Í Noregi hefði verið hægt að koma í veg fyrir fjöldamörg morð og manndráp á síðustu 22 árum, hefðu vísbendingar og tilkynningar um heimilisofbeldi verið teknar alvarlega. Rannsóknarskýrsla sem norska dómsmálaráðuneytið tók á móti í vikunni sýnir að heimilisofbeldi var undanfari um 70% morðmála þar sem maður eða kona drápu maka sinn eða fyrrverandi maka. Í mörgum tilfellum hafði ofbeldið verið tilkynnt til yfirvalda, en lítið verið aðhafst í málunum.
„Við vissum öll að hún var í hættu”
Hin tuttugu ára gamla Marit Andreassen hafði reynt að fá nálgunarbann á barnsföður og fyrrverandi sambýlismann sinn í febrúar 2010. Hún var beðin að koma aftur daginn eftir, þegar lögreglan hefði ráðrúm til að tala við hana. “Þau reyndu að róa hana með þeim orðum að flestar morðhótanir væru orðin tóm”, rifjar faðir hennar upp nokkrum árum seinna í mjög góðum útvarpsheimildarþætti NRK. Fjórum dögum síðar var hún látin, eftir hálftíma langt kverkatak barnsföðurins. (Tímalengdin er staðfest, því hann tók sjálfur upp atburðinn á vefmyndavél.)
Vinir Maritar og fjölskylda höfðu lengi óttast um hana. “Við vissum öll að hún var í hættu,” sagði æskuvinkona Maritar við VG. “Hún hafði fengið margar hótanir frá barnsföðurnum.” Mál Maritar er að mörgu leyti dæmigert, ef marka má rannsóknina sem birt var í vikunni. Drápsmaðurinn átti við geðræn vandamál að stríða (eins og 70,6% drápsmanna). Hann sagðist hafa misst stjórn á sér vegna afbrýðisemi, sem er algengasta uppgefna ástæða manndrápa á maka (40,1%).
Fjölskyldan hafði séð hættuna fyrir löngu. Marit hafði lengi vel afneitað því að hætta væri á ferðum en var farin að verða hrædd líka. Þetta er algengt mynstur, en ekki gefið upp neitt hlutfall í skýrslunni.
Rétt fyrir atburðinn hafði hún haft samband við lögreglu og barnaverndarnefnd án þess að fá nein sérstök viðbrögð. (Í 72% tilfella var haft samband við lögreglu, heilbrigðis- eða félagsyfirvöld fyrir atburðinn, en einungis í 32,2% tilfella skráðu yfirvöld hjá sér að hætta gæti verið á ferðum. Enn sjaldnar var gripið til aðgerða.)
Hið dæmigerða morðmál
Skýrslan tekur fyrir 177 morð- og manndrápsmál á árunum 1990-2012. Dráp á maka eða fyrrverandi maka eru um fjórðungur allra manndrápsmála í Noregi, sem er sambærilegt við önnur þróuð lönd.
Á Íslandi sýna tölur frá ríkislögreglustjóra að í fimmtungi manndrápsmála á árunum 2000-2013 hafði maður eða kona drepið maka eða fyrrverandi maka (5 af 26 manndrápsmálum). Helgi Gunnlaugsson afbrotafræðingur bendir hins vegar á að þjóðfélagið sé fámennt og manndrápsmál þ.a.l. fátíð hér á landi. Sé litið til lengri tíma sé líklegt að hlutföllin hér á landi séu lík því sem gerist í Noregi.
Í langflestum manndrápum í nánum samböndum, hartnær níu af tíu tilfellum, drepur karl konu. Þau hafa verið gift í um 10 ár að meðaltali og eru um eða rétt undir fertugu. Líkt og með aðra afbrotatölfræði er mikil fylgni við félagsleg vandamál. Meirihluti þeirra sem ráða mökum sínum bana berst þegar í bökkum á öðrum sviðum. Þannig er líklegt að gerandinn hafi komist í kast við lögin (að meðaltali fjórum sinnum), neyti áfengis eða fíkniefna úr hófi, eða glími við geðræn vandamál. Í mjög mörgum tilfellum var parið í fjárhagskröggum.
Karlar í afbrýðisemi, konur í sjálfsvörn
Ef litið er almennt á morð og manndráp er það langalgengast að menn drepi aðra menn. Karlar eru um 95% gerenda og 80% fórnarlamba, í almennri manndrápstölfræði.
Annað gildir hins vegar um manndráp í nánum samböndum, þ.e. þar sem maki drepur maka eða fyrrverandi. Drápsmennirnir eru vissulega flestir karlar, en hartnær 90% fórnarlambanna eru konur.
Alþjóðlegar rannsóknir sýna að þegar menn drepa konurnar sínar er það oft tengt því að þeim finnst þeir vera að missa tökin á konunni. Hún hefur kannski reynt að slíta sambandinu, beðið um skilnað eða reynt að flytja frá manninum. Susanne Fjelldalen, sem rannsakaði makadráp í meistararitgerð sinni, segir að fræðin nefni ólíkar útskýringar á þessari hegðun manna. Þeirra á meðal eru feðraveldiseinkenni samfélagsins og karlmennskugildi sem mönnunum finnst samfélagið krefjast að þeir uppfylli.
Síðast en ekki síst eru það menn sem finnist þeir hafa eignarhald á konunni sem kynveru. Þetta á ekki hvað síst við í ofbeldissamböndum. Rannsóknarskýrslan sem vitnað var til hér að ofan finnur sterk tengsl á milli endurtekins heimilisofbeldis og karlmanna sem segjast hafa drepið konuna sína vegna afbrýðisemi.
Konur sem drepa mennina sína gera það oftar en ekki í sjálfsvörn, sýna alþjóðlegar rannsóknir. Ef þær fremja morð að yfirlögðu ráði, er það yfirleitt að undangengnum hótunum mannsins, þannig að þær bera fyrir rétti að þær hafi óttast um líf sitt eða barnanna.
Hægt að fyrirbyggja, nema ef...
Einn flokkur manndrápsmála skar sig verulega úr. Í 9% málanna fannst engin forsaga um heimilisofbeldi, hvorki hjá yfirvöldum né aðstandendum. Bæði gerendur og fórnarlömb í þessum flokki höfðu að meðaltali hærri menntun og voru minna líklegir til að stríða við félagsleg og heilsufarsleg vandamál. Fáir gerendur í þessum flokki voru á sakaskrá fyrir drápið.
Höfundar skýrslunnar nefna að það sé mjög erfitt að fyrirbyggja þess konar manndráp og morð. Þau gera ekki boð á undan sér, því áhættuþættina skortir.
Niðurstaða skýrslunnar er engu að síður sú að
mörgum lífum mætti bjarga með því að taka heimilisofbeldi föstum tökum. Í rúmum
helmingi tilfella hefur verið tilkynnt um heimilisofbeldi fimm sinnum eða
oftar. Það á að vera nóg ástæða til að vera á varðbergi og byrgja brunninn.