Fyrir rúmum tveimur mánuðum tók Jeremy Corbyn við sem leiðtogi Verkamannaflokksins. Örfáum mánuðum fyrr vissu fáir hver hann var og engan grunaði, ef til vill síst hann sjálfan, að hann myndi sigra í leiðtogakjöri með ríkulegra umboð flokkssystkina sinna en sjálfur Tony Blair á sínum tíma.
Leiðtogakjörið kom í kjölfar þingkosninga síðastliðið vor þar sem Verkamannaflokkurinn galt afhroð og tapaði 26 sætum á breska þinginu. Í kjörinu voru fjórir frambjóðendur Liz Kendall, Andy Burnham, Yvette Cooper og Jeremy Corbyn. Í byrjun kosningabaráttunnar var Burnham orðaður við sigur en stuðningur við andstöðu Corbyn við niðurskurðarstefnu núverandi ríkisstjórnar vann fljótlega á. Aðsókn á kosningaviðburði hans um allt land var gífurleg, sérstaklega á meðal ungs fólks. Fólk flyktist að til þess að skrá sig í flokkinn og meira en 400,000 manns tóku þátt í leiðtogakjörinu sem endaði með afdráttarlausum sigri Corbyn með 60% atkvæða.
Þrátt fyrir þetta mikla umboð kom brátt í ljós að Corbyn myndi eiga erfitt með að hafa stjórn á eigin þingflokki. Í kosningabaráttunni urðu átök milli hægri og vinstra vængs flokksins áberandi. Á meðan á leiðtogakjörinu stóð hafðí fyrrum leiðtogi flokksins, Tony Blair, birt greinar í the Guardian og varað við sigri Corbyns, sem myndi færa flokkinn of langt til vinstri. Enda er hægri vængur flokksins mjög efins um Corbyn, sérstaklega stefnu hans í efnahagsmálum og hernaðarmálum. Þessi átök hafa orðið meira áberandi eftir að þingið kom saman í haust og hefur Corbyn þurft að þola ófáar pólitískar árásir frá eigin félögum. Þetta vekur spurningar um raunverulega stöðu hans.Fjárfestum í fólki en ekki bönkum
Helsta kosningamál Corbyn var andstaða hans við niðurskurðarstefnu núverandi ríkisstjórnar. Að hans mati er það hlutverk ríkisstjórnarinnar í kreppu að auka útgjöld til þess að ýta undir hagvöxt. Þegar hagvöxtur fer vaxandi fær ríkið meiri tekjur í gegnum skatta sem hægt er að nota til þess að greiða niður halla á fjárlögum. Þetta er í andstöðu við stefnu ríkisstjórnar Cameron sem hefur skorið harkalega niður útgjöld síðan þau komu til valda árið 2010. Niðurskurðarstefnan hefur haft víðfeðm áhrif á líf fólks, bitnað sérstaklega á þeim sem minna mega sín og vakið mikla reiði í samfélaginu. Hér var Corbyn að boða töluvert mikla breytingu frá stefnu forvera síns Ed Milliband sem ekki var á móti niðurskurði þótt hann teldi að ekki ætti að fara jafn harkalega í slíkar aðgerðir og ríkisstjórn Cameron.
Það vakti mikla athygli í leiðtogakjörinu þegar Corbyn lagði til nýja efnahagsáætlun sem hann nefndi „People’s Quantitative Easing”. Þar vitnaði hann í aðgerðir seðlabanka Evrópu og annarra þjóða í þágu fyrirtækja í nýafstaðinni fjármálakreppu en boðaði í staðinn aðgerðir í þágu fólksins. Hefðbundin efnahagsstjórnun seðlabanka þegar hægir á efnahaginum snýst um að lækka stýrivexti til þess að örva hagvöxt. Þegar stýrivextir fara niður í 0% eins og í kreppunni 2008 þá verða seðlabankar að grípa til annarra aðgerða líkt og að prenta peninga. Í Bandaríkjunum, Bretlandi og Evrópu hefur þessum nýju peningum verið dælt í fjármálaheiminn með því að fjárfesta til dæmis í vogunarsjóðum, hlutabréfum, verðbréfum og gulli. Með þessum aðgerðum skapast meira framboð af peningum sem er hægt að nota til þess að fjárfesta í atvinnulífinu en það skilar sér í auknum hagvexti. Í staðinn fyrir að fjárfesta í fjármálaheiminum vildi Corbyn nota prentuðu peningana beint til þess að að fjárfesta í uppbyggingu á innviðum samfélagsins, en það myndi hafa sömu áhrif, þ.e. örva eftirspurn. Hann lagði til fjárfestingar í grænni orku, nýju íbúðarhúsnæði, betra samgöngukerfi og uppbyggingu í nýsköpun. Slagorðið var að fjárfesta í fólki en ekki bönkum.
Verkamannaflokkurinn er í stjórnarandstöðu og því hefur Corbyn ekki fengið tækifæri til þess að sannreyna þessar hugmyndir. Hugmyndin mætti líka mikilli andstöðu innan flokksins. Yvette Cooper talaði fyrir hönd margra meðlima þingflokksins þegar hún sagði að slíkar aðgerðir myndu veikja pundið og leiða til verðbólgu.
Árangursríkt aðhald
Engu að síður hefur Corbyn veitt ríkisstjórninni árangursríkt aðhald í nýjustu niðurskurðartillögum sínum. George Osborne, fjármálaráðherra, kynnti í sumar tillögur um að skera niður fjóra milljarða punda af bótum til lágtekjufólks. „Tax credits” e.o. þær heita eru félagslegar bætur til barnafjölskyldna og fólks í láglaunastörfum sem eiga erfitt með að ná endum saman. Fjórar milljónir Bretar reiða sig á bæturnar og því myndi kjör stórs hóps skerðast verulega ef að tillögurnar hefðu verið samþykktar. Corbyn gagnrýndi ríkisstjórnina fyrir þessar aðgerðir í þingsal og lagði margar spurningar fyrir forsætisráðherrann um málið. Svo gerðist sá fáheyrði atuburður að Íhaldsmenn töpuðu kosningu um frumvarpið í Lávarðadeildinni þar sem aðgerðirnar þóttu of harkalegar. Þetta var mikill ósigur fyrir ríkisstjórnina en gaf stefnu Corbyn byr undir báða vængi. Á miðvikudaginn síðastliðinn tilkynnti George Osborne þinginu að ríkisstjórnin hefði horfið frá áformum sínum um að fella niður þennan skattaafslátt. Þetta var mikill sigur fyrir stjórnarandstöðuna, og hefði átt að styrkja stöðu Corbyns.
En skjótt skipast veður í lofti því John McDonnell, fjármálaráðherraefni flokksins og náinn samverkamaður Corbyns, varð illa á í messunni þegar hann svaraði þessari yfirlýsingu Osborne. Í ræðu sinni var hann að gagnrýna áform Osborne um að selja hlut ríkisins í járnbrautakerfi Breta til Kínverja. McDonnell vill sjálfur koma járnabrautunum aftur í ríkiseign en Íhaldsmenn eru fylgjandi því að einkavæða þjónustu sem þessa. Það er því nokkuð þversagnakennt að þeir skulu vilja selja hana til Kínverska ríkisins.
Mistök McDonnells voru að draga upp rauða kver Maó í ræðustólnum og vitna í það í þeim tilgangi að hæðast að Osborne fyrir að vera í raun kommúnisti. En einhvern veginn snerist þetta í höndunum á McDonnell. Brandaranum var snúið gegn McDonnell en Íhaldsmenn hafa reynt að draga úr efnahagslegum trúverðugleika skuggasráðuneytisins með því að segja að þeir séu allir gamlir kommúnistar. Tilvísunin í Mao formann þótti einnig óviðegandi sérstaklega í ljósi þess að hann mun hafa borið ábyrgð á hungursneyð sem kostaði 45 milljónum lífið. Athygli fjölmiðla beindist að brandara McDonnell sem gerði það að verkum að sigur stjórnarandstöðunnar bótamálinu fékk minni athygli. Andstæðingar Corbyn innan Verkamannaflokksins munu reyna að sýna fram á að dómgreindarleysi af því tagi sem helsti vinur hans og fjármálaráðherraefni sýndi geri Corbyn að óhæfum leiðtoga.
Stefnan í utanríkis- og hernaðarmálum
Corbyn er yfirlýstur friðarsinni og hefur alla tíð verið á móti kjarnorkuvopnaeign Breta. Eitt helsta kosningamál hans var að binda endi á hana og hann hefur sagt að hann myndi aldrei ‘ýta á takkann’ ef hann yrði forsætisráðherra. Fljótlega eftir leiðtogakjörið var haldin fyrsti landsfundur Verkamannaflokksins þar sem Corbyn hvatti til að kjarnorkustefna flokksins væri rædd og sagðist vonast til þess að geta sannfært flokksmenn um að takmörkun kjarnorkuvopna væri af hinu góða. Hann vildi að kosið yrði um stefnu flokksins í þessu máli en fékk því ekki framgengt. Í fjölmiðlum þótti það sýna veika leiðtogahæfileika Corbyn að geta ekki sett jafn mikilvægt málefni á dagskrá landsfundar .
Ekki bætti úr skák þegar hershöfðinginn Sir Nicholas Houghton kom fram í viðtali og gaf í skyn að hann teldi Corbyn ekki vera efni í forsætisráðherra vegna stefnu sinnar í kjarnorkumálum. Corbyn svaraði skjótt og minnti hershöfðingjann eðlilega á að það væri ekki í samræmi við stjórnarskrána að menn í hans stöðu tæku þátt í pólitískum deilum heldur ætti herinn ávallt að gæta hlutleysis. En þá bar svo við að Marie Eagle, varnarmálaráðherraefni Verkamannaflokksins kom fram í fjölmiðlum og tók undir með hershöfðingjanum. Það að meðlimur skuggaráðuneytis Corbyn skuli ljá máls á því að Corbyn sé ekki forsætisráðherraefni segir mikið um hversu erfitt hann á að ná trausti eigin þingflokks.
Sýrland
Árásirnar í París hafa gjörbreytt pólitísku landslagi í utanríkis- og hernaðarmálum Breta. Ríkisstjórn Cameron kynnti tillögur um hernaðaraðgerðir í Sýrlandi á fimmtudaginn síðastliðinn þar sem lagt var til að Bretar myndi hefja loftárasir á Íslamska ríkið. Í umræðum um málið á þinginu lagði Corbyn spurningar fyrir Cameron um fyrirhugaðar loftárásir, tilgang þeirra fyrir öryggi Breta og víðari stefnu í málum Mið-Austurlanda. Til marks um stefnu Corbyn í þessu máli þá kom McDonnell fram í viðtali sl. sunnudag og sagðist mótfallinn því að Bretar sendu inn herlið þar sem það myndi einungis hjálpa hinu svokallaða Íslamska ríki að vaxa ef Vesturlönd héldu áfram inngripum sínum í átök í Mið-Austurlöndum. Það myndi renna frekari stoðum undir öfgamennina með því að auka enn frekar á reiði og þar með styrkja þá heildarfrásögn Íslamska ríkisins að Vesturlönd væru í „krossferð“ gegn múslímum. McDonnell sagði að styrkja þurfti öfl frá Mið-Austurlöndum til þess að vinna sigur á Íslamska ríkinu á svipaðan hátt og þegar Sunni-ættbálkurinn fékk stuðning til að vinna sigur á Al- Qaeda í Írak.
Eftir umræðurnar á þinginu á fimmtudag var það ljóst að margir þingmenn Verkmannaflokksins vildu styðja áætlun Cameron í Sýrlandi. Hillary Benn, utanríkisráðherraefni flokksins, er einn af þeim sem hefur lýst því yfir að hann sé fylgandi loftárásunum. Á fimmtudagskvöld, eftir „líflegar” umræður um málið í skuggaráðuneytinu, sendi Corbyn bréf til þingmanna Verkamannaflokksins þar sem hann sagðist ekki geta stutt aðgerðir Cameron. Að hans mati hafði forsætisráðherran ekki getað fært nógu sannfærandi rök fyrir því hvernig aðgerðirnar myndi tryggja öryggi Breta eða sýnt fram á heilsteypta áætlun sem myndi koma Íslamska ríkinu frá. Þingmenn flokksins hafa verið hvattir til þess að íhuga málið yfir helgina en enn er óvíst hvort að Corbyn leyfi þingmönnum sínum að kjósa eftir eigin samvisku í málinu eða hvort hann herði á flokksaganum. Í kjölfari bréfisins komu nokkrir þingmenn flokksins fram, sögðust óánægðir með framgöngu Corbyn í málinu. Einn þeirra, John Spellar, gekk svo langt að hvetja til afsagnar.
Ljóst er að Corbyn vann leiðtogakosningarnar með gífurlegu umboði. Hluti af vinsældum hans var vegna þess að hann var einn af fáum þingmönnum Verkamannaflokksins sem kaus á móti Íraks stríðinu á sínum tíma. Diane Abbott, þingmaður og stuðningsmaður Corbyn, sagði í viðtali við Channel 4 að 70% af meðlimum Verkamannaflokksins væri á móti loftárásum á Sýrland. Momentum, grasrótahreyfing sem var stofnuð af stuðningsmönnum Corbyn, hefur flykkt sér í kring um leiðtogann og hvatt meðlimi til þess að hafa samband við þingmenn um helgina og biðja þá um kjósa gegn loftárásum. Hvort að Corbyn nær að sameina eigin þingflokk um afstöðu sína mun skýrast í næstu viku og vera mikilvægur prófsteinn á leiðtogahæfileika Corbyn.