Tíu staðreyndir um sölu á hlut Landsbankans í Borgun

VISA Borgun
Auglýsing

1 – Borgun er greiðslumiðlunarfyrirtæki sem býður viðskiptavinum sínum færsluhirðingu vegna t.d. Visa- og MasterCard-korta. Landsbankinn seldi 31,2 prósent hlut sinn í Borgun til félags í eigu stjórnenda fyrirtækisins og meðfjárfesta þeirra þann 25. nóvember 2014 fyrir 2,2 milljarða króna. Fjárfestahópurinn gerði fyrst tilboð í hlutinn í mars 2014. Hlutur Landsbankans, sem er að mestu í ríkiseigu, var ekki seldur í opnu söluferli. Öðrum mögulega áhugasömum kaupendum bauðst því ekki að bjóða í hlutinn. Kjarninn upplýsti um það þann 27. nóvember 2014 hverjir hefðu verið í fjárfestahópnum og hvernig salan hefði gengið fyrir sig. Á meðal þeirra var Einar Sveinsson, föðurbróðir Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra.

Miðað við hefðbundna mælikvarða sem fjárfestar styðjast við í fjárfestingum þótti verðið lágt, hvort sem miðað er við fyrirtæki erlendis eða skráð fyrirtæki á Íslandi.

2 – Í viðræðum um kaup á hlut Landsbankans í Borgun var stuðst við ársreikning Borgunar fyrir árið 2013. Þann 23. júlí 2014 er undirrituð viljayfirlýsing milli Landsbankans og fjárfestahópsins um samningsviðræður. Samhliða óskaði Landsbankinn eftir frekari aðgangi að upplýsingum um Borgun og kynningu á fjárhagsstöðu þess og framtíðaráformum í því skyni að fá niðurstöðu í tilboðsverðið. Þar var Landsbankanum gerð grein fyrir því að Borgun ætlaði sér að auka verulega færsluhirðingu fyrir seljendur í erlendum netviðskiptum, sem á endanum tryggði Borgun stærri hlutdeild í söluandvirði Visa Europe. Í gögnum sem Landsbankinn sendi Alþingi í gær sagði að bankinn hafi metið sem svo að „þeirri starfsemi [fylgdi] veruleg áhætta og líkur voru taldar á að hún gæti leitt til tjóns hjá félaginu og skaðað orðspor Landsbankans.“

Auglýsing

3 – Fjármálaeftirlitið sendi erindi til Landsbankans vegna sölu á 31,2 prósent hlut í Borgun þann 3. desember 2014. Í erindinu var óskað eftir öllum upplýsingum  í tengslum við söluna. Landsbankinn svaraði erindinu 9. desember og engar frekari athugasemdir eða viðbrögð komu frá Fjármálaeftirlitinu vegna málsins. 

4 – Fulltrúar Landsbankans fóru á fund efnahags- og viðskiptanefndar 8. desember 2014 til að svara fyrir söluna á Borgun. Á aðalfundi Landsbankans 2015 sagði Tryggvi Pálsson, formaður bankaráðs Landsbankans, að betra hefði verið að auglýsa hlutinn til sölu, og selja hann þannig í opnu og gagnsæju ferli.

5 – Kjarninn greinir frá því þann 29. apríl 2015 að ákveðið hefði verið á aðalfundi Borgunar í febrúar sama ár að greiða hluthöfum félagsins 800 milljónir króna í arð vegna frammistöðu fyrirtækisins á árinu 2014, þegar Landsbankinn var enn eigandi að tæplega þriðjungshlut. Þetta var í fyrsta sinn sem arður var greiddur út úr félaginu frá árinu 2007. Tæplega 250 milljónir króna féllu í hlut nýrra hluthafa, sem hefðu runnið til Landsbankans ef hann hefði ekki selt hlutinn.

6 – Þann 29. mars 2015 tók Fjármálaeftirlitið ákvörðun um samruna Landsbankans og Sparisjóðs Vestmannaeyja. Landsbankinn eignaðist við það 0,41 prósent hlut í Borgun. Sá hlutur var auglýstur til sölu 17. apríl 2015 og þegar tilboðsfrestur rann út 3. maí höfðu þrjú tilboð borist. Hluturinn var á endanum seldur til Fasteignafélagsins Auðbrekku 17 ehf. fyrir 30 milljónir króna. Verðið var aðeins hærra á hlut en þegar 31,2 prósent hluturinn var seldur. Í fyrri viðskiptunum var miðað við að heildarvirði Borgunar væri sjö milljarðar króna en í þeim seinni að það væri 7,3 milljarðar króna. Auk þess verður að taka tillit til að eigendur Borgunar voru búnir að greiða sér út 800 milljónir króna í arð áður en salan átti sér stað.

7 – Samið var um valrétt um kaup Visa Inc. á Visa Europe árið 2007. Valrétturinn var ótímabundinn. Nokkrum sinnum frá þeim tíma hafa farið af stað viðræður um að Visa Inc. nýti kaupréttinn. Þegar að Landsbankinn seldi hlut sinn í borgun var í gildi viljayfirlýsing um að ganga frá kaupunum. Fjórum dögum áður en Landsbankinn tilkynnti um söluna á hlut sínum í Borgun birtist frétt á  heimasíðu Bloomberg-fréttaveitunar, sem er ein stærsta viðskiptafréttaveita í heimi, um að Visa Inc. gerði sér grein fyrir því að fyrirtækið þyrfti að greiða meira en 1.300 milljarða króna ef það ætlaði að nýta sér valrétt sinn á kaupum á Visa Europe. Landsbankinn hefur borið fyrir sig að Valitor hafi gefið út Visa-kort fyrir bankann og því hafi hann ekki talið sig eiga jafn mikla hagsmuni að gæta vegna valréttarins hjá Borgun. Í nóvember 2015 lá fyrir að Visa Europe yrði selt og á hvaða verði.

8 – 20. janúar 2016 birti Morgunblaðið forsíðufrétt um að kaup Visa Inc. á Visa Europe gætu skilað Borgun og öðru íslensku greiðslukortafyrirtæki, Valitor, á annan tug milljarða króna. Visa Inc. mun líkast til greiða um þrjú þúsund milljarða króna fyrir Visa Europe og það fé mun skiptast á milli þeirra útgefenda Visa-korta í Evrópu sem eiga rétt á hlutdeild í Visa Europe. Landsbankinn átti hlut í bæði Borgun og Valitor. Þegar bankinn seldi hlut sinn í Borgun gerði hann ekki samkomulag um hlutdeild í söluandvirði Visa Europe. Þegar hann seldi hlut sinn í Valitor í apríl 2015 gerði hann samkomulag um viðbótargreiðslu vegna þeirrar hlutdeildar Valitor í söluandvirði Visa Europe. Stjórnendur Borgunar hafa sagt að þeir hafi fyrst fengið upplýsingar um hugsanlegan ávinning fyrirtækisins vegna sölunar á Þorláksmessu 2015.

Kjarninn greindi frá því 25. janúar að Landsbankinn hefði átt rétt á sex til átta prósent af hlutdeild Borgunar í söluandvirði Visa Europe ef fyrirvari hefði verið settur um greiðslur vegna sölunnar áður en bankinn seldi hlut sinn í Borgun. Það hlutfall miðar við erlend umsvif Borgunar í lok árs 2013. Í lok árs 2014 höfðu þau umsvif aukist umtalsvert þótt að mestur vöxtur hafi verið í þeim á árinu 2015. 

9 – Eftir að frétt Morgunblaðsins birtist vísaði Steinþór Pálsson, forstjóri Landsbankans, meðal annars til þess í viðtölum við fjölmiðla að Samkeppniseftirlitið hefði sett þrýsting og lagt kröfur á bankann um að selja Borgun. Samkeppniseftirlitið sendi frá sér fréttatilkynningu 21. janúar þar sem það segist aldrei hafa sett Landsbankanum tímamörk eða önnur bindandi skilyrði varðandi fyrirkomulag á sölu eignarhluta bankans í Borgun. Sala Landsbankans á hlutum sínum í Borgun og Valitor og tilhögun hennar var því alfarið á forræði og á ábyrgð Landsbankans,“ segir í tilkynningunni.  

10 – Rekstur Borgunar hefur gengið afar vel undanfarin ár. Borgun hagnaðist um 1,3 milljarða króna á árinu 2014. Sá hagnaður bætist við 993 milljón króna hagnað Borgunar á árinu 2013. Samtals hagnaðist Borgun því um 2,3 milljarða króna á tveimur árum, sem er aðeins meira en Eignarhaldsfélagið Borgun greiddi fyrir 31,2 prósenta hlut Landsbankans í Borgun. Miðað við yfirlýsingar stjórnenda Borgunar þá má ætla að mikill vöxtur fyrirtækisins erlendis í fyrra hafi skilað mjög góðri afkomu á árinu 2015. 

Tólf stjórnendur Borgunar sem tóku þátt í kaupunum á hlut Landsbankans eiga hlut sinn í gegnum félag sem heitir BPS ehf. Félagið á nú fimm prósent hlut í Borgun en Eignarhaldsfélagið Borgun, sem samanstendur af meðfjárfestum þeirra sem keyptu hlut Landsbankans, á 29,38 prósent hlut. Eignarhaldsfélagið Borgun keypti 38 prósent af eign BPS í ágúst síðastliðnum án þess að gerður hafi verið fyrirvari um hlutdeild í mögulegum hagnaði vegna sölu á Visa Europe. Kaupverðið var trúnaðarmál en samkvæmt heimildum Kjarnans var greitt mun hærra verð á hlut en þegar keypt var af Landsbankanum  níu mánuðum áður.


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Katrín mun ræða málefni Ísraels og Palestínu við Blinken og Lavrov í vikunni
Málefni Ísraels og Palestínu voru rædd á þingi í dag. Þingmenn Pírata og Viðreisnar kölluðu eftir því að stjórnvöld tækju af skarið og fordæmdu aðgerðir Ísraela í stað þess að bíða eftir öðrum þjóðum. Forsætisráðherra mun tala fyrir friðsamlegri lausn.
Kjarninn 17. maí 2021
Fjölskylda á flótta hefst við úti á götu í Aþenu, höfuðborg Grikklands.
Útlendingastofnun setur hælisleitendum afarkosti: Covid-próf eða missa framfærslu
Útlendingastofnun er farin að setja fólki sem synjað er um vernd þá afarkosti að gangast undir COVID-próf ellegar missa framfærslu og jafnvel húsnæði. Í morgun var sýrlenskum hælisleitanda gert að pakka saman. „Hvar á hann að sofa í nótt?“
Kjarninn 17. maí 2021
Eurovision-hópurinn fékk undanþágu og fór fram fyrir í bólusetningu
RÚV fór fram á það við sóttvarnaryfirvöld að hópurinn sem opinbera fjölmiðlafyrirtækið sendi til Hollands til að taka þátt í, og fjalla um, Eurovision, myndi fá bólusetningu áður en þau færu. Við því var orðið.
Kjarninn 17. maí 2021
ÁTVR undirbýr nú lögbannsbeiðni á starfsemi vefverslana með áfengi.
ÁTVR ætlar að fara fram á lögbann á vefverslanir og undirbýr lögreglukæru
Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins telur nauðsynlegt að fá úr því skorið hjá dómstólum hvort innlendar vefverslanir sem selja áfengi milliliðalaust til neytenda séu að starfa löglega, eins og rekstraraðilar þeirra vilja meina.
Kjarninn 17. maí 2021
Jónas Þór Þorvaldsson er framkvæmdastjóri Kaldalóns.
Kaldalón ætlar að skrá sig á aðallista Kauphallar Íslands árið 2022
Kaldalón hefur selt fasteignaþróunarverkefni í Vogabyggð og keypt tekjuberandi eignir í staðinn. Arion banki ætlar að sölutryggja fimm milljarða króna í nýtt hlutafé í tengslum við skráningu Kaldalóns á markað.
Kjarninn 17. maí 2021
Tækifæri í rafmyntaiðnaði til staðar meðan rafmyntir halda velli að mati ráðherra
Líklega mun hið opinbera nýta sér bálkakeðjutækni þegar fram líða stundir samkvæmt svari fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn um rafmyntir. Ekki er þó enn útlit fyrir að rafmyntir taki við af hefðbundinni greiðslumiðlun í bráð.
Kjarninn 17. maí 2021
Viðar Hjartarson
Glæpur og refsing – Hugleiðingar vegna nýfallins dóms
Kjarninn 17. maí 2021
Jónas Atli Gunnarsson
Er nýsköpun ekki lengur töff?
Kjarninn 17. maí 2021
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar
None