Fréttaskýring#Stjórnmál#Viðskipti#Alþingi
Vilja ekki selja Landsbankann
Skoðanakönnun meðal allra þingmanna sýnir að Framsóknarmenn og stjórnarandstaðan eru ekki á þeim buxunum að selja hlut í Landsbankanum, þó að salan sé í fjárlögum. Sjálfstæðismenn setja sterka fyrirvara. Borgunarmálið varpar skugga á ferlið.
Afar ólíklegt er að meirihluti sé á Alþingi fyrir sölu ríkisins á tæplega 30 prósenta hlut sínum í Landsbankanum á þessu ári. Nær enginn vilji er innan Framsóknarflokks til sölunnar og allir þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna eru mótfallnir henni. Þingflokkur Bjartrar framtíðar er klofinn til helminga í málinu. Allir sjálfstæðismenn sem svöruðu vilja selja, en setja mikla fyrirvara.
Kjarninn spurði alla 63 þingmenn Alþingis hvort þeir væru hlynntir því að ríkið seldi 28,3 prósenta hlut sinn í bankanum á þessu ári. Mikill meirihluti svaraði spurningunni, 45 af 63, en 18 vildu ekki svara. Svarhlutfall var 100 prósent meðal þingmanna Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata. Allir þingmenn, að einum undanskildum, svöruðu hjá Samfylkingu.
Gert er ráð fyrir því í fjárlögum ársins 2016 að 71,3 milljarðar fáist fyrir hlutinn. Bankasýsla ríkisins hóf undirbúning að söluferli síðasta haust.
16 þingmenn sem svöruðu Kjarnanum eru fylgjandi sölunni á þessu ári og 29 andvígir. Þeir sem eru fylgjandi sölunni eru allir þingmenn Sjálfstæðisflokks sem svöruðu, einn þingmaður Framsóknarflokks og þrír þingmenn Bjartrar framtíðar. Þeir sem eru andvígir eru allir þingmenn Framsóknarflokks sem svöruðu, að einum undanskildum, allir þingmenn Samfylkingar, Vinstri grænna og Pírata, og þrír þingmenn Bjartrar framtíðar.
Aðeins einn ráðherra ríkisstjórnarinnar svaraði fyrirspurn Kjarnans; Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra. Svar barst einnig frá aðstoðarmanni Sigrúnar Magnúsdóttur umhverfisráðherra, hvar stóð að ríkisstjórnin hafi ekki tekið málið fyrir.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði á þingi í janúar að það lægi ekkert á að selja fyrr en menn væru vissir um að það sé æskilegt.
Spurningin var send þingmönnum í tölvupósti. Pósturinn var ítrekaður í tvígang til þeirra sem höfðu ekki svarað.
Afstaða þingmanna til sölu Landsbankans
Spurt var: Ertu fylgjandi því að íslenska ríkið selji 28,2 prósenta hlut sinn í Landsbankanum á þessu ári?