Hinrik VIII var einn þekktasti og merkilegasti konungur Englands frá upphafi. Hann birtist okkur í kvikmyndum, sjónvarpsþáttum, málverkum og bókum sem ráðríkur, grimmur og sjúkur leiðtogi og það má vissulega til sanns vegar færa. En það var ekki alltaf svo því versnandi heilsufar hans virðist hafa breytt honum sem persónu. Vísindamenn við Yale háskóla hafa komið fram með kenningu um það hvers vegna Hinrik breyttist og sú kenning á rætur sínar á ólíklegum stað, úr NFL deildinni.
Eins og tveir ólíkir menn
Hinrik VIII Tudor fæddist árið 1491 og var næstelsti sonur konungshjónanna Hinriks VII og Elísabetar af York. Eldri bróðir hans, Artúr, lést á unglingsaldri og faðir þeirra skömmu síðar. Hinrik var því krýndur konungur Englands einungis 17 ára gamall árið 1509. Hinrik stýrði landinu í tæplega 38 ár og valdatími hans er einn sá merkilegasti í sögu landsins. Hann sleit bönd ensku kirkjunnar við páfagarð þegar páfi neitaði honum um skilnað við fyrstu eiginkonu sína, Katrínu af Aragon. Þá leysti hann upp ensku klausturreglurnar og lagði lönd þeirra og auðævi undir krúnuna. Með þessu lagði hann grunninn að ensku biskupakirkjunni sem í dag telur yfir 80 milljón sálir víðs vegar um heim sem er merkilegt í ljósi þess hversu lítið trúrækinn hann var og í raun flaut með því sem hentaði honum í hvert skipti.
Hinrik umbylti einnig herflotanum og hefur verið kallaður faðir hins konunglega flota. Allar götur síðan var konunglegi flotinn hornsteinninn í bæði landvörnum og útþenslu Englands og styrkur hans meginástæðan fyrir velgengni breska heimsveldisins. Hinrik efldi konungdæmið og trúði á rétt einvalds konungs sem leiðtoga bæði veraldlegra og andlegra málefna. Hann rak harða og herskáa utanríkisstefnu gegn erkifjendum sínum á meginlandi Evrópu en náði að sætta þær aðalsættir sem höfðu barist innanlands um áratuga skeið, Lancaster og York. En þrátt fyrir allt þetta verður hann alltaf frægastur fyrir að hafa átt sex eiginkonur og látið afhöfða tvær af þeim.
Á öllum þekktustu málverkum sem til eru af Hinriki VIII sjáum við hann sem mjög þéttvaxinn mann á miðjum aldri. En þegar Hinrik var ungur maður var hann mun grennri. Þetta sést bæði á málverkum og brynjustærð. Sem ungur maður þótti Hinrik léttlyndur, bjartsýnn og glaðvær. Hann var mjög hraustur og stundaði íþróttir og veiðar af myndugleik en þótti einnig fríður og rómantískur. Hann er einn af fáum konungum sem giftist af ást en ekki hentugleik. Einnig kunni hann vel við sig í margmenni, dansaði, sinnti listum og samdi jafnvel tónlist. Gáfnafarið skorti heldur ekki. Hinrik var ekki einn af þeim konungum sem lét ráðgjafa stjórna ríkinu á meðan hann var á veiðum eða kvennafari. Hann var sprenglærður og fylgdist grannt með því sem gerðist bæði innanlands og erlendis.
Á seinni hluta veldistímans virðist Hinrik hafa breyst í allt aðra persónu. Þá persónu sem Charles Laughton túlkaði svo snilldarlega í kvikmyndinni The Private Life of Henry VIII frá 1933 og fékk óskarsverðlaun fyrir. Hinrik var orðinn skapstyggur, þunglyndur, tillitslaus og umfram allt grimmur stjórnandi sem kunni sér ekki hóf í neinu og vílaði það ekki fyrir sér að kvelja og jafnvel aflífa fólk, sama hvort það var honum nákomið eður ei. Hann var sárkvalinn, örvilnaður og bugaður maður. Það var á seinustu 14 árum ævinnar sem hann giftist fimm af sex eiginkonum sínum og tvær þeirra, Anne Boleyn og Catherine Howard, misstu höfuðið.
Hvað olli?
Versnandi heilsa og persónuleikabreytingar Hinriks VIII hafa verið fræðimönnum mikil ráðgáta í gegnum tíðina og ýmsar kenningar komið fram. Vitað er að hann fékk þrisvar sinnum alvarlega smitsjúkdóma (einu sinni bólusótt og tvisvar malaríu) á sínum yngri árum en það kemur þó glöggt fram að hann náði sér fljótt af þeim. Ein þekktasta kenningin er sú að Hinrik hafi verið hrjáður af sárasótt sem var þá mjög nýr smitsjúkdómur í Evrópu eftir hafði borist til álfurnnar með landafundamönnum í Ameríku. Sárasótt getur valdið geðveiki en fæstir fræðimenn taka þessa skýringu gilda í dag. Önnur kenning er sú að Hinrik hafi verið haldinn genagalla sem kallast McLeod-sjúkdómur, sem uppgötvaður var árið 1961 og er kenndur við fyrsta þekkta sjúklinginn. Þetta er hægverkandi sjúkdómur sem verkar m.a. á tauga og æðakerfi líkamans og getur valdið heilabilun og persónuleikabreytingum.
Enn önnur lífseig kenning er sú að Hinrik hafi fengið svokallað Cushing´s heilkenni sem ameríski taugalæknirinn Harvey Cushing uppgötvaði árið 1931. Heilkennið getur komið fram vegna of mikilla cortisol hormóna í líkamanum, t.d. vegna æxlis. Cushing´s heilkennið veldur ójafnri þyngdaraukningu og getur einnig valdið skapgerðarbrestum. Fjöldi annrra kenninga er til um ástæður hrakandi heilsufars konungsins. Má þar nefna sykursýki, skjaldkirtilsvanstarfsemi og bakteríusýkingu vegna meiðsla á fæti sem hann hlaut í burtreiðum. Engin af áðurnefndum skýringum virðist þó geta passað algerlega miðað við þær lýsingar sem til eru af heilsufari og skapgerð Hinriks. Hinrik lést árið 1547, sennilega vegna hjartabilunar, og má telja víst að þeir samverkandi kvillar sem hrjáðu hann seinustu ár ævinnar hafi valdið því.
Nýr sjúkdómur uppgötvaður í Pittsburgh
Árið 2002 lést Mike Webster, fyrrum miðherji hjá NFL-liðinu Pittsburgh Steelers, úr hjartaáfalli á sjúkrahúsi í borginni. Þegar komið var með lík hans á krufningarstofuna vöknuðu grunsemdir læknis á stofunni, hins nígeríska Bennets Omalu, um að ekki væri allt með felldu. Omalu gerði rannsóknir á heila Websters og fleiri NFL leikmanna sem dáið höfðu langt fyrir aldur fram við grunsamlegar aðstæður.
Hann komst að þeirri niðurstöðu að ítrekuð höfuðhögg sem leikmennirnir höfðu orðið fyrir á ferli sínum í íþróttinni hefðu valdið ýmsum líkamlegum og andlegum kvillum, geðveiki og loks dauða. Omalu birti niðurstöður sínar árið 2005 en mátti sæta mikilli andstöðu víða að vegna vinsælda NFL deildarinnar og amerísks fótbolta. Hann hélt þó ótrauður áfram og nefndi sjúkdóminn CTE (Chronic traumatic encephalopathy). Engin íslensk þýðing er til á þessum sjúkdómi en læknir á Landspítalanum segir að langvinnur eða þrálátur áverkatengdur heilakvilli lýsi þessu best. Sjúkdómurinn kemur fram um 8-10 árum eftir að áverkarnir eiga sér stað og þar sem hann er algengastur hjá íþróttafólki kemur hann yfirleitt fram eftir að ferlinum líkur.
Þeir íþróttamenn sem fá þung og ítrekuð höfuðhögg eru í mestri hættu að fá sjúkdóminn og er hann sérstaklega mikið vandamál í íþróttum á borð við amerískan fótbolta, ruðning, hnefaleika, ísknattleik o.fl. en einnig hafa komið upp tilfelli í íþróttum á borð við körfuknattleik og knattspyrnu. Sjúkdómurinn er auk þess ekki einvörðungu bundinn við íþróttafólk. Meðal einkenna sjúkdómsins má nefna athyglisbrest, dómgreindarbrest, minnisleysi, stöðuga höfuðverki og verki í vöðvum, svima, vitglöp, málheltu og geðveiki.
Mike Webster dó einungis fimmtugur þar sem hann hafði lifað seinustu árin heimilislaus, sárþjáður og í algjöru sturlunarástandi. Stór hluti þeirra sem þjást af sjúkdómnum taka sitt eigið líf. Eitt alvarlegasta atvikið átti sér stað árið 2007 þegar Chris Benoit, fyrrum heimsmeistari í fjölbragðaglímu, hengdi sig eftir að hafa myrt eiginkonu sína og son. Margir af þeim leikmönnum sem Bennet Omalu rannsakaði höfðu framið sjálfsvíg. Meðal þeirra Justin Strzelczyk (36 ára) sem keyrði á tæplega 150 km/klst hraða á móti umferð og Andre Waters (44 ára) sem Omalu sagði hafa haft heilahrörnun á við níræðan mann.
Var Hinrik VIII haldinn íþróttasjúkdómi?
Nýlega hefur taugalæknirinn Arash Salardini sem kennir við Yale háskóla komið fram með þá tilgátu að Hinrik VIII hafi verið hrjáður af CTE. Salardini er ekki sá fyrsti til að velta því fyrir sér hvort höfuðhögg gætu hafað haft áhrif á persónu konungsins. Sagnfræðingurinn Frederick Chamberlain minntist á þetta í bók sinni The Private Character of Henry the Eighth en sú bók kom út árið 1931, löngu áður en áhrif CTE urðu kunn. En Salardini fékk hugmyndina aftur á móti eftir að hafa kynnt sér rannsóknir taugalæknisins Ann McKee við Boston háskóla á mörgum NFL leikmönnum.
Hún segir að þó að íþróttamenn með CTE fái mesta athygli þá sé sjúkdómurinn ekki eingöngu bundinn við íþróttafólk. Það er vitað að Hinrik VIII lenti í mörgum alvarlegum slysum á sínum yngri árum. Árið 1524 var hann sleginn af hesti sínum í burtreiðum og var mjög dasaður eftir það. Ári seinna var konungurinn á haukaveiðum þar sem hann reyndi að komast yfir hátt limgerði með stöng líkt og stangastökkvari. Stöngin brotnaði og hann féll ofan í skurð og rotaðist. Hann var dreginn upp úr og minnstu munaði að hann drukknaði í skurðinum. Árið 1536 lenti hann svo í öðru alvarlegu burtreiðaslysi þar sem hann féll af baki og hesturinn féll ofan á hann.
Konungurinn rotaðist og var meðvitundarlaus í um það bil tvær klukkustundir eftir það. 1536 er einmitt árið þar sem persónuleikabreytingar Hinriks fóru að koma fram en vitað er að hann var byrjaður að fá slæma höfuðverki og jafnvel mígrenisköst fyrir þann tíma. Einnig var svefnleysi og þunglyndi farið að gera vart við sig. 1536 var einnig árið þar sem Hinrik lét taka aðra eiginkonu sína, Anne Boleyn, af lífi fyrir samsæri gegn sér sem átti sér enga stoð í raunveruleikanum. Glæpur Boleyn var sá að hún ól konungnum ekki son heldur einungis eina dóttur, framtíðardrottninguna Elísabetu I.
Á seinustu 10 árum Hinriks VIII versnaði heilsa hans stöðugt. Þunglyndið varð æ meira áberandi, sérstaklega eftir að hans hægri hönd og ráðgjafi, jarlinn Thomas Cromwell, lést árið 1540. Eftir dauða Cromwells lokaði Hinrik sig inni löngum stundum. Hinrik varð vænisjúkur og missti alla getu til að taka upplýstar ákvarðanir. Seinustu stríð hins mikla herkonungs voru misheppnaðar og illa ígrundaðar innrásir inn í Skotland og Frakkland. Minnið fór einnig að svíkja hann. Hann gleymdi oft hvar hann hafði verið og hvað hann hafði fyrirskipað. Þegar hann var leiðréttur reiddist hann harkalega og tók jafnvel brjálæðisköst. Enginn var öruggur í náveru hans, ekki einu sinni náfjölskylda hans. Einn af fylgikvillum CTE er getuleysi og lágt magn testósteróns. Hinrik kenndi ávallt eiginkonum sínum um það að geta honum ekki syni en það var hann sjálfur sem glímdi við náttúruleysi samkvæmt frásögnum tveggja þeirra. Salardini telur að mikil þyngdaraukning Hinriks á seinni hluta ævi sinnar geti einnig tengst höfuðáverkunun, þ.e. að áverkar geti valdið skorti á vaxtarhormónum. Hjá fullorðnu fólki getur slíkur skortur valdið offitu og vöðvarýrnun.
Öll þau einkenni sem Hinrik glímdi við seinustu 10 ár lífs síns eða þar um bil, virðast passa vel við CTE sjúkdóminn eða a.m.k. það sem við vitum um hann í dag. Þar sem ekki er hægt að rannsaka heila Hinriks VIII getur tilgáta Salardinis vitaskuld aldrei orðið meira en rökstudd ágiskun. Hún er þó nokkuð sannfærandi og merkilegt innlegg inn í umræðuna um þennan nýuppgötvaða sjúkdóm og hvaða áhrif hann gæti hafa haft á mannkynssöguna. Salardini segir: „Það er heillandi að ímynda sér það að saga Evrópu gæti hafa breyst varanlega vegna höfuðhöggs.”
Salardini og nemendur hans sem hann vinnur að rannsókninni með munu birta ítarlegar niðurstöður sínar í tímaritinu Journal of Clinical Neuroscience í júní næstkomandi.