Á miðbaugsbeltinu í Kyrrahafinu er sjórinn þremur gráðum heitari en í meðalári. Það þýðir að milljónir manna munu þjást vegna hungursneyðar og náttúruhamfara og margir neyðast til að flýja heimili sín. Áhrifanna gætir allt frá Perú til Papúa Nýju Gíneu; og jafnvel í Afríku, sem þó er þúsundum kílómetra frá Kyrrahafinu. Allt út af veðrakerfinu El Niño.
Núverandi hitastig þýðir að styrkur og eyðileggingarmáttur veðrakerfisins gæti orðið sá mesti í 65 ár, síðan 1950. Þessum Niño er líkt við skrímslið Godzilla, sem veldur tortímingu hvar sem það kemur.
Mælikvarðinn á styrk El Niño fyrirbærisins er þriggja mánaða meðaltal yfirborðshita á stóru svæði í Kyrrahafinu, þannig að endanlegar tölur um styrk þessa Niños munu ekki liggja fyrir fyrr en á nýju ári.
Þó dylst engum að þrjár gráður yfir meðalhita á mælisvæðinu Niño 3.4 er með því hæsta sem nokkurn tíma hefur mælst. Hámarkinu er ekki náð enn. Hitinn mun að öllum líkindum hækka enn meira næstu vikurnar. Neðar í pistlinum reynum við að útskýra hvers vegna þetta gerist.
Því rauðari litur, þeim mun stærra frávik frá meðalhitastigi. Rauða beltið fylgir miðbaugi. Myndin er fengin að láni hjá climate.gov.
Hungursneyð og fólksflótti
Áhrifin af El Niño eru mismunandi á milli staða. Sums staðar verður hlýrra og blautara. Sums staðar hlýrra og þurrara. Sums staðar verður jafnvel kaldara í veðri. El Niño nær jafnan hámarki á tímabilinu október-janúar en áhrifanna gætir bæði fyrir og eftir þann tíma.
Áhrif El Nino á veðurfar eru mismunandi milli staða. Þessi skýringarmynd á við vetrarmánuðina desember-febrúar meðan áhrifa El Nino gætir sem sterkast. Myndin er fengin að láni frá bandarísku veðurstofunni NOAA.
Í Ástralíu er nú þegar hitabylgja og miklir þurrkar. Hætta á kjarreldum er að nálgast efsta hættustig í suðaustanverðu landinu, þar sem allar stærstu borgir landsins eru. Þó er sumarið rétt að byrja þeim megin á hnettinum.
Á Kyrrahafseyjunum eru miklir þurrkar og uppskerubrestur. Áætlað er að 4,7 milljónir manna muni finna fyrir áhrifum El Niño á því svæði. Þar af þarf á að giska ein milljón fólks á hásléttum Papúa Nýju Gíneu á neyðaraðstoð að halda.
Á Kyrrahafsströnd Suður-Ameríku má búast við miklum rigningum og flóðum. Í Perú og Ekvador má búast við gífurlegri eyðileggingu, uppskerubresti, mannfalli og tjóni á innviðum. Forseti Ekvador hefur lýst yfir neyðarástandi næstu tvo mánuðina vegna þess sem koma má.
Í Afríku magnar El Niño upp einkenni hverrar árstíðar, sérstaklega yfir miðbik Afríku, sunnan Sahara. Þurrkatímabil verða heitari og regntíminn úrkomumeiri. Í ofanálag koma pólitískir þættir, ofbeldi og spilling. Í Eþíópíu líða 8 milljónir manna hungur eftir langvarandi þurrka og nauðin verður meiri vegna El Niño. Hins vegar er erfitt að greina þar hversu mikið vægi veðrakerfisins er, á móti öðrum þáttum. Í ofanálag má stór hluti Austur-Afríku, m.a. Eþíópía, Sómalía, Kenía og Tansanía, eiga von á flóðum og skriðum sem eru beintengd El Niño, þegar regntímabilið byrjar eftir áramót.
Ofureinföld útskýring á El Niño
Auðvitað er einföldun að segja að hörmungarnar eigi sér stað út af heitum sjó, eins og gert er í fyrirsögn þessa pistils. Heitur yfirborðssjór er eitt af megineinkennum El Niño veðrakerfisins, en aðeins ein af mörgum samþættum orsökum. Fréttamiðillinn Vox gerir ágæta tilraun til að útskýra flókið samspilið með góðum skýringarmyndum. Hér að neðan er stytt og einfölduð útgáfa.
Á Kyrrahafinu er austanáttin ríkjandi vindátt í námunda við miðbauginn, og blæs að jafnaði heitum yfirborðssjó frá austri til vesturs, í átt að Ástralíu og Indónesíu. Þannig myndast hringrás hafstrauma. Kaldur og næringarríkur sjór leitar upp á yfirborðið við Suður-Ameríku, yfirborðsstraumarnir fylgja vindinum í vesturátt að Indónesíu og Ástralíu, og þaðan leitar heitur sjórinn niður á við og svo til baka í austurátt, yfir hafið og aftur upp á yfirborðið við Suður-Ameríku. Í meðalári er yfirborð sjávar um 8 gráðum heitara og hálfum metra hærra við Indónesíu en við Suður-Ameríku.
En stundum slaknar á austanáttinni og snýst jafnvel í vestan. Þá ýtir þyngdaraflið heita yfirborðsvatninu aftur í átt að Suður-Ameríku. Þetta er kallað El Niño, sveinbarnið. Af því þetta nær oft hámarki um jólaleytið fóru kaþólikkar í Suður-Ameríku að nefna veðrakerfið eftir jesúbarninu.
Af því Kyrrahafið er svo risastórt hefur það gríðarleg áhrif á jafnvægið milli veðrakerfa heimsins. Sérstaklega á þetta við um heita sjóinn við Indónesíu og úrkomuhringrásina sem hann nærir. Þegar þetta jafnvægi riðlast, hefur það meðal annars áhrif á hraðskreiða loftstrauma í háloftunum (e. jet streams), og víðfeðma hafstrauma í Kyrrahafi, sem aftur tengjast öðrum höfum eins og Indlandshafi.
Í ár fer El Niño einnig saman við annað laustengt og sambærilegt veðrakerfi sem oft hefur verið kallað Niño Indlandshafsins, eða Indian Ocean Dipole á ensku. Þetta eru sérstaklega vondar fréttir fyrir Ástralíu og Indónesíu. Þegar þetta tvennt fer saman verða þurrkarnir og hitabylgjurnar enn heiftarlegri. Samkvæmt áströlsku veðurstofunni var októberhitinn í Indlandshafi vestan Ástralíu mesta frávik frá meðalhita sem mælst hefur.
Tugmilljónir flýja náttúruhamfarir
Þessar náttúruhamfarir munu án efa reka enn fleiri á flótta en þá sem þegar hafa flúið heimili sín. Norska flóttamannahjálpin áætlar að um 26 milljónir manna á ári hafi flúið heimili sín síðan árið 2008. Það er um 62,000 á dag. Þar er reyndar einnig bent á að það er ekki einungis stærð náttúruhamfaranna sem ræður því hversu margir flýja heimili sín. Aðrir þættir, margir þeirra af mannavöldum, hafa einnig mikið að segja: framtakslítil og spillt stjórnvöld, hröð og óskipulögð borgarmyndun og fólksfjölgun á hættusvæðum eða viðkvæmum svæðum.
Þar að auki má finna bein og óbein orsakatengsl á milli loftslagsbreytinga og stríðsátaka, sem reka enn fleiri á flótta. Oft atvikast það á þessa leið: Fólk sem lifir af landbúnaði missir lífsviðurværi sitt, t.d. vegna þurrka eða flóða, og verður að flytja sig úr stað með kvikfénað sinn. Það kemur í nýtt hérað, oft í nágrenni við fyrri heimkynni en þar er fólk fyrir, sem einnig lifir af landinu og finnur líka fyrir áhrifum loftslagsbreytinga.
Samkeppnin um gæði jarðar getur þróast út í vopnuð átök í héraðinu. Þetta hefur gerst í Malí. Það var í það minnsta einn af skýringarþáttunum í Darfur fyrir nokkrum árum. Einnig getur óánægja í samfélaginu magnast upp eftir langvarandi uppskerubrest og leitt til byltingar, eins og gerðist í hinni frægu frönsku byltingu árið 1789.
Þetta er það sem gerðist í Sýrlandi. Þar urðu miklir þurrkar og uppskerubrestur á árunum 2007-2010 sem aftur leiddu af sér mikla óánægju í samfélaginu. Í einni umfangsmestu rannsókn sem gerð hefur verið á tengslum stríðsátaka og loftslagsbreytinga hafa vísindamenn komist að þeirri niðurstöðu að þurrkana megi rekja til loftslagsbreytinga af mannavöldum og að bein orsakatengsl séu á milli þurrkanna og þeirra stríðsátaka sem nú geisa í Sýrlandi.