Oft eiga sér stað gagnlegar og yfirvegaðar samræður á Silfrinu á Rúv. Það gerðist í gær (10.04´21). Þátturinn var þrískiptur. Í fyrsta hluta hans voru til umræðu niðrandi orð um litarhátt fólks og kynþætti vegna ummæla formanns Framsóknarflokksins um konu af erlendu bergi. Einn þátttakenda, Claudia Wilson lögfræðingur frá Háskólanum í Reykjavík er innflytjandi frá Jamaíka. Hún starfar hér sem mannréttindalögfræðingur. Hérlendis er grunnt á kynþátta fyrirlitningu og margir Íslendingar líta niður á „hina svörtu” og „þá gulu”; jafnframt „alla þessa Pólakka”. Hið jákvæða framlag Claudiu í samtalinu er afar mikilvægt fyrir alla þá sem vilja forðast kynþáttahatur.
Í öðrum hluta þáttarins var fjallað um söluna sem fram fór á Íslandsbanka á dögunum. Þar var minna um yfirvegun þó að hún væri nokkur hjá flestum þátttakendum. Reyndar öllum nema einum ungum krata. Hann talaði af nokkurri skynsemi í upphafi máls síns, í 35 - 40 sekúndur, en eftir það var eins og hann malaði úr sér vitið og í hlustandanum sem horfði á unga manninn sat eftir spurningin: Hvað höfum við að gera með svona gasprara á Alþingi?
Í þriðja hluta þáttarins var rætt um siðferði við Vilhjálm Árnason heimspekiprófessor. Það var þörf á. Ég held að sem flestir ættu að horfa á þáttinn. Allan. Það er fræðandi. Jafnvel mannbætandi. Og þegar ég les þetta yfir sé ég að mér veitir ekki af því að hlusta aftur, einkum á Vilhjálm. Kannski tvisvar.
Höfundur er rithöfundur.