Fréttaskýring
Hverjir lækka fylgi flokkanna?
Gamalt fólk vill síður kjósa Pírata og yngstu kjósendurnir vilja hvorki VG né Samfylkingu. Sjálfstæðisflokkur og Framsókn eru með lægsta fylgið hjá millitekjufólki og karlar kjósa ekki Bjarta framtíð. Forystumenn flokkanna skoða ástæðurnar og ræða úrbætur.
Forsvarsmenn stjórnmálaflokkanna hafa ýmsar skýringar á mismunandi fylgi þegar litið er til ólíkra þjóðfélagshópa. Þingflokksformaður Framsóknarflokks segir til dæmis umræðuna hafa verið erfiða, formaður Vinstri grænna ætlar að tefla fram ungu fólki í næstu kosningum, þingflokksformaður Pírata segist aldrei hafa reynt að höfða til ákveðinna þjóðfélagshópa og varaformaður Samfylkingar segir að erfitt geti reynst að vinna aftur traust kjósenda, en það sé nauðsynlegt. Formaður Bjartrar framtíðar segir flokkinn þurfa að spýta í lófana til að auka fylgið og ritari Sjálfstæðisflokksins segir stjórnmál virka óspennandi fyrir ungt fólk.
Marktækur munur er á fylgi stjórnflokka eftir kyni, heimilistekjum og aldri kjósenda í nýjustu skoðanakönnun MMR. Píratar, sem eru með langmest fylgi, tæp 40 prósent, eru til að mynda með nær helmingi lægra fylgi meðal fólks sem er 68 ára og eldra, eða 21 prósent. Vinstri græn, sem eru með 12 prósenta heildarfylgi, eru einungis með fjögurra prósenta fylgi meðal ungs fólks á aldrinum 18 til 29 ára og Sjálfstæðisflokkur, sem mældist með tæp 20 prósent, er með rúm 12 prósent á bak við sig í lægri millitekjuhópnum. Framsóknarflokkurinn er með mun meira fylgi á landsbyggðinni heldur en á höfuðborgarsvæðinu og Björt framtíð virðist ekki ná til karla.
Kjarninn rýndi í tölurnar á bak við niðurstöður könnunar MMR, sem gerð var 12. til 20. janúar 2016, og fékk tillögur forystumanna flokkanna að úrbótum og skoðanir þeirra á ástæðunum að baki þessum fylgismuni eftir þjóðfélagshópum. Breytingar á fylgi flokka voru í öllum tilfellum innan vikmarka frá síðustu könnun og var fjöldi svarenda 922.
Niðurstöður könnunar Fréttablaðsins og Stöðvar 2, sem birt var í dag, sýna Pírata með 42 prósenta fylgi og Bjarta framtíð einungis með 1,5 prósent. Þar voru svarendur þó mun færri, um 450, og vikmörk því hærri en hjá MMR.
Erum ekki að vinna okkar baráttu
Lægra fylgi hjá körlum, fólki yfir fimmtugu, lægsta tekjuhópnum og fólki með há laun.
Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, segir flokkinn oft hafa séð mun á fylgistölum eftir kynjum, en aldrei svona skýran. „Mér finnst ólíklegt að það sé svona rosalega mikill munur, en við höfum séð meira fylgi hjá konum en körlum í gegn um tíðina,” segir hann. „Það er margt sem getur komið til eins og áherslur okkar í velferðar- og mannréttindamálum. En þeir málaflokkar eiga svo sem ekkert að höfða betur til kvenna en karla.”
Fylgi Bjartrar framtíðar hefur verið á hraðri niðurleið undanfarin misseri.
„Þetta er áhyggjuefni og við höfum verið að rembast við að koma okkur betur á framfæri,” segir hann. „Fyrsta áhersluatriðið er að axla ábyrgð okkar sem þingmenn og sveitarstjórnarmenn og standa fast á okkar stefnumálum í von um að fólk styðji okkur. Því það er þörf fyrir umbótasinnaðan, frjálslyndan miðjuflokk í íslenskri pólitík.”
Óttarr segir Bjarta framtíð hafa verið stofnaða sem grasrótarflokk sem hafi úr litlum fjármunum að spila til að stunda hefðbundna stjórnmálabaráttu. „En við erum ekki að vinna okkar baráttu og þurfum að gera eitthvað í því.”
Umræðan um flokkinn hefur verið erfið
Lægra fylgi hjá ungu fólki, íbúum höfuðborgarsvæðisins og millitekjuhópum.
„Við verðum að reyna að bæta okkur og nálgast unga fólkið betur,” segir Þórunn Egilsdóttir, starfandi þingflokksformaður Framsóknarflokks. „Umræðan um flokkinn hefur verið erfið og ýmsir frasar á lofti sem virðast ná til fólks. Frasar sem ég er ekki sammála um að séu réttir. En við erum með fullt af góðu og ungu fólki með okkur í flokknum.”
Þórunn segir samspil sveitarstjórnarstigsins og landspólitíkurinnar mögulega vera eina af skýringunum á lágu fylgi á höfuðborgarsvæðinu.
„Við þurfum að horfa á þetta allt sem heild. Landsbyggðin má ekki vera sér. Einhvers staðar hefur myndast gjá þarna á milli sem við verðum að brúa,” segir hún. „Ég held að við höfum ekki komið okkar málefnum nægilega skýrt á framfæri og það eru mörg af okkar góðu málum sem hafa ekki náð í gegn. Nú hafa ráðstöfunartekjur til dæmis aukist en við höfum ekki komið þessu nægilega skýrt á framfæri og fólk er ekki að upplifa þetta. Það vantar eitthvað í upplýsingaflæðið en þetta lagast þegar þetta skýrist betur.”
Aldrei með strategíur til að ná í kjósendur
Lægra fylgi meðal ellilífeyrisþega, fólks með yfir milljón á mánuði í heimilistekjur og kvenna.
„Ég veit í raun ekki hvers vegna svona margir styðja við okkur yfir höfuð og þá er erfitt fyrir mig að svara hvers vegna ákveðnir hópar gera það ekki,” segir Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata. Hún bendir á að konur séu mjög áberandi meðal Pírata, sem sé mjög langt frá því að vera karllægur flokkur. „En flestir sem eru með yfir milljón á mánuði styðja væntanlega Sjálfstæðisflokkinn, enda hafa þeir gert vel við þann hóp.”
Birgitta segir flokkinn aldrei hafa verið með ákveðnar strategíur varðandi hvernig eigi að ná í kjósendur.
„Við einbeitum okkur að því að vinna vinnuna okkar vel, en ekki reyna að höfða til ákveðins hóps. En við eigum lítið af peningum og höfum því ekki auglýst okkur mikið. Kannski nær boðskapur okkar ekki eins vel til þeirra sem eru ekki á netinu því það er langmest virkni þar.”
Erfitt að snúa svona skipi við
Lægra fylgi hjá ungu fólki, fólki undir lágtekjumörkum og með lágmarkslaun.
Katrín Júlíusdóttir, varaformaður Samfylkingar, segir flokkinn meðvitaðan um stöðuna.
„Við erum búin að missa gríðarlegt fylgi og höfum helmingast á einu ári í könnunum,” segir hún. „Það kemur mér ekki á óvart að við séum búin að glata trúnaði þeirra hópa sem voru vanir að kjósa okkur.”
Katrín segist vita að traustið verði ekki unnið til baka á einni nóttu en vonast til að þessir hópar sjái að það skipti gríðarlegu máli fyrir kjósendur að það sé sterkur jafnaðarmannaflokkur á sviðinu.
„Þetta er kjarni flokksins, barátta fyrir fólk með lægstu tekjurnar. En það kann að vera að við höfum villst af leið og við þurfum að taka það alvarlega,” segir hún. „Við höfum glatað trúnaði meðal kjósenda og það er eðlilegt að ungt fólk stökkvi ekki á það. Við þurfum að tala betur til þeirra og gefa betri mynd af því hvert okkar hlutverk er í íslenskri pólitík. Það er erfitt að snúa svona skipi við, en ég er sannfærð um að við munum geta það.”
Stjórnmálin virka óspennandi og óskilvirk
Lægra fylgi hjá ungu fólki og heimilum með millitekjur.
„Stjórnmálin virka óspennandi og óskilvirk, enda er alltaf verið að tönnlast á tækniatriðum úr fortíðinni en ekki rætt um hvernig land við viljum byggja,” segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari Sjálfstæðisflokksins. „En ef við vissum hvernig ætti að bregðast við þessu værum við ekki í þessari stöðu.”
Fylgi flokksins er líka lægra meðal heimila með millitekjur. Áslaug Arna telur að það eigi eftir að breytast þegar skattalækkanir og afnám tolla og vörugjalda skili sér betur til landsmanna.
Hún vonast til þess að grunngildi flokksins fái hljómgrunn meðal ungra kjósenda. „Þó að skoðanakannanir sýna ekki hátt fylgi þá er ég þess fullviss að ungt fólk vill fá ábyrgð og frelsi til þess að standa á eigin fótum og gera sín mistök,” segir hún.
„Öllum hefðbundnu flokkunum hefur mistekist að fá ungt fólk til liðs við sig og Píratafylgið er fylgi fyrir eitthvað nýtt, ekki endilega fylgi við málefnaskrá þeirra. Persónulega vil ég breyta pólitíkinni mikið, en það er erfitt og þungt verkefni.”
Ætla að tefla fram ungu fólki
Lægra fylgi hjá körlum, ungu fólki og fólki undir lágtekjumörkum.
„Mér finnst líklegast að þetta sé sami hópurinn, það er unga fólkið og lágtekjuhópurinn, jafnvel stúdentar. En allir flokkar þurfa að vinna unga fólkið til baka, sem er nú að flykkja sér að baki Pírötum,” segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna. „VG þarf líka að skoða fylgismuninn á milli karla og kvenna, hann er áberandi. Við erum yfirlýstur kvenfrelsisflokkur með konu sem formann og kannski vilja konur þá frekar kjósa okkur.”
Stjórnmálamenning og vinnubrögð eins og Borgunarmálið séu ekki til þess fallin að auka traust ungs fólks á stjórmálum, segir Katrín. Stór hluti félagsmanna VG sé af yngri kynslóðinni og þangað verði flokkurinn að sækja.
„Við munum tefla fram ungu fólki með framtíðarsýn sem fólk hefur trú á. Það verður áberandi hjá okkur næst. Við eigum að hafa allt til alls á Íslandi og það skiptir máli hvernig auðurinn dreyfist, hvernig er höndlað með hann og hvernig gengið er á auðlindir. Þetta verða eitt af stóru málunum í næstu kosningum.”