Angela Merkel kanslari Þýskalands hefur varað við nýju stríði á Balkanskaga ef Evrópa bregst ekki við flóttamannavandanum frá Sýrlandi og fleiri stöðum. Landamæri hafa víða lokast og margir flóttamenn eru fastir í ríkjum sem þeir ætla sér ekki að dvelja í. Gremja þessara ríkja er mikil en er í raun hætta á nýrri Balkan-styrjöld?
Nýtt stríð?
Angela Merkel hefur boðið flóttamenn frá Sýrlandi og víðar velkomna í Þýskalandi en sú stefna hefur verið umdeild, m.a. í hennar eigin flokki, Kristilegum Demókrötum. Helsti gagnrýnandi stefnu hennar er Horst Seehofer ríkisstjóri Bæjaralands þar sem flestir flóttamenn koma inn í landið en hann er einmitt flokksbróðir Merkel. Hún stendur því í ströngu við að sannfæra fólk og lægja öldur. Aðvörunarorð hennar um nýja Balkanstyrjöld féllu einmitt á einum slíkum fundi með eigin flokksmönnum. „Ég vill ekki ala á ótta. En þetta gerist hraðar en maður heldur. Áflog koma verða til úr rifrildum og hlutir sem enginn vill verða til úr áflogum.“ Hún segir að það gæti einmitt gerst ef Þýskaland lokar landamærum sínum og hleypir ekki því fólki inn sem lofað hefur verið hæli. Flóttafólkið yrði þá fast á Balkanskaga, svæði þar sem ótal þjóðir búa á og hefur verið ákaflega eldfimt í gegnum tíðina. Ríkin á Balkanskaga hafa flest verið mjög treg að taka við flóttafólki og eru illa í stakk búin til þess sérstaklega nú þegar vetur er í nánd. Mörg ríki hafa beitt lögreglu og jafnvel hernum gegn flóttafólki og ljóst að lausn á vandamálinu er aðkallandi. Zoran Milanovic, forsætisráðherra Króatíu fullyrðir að það brjótist ekki út stríð en varar Þjóðverja þó við að loka landamærum sínum. Hann talar þó alls ekki fyrir hönd allra ríkja á skaganum og hver þjóð spilar sinn leik. Skortur á samvinnu og samheldni er alger og farið er að glitta í gamalkunnar þjóðerniserjur á svæðinu.
Sigur Júgóslavismans
Frá ómunatíð hafa ótal þjóðir og þjóðarbrot búið á Balkanskaga en yfirleitt innan landamæra erlendra stórvelda. Á 19. öld og í upphafi 20. aldarinnar óx þjóðarvitund og þjóðerniskennd á svæðinu og athygli flestra stórvelda beindist að því. Austurríkismenn og Otttómanar höfðu ríkt þar um aldir en nú áttu þeir í miklu basli með að halda völdum því að þjóðirnar risu upp og heimtuðu sjálfstjórn, eggjaðar áfram af Rússum sem sóttust til áhrifa. Árið 1912 braust út mikill ófriður á svæðinu. Serbar, Svartfellingar, Grikkir, Búlgarar og Rúmenar herjuðu á Ottómana sem misstu að lokum nánast öll völd á skaganum. Árið 1914 snerust Serbar svo gegn Austurríkismönnum og það varð kveikjan að fyrri heimsstyrjöldinni. Bæði Austurríki og Ottómanaveldið töpuðu þeirri styrjöld og veldi þeirra liðuðust í sundur.
Balkönsk þjóðríki efldust aftur á móti við þetta og á vesturhluta skagans var ákveðið að mynda sambandsríki Suður-Slava, Júgóslavíu. Ríkið var afkvæmi sérstakrar tegundar af þjóðerniskennd sem varð til snemma á 19. öld og kallaðist júgóslavismi. Í Júgóslavíu bjuggu ótal þjóðir sem voru þó að miklu leyti skildar, bæði að þjóðernislegum og tungumálalegum toga. Trúarbrögðin voru þó ólík, kaþólikkar í norðri, múslimar miðsvæðis og rétttrúnaðarmenn í suðri. Vissulega bar á sjálfstæðistilburðum einstakra þjóða innan landsins en árið 1918 trompaði júgóslavisminn aðrar þjóðerniskenndir og Júgóslavar litu á sig sem eina heild.
Konungsríkið Júgóslavía féll í seinni heimsstyrjöldinni og eftir hana varð til kommúnistaríki sem þó laut ekki ofurvaldi Sovétríkjanna eins og flest ríki austan járntjalds. Júgóslavía hélt sig utan við kalda stríðið, samvinna við Vesturlönd var töluverð og efnahagur landsins betri flestra annarra ríkja Austur-Evrópu. Ástæðan fyrir þessu var Josip Broz Tito, stríðshetja úr seinni heimsstyrjöldinni sem stjórnaði ríkinu með járnaga allt til dauðadags árið 1980. Hann var einnig maðurinn sem hélt júgóslavismanum lifandi. Hann var Króati sem barðist þó aðallega með Serbum í stríðinu og naut því virðingar tveggja stærstu þjóðanna innan landsins.
Júgóslavía bútuð niður
Þegar Tito féll frá byrjaði Júgóslavía að liðast í sundur, hægt í byrjun er örugglega. Ástæðan var sú sama og olli ófriðnum í upphafi aldarinnar, þjóðerniskennd. Tito skildi eftir sig mikið tómarúm í júgóslavneskum stjórnmálum, efnahagurinn versnaði til muna og miklar deilur spruttu upp um sjálfstjórn einstakra héraða. Ofan á þetta byrjaði kommúnisminn í Evrópu að hrynja og aukin krafa skapaðist um lýðræði og opnara samfélag, sérstaklega í Slóveníu og Króatíu. Ekki var talið ásættanlegt að hinir fjölmennu Serbar yrðu herraþjóð innan landsins en Serbar voru þeir sem vildu halda í hið gamla miðstýrða kerfi. Þegar kommúnisminn loks féll í Evrópu gekk það að mestu leyti friðsamlega fyrir sig nema í Júgóslavíu.
Fyrstu stríðin hófust í Slóveníu og Króatíu árið 1991. Slóvenía, sem jafnframt var ríkasta svæðið í Júgóslavíu, slapp best af öllum. Eftir nokkurra daga skærur gafst stjórnarherinn upp og Slóvenía varð að sjálfstæðu ríki. Ástæðan fyrir þessu var að miklu leyti sú að Slóvenía var þjóðernislega einsleitnasta svæðið innan landsins. Makedóníumenn í suðri lýsti einnig yfir sjálfstæði á þessum tíma. Ári seinna hófst stríðið í Bosníu-Herzegóvínu sem var þjóðernislega blandaðasta svæðið. Mikið hefur verið deilt um hversu margir fórust í Júgóslavíustríðunum en flestir eru sammála um að það séu yfir 100.000 manns og langmesta mannfallið varð í Bosníustríðinu sem stóð yfir allt til ársins 1995.
Það sem einkenndi Bosníustríðið voru miklar þjóðernishreinsanir sem stundaðar voru af öllum þremur stríðsaðilunum, Bosníumönnum, Króötum og Serbum. Bosníumenn voru fjölmennastir á svæðinu en Bosníu-Serbar og Bosníu-Króatar voru stórir minnihlutar sem voru dyggilega studdir að utan. Ekki var mikið um opnar orrustur heldur varð mannfallið að mestu leyti vegna fjöldamorða á almennum borgurum. Ýmsar aðferðir voru notaðar svo sem skipulagðar nauðganir, pyndingar, svelti, eignaspjöll, menningarspjöll og nauðaflutningar fólks. Milljónir manna lentu á vergangi og þjóðernislandslag Bosníu-Herzegóvínu breyttist verulega. Friðargæslulið Sameinuðu Þjóðanna var sent á svæðið en brást algerlega. Eftir nokkur sérstaklega mannskæð fjöldamorð, þ.m.t. í Srebrenica þar sem um 8.000 karlmenn voru drepnir, hóf Atlantshafsbandalagið loftárásir á svæði Bosníu-Serba. Skömmu seinna var saminn friður á herstöð í Dayton borg í Bandaríkjunum, þar sem Bosníu-Serbar fengu töluverða sjálfstjórn. Eftir stríðið var komið upp sérstökum stríðsglæpadómstól í Haag og margir herforingjar dregnir fyrir rétt fyrir glæpi gegn mannkyni.
Sjálfstæðistilburðir Kosovo-Albana hófust strax eftir að Tito lést en það var ekki fyrr en árið 1998 sem hið eiginlega Kosovostríð hófst. Skæruliðahreyfingin KLA var studd af Albönum sem útveguðu þeim vopn og Atlantshafsbandalaginu sem beitti loftárásum.
Serbneski minnihlutinn í Kosovo var aftur á móti studdur af stjórnarher Júgóslavíu sem beitti þjóðernishreinsunum gegn Kosovo-Albönum en þó ekki af jafn mikilli hörku og í Bosníustríðinu. Ári seinna var svo samið um það að Sameinuðu Þjóðirnar tækju við stjórn Kosovo héraðs. Átökin í Kosovo bárust einnig til Makedóníu sem hafði fram að þeim tíma að mestu leyti sloppið við átök. Endalok júgóslavismans voru svo innsigluð árið 2006 þegar helsta bandaþjóð Serba, Svartfellingar, samþykktu í þjóðaratkvæðagreiðslu að slíta sambandi landanna. Engar blóðsúthellingar fylgdu því þó. Landið sem áður var Júgóslavía er í dag sjö sjálfstæð ríki.
Skylda Evrópu
Þjóðum Balkanskaga og þá sérstaklega þjóðum fyrrum Júgóslavíu hefur farnast best þegar þjóðernishyggja hefur verið í lágmarki. Innan austuríska keisaradæmisins og Ottómanaveldisins lifði fólk af ólíkum þjóðernum og trúarbrögðum í sátt og samlindi á skaganum. Hugmyndin um sameinað ríki Suður-Slava gekk vel um margra áratuga skeið. Nú sækjast allar þjóðir Balkanskaga eftir því að lifa saman sem sjálfstæðar þjóðir innan Evrópusambandsins og margar eru nú þegar komnar þar inn. Þjóðerniskenndin á svæðinu kraumar þó alltaf undir og lítið má bregða út af að allt fari í bál og brand. Saga svæðisins er blóði drifin og því mikilvægt að Evrópa taki mið af því. Gömul sár eru fljót að rifna upp, jafnvel frá tíma sem enginn man eftir.
Í Serbíu er meira að segja farið að tala um króatíska
ráðamenn sem Ustase, fasíska
skæruliðahreyfingu sem barðist með nasistum og stóð að mörgum fjöldamorðum á
Serbum í seinni heimstyrjöldinni. Króatar hafa einnig sakað Serba um að senda
flóttamenn einungis til þeirra en ekki annarra nágrannalanda. Um tíma var
landamærunum lokað milli þessara gömlu fjandþjóða. Hvort að virkileg hætta sé á
stríði milli þjóðríkja á Balkanskaga skal ósagt látið en töluverð hætta er hins
vegar á því að samskipti ríkjanna verði slæm, bæði innbyrðis og við ríki
Vestur-Evrópu. Ef Evrópuhugsjónin á að ganga upp verða þjóðirnar að geta staðið
saman á tímum sem þessum. Evrópusambandið hefur á seinustu 15 árum opnað arma
sína fyrir Balkanþjóðunum. Það þýðir því ekki að skilja þær eftir með svarta
pétur nú þegar reynir á.