Upplognar sakir strútsins

Eggert Gunnarsson skrifar um strúta, sem stinga sannarlega ekki höfðinu í sandinn. Hann segir því ekkert gaman að „líkja þeim mönnum við strúta, sem vilja ekki sjá, heyra né skilja,“ til dæmis hvað loftslagsbreytingar varðar.

Auglýsing

Til er orð­tak sem snýr að þeirri flónsku að stinga höfð­inu í sand­inn og full­yrt að strútar geri það þegar að þeim stafar ógn. Þetta atferli er oft notað sem dæmi um hug­leysi manna sem forð­ast það að horfast í augu við vanda sem við þeim blas­ir. Nú hef ég farið vítt og breytt um Netið og kom­ist að því að sú meinta hegðun strúta er ekk­ert annað en þjóð­saga. Strútar stinga höfð­inu alls ekki í sand en á hinn bóg­inn má til sanns vegar færa að margt mann­fólk vill ekki horfast í augu við þann raun­veru­leika og á stundum ógnir sem við þeim blasa. Á þessum tíma upp­lýs­ing­ar, eftir til­komu alnets­ins, skortir oft dýpt í þeirri umræðu sem tíðkuð er á þeim miðlum sem not­aðir eru til skoð­ana­skipta. Nú eða bara til að deila myndum af krútt­legum kött­um.

Þó að sagan af strútnum sé ekki sönn kemur það ekki í veg fyrir að hún er notuð í trú­ar­bragða­fræð­um, stjórn­mál­um, við stjórn­un­ar­störf og víðar til að vekja fólk til umhugs­unar um að betra sé að takast á við og leysa vanda­mál í stað þess - já, að stinga höfð­inu á kaf í sand­inn og gera ekki neitt.

Hvað eru sjö millj­ónir ára fyrir strút og mann?

Fyrir meira en sjö millj­ónum ára dreifð­ust strútar um Afr­íku. Snemma upp­götv­aði San fólk­ið, sem er talið vera ein af fyrstu þjóðum Afr­íku, að kjöt strúta er góm­sætt. Strútar þurfa ekki mikla umhirðu og fjaðrir þeirra eru mjög hent­ugar til að skreyta sig með. Hella-­mál­verk sem talin eru vera eftir frum­byggj­ana sýna að þessir stóru, ófleygu fuglar sem eru afkom­endur risa­eðla voru mik­ils metnir til forna. Myndir af strútum má sjá í egypskum graf­hvelf­ing­um, róm­verskir her­for­ingjar og konur þeirra skreyttu sig með fjöðr­unum við hátíð­leg tæki­færi og Arabar stund­uðu það að veiða þá sér til gam­ans. Fjöl­breyttar afurðir strúta eru nýttar í sam­tím­an­um; kjöt, leð­ur, fjaðrir og egg eru allt nýt­an­legar afurðir fugls­ins. Kjötið af þeim lík­ist alls ekki hænsna­kjöti heldur er það lík­ara nauta­kjöti og er rautt á lit­inn. Það er þó talið holl­ara en nauta­kjöt þar sem það er ekki eins feitt og kól­ester­ól­inni­hald þess er mun minna.

Afríka.

Strút­ur­inn getur orðið allt að 2,4 metra hár og 155 kíló að þyngd. Aðlað­andi er að rækta hann vegna þess hve afurð­irnar eru margar og hann er mun létt­ari á fóðrum en naut­grip­ir. Fóð­ur­þörf strúta er talin vera 3,5 á móti einum á meðan naut­gripir þurfa 6 á móti ein­um. Því þarf strúta­rækt mun minna land­svæði en naut­gripa­rækt sem er hið besta mál þar sem naut­gripa­rækt stuðlar að land­eyð­ingu um víða ver­öld. Til að mynda eru skógar Ama­són-­svæð­is­ins ruddir í stórum stíl til þess eins að leggja land­svæðið undir naut­gripa­rækt. Mengun fylgir alltaf mat­væla­fram­leiðslu. Það á vita­skuld einnig við um þann úrgang sem fylgir strúta­rækt­un.

Þótt strútar séu ófleygir eru þeir mjög sterk­byggðir og sprett­harð­ir, þeir geta náð allt að 65 kíló­metra hraða á klukku­stund. Strútar sparka óskap­lega fast þannig að þeir geta beygt járn og brotið bein með vöðva­stæltum fót­unum sem búnir eru sterkri hæl­kló.

Strútur eða ekki strút­ur?

En af hverju er ég að tala um strúta hér? Nokkrar ástæður liggja þar að baki og loft­lags­mál og hnatt­ræn hlýnun koma sér­stak­lega upp í hug­ann. Eins og minnst var á hér að ofan hentar strút­ur­inn mun mun betur til mat­væla­fram­leiðslu en naut­grip­ir. Þeir gefa meira af sér, eru ekki eins kresnir á fóður og þurfa minna land­rými. Kjötið af þeim er auk þess talið holl­ara en naut­gripa­kjöt.

strutsi2123pexels.jpg

Eftir að hafa fylgst lengi með lofts­lags­málum og hnatt­rænni hlýnun og þeim afleið­ingum sem stefnir í að aðgerð­ar­leysi manna í þeim málum hafi á fram­tíð mann­kyns á jörð, kom sögnin um bless­aðan strút­inn upp í hug­ann.

Hvernig varð þjóð­sagan um strút­inn til?

Sagan á hugs­an­lega upp­tök sín hjá róm­verska hugs­uð­inum Plinius hinum eldri sem var upp á árunum 23 til 79 eftir Krist. Hann hét fullu nafni Gaius Plinius Secundus og var for­vit­inn mjög um heim­inn. Frændi hans Plinius yngri skrif­aði eft­ir­far­andi um hann; „Hann var árrisull mjög og fór á fætur fyrir sól­ar­upp­rás. Hann skrif­aði nótur um allt sem hann las og sagði að engin bók væri svo slæm að ekki væri hægt að finna eitt­hvað gott í henn­i.” Plinius eldri taldi að það væri tíma­eyðsla og mesti slæp­ings­háttur að sitja auðum hönd­um.

Plinius hinn eldri.

Plinius skrif­aði lík­leg­ast fyrsta alfræði­ritið sem var í 37 bind­um. Verkið var ein­stakt afrek á þessum tíma en hann reyndi að skrá hvað­eina það sem Róm­verjar vissu um umhverfi sitt. Plinius sagð­ist hafa fjallað um tutt­ugu þús­und efn­is­at­riði sem hann las um í tvö­þús­und bókum sem höfðu verið skrif­aðar af eitt­hund­rað höf­und­um. Hann var meðal þeirra fyrstu sem til­greindi höf­und þess efnis sem hann vitn­aði í. Alfræði­rit Plini­usar var upp­spretta þekk­ingar fyrir mennta­menn í Evr­ópu á mið­öld­um. Það má samt til sanns vegar færa að ekki hafi allt sem rataði í alfræði­ritið góða verið hár­rétt. Plinius skrif­aði til dæmis eft­ir­far­andi um strúta; „þeir ímynda sér að allur lík­ami þeirra sé fal­inn þegar þeir fela höf­uðið í runn­an­um.”

Sumir sagn­fræð­ingar telja að þessi setn­ing sé upp­haf þjóð­sög­unnar um það að strútar stingi höfði í sand þegar þeir verða hrædd­ir. Enn og aft­ur, strútar gera það ekki! Hins­vegar leggja þeir höf­uðið á jörð­ina og gleypa sand og smá­steina til að auð­velda melt­ingu fæð­unn­ar. Úr fjar­lægð gæti strút­ur­inn virst hafa stungið hausnum í sand­inn við þetta athæfi. Svona verða þjóð­sögur til.

Auglýsing

Þessi vit­neskja veldur því að ekk­ert er gaman að því lengur að líkja þeim mönnum við strúta, sem vilja ekki sjá, heyra né skilja. Þetta er mjög miður því að hegðun okkar varð­andi loft­lags­vánna verður eig­in­lega best lýst með dæmisög­unni um strút­inn og hvernig hann á að stinga höfð­inu í sand­inn.

Erum við öll með höf­uðið í sand­in­um?

Í ár er enn eitt afskap­lega heitt sumar víða í Evr­ópu, hita­met falla hér á landi og á Græn­landi, svæði í Banda­ríkj­un­um, Tyrk­landi og Grikk­landi brenna og þar láta fólk og dýr lífið af völdum eld­anna og loft­hit­ans sjálfs. Flóð valda miklu eigna­tjóni og mann­skaða í Þýska­landi, Belgíu og ann­ars staðar í álf­unni. Mikil flóð eru í Kína og á Kóreu­skaga. Ofur­stormar hamra á heims­byggð­inni og hita­stigið á pól­unum hefur ekki áður mælst jafn hátt.

Mynd: EPA

Vís­inda­menn hafa löngum varað við þess­ari þróun og ástæður hennar eru vel þekkt­ar. Mað­ur­inn og þarfir hans hafa sett allt úr skorðum á jörð­inni. Það er að bera í bakka­fullan læk­inn að tala enn og aftur um gróð­ur­húsa­á­hrifin og þá stað­reynd að mengun af völdum koldí­oxíðs lokar hita frá sól­inni inni í loft­hjúpi jarðar og þar af leið­andi hækkar loft­hiti.

Í skýrslu milli­ríkja­nefndar Sam­ein­uðu þjóð­anna um lofts­lags­mál (IPCC) sem kom út 9. ágúst 2021 kemur fram að öfgar í veðri hafi færst í auk­ana. Þar er einnig stað­fest skýr fylgni með atferli mann­kyns og upp­söfn­unar gróð­ur­húsa­loft­teg­unda. Grípa þurfi til rót­tækra aðgerða til að kom­ast hjá því að hlýnun verði meiri en þær ein og hálf gráða, umfram með­al­hita fyrir iðn­bylt­ingu, sem stefnt er að með Par­ís­ar­sam­komu­lag­inu. Það sé ger­legt, vilji sé allt sem þarf.

Að efast er alltaf gott... eða hvað?

Enn er til fólk sem efast um að við séum óðfluga að nálg­ast þann tíma­punkt að ekki verði snúið til baka frá þeirri óheilla­þróun sem hefur verið að ger­ast á nokkuð löngum tíma. Þrot­lausar rann­sóknir eru stund­aðar út um víða ver­öld. Leitað er leiða til að greina með enn meiri nákvæmni og vissu hvaða afleið­ingar núver­andi lífs­hættir okkar hafa á líf­ríkið og fram­tíð lífs á jörðu. Borað er eftir sýnum djúpt í ísa­lög pól­anna og jökla heims­ins. Þær rann­sóknir snú­ast um að greina set­lög sem geta sagt til um þróun hita­stigs, loft­gæða og fleiri umhverf­is­þátta langt aftur í ald­ir. Þetta er gert svo bera megi stöð­una í for­tíð saman við það ástand sem nú rík­ir. Vís­inda­menn tala nán­ast ein­róma um að eftir að iðn­bylt­ing hófst á seinni hluta 18. aldar hafi mað­ur­inn í síauknum mæli haft afger­andi áhrif á líf­ríkið á jörð­inni, líkt og stað­fest er í skýrslu IPCC.

Í byrjun sum­ars þegar ferða­tak­mörk­unum og öðrum höftum vegna far­sótt­ar­innar var aflétt hér á landi lögð­ust margir Íslend­ingar í ferða­lög inn­an­lands. Á ferðum sínum upp­lifði fólk mik­inn hita á Norð­ur- og Aust­ur­landi sem var mjög kósý en víða um land rak fólk upp rama­kvein og bölsót­að­ist yfir lús­mýi sem plag­aði það mjög. Þetta er teg­und mýs sem áður var óþekkt hér á landi en er nú orðið að skað­ræði sem veldur miklum óþæg­indum og fólk kvartar yfir. Leiða má að því rökum að hækk­andi hita­stig sé ástæða þess að þessi teg­und hefur tekið sér ból­festu hér. Lúsmý er sól­gið í blóð spen­dýra en við mann­fólkið telj­umst einmitt vera þeirrar teg­und­ar. Mýið þarfn­ast blóðs­ins úr okkur til nær­ing­ar, til að geta í fram­hald­inu fjölgað sér sem gerir það að lokum að plágu.

Lúsmý. Mynd: Erling Ólafsson

Fyrir nokkru varð ég fyrir svip­aðri reynslu hinu megin á hnett­in­um, í hita­belt­inu ekki fjarri mið­baug. Á lág­lendi eru moskítófl­ugur mjög áleitnar af sömu ástæðum og lús­mýið hér. Þær bera hins­vegar með sér sjúk­dóma sem eru oft lífs­hættu­leg­ir. Um 400 þús­und manns deyja árlega af völdum malar­íu, tveir þriðju þeirra sem deyja eru börn undir fimm ára aldri. Vegna breyt­inga af völdum gróð­ur­húsa­á­hrifa hefur orðið vart við moskítófl­ugur upp á hálendi þar sem þær voru óþekktar fyrir nokkrum árum. Þetta er ekki góð þróun sem þarf að fara að grípa inn í.

Þrátt fyrir að mann­kynið hafi háð miklar styrj­ald­ir, sem hafa fylgt mann­inum og valda­brölti hans um árþús­und­ir, virð­ist ekki auð­velt að sann­færa fólk um þá stað­reynd að við stöndum núna öll frammi fyrir sam­eig­in­legri ógn eða ógn­um. Að vissu leyti hefur til­koma COVID-19 orðið til þess að sanna að atburðir sem ger­ast í „lang­tí­burtistan”, í þessu til­viki í Kína, geta haft afdrifa­ríkar afleið­ingar um ger­vallan heim. Við sitjum öll í sömu súp­unni. Heims­far­ald­ur­inn geisar enn og jafn­vel þótt til séu bólu-efni sem ætlað var að vernda okkur er fram­tíðin ekki örugg. Bráðsmit­andi, stökk­breytt afbrigði kór­ónu­veirunn­ar, svo­kallað Delta-af­brigði er nú komið á flug um alla heims­byggð­ina og þar með talið hér á landi. Vís­inda­menn benda á að afbrigðin geti orðið fleiri. Ekki er vitað með vissu hvort bólu­efnin verji okkur fyrir stökk­breyttum afbrigðum veirunn­ar. Síð­ustu fréttir sýna að fólk sem telst full­bólusett geti borið veiruna, smitað aðra og jafn­vel veikst sjálft. En meg­in­á­stæðan er senni­lega sú að ónæm­is­svar fólks er mis­mun­andi, sumir bólu­settir veikj­ast ekk­ert og aðrir mjög lít­ið. Alvar­leg veik­indi bólu­settra virð­ast fátíð. En hvað ger­ist í næstu stökk­breyt­ingu? Þetta eru svo sann­ar­lega váleg tíð­indi og fram­tíðin er mjög óviss.

Auglýsing

Er það hugs­an­legt eftir átján mán­aða þrot­lausa bar­áttu hafi sú ákvörðun að hætta öllum tak­mörk­unum inn­an­lands og hleypa ferða­mönnum óskimuðum inn í landið að áeggjan ferða­þjón­ust­unn­ar, komið fjórðu bylgju far­ald­urs­ins af stað? Við fáum vænt­an­lega svar við þeirri spurn­ingu á næstu dögum og vik­um. Rétt fyrir mán­aða­mótin tóku nýjar reglur gildi þar sem bólu­settir ferða­langar jafnt sem óbólu­settir og eins fólk sem veikst hefur áður þarf að fram­vísa nýlegu covid-­prófi. Nú hefur rík­is­stjórnin jafn­framt ákveðið að frá miðjum ágúst beri ferða­fólki með tengsl við Ísland að fara í sýna­töku innan tveggja sól­ar­hringa frá komu til lands­ins.

Aftur að meg­in­efn­inu. Það er svo sann­ar­lega engin töfra­lausn að rækta ein­göngu strúta. Það er ekki töfra­lausn að hætta brennslu á olíu og kol­um. Það er ekki töfra­lausn að stöðva gegnd­ar­lausa rányrkju á auð­lindum jarð­ar­inn­ar. Það er heldur ekki töfra­lausn að velja fleiri en einn orku­gjafa. Það er heldur ekki töfra­lausn að draga úr meng­un. Það er ekki töfra­lausn að rækta hamp. Repju­olía er frá­bær en ein og sér bjargar hún ekki heim­in­um. Að ger­ast vegan er heldur ekki það eina sem getur reddað mál­un­um. Sól­ar­orka og vind­orka eru ljóm­andi fínar leiðir til að verða okkur út um raf­magn en hvort það er töfra­lausn læt ég liggja á milli hluta. En með því að skoða öll þessi atriði saman og sam­eig­in­lega þá ætti okkur að takast að tryggja að hér á þess­ari plánetu sem er sú eina sem við vitum með vissu að geti við­haldið mann­kyn­inu verði líf­væn­legt í fram­tíð­inni. Það er kannski mann­kyn­ið, hvert og eitt okkar, sem þarf að kippa hausnum upp úr sand­inum en ekki strút­ur­inn.

Höf­undur er kenn­ari og kvik­mynda­gerð­ar­mað­ur.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorbjörn Guðmundsson
Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
Kjarninn 11. janúar 2023
Takk fyrir og sjáumst á nýjum miðli á föstudag
Bréf frá ritstjóra Kjarnans vegna sameiningar við Stundina og þess að nýr framsækinn fréttamiðill verður til í lok viku.
Kjarninn 11. janúar 2023
Sverrir Albertsson
Vatn á myllu kölska
Kjarninn 11. janúar 2023
Lögreglumenn standa vörð um gröfurnar í námunni.
Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
Lítið þorp í Rínarlöndum Þýskalands er allt komið í eigu kolarisa. Fyrirtækið ætlar sér að mylja niður húsin og stækka kolanámu sína sem þegar þekur um 80 ferkílómetra. Þetta þykir mörgum skjóta skökku við í heimi sem berst við loftslagsbreytingar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu.
Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
Fjögur fjölmiðlafyrirtæki hafa til þessa skilað inn umsögnum um frumvarp Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra, sem mun að óbreyttu framlengja núverandi styrkjakerfi til fjölmiðla.
Kjarninn 10. janúar 2023
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Viðræðum slitið og Efling undirbýr verkfallsaðgerðir
Samtök atvinnulífsins hafa hafnað gagntilboði Eflingar um skammtímakjarasamning, sem kvað á um meiri launahækkanir en SA hefur samið um við aðra hópa á almennum vinnumarkaði til þessa. Efling undirbýr nú verkfallsaðgerðir.
Kjarninn 10. janúar 2023
Palestínski fáninn á lofti í mótmælum í Reykjavík. Ísraelskri lögreglu hefur nú verið fyrirskipað að rífa fánann niður á almannafæri.
Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
Degi eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum í Ísrael samþykkti allsherjarþing Sþ að fela Alþjóðadómstólnum í Haag að meta lögmæti hernáms Ísraelsríkis á Vesturbakkanum. Síðan þá hefur stjórnin gripið til refsiaðgerða og nú síðast fánabanns.
Kjarninn 10. janúar 2023
Gríðarlega mikil dæling á sandi á sér stað í Landeyjahöfn á hverju ári. Markarfljótið ber hundruð þúsunda tonna af jarðefnum út í sjó og það á til að safnast upp í mynni hafnarinnar.
Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
Eftirspurn eftir íslenskum jarðefnum er gríðarleg ef marka má framkomin áform erlendra stórfyrirtækja um nýtingu þeirra. Vinsældir hafnarinnar í Þorlákshöfn eru samhliða mjög miklar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar