk kvartar yfir. Leiða má að því rökum að hækkandi hitastig sé ástæða þess að þessi tegund hefur tekið sér bólfestu hér. Lúsmý er sólgið í blóð spendýra en við mannfólkið teljumst einmitt vera þeirrar tegundar. Mýið þarfnast blóðsins úr okkur til næringar, til að geta í framhaldinu fjölgað sér sem gerir það að lokum að plágu.
Fyrir nokkru varð ég fyrir svipaðri reynslu hinu megin á hnettinum, í hitabeltinu ekki fjarri miðbaug. Á láglendi eru moskítóflugur mjög áleitnar af sömu ástæðum og lúsmýið hér. Þær bera hinsvegar með sér sjúkdóma sem eru oft lífshættulegir. Um 400 þúsund manns deyja árlega af völdum malaríu, tveir þriðju þeirra sem deyja eru börn undir fimm ára aldri. Vegna breytinga af völdum gróðurhúsaáhrifa hefur orðið vart við moskítóflugur upp á hálendi þar sem þær voru óþekktar fyrir nokkrum árum. Þetta er ekki góð þróun sem þarf að fara að grípa inn í.
Þrátt fyrir að mannkynið hafi háð miklar styrjaldir, sem hafa fylgt manninum og valdabrölti hans um árþúsundir, virðist ekki auðvelt að sannfæra fólk um þá staðreynd að við stöndum núna öll frammi fyrir sameiginlegri ógn eða ógnum. Að vissu leyti hefur tilkoma COVID-19 orðið til þess að sanna að atburðir sem gerast í „langtíburtistan”, í þessu tilviki í Kína, geta haft afdrifaríkar afleiðingar um gervallan heim. Við sitjum öll í sömu súpunni. Heimsfaraldurinn geisar enn og jafnvel þótt til séu bólu-efni sem ætlað var að vernda okkur er framtíðin ekki örugg. Bráðsmitandi, stökkbreytt afbrigði kórónuveirunnar, svokallað Delta-afbrigði er nú komið á flug um alla heimsbyggðina og þar með talið hér á landi. Vísindamenn benda á að afbrigðin geti orðið fleiri. Ekki er vitað með vissu hvort bóluefnin verji okkur fyrir stökkbreyttum afbrigðum veirunnar. Síðustu fréttir sýna að fólk sem telst fullbólusett geti borið veiruna, smitað aðra og jafnvel veikst sjálft. En meginástæðan er sennilega sú að ónæmissvar fólks er mismunandi, sumir bólusettir veikjast ekkert og aðrir mjög lítið. Alvarleg veikindi bólusettra virðast fátíð. En hvað gerist í næstu stökkbreytingu? Þetta eru svo sannarlega váleg tíðindi og framtíðin er mjög óviss.
Er það hugsanlegt eftir átján mánaða þrotlausa baráttu hafi sú ákvörðun að hætta öllum takmörkunum innanlands og hleypa ferðamönnum óskimuðum inn í landið að áeggjan ferðaþjónustunnar, komið fjórðu bylgju faraldursins af stað? Við fáum væntanlega svar við þeirri spurningu á næstu dögum og vikum. Rétt fyrir mánaðamótin tóku nýjar reglur gildi þar sem bólusettir ferðalangar jafnt sem óbólusettir og eins fólk sem veikst hefur áður þarf að framvísa nýlegu covid-prófi. Nú hefur ríkisstjórnin jafnframt ákveðið að frá miðjum ágúst beri ferðafólki með tengsl við Ísland að fara í sýnatöku innan tveggja sólarhringa frá komu til landsins.
Aftur að meginefninu. Það er svo sannarlega engin töfralausn að rækta eingöngu strúta. Það er ekki töfralausn að hætta brennslu á olíu og kolum. Það er ekki töfralausn að stöðva gegndarlausa rányrkju á auðlindum jarðarinnar. Það er heldur ekki töfralausn að velja fleiri en einn orkugjafa. Það er heldur ekki töfralausn að draga úr mengun. Það er ekki töfralausn að rækta hamp. Repjuolía er frábær en ein og sér bjargar hún ekki heiminum. Að gerast vegan er heldur ekki það eina sem getur reddað málunum. Sólarorka og vindorka eru ljómandi fínar leiðir til að verða okkur út um rafmagn en hvort það er töfralausn læt ég liggja á milli hluta. En með því að skoða öll þessi atriði saman og sameiginlega þá ætti okkur að takast að tryggja að hér á þessari plánetu sem er sú eina sem við vitum með vissu að geti viðhaldið mannkyninu verði lífvænlegt í framtíðinni. Það er kannski mannkynið, hvert og eitt okkar, sem þarf að kippa hausnum upp úr sandinum en ekki strúturinn.
Höfundur er kennari og kvikmyndagerðarmaður.