Vladímír Pútín, einn valdamesti maður heims, dreymdi um að verða útsendari á vegum KGB þegar hann var táningur. Eins og flestir vita þá tókst honum það og hann starfaði fyrir sovésku leyniþjónustuna í 17 ár. Þessi reynsla hefur markað allan hans stjórnmálaferil en veruleiki starfseminnar var þó allt annar en hann átti von á.
Heillaðist af spæjurum
Vladímir Pútín er fæddur þann 7. október árið 1952 í Leníngrad (Sankti Pétursborg) í Sovétríkjunum. Foreldrar hans, Vladímir og María, unnu bæði í verksmiðju og faðir hans starfaði auk þess fyrir kommúnistaflokkinn í sveitarfélaginu. Vladímir eldri hafði áður verið í rauða hernum og barist í seinni heimsstyrjöldinni. Hann særðist þó árið 1942 og þurfti að draga sig frá herþjónustu. Lengi vel var hann í rússneska flotanum en um stund vann hann fyrir NKVD, hina alræmdu leyniþjónustu Stalíns, sem var undanfari KGB. Vladímir yngri átti nokkuð eðlilega barnæsku í Leníngrad og þótti góður námsmaður.
Í framhaldsskóla lærði hann m.a. þýsku sem átti eftir að nýtast honum vel seinna meir. Á unglingsárunum fór Pútín að dást að leyniþjónustunni og útsendurum hennar. Hann sá sovéskar njósnakvikmyndir og þætti í sjónvarpinu og heillaðist upp úr skónum. Einnig las hann njósnasögur um afrek KGB manna um heim allan. Á sama tíma fór hann að hafa mikinn áhuga á asískum sjálfsvarnaríþróttum. Hann fann það að þetta gæti orðið framtíðar starfsvettvangur hans og hóf að undirbúa sig fyrir það. Pútín segist lítið hafa vitað um blóðuga forsögu sovésku leyniþjónustunnar sem stóð að fjöldamorðum Stalíns og ótal öðrum voðaverkum. „Hughrif mín af KGB voru byggð á rómantískum sögum um njósnara.” Pútín gerðist svo frakkur að valsa inn í höfuðstöðvar KGB í Leníngrad og þar bauð hanns sig fram til þjónustu en honum var sagt að KGB tæki aldrei við sjálfboðaliðum. Einnig var honum sagt að besti undirbúningur fyrir KGB feril væri laganám. Árið 1970 lá því leið hans í Leníngrad háskóla þar sem hann nam lögfræði. Þar gekk hann í Kommúnistaflokkinn og KGB fylgdist með framgöngu hans alla skólagönguna. Á lokaári sínu í laganami hafði leyniþjónustan samband við hann og bauð honum stöðu. Eftir að hann útskrifaðist árið 1975 hófst ferill hans sem KGB-maður, ferill sem átti eftir að spanna tæp 17 ár.
Ungur njósnari
Pútín undirgekkst þjálfun í skóla KGB í heimaborg sinni Leníngrad. Þjálfunin þar tók eitt ár og hann vann í kjölfarið á skrifstofum KGB þar í borg. Kennarar og yfirmenn Pútíns höfðu töluverðar áhyggjur af honum á þessum tíma. Hann var álitinn tilfinningasljór og kaldlyndur af sálfræðingum KGB. Ennfremur töldu þeir að hann væri ekki hæfur að meta aðsteðjandi hættu. Þetta virtist þó ekki há hinum unga Pútín mikið í upphafi ferils síns. Snemma á níunda áratugnum var hann sendur til Moskvu til frekari þjálfunar.
Hann nam og vann hjá utanríkisstofnun leyniþjónustunnar, stofnun sem sá um njósnir á erlendum borgurum. Þetta þótti það nokkur heiður fyrir hinn unga Pútín því færri komust þar að en vildu. Hann hélt áfram sínu þýskunámi og öðlaðist svarta beltið í júdó. Í opinberum skjölum var hann titlaður sem túlkur. En í raun var hann orðinn alvöru njósnari sem fylgdist með erlendum ræðismönnum og ferðamönnum. Hann fékk meira að segja dulnefni, Platov. Á þessum tíma hóf Pútín að byggja sína eigin fjölskyldu. Hann kynntist eiginkonu sinni til 30 ára Lyudmilu Shkrebneva í Leníngrad og þau giftu sig árið 1983. Þau eiga saman tvær dætur, Maríu og Katju sem fæddust á komandi árum.
Vinur Stasi
Árið 1985 var Pútín sendur til Dresden í Austur-Þýskalandi. Hans aðalhlutverk þar var að finna fólk, bæði Þjóðverja og útlendinga, sem var viljugt til að afla eða veita upplýsingar um Vesturveldin. Helst senda það í njósnaferðir til Bandaríkjanna eða annarra NATO ríkja. Mestu líkurnar voru að fá til liðs við sig Þjóðverja sem höfðu gilda ástæðu til að ferðast erlendis eins og t.d. blaðamenn, vísindamenn og prófessora. Flestir sem Pútín og KGB voru í sambandi við voru því nemar eða starfsfólk við Tækniskólann í Dresden. Eðli málsins samkvæmt er lítið vitað um einstaka mál sem Pútín vann að á ferli sínum.
Það er þó vitað að hann vann töluvert við að afla upplýsinga um ýmis tæknimál, þar á meðal „þráðlaus samskipti”. Líklega hefur þessi vinna að einhverju leyti verið unnin í samstarfi við fyrirtækið Robotron, helsta tölvu og örflöguframleiðanda Austur-Evrópu, sem staðsett var í Dresden. KGB unnu náið með austur-þýsku leyniþjónustunni Stasi, sem kallaðir voru “vinirnir”. Höfuðstöðvar þessara tveggja systursamtaka í Dresden stóðu í sömu götu, Angelikastrasse, andspænis hvor annarri. Austur-Þýskaland var á þessum tíma þekkt fyrir að vera eitt tortryggnasta ríki heims.
Mörg hundruð þúsund íbúar landsins máttu þola hleranir, yfirheyrslur og aðrar njósnir á einkalífi þess. Þetta kerfi kostaði gríðarlegan mannskap og vinnu sem að langmestu leyti skilaði engu. Í samstarfi sínu við Stasi sá Pútín að mestu leyti um að safna blaðaúrklippum og skrifa skýrslur til að senda til Moskvu. Þetta var leiðinleg og gagnslaus vinna en hann öðlaðist þó vinsemd og virðingu kollega sinna í Stasi. Pútín átti upphaflega ekki að vera í Dresden nema örfá ár en yfirmönnum hans í Moskvu þótti hann standa sig það vel að dvöl hans þar var framlengd í tvígang. Störf hans þar voru að mestu leyti einsleit og hann fór sjaldnast úr landi. Hann lærði þó töluvert mikið um vestrið og fór í fyrsta sinn að líta gagnrýnum augum á stjórnarfar Sovétríkjanna.
Nýr vettvangur og ný ímynd
Þegar múrinn féll og kommúnisminn í Austur-Þýskalandi hrundi var Vladímir Pútín kallaður heim til Sovétríkjanna og sendur til heimaborgar sinnar Leníngrad. Hann hóf störf við Leníngrad háskólann, sinn gamla skóla, opinberlega sem aðstoðarmaður rektors. Í raun vann hann áfram fyrir KGB og hans hlutverk var að fylgjast með nemum skólans. Á þeim 18 mánuðum sem hann vann við Leníngrad háskóla fór hann að finna fyrir ákveðinni stöðnun. Hann var fastur í starfi sem honum þótti hvorki áhugavert né spennandi. Þetta var ekkert í líkingu við þær njósnamyndir sem hann hafði alist upp við sem unglingur.
Honum gekk einnig illa að vinna sig upp metorðastigann í leyniþjónustunni. Hann var ennþá aðeins undirofursti (lieutenant colonel). Sjálfur segir hann að það hafi hamlað honum að hann vildi ekki flytja til Moskvu. „Ég á tvö lítil börn og aldna foreldra. Þau eru komin yfir áttrætt og við búum öll saman. Þau lifðu af herkví í stríðinu. Hvernig gat ég tekið þau frá fæðingarstað sínum? Ég gat ekki yfirgefið þau.” Hann viðraði nokkrum sinnum þá hugmynd að hætta í leyniþjónustunni en því var illa tekið af yfirmönnum hans. En þegar upplausn kommúnismans í Evrópu barst til Sovétríkjanna gafst honum tækifæri á að hætta.
Í ágúst árið 1991 reyndu bæði herinn og KGB að hrifsa völdin af Mikhail Gorbachev aðalritara. Pútín tók þá afgerandi afstöðu með stjórninni og sagði sig úr KGB. Á þessum tímapunkti hafði hann algerlega misst trúnna á kommúnismanum (ef hann þá hafði hana nokkurn tímann) og Sovétríkjunum. Engu að síður voru þetta þung skref fyrir hann. 17 ár eru langur tími og hann var orðinn inngróinn inn í kerfið. Þegar að kommúnisminn loks féll og Sovétríkin liðuðust í sundur fann Vladímir Pútín sig í nýju hlutverki, þ.e. hlutverki stjórnmálamannsins. Fyrst í sveitarstjórnarmálum í Leníngrad en síðar í landsmálunum. Þar gekk honum ólíkt betur að klífa metorðastigann.
Hann hafði þó ekki skilið alfarið við leyniþjónustuna. Boris Yeltsin, fyrsti forseti Rússlands, hafði trú á Pútín og fól honum ýmis embætti á tíunda áratugnum. Árið 1998 var hann settur yfir FSB, hinni nýju leyniþjónustu landsins. Þeirri stöðu gegndi hann í rúmt ár eða allt þar til að hann var útnefndur forsætisráðherra Rússlands í ágúst 1999. Síðan þá hefur hann verið nánast einvaldur.
Það er ekki bara á göngulagi Vladímirs Pútín að sjá að hann er djúpt markaður af langri veru í sovésku leyniþjónustunni. Hann hefur tvo þá helstu kosti sem góður leyniþjónustumaður þarf á að halda, þjóðerniskennd og miskunnarleysi. Hann hefur meira að segja afsakað gjörðir leyniþjónustunnar í hreinsunum Stalíns á fjórða áratugnum. Persónan Vladímir Pútín snýst þó meira um ímyndina en veruleikann og ljóst er að sjálfsmynd hans hefur vaxið mikið á stjórnmálaferlinum. Við fyrstu sýn mætti halda að hann hafi verið hinn sovéski James Bond en raunin er sú að hann var hálfgerð skrifstofublók.