Það er í fyrsta skipti, segja fróðir menn, að allir helstu flokkar á Alþingi setja loftlagsmálin ofarlega á stefnuskrá sinni. Það er hins vegar líklega ekki í síðasta skipti, því miðað við hvernig okkur gengur að leysa þetta krítíska mál, á umræðan bara eftir að aukast eftir því sem áhrif hlýnunar verða sýnilegri og alvarlegri. Nú eru liðin 6 ár frá því að Parísarsamkomulagið var undirritað og vísindamenn eru einróma um að þó að ýmislegt hafi verið gert, sé það langt frá því að vera nóg, og að við séum að nálgast þann tímapunkt þar sem þróuninni verður ekki snúið við.
En af hverju gengur svona illa? Hvernig getur verið að lítilli veiru að nafni Covid tókst að gera meira fyrir loftslagsmálin heldur en allir vísindamenn, hagfræðingar og stjórnmálamenn heimsins?
Sumir telja sér trú um að vanþekkingu almennings sé að kenna. En skoðanakannanir hafa sýnt að þótt auðvitað séu efasemdarmenn til, eru þeir í raun bara lítill minnihluti.
Nei, vandinn er ekki vanþekking, og ekki heldur leti, heimska eða sjálfseyðingarhvöt. Vandinn er fyrst og fremst pólitískur.
Til að átta sig á þessu er gott að spóla aðeins til baka og rifja upp söguna í stuttu máli: um hvað snérist Parísarsamkomulagið?
Það snérist um það að fulltrúar flestra þjóða heims mæltu sér mót í höfuðborginni góðu og hver spurði annan:
„Þetta gengur ekki, við erum að rústa jörðinni, hvað eigum við að gera?“
Og þá svaraði einhver: „Ég veit! Lofum einhverju! Hver og einn ræður hverju hann lofar, og svo ræður hann hvort hann stendur við eigið loforð. Og þeir sem svíkja loforðið ráða sjálfir hvað þeir gera í því!“
Þetta fannst öllum snilldarhugmynd og það var mikið dansað og skálað og allir riðu heim. Trump setti samninginn í tætarann og fór að spila golf, Pútin notaði hann líklega til að skeina sér, og Bolsonaro hóf þjóðarátak í eyðingu Amazon-skógarins.
Í alvöru, ég er ekki að grínast, gúgglið það bara! Ég hef vissulega þurft að umorða aðeins til styttingar, en í grunninum snérist samkomulagið um að hver og ein þjóð átti að ákveða hvað hún þyrfti að gera og standa svo við það ef henni sýndist svo. Ef Íslendingar hafa einhvern tímann haldið að þeir hafi einkaleyfi á „þetta-reddast“ aðferðinni, þá hefur þarna verið framið gróft brot á einkarétti.
Og hver er staðan nú, sex árum seinna? Við undirritun samkomulagsins 2015 lofuðu ríki heims að halda hlýnuninni undir 1,5° (fram til 2100) en samkvæmt stofnuninni Climate Action Tracker, sem fylgist með markmiðum og aðgerðum helstu ríkja heims, stefnir í 3 til 4 gráðu hlýnun, sem er langt yfir markið. Af 37 þjóðum sem stofnunin leggur mat á er aðeins ein þeirra að uppfylla markmiðin: Gambía.
Og þá víkur sögunni að VG og stefnu þess flokks í loftslagsmálum. VG er með mjög ítarlega og metnaðarfulla áætlun í þeim málum, nema að í henni er stórt gat. Hún svarar spurningunni „Hvað eigum við sem þjóð að gera til að draga úr losun?“, en gleymir aðalspurningunni:
„Hvað eigum við að gera ef hinar þjóðirnar standa sig ekki?“
Besta aðgerðaráætlun innanlands er fullkomlega gagnslaus ef við getum ekki tryggt að aðrar þjóðir geri líka viðeigandi ráðstafanir. Þannig að spurningin sem VG þarf að svara er þessi:
„Hvað ætlar VG að gera til að tryggja að restin af heiminum rústi ekki plánetunni?“
VG hefur ekkert svar við þeirri spurningu, vegna þess að VG er haldinn pólitískum sjúkdómi. Sá sjúkdómur heitir þjóðernishyggja, og verður til þess að sá sjúki er algjörlega ófær um að hugsa lengra en þjóðarnefið nær. Sá sjúkdómur plagar reyndar miklu fleiri flokkar en bara VG, og í verstu tilfellunum getur hann leitt til þess að einstakir stjórnmálamenn sýni afar órökrétta og ófyrirsjáanlega hegðun, eins og að pota í sig hráar kjötvörur fyrir framan myndavél.
Þjóðernishyggjan er helsta plága okkar tíma. Hugmyndin um „þjóð“ byrjaði sem sameiningarverkefni, og hún gerði kraftaverk til að sameina lítil samfélög, ættbálka og smákóngaríki sem áður voru á kafi í hefndum og stríði, í stærri og öflugri einingar þar sem menn sem jafnvel höfðu aldrei hist gátu allt í einu hugsað hver um annan sem „samlanda” eða systkini með sameiginlegt föðurland. En um leið og við fundum upp þjóðina fóru sumir að misnota hana og beita henni í sundrungarskyni. Þeir fundu upp hugtakið „fullveldi” og hófu að nota það til að berja á allar hugmyndir um alþjóðlega samvinnu. Síðan þá höfum við séð langa röð af alþjóðamálum sem aldrei leysast því alþjóðasamvinna er í skötulíki: stríð og þjóðarmorð, flóttamannamál, skattaskjól, loftslagsmál, og nú síðast, Covid.
„Fullveldi þjóða” þýðir að eina lögmæta uppspretta pólitísks valds liggur hjá þjóðríkinu. Þjóðríkið hefur „fullt vald“ og vill ekki deila því með öðrum. Samkvæmt því eru þjóðarleiðtogar einu réttmætu, og í raun æðstu valdhafar heimsins, og samkvæmt því eru fjölþjóðlegar og alþjóðlegar stofnanir dæmdar til valdaleysis og áhrifaleysis.
Þetta þýðir að ef þjóðríki ákveður að gera ekkert til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda hjá sér, þá er það í fullum rétti til þess, og þvinganir frá öðrum þjóðum eða alþjóðastofnunum eru „árás á fullveldi þjóða”.
Loftslagsmálin sanna hvað best að hugmyndin um fullveldi þjóða er ekki bara frekjuleg, heldur beinlínis stórhættuleg mannkyninu. Ekki einu sinni Jón Sigurðsson, þjóðarhetja Íslendinga, notaði það hugtak í sinni baráttu.
Í því ljósi er fróðlegt að bera saman loftlagsmálin annars vegar, og íslenska kvótakerfið hins vegar. Á níunda áratug síðustu aldar stóðu Íslendingar frammi fyrir ofveiði. Eina leiðin til að sporna gegn henni var að fá ríkisvaldið til að setja þak á veiðiheimildir og skera úr um hvernig þessum heimildum yrði dreift á milli útgerða. Nákvæmlega útfærslan á kvótakerfinu hefur síðan verið umdeild en aðalmarkmið þess, að koma í veg fyrir ofveiði, hefur náðst, og þannig bjargað Íslendingum frá meiriháttar umhverfis- og efnahagsslysi.
En hvað hefði gerst ef útgerðarmenn hefðu farið að veifa hugmyndum um „fullveldi útgerðarmannsins” (lesist: frelsi til að veiða eins mikið og honum sýndist)?
Þá hefði þurft að finna upp á einhverju svipuðu og Parísarsamkomulaginu: Útgerðarmenn hefðu verið fengnir á stóran fund á Kaffi París og lausnin hefði verið að hver og einn fengi að ráða hvað hann ætlaði að gera í málunum. Þeir sem gerðu ekkert til að minnka veiðarnar eða lofuðu einhverju sem þeir sviku svo hefðu komist upp með það, því refsingar hefðu verið „brot á fullveldi útgerðarmanna”. Og hvernig ætli sagan hefði endað?
Illa, því við mennirnir erum tregir til að færa fórnir ef við höfum ekki tryggingu fyrir því að aðrir séu líka að leggja sitt af mörkum. Þessa tryggingu veittu yfirvöld með því að setja upp strangt fiskveiðistjórnunarkerfi með refsiákvæðum. En til þess að þetta væri mögulegt þurftu Íslendingar fyrst að byggja sér upp miðlæga, öfluga valdastofnun, sem var fær um að hefja sig yfir hagsmuni einstakra útgerðarmanna og beita sér í þágu heildarinnar.
Það sama á við þjóðríki heims: það verður aldrei hægt að leysa alþjóðleg vandamál á borð við hlýnun jarðar nema að þjóðríkið hætti að einoka valdið og veiti alþjóðastofnunum og ríkjasamböndum raunverulegt vald til að taka ákvarðanir sem einhverju máli skipta, og til að fylgja þeim eftir með refsiaðgerðum ef þörf krefur.
Góðu fréttirnar eru að slíkar stofnanir, eða vísir að þeim, eru nú þegar til staðar.
27 þjóðríki heims hafa nú þegar komið sér saman um að byggja upp sameiginlega valdastofnun sem er fær um að leysa sameiginleg vandamál. Sú stofnun heitir ESB. Hún er ekki fullkomin frekar en aðrar mannlegar valdastofnanir en henni má breyta og bæta.
ESB hefur vald til að skera úr um hversu mikið skuli draga úr losun innan sambandsins, og hvernig eigi að dreifa byrðinni á milli aðildarríkja, því það er hvorki raunhæft né sanngjarnt að ætlast til þess að allar þjóðir geri nákvæmlega það sama. Um leið getur ESB veitt aðildarríkjum tryggingu fyrir því að allir leggi sitt af mörkum með því að beita refsiákvæði. Og það er ekki allt. Vegna þess hvað ESB er stór eining á alþjóðasviðinu getur það beitt þrýstingi á stórþjóðir eins og BNA, Kína og Rússland til að þeir taki á sinni eigin losun. Og margt af þessu er ESB nú þegar byrjað að gera, en um nýjustu loftslagsstefnu ESB má lesa hér.
En til þess að gera þetta allt þarf ESB stuðning frá aðildarþjóðum. Allar hendur á dekk, og því fleiri því betra. Með inngöngu í bandalagið gæti Ísland beitt atkvæðisrétti sínum innan stofnana ESB til að þrýsta á að stefnunni sé framfylgt, eða jafnvel til að kalla eftir enn betri stefnu.
En hvað segir VG við því? „Nei takk. Ætlum bara að redda þessu sjálf. Við mætum kannski á næsta Parísarpartíi...”
Líklega út af fullveldismeinlokunni.
En þetta þýðir eitt og bara eitt: að þrátt fyrir göfugan ásetning og fallega stefnuskrá er stefna VG í loftslagsmálum lítið annað en hið gamla góða: „Þetta reddast (í París).”