Yfirstandandi fjármálakreppa hefur komið harkalega niður á hinum almenna borgara í Rússlandi. Sérstaklega hafa tekjuminni þjóðfélagshópar átt erfitt uppdráttar, meðal annars vegna hækkandi verðs á helstu nauðsynjavörum. Í leiðara rússneska viðskiptablaðsins Vedomosti í síðustu viku er umfjöllunarefnið einmitt hin aukna fátækt á meðal rússnesku þjóðarinnar. Í umfjölluninni er stuðst við tölfræði frá rússnesku hagstofunni, Rosstat, sem áætlar að 21.7 milljón Rússa hafi lifað undir fátækramörkum eftir fyrstu sex mánuði árins 2015. Í samanburði er nefnt að 18.9 milljón Rússa hafi lifað undir fyrrgreindum mörkum eftir fyrstu sex mánuði ársins 2014.
Margt bendir þó til þess að staðan sé enn verri og að tölur rússnesku hagstofunnar endurspegli því ekki raunverulega stöðu mála í Rússlandi. Tölfræðin virðist þannig aðeins skrapa topp ísjakans og ekki ná yfir ört stækkandi hóp þeirra allra verst settu - fólkins sem neyðist til að búa á götunni.
Heildarfjöldinn óljós
Helsta vísbendingin um vanmat rússnesku hagstofunnar er sú staðreynd að engin marktæk opinber tölfræði er til yfir fjölda heimilislausra í Rússlandi. Manntöl sem voru framkvæmd í Rússlandi, árið 2002 annars vegar og 2010 hins vegar, hafa sérstaklega verið harðlega gagnrýnd fyrir að vanmeta heildarfjölda heimilislausra stórlega. Í seinna manntalinu voru aðeins rúmlega 64 þúsund skráðir heimilislausir í Rússlandi en heildarfjöldinn er yfirleitt talinn ná yfir 1.5 milljón og allt upp í 5 milljónir manns.
Skýringar á þessarri skekkju í talningum á heildarfjölda heimilislausra í Rússlandi geta verið ýmsar. Hugtakið “heimilislaus” getur til að mynda verið óljóst og því mikilvægt að átta sig á því hversu þröngt mismunandi talningar skilgreina það hverju sinni. Önnur líkleg skýring á skekkjunni er sú staðreynd að stór hluti heimilislausra í Rússlandi er ekki með löglegt dvalarleyfi í landinu. Fólk getur þannig fljótt fallið á milli þylja í kerfinu og orðið nánast ósýnilegt. Hvort sem er fyrir hinu opinbera eða öðrum aðilum sem leggja mat á heildarfjölda heimilislausra í Rússlandi. Viðkomandi aðilar ganga svo greinilega mislangt í viðleytini við að fylla í eyðurnar í áætlunum sínum.
Heimildum ber þó saman um að Moskva sé með mestan fjölda heimilislausra í Rússlandi og er fjöldinn yfirleitt talinn vera á bilinu frá tugum þúsunda og upp í hundrað þúsund. Uppruni hinna heimilislausu er margvíslegur og ástæður að baki því að fólkið endar á götunni eru ólíkar. Ætla má þó að margir hinna heimilislausu séu utanaðkomandi og hafi upphaflega komið til Moskvu og annarra stærri borga í leita að auknum atvinnutækifærum og betra lífi.
Moskva þá og nú
Fall Sovétríkjanna og sú félagslega -og efnahagslega kreppa sem fylgdi í kjölfarið, næstu árin á eftir, kollvarpaði lífi margra Rússa. Í Moskvu ríkti mikill glundroði en ljósmyndir frá þessum umbrotaárum undirstrika margar hverjar hina miklu eymd sem þá var ríkjandi í samfélaginu. Í bókinni Down and Out in Moscow má sjá samansafn af myndum þýska ljósmyndarans Miron Zownir frá heimsókn hans til Moskvu árið 1995.
Í nýlegu viðtali við Dazed tímaritið ryfjar Zownir upp heimsóknina til Moskvu og lýsir þar aðbúnaði heimilislausra í borginni. “Þetta fólk var að deyja úr hungri, sjúkdómum eða ofþornun fyrir framan samborgara sína og enginn virtist gera neitt. Jafnvel dagblöðin virtust ekki hafa áhuga á því sem var að gerast,” segir ljósmyndarinn og telur að myndirnar eigi jafn vel við í dag og fyrir tuttugu árum.
Nú til dags eru matargjafir, fatnaður og aðgengi að læknaþjónustu reyndar, sem betur fer í auknum mæli, innan seilingar fyrir heimilislausa í Moskvu. Ólíkt við það sem tíðkaðist á tíunda áratug síðustu aldar. Baráttan við rússneska veturinn reynist hinum heimilislausu þó ennþá jafn erfið og áður.
Skortur á langtíma úrræðum
Þúsundir heimilislausra deyja á ári hverju í Rússlandi vegna ofkælingar og vosbúðar.
Þrátt fyrir að fjöldinn allur af hjálparsamtökum, bæði á vegum hins opinbera og annarra aðila, reyni eftir fremsta megni að veita heimilislausum aukna aðstoð yfir kaldasta tímann - þá er það einfaldlega ekki nóg. Samkvæmt heimasíðunni homeless.ru dóu til að mynda 1.042 heimilislausir í Pétursborg á fimm mánaða tímabili frá nóvember 2012 til mars 2013.
Yfir heitari árstíðirnar má segja að nálgun sumra hjálparsamtakanna breytist að sumu leyti. Húsaskjól, mataraðstoð og læknaþjónusta eru vitanlega í forgangi hjá þeim hjálparsamtökum sem sérhæfa sig í aðstoð við heimilislausa í Rússlandi. Síðasta sumar vakti þó mikla athygli sameiginlegt framtak borgaryfirvalda í Moskvu og nokkurra hjálparsamtaka borgarinnar til aðstoðar heimilislausum. Framtakið miðaði að því að bjóða heimilislausum í bíó og klippingu. “Fyrir flesta þykir ekkert merkilegt að fara í bíó eða að láta klippa sig. En fyrir fólk sem býr á götunni og á erfitt getur verið mikil upplyfting að fá aðgang að slíkri þjónustu. Heimilislausa fólkið þarf að finna fyrir því að það sé eins og aðrar manneskjur,” sagði Andrei Besshtanko, yfirmaður deildar almannatrygginga hjá Moskvuborg, í viðtali um átakið.
Eftir því sem fólk er lengur heimilislaust, því minni líkur eru á því að það nái að verða aftur virkt í samfélaginu. Samkvæmt Eleonore Senlis, hjá SAMU-hjálparsamtökunum í Moskvu, skortir þó einmitt þessi langtíma úrræði fyrir heimilislausa í Rússlandi til að snúa við blaðinu. Hjálparsamtökin geti veitt skammtíma úrræði, s.s. mat, húsaskjól og læknisaðstoð, en hafi oft ekki bolmagn til þess að veita þá sálfræðihjálp og endurhæfingu sem fólk þarf á að halda til að eiga afturkvæmt frá lífinu á götunni. Það er því oft undir einstaklingunum sjálfum að taka málin í sínar eigin hendur.
Heimilislausi bloggarinn frá Jakútíu
Maður að nafni Zhenya Yakut hefur nú brotist fram á sjónarsviðið í Rússlandi með ansi sérstökum hætti. Yakut varð frægur á samfélagsmiðlum eins og svo margir, sem er ef til vill ekki í frásögur færandi - nema hvað að hann er heimilislaus.
Hinn 43 ára Yakut kemur frá Jakútíu og hefur að eigin sögn verið heimilislaus í Moskvu, meira eða minna undanfarin fimm ár. Með myndböndum og myndum deilir Yakut reynslu sinni af lífinu á götunni í Moskvu. Hann lýsir þar meðal annars hvar sé auðveldast að ná sér í ókeypis mat, hvar sé best að finna svefnstað og aðstöðu til að þvo sér. Sjón er sögu ríkari.
Yakut hefur á sex mánuðum rakað inn um áttatíu þúsund áskrifendum á Youtube stöðinni sinni. Þá notar hann einnig Instagram og VKontakte, sem er nokkurs konar rússnesk útgáfa af Facebook, til að koma boðskap sínum á framfæri. Yakut fer ekki leynt með markmið sitt með blogginu, en það er auðvitað að græða peninga til þess að koma undir sig fótunum. Yakut til halds og trausts í upptökum á myndefninu er huldumaðurinn Andrei Voodoo, en hann sér um tæknilegu hlið mála.
Ekki eru allir sannfærðir um að Yakut sé sá sem hann segist vera og setja meðal annars út á að hann sé of þrifalegur til fara til þess að vera heimilislaus. Hvernig sem því líður, þá verður ekki tekið af Yakut að hann vekur máls á mikilvægum málaflokki og gefur ákveðna innsýn inn í nöturlegt lífið á götunni. Hlutskipti heimilislausra er, eðli málsins samkvæmt, alltaf skelfilegt. Hinn óblíði rússneski vetur er þó sérstaklega erfiður andstæðingur fyrir heimilislausa í Rússlandi og hver dagur í raun barátta upp á líf og dauða.