Fréttaskýring#Íþróttir#Bandaríkin

Barist um skóna

Körfuboltaskór eru sérstök vara. Þeir eru einskonar stöðutákn sökum þess að þeir eru dýrir og áberandi. Under Armour hefur gefið út sértaka Stephen Curry-skó, rétt eins og Nike gerði Michael Jordan-skó árið 1984.

Magnús Halldórsson8. mars 2016
Stephen Curry reimar á sig Under Armour-skóna sem bera nafn hans.

Körfuboltaskór njóta mikilla vinsælda í Bandaríkjunum þessa dagana, og eru miklar vinsældir Stephen Curry að hjálpa til á markaðnum. Staðan minnir um margt á það þegar Michael Jordan breytti skómarkaðnum í Bandaríkjunum varanlega þegar hann samdi við Nike, og komu fyrstu skórnir í hans nafni, Air Jordan I, á markað fyrir 32 árum.

Stephen Curry, leikmaður Golden State Warriors í NBA-deildinni, er ekki aðeins ein allra besta skyttan í sögu NBA, heldur er nafn hans að umbreytast í eitt verðmætasta vörumerki Bandaríkjanna. Ástæðan eru fádæma vinsældir skótegundar (sneakers) í hans nafni.

Skór fyrir 21 milljarð

Samkvæmt nýrri greiningu sem bankinn Morgan Stanley sendi til viðskiptavina sinna, er samningur Curry við Under Armour-fyrirtækið að margborga sig til baka fyrir íþróttavöruframleiðandann. Talið er að árleg sala á skóm sem kenndir eru við Curry, muni seljast fyrir 160 milljónir Bandaríkjadala á þessu ári, sé miðað við vindsældirnar um þessar mundir. Það er upphæð sem nemur um 21 milljarði króna. Næstur á eftir honum kemur LeBron James, með áætlaða sölu upp á 150 milljónir Bandaríkjadala, og þar á eftir Kevin Durant, með 82 milljónir Bandaríkjadala. Þeir tveir síðarnefndu eru báðir á samningi hjá Nike. 

Ljósi punkturinn hjá Under Armour

Þrátt fyrir þessar vinsældir hefur Under Armour verið að tapa markaðshlutdeild á íþróttavörumarkaði, í fyrsta skipti í þrjú ár, en salan á Curry-skónum er það sem helst er jákvætt í rekstrinum, um þessar mundir. Það sem þykir sögulegt við þessa stöðu á markaði er að Nike virðist í fyrsta skipti í meira en tvo áratugi, vera að missa niður forystusæti sitt á körfuboltaskóamarkaði, þar sem Under Armour ætlar sér stóra hluti í framtíðinni, eins og Adidas. Að mati Morgan Stanley eru þetta áhugaverð tímamót, að því er segir í umfjöllun Quartz.

Jordan setti  ný viðmið

Í Bandaríkjunum er mikið rætt um endurkomu skóæðisins sem Michael Jordan var upphafsmaður að, með markaðssérfræðinga Nike að halda um þræðina bak við tjöldin. Framúrstefnulegt útlit fyrir Nike Air Jordan-skóna – sem hétu einfaldlega Nike Air Jordan I – setti þá í kastljósið hvar sem Jordan kom, og hvar sem þeim var stillt upp í hillum. Þeir komu fyrst í búðir fyrir um 32 árum, á árinu 1984, og urðu fljótlega vinsælir. Enginn gat séð fyrir að vinsældirnar yrðu svo gríðarlegar, að engin dæmi eru um viðlíka vinsældir hjá íþróttamanni í Bandaríkjunum nokkru sinni, þegar kemur að skóm. Ástæðan fyrir vinsældum átti sér skýringar. Sú sem var augljósust var sú, að Michael Jordan var að umbreytast í næstum óstöðvandi leikmann á þessum árum sem skórnir komu fyrst á markað. Athyglin var á honum, vegna snilli hans. Hin ástæðan sem nefnd hefur verið, var vel framkvæmd markaðsherferð. Það gekk einfaldlega allt upp. 

Michael Jordan í skónum sem bera nafn hans. Fyrsta útgáfa skónna var í rauðu og svörtu en sú týpa var bönnuð af NBA-deildinni því það var „of lítið af hvítum lit“ í skónum. Jordan lék samt í skónum og í hvert einasta sinn sem hann steig á völlinn í þeim var hann sektaður um 5.000 dollara. Nike framleiddi síðar rauða og hvíta týpu af skónum sem Michael Jordan spilaði í tímabilin 1985 og 1986.

Meira en 30 árum eftir að fyrstu skórnir sem tengdir voru Jordan nafninu komu á markað, fékk Michael Jordan sína langsamlegu stærstu greiðslu frá Nike. Árið 2015 var Jordan sá maður úr íþróttageiranum – þó hann hafi verið hættur að spila fyriri löngu – sem þénaði mest af öllum. Hann fékk 100 milljón Bandaríkjadala eingreiðslu, um 13 milljarða króna, í tengslum við ævinlangan samning hans við Nike. Frumhönnunin hefur nú verið endurútgefni og njóta elstu Air Jordan skórnir mikilla vinsælda. 

Þetta lagði grunninn að miklum sigrum Nike í Bandaríkjunum, og ýtti undir mikinn áhuga á NBA-deildinni um allan heim.

Það þurfa allir skó

Markaður með skó í Bandaríkjunum er gríðarlega stór, enda skór nauðsynjavara. Sérstaklega er veltan mikil hjá fólki á aldrinum 16 til 34 ára, en árið 2014 nam heildarveltan með skó hjá þessum aldurshópi, 21 milljarði Bandaríkjadala, eða sem nemur um 2.700 milljörðum króna, samkvæmt umfjöllun The Washington Post. Körfuboltaskór eru drjúgur hluti af þessari veltu, eða um 15 prósent, og eru samningar sem leikmenn gera við fyrirtæki vegna skólínu í þeirra nafni, oft mun umfangsmeiri heldur en launasamningar þeirra. Eitt þykir einnig sérstaklega eftirsóknarvert við körfuboltaskó. Þeir eru dýrir og áberandi, og það er ákveðinn „status“ að ganga í þeim af þeim sökum.

Risasamningur laus á næsta ári

Adidas samdi við NBA-deildina árið 2006 til ellefu ára, og varð þannig opinbert íþróttavörumerki deildarinnar. Samningurinn var risavaxinn, og metinn á 400 milljónir Bandaríkjadala, eða sem nemur næstum 60 milljörðum króna. Adidas hefur nú gefið út að fyrirtækið hafi ekki áhuga á að endurnýja samninginn. Líklegt þykir að Nike eða Under Armour sækist eftir því að verða opinbert íþróttavörumerki NBA.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnMagnús Halldórsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar