Fréttaskýring#Stjórnmál#Húsnæðismál#Alþingi
Velvilji gagnvart gölluðum frumvörpum
Nefndarmenn velferðarnefndar eru á einu máli um að frumvörp félags- og húsnæðismálaráðherra fari aldrei óbreytt í gegn um þingið þó að þau séu þeim velviljuð. Annar fulltrúi Framsóknar gagnrýnir sjálfstæðismenn harðlega í málinu.
Frumvörp Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, um almennar íbúðir og húsnæðisbætur hafa verið lengi í smíðum. Þau eru nú á borði velferðarnefndar Alþingis sem hefur tekið á móti fjölda gesta og umsagna frá hagsmunaaðilum, sem margir hverjir hafa gert alvarlegar athugasemdir við frumvörpin.
Nefndarmenn velferðarnefndar eru allir á einu máli um að nauðsynlegt sé að gera breytingar á frumvörpunum til að þau nái í gegn um þingið. Annar fulltrúi Framsóknarflokks í nefndinni gagnrýnir sjálfstæðismenn harðlega fyrir að hafa sett sig upp á móti frumvörpunum og segir rök þeirra ekki halda vatni. Fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna segja að til að þau styðji málin verði að hnýta fjölmarga lausa enda og endurskoða og skýra ákveðin atriði. Í næstu viku vinnur velferðarnefnd svo nefndarálit vegna frumvarpanna.
Kjarninn tók alla nefndarmenn velferðarnefndar tali og spurði þau álits á frumvörpunum Eyglóar.
Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokks
Tæknilegir gallar sem þarf að laga
„Ég held að það muni skapast ágætissátt um þetta en það eru ýmsar breytingar sem við viljum gera,” segir Ásmundur. „Þetta er unnið í mjög góðu samstarfi og það er enginn að berja í borðið eða neitt svoleiðis.”
Hann segir ákveðna tæknilega galla vera á frumvörpunum sem sérfræðingar þurfi að skoða betur, en er fullviss um að þeim verði landað í góðri sátt.
„Við erum fyrst og fremst að skoða verkefni til góða, sem snýst ekkert um réttindamál, heldur tæknileg atriði eins og til dæmis tímalengd lána og rekstrarform,” segir hann. „Frumvörpin eru að stórum hluta samkomulag þar sem það fá ekki allir allt sitt. Þannig er það.”
Elsa Lára Arnardóttir, 1. varaformaður velferðarnefndar og þingmaður Framsóknarflokks
Kjarasamningar veita ekki mikið svigrúm til breytinga
„Mér líst mjög vel á frumvörpin og tel að þau muni, eins og margir hafa bent á, skila þeim langtímamarkmiðum sem þeim er ætlað. Þau munu bæta stöðu fólks verulega, meðal annars þeirra sem eru á leigumarkaði,” segir Elsa Lára. „Auðvitað eru atriði í báðum frumvörpunum sem þarf að skoða betur, en svigrúmið sem við höfum til breytinga er ekki mikið þar sem stórir hlutar frumvarpanna eru bundnir kjarasamningum, bæði fjárhæðarmörk í húsnæðisbótum, íbúðafjöldi og tekjuviðmið.”
Þá sé nefndin meðal annars að bíða breytingartillagna frá ráðuneytinu vegna ábendinga ríkisskattstjóra og Persónuverndar, skoða hvort hægt sé að skýra línur á milli viðræðna ríkis og sveitarfélaga og fá skýrari svör frá Seðlabankanum og fjármálaráðuneytinu þar sem mikið misræmi sé í þeirra umsögnum varðandi kostnaðarmat.
Páll Valur Björnsson, 2. varaformaður velferðarnefndar og þingmaður Bjartrar framtíðar
Ótrúlega flókin mál en vonar að þau fari í gegn
Páll Valur segir frumvörp velferðarráðherra ótrúlega flókin. Mikið sé af umsögnum og mikið af gestum, sem sitt sýnist hverjum.
„Fyrir leikmann eins og mig er þetta gríðarlega flókið og erfitt að sjá hvort hlutir séu til bóta eða ekki,” segir hann. „Gagnrýni í umsögnunum kemur mér reyndar mest á óvart því skrifstofustjóri velferðarráðuneytisins sagði að sjaldan eða aldrei hafi verið haft jafn mikið samráð haft um nokkur frumvörp og þessi. Enda voru þau lengi í vinnslu.”
Páll Valur segir frumvörpin vissulega ekki gallalaus, en þau séu niðurstaðan sem menn ættu að fara í núna. Hann er jákvæður gagnvart frumvörpunum.
„Ég hef hlustað á gagnrýnina og það þarf að vera sátt til að allt gangi vel,” segir hann. „Auðvitað kostar þetta peninga en ég er félagshyggjumaður í hjarta mínu og veit að húsnæðismálin eru mjög erfið. En eftir að hafa hlustað á fólk sem hefur meira vit á þessu en ég, þá vona ég að þetta nái framgangi og verði samþykkt.”
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingar
Styður frumvörpin með breytingum
Nauðsynlegt er að laga ákveðna ágalla í frumvarpinu til að þau verði samþykkt, að mati Ólínu. Hún segir mikilvægt að tryggt sé að þau þjóni yfirlýstu markmiðið sínu; að koma efnaminna fólki til góða og hafa áhrif á markaðinn þannig að ungt fólk geti komið sér þaki yfir höfuðið án þess að lenda í ævilöngu skuldafangelsi.
„Þetta eru auðvitað ekki okkar frumvörp og við hefðum ekki lagt þau fram nákvæmlega svona,” segir hún. „En í ljósi þess að það er brýn þörf fyrir úrbætur ætlum við að vinna með í málinu eins og okkur sé unnt. En það eru skiptar skoðanir inni í nefndinni og það getur reynst þungt að koma fram nauðsynlegum breytingum. Við erum ekki í andstöðu við frumvarpið, en viljum að þau taki farsælum breytingum.”
Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokks
Vonbrigði að bótakerfin séu ekki sameinuð í eitt
Sjálfstæðisflokkurinn afgreiðir frumvörpin með almennum fyrirvörum, að sögn Ragnheiðar Ríkharðsdóttur.
„Við viljum sjá samhliða að til verði frumvarp um húsnæðissparnað og séreignasparnaður styrktur í sessi til að hjálpa fólki að kaupa sér eigin íbúð,” segir hún. „Svo eru vonbrigði að vaxta- og húsnæðisbótakerfið skuli ekki vera sameinað í eitt. En við erum vongóð að svo geti orðið.”
Ragnheiður segir samflokksmenn hennar skilja að verið sé að kalla eftir auknu húsnæði á leigumarkaði og samstaða sé um að auðvelda ungu og efnaminna fólki að finna sér heimili. Frumvörpin séu samþykkt af ríkisstjórn en þurfa að taka breytingum.
„Það eru of margir lausir endar. Það er til dæmis ekki búið að ganga frá kostnaðarskiptingu á milli sveitarfélags og ríkisstjórnar og svo vantar framkvæmdaaðila,” segir hún. Spurningum sé enn ósvarað varðandi hver eigi að halda utan um framkvæmdinna. Ljóst er að Tryggingastofnun muni ekki taka það að sér og sérkennilegt væri að búa til nýja stofnun í kring um kerfið sem kostar hátt í 100 milljónir á ári.
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður velferðarnefndar og þingmaður Samfylkingar
Áhyggjur af afturhvarfi frá félagslegri blöndun
Nauðsynlegt er að skýra hvort húsnæðisbæturnar séu í raun að gagnast þeim sem helst þurfa á að halda og fá á hreint hver framkvæmdaaðilinn í því frumvarpi verði. Þetta er mat Sigríðar Ingibjargar.
„Varðandi frumvarpið um almennu íbúðirnar hefur maður áhyggjur af því að það verði að veita 3,5 prósenta lán núna á árinu til að það komi ekki dautt tímabil í eitt og hálft ár þar sem ekkert gerist,” segir hún. „Það tekur tíma að koma þessu í gegn og það er veruleg hætta á að það verði bara engin fjölgun íbúða mánuðum saman.”
Sigríður Ingibjörg tekur undir með fleiri nefndarmönnum með að umgjörðin sé mjög flókin. Þá sé það verulegt áhyggjuefni hvort lausnin vinni gegn blöndun í félagslegu húsnæði, sem sé afar nauðsynlegt að halda áfram með. Það er að byggja ekki allar félagslegu íbúðirnar á sama stað.
Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks
Gagnrýnir ummæli sjálfstæðismanna
„Það eru ákveðin praktísk atriði sem þarf að fara yfir en fyrir mitt leyti þá snúa frumvörpin að mjög nauðsynlegum breytingum í samfélaginu,” segir Silja Dögg Gunnarsdóttir. „Við höfum verið að mæta íbúðareigendum, eins og með leiðréttingunni og fleiri aðgerðum, en það þarf líka að mæta þeim sem eru á leigumarkaði. Ég er ekki að hafna séreignastefnu, Framsóknarflokkurinn er með það á stefnuskrá sinni að kerfið sé þannig að fólk eigi að geta keypt sitt eigið húsnæði, en það má ekki skilja fólkið á leigumarkaðnum eftir.”
Silja Dögg furðar sig á framgangi sumra sjálfstæðismanna, eins og Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar og Vilhjálms Árnasonar, í málinu.
„Það er undarlegt hvernig þeir sem tala hæst í fjölmiðlum eru að bregðast við,” segir hún og bendir á að Guðlaugur Þór hafi mætt á tvo nefndarfundi til að ræða frumvörpin og Vilhjálmur hafi litið við í hálftíma. Hún bendir einnig á ákvæði í aðgerðarátlun ríkisstjórnarinnar í húsnæðismálum frá 2013, sem Sjálfstæðisflokkurinn samþykkti, og snýr að sömu málum.
„Það er skrýtið að sjálfstæðismenn séu að hafna því sem þeir leggja sjálfir fram í þinginu,” segir hún. „Þeir eru ekki með nein haldbær rök. Það virðast allir flokkar, nema Sjálfstæðisflokkurinn, vera sammála um hugmyndafræðina á bak við frumvörpin, að hjálpa fólki í húsnæðisvanda,” segir hún. „Mér finnst óábyrgt hvernig þeir eru búnir að koma fram í þessu máli.”
Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna
Umhugsunarefni hversu alvarlegar athugasemdirnar eru
„Það var mjög bagalegt hversu seint þetta kom fram sem setur þinginu allt of þröngar skorður,” segir Steingrímur J. Sigfússon. „Í ljós kemur að gríðarlega mörg álitamál koma fram samanber umsagnirnar sem þarf að fara í gegn um. Velviljaður sem ég er frumvörpunum er ekki hægt að horfa framhjá því að það eru ótal margir lausir endar í þeim. Um það eru flestir sammála.”
Steingrímur tekur sem dæmi að alvarlegar athugasemdir hafi borist frá sveitarfélögum og sjálfseignastofnunum, sem séu í grunninn velviljaðar frumvörpunum, og það sé verulegt umhugsunarefni. Vaxandi efasemdir séu nú uppi að frumvörpin muni ganga upp fyrir lykilaðila eins og Félagsbústaði og stúdenta.
„Ef þeir verða ekki með í þessu þá missir þetta algjörlega marks,” segir hann. „Þingið verður að gefa sér góðan tíma í þetta, enda erum við búin að funda mjög stíft.”
Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks
Frumvörpin verði aldrei samþykkt óbreytt
Gestakomur hjá velferðarnefnd eru að klárast vegna frumvarpanna og segir Unnur Brá Konráðsdóttir þær hafa skilað miklu.
„Það er ljóst að það þarf að gera umtalsverðar breytingar á málunum. Bæði tæknilegar og svo dýpri og efnislegri breytingar,” segir hún. „Frumvörpin verða aldrei samþykkt óbreytt. Ekki miðað við þær athugasemdir sem hafa komið fram.”
Unnur Brá segir málin stór og flókin og ljóst sé að þau hafi verið lögð fram í mikilli tímapressu.
„Þetta gerist oft. En þá er það bara þingsins að bregðast við því.”