Yfirlýsing formanns Eflingar um hærri framfærslukostnað í Reykjavík en á landsbyggðinni hefur farið fyrir brjóstið á fólki og meira að segja formenn verkalýðsfélaga hafa séð ástæðu til að stíga fram og mæla gegn þessari yfirlýsingu.
Það er tvennt vont við þessa stöðu. Í fyrsta lagi eru þetta óheppileg ummæli formanns Eflingar því henni mátti vera ljóst að skilja mætti ummæli hennar sem svo, að það ættu að vera hærri launataxtar að jafnaði í Reykjavík en annars staðar. Það er útilokað að nokkurn tíma tækist samstaða um það innan verkalýðshreyfingarinnar. Og verkalýðsfélag sem stefnir í átök þarf á samstöðu að halda.
Í öðru lagi er mjög óheppilegt að formenn annarra verkamannafélaga skuli stíga fram í deilu sem á fyrst og fremst að vera milli Eflingar og SA. Forysta Samtaka atvinnulífsins hefur því getað hallað sér aftur á bak og fylgst með formönnum verkamannafélaga takast á um réttmæti krafna Eflingar. Þeir hafa eflaust skemmt sér ágætlega á meðan.
Við ættum að styðja hvert það verkalýðsfélag láglaunafólks sem fer fram með launakröfur – jafnvel þó við höfum sjálf samið um annað og lægra. Þannig náði verkalýðshreyfingin árangri á fyrstu áratugum baráttunnar – sigrar unnust í mörgum smáorustum og launahækkun sem samið er um á einum stað – smitast fljótt út til annarra.
Salek þýðir því og hefur alltaf þýtt að sjálfstæði hvers verkalýðsfélags er skert og samningsrétturinn færður í einhverja „sátt“ sem snýst um niðurstöðu úr excel skjali sem sýnir hvað er eftir til ráðstöfunar eftir m.a. arðgreiðslur og ofurlaun stjórnenda.
Verkalýðsbarátta á ekki að snúast um persónur og leikendur heldur félagsmennina sem fá laun skv. gerðum kjarasamningum. Hvort fólki líkar við formann Eflingar eða ekki, eða er sammála málflutningi hennar eða ekki – skiptir bara engu máli. Það eru komandi kjarasamningar Eflingar sem skipta máli og ekki bara fyrir félagsmenn Eflingar heldur alla félagsmenn í aðildarfélögum Starfsgreinasambandsins. Því nái Efling betri samningi en aðrir hafa gert er næsta víst að eitthvað af þeim hækkunum munu ganga út til annarra félaga í formi launaskriðs og annað mun nást í samningum eftir 12 mánuði.
Nú þegar ljóst er að það stefnir í verkfallsátök í Reykjavík er fullt tilefni til að blása til samstöðu innan Starfsgreinasambandsins og að aðildarfélög þess veiti Eflingu þann stuðning sem þarf.
Höfundur er starfsmaður AFLs Starfsgreinafélags.