Grænlendingar eiga margir hverjir erfitt með að fóta sig í Danmörku. Hærra hlutfall Grænlendinga en Dana leitar í áfengismeðferð, í gistimóttökur fyrir heimilislausa, eða dúkkar upp á glæpatölfræðinni, bæði sem fórnarlömb og gerendur.
Menntunarstigið er mun lægra en hjá Dönum, atvinnuleysið meira, og launin lægri hjá þeim sem þó fá vinnu. Tölfræðin gildir jafnvel þegar búið er að taka inn augljósa skýringarþætti, eins og að margir Grænlendingar koma einmitt til Danmerkur til að mennta sig, og fá þess vegna ekki laun á meðan.
Grænlenskar konur eru í sérstökum áhættuhópi. Ný skýrsla frá dönsku stofnuninni Rådet for socialt udsatte grefst fyrir um sögur og bakgrunn grænlenskra kvenna sem lenda á götunni. Margar þeirra koma til Danmerkur með vondar minningar um ofbeldi og ofneyslu áfengis eða fíkniefna í farteskinu. Þær dreymir um nýtt og betra líf.
Kunna ekki á kerfið – fá ekki aðstoð
Aðrir innflytjendur frá ólíkum menningarheimum geta fengið fræðslu og aðstoð við komuna til Danmerkur. Grænlendingar eru hins vegar danskir ríkisborgarar og fá þar af leiðandi enga sérstaka aðstoð umfram aðra Dani. Það vantar mikið upp á að félagsþjónustan geti komið til móts við Grænlendinga sem eiga bágt með að skilja eða tjá sig á dönsku.
Í fyrirheitna landinu reka grænlensku konurnar sig á að kerfið ætlast til að þær sjálfar geti borið sig eftir aðstoðinni. En þær kunna ekki á kerfið og skilja ekki grautarkennda dönskuna hjá innfæddum.
„Ég skil alveg venjulega dönsku, en ekki þessa útlensku sem þeir tala á sveitarfélagsskrifstofunum,” segir Alberte, 39 ára grænlensk kona sem talað er við í skýrslunni.
#news #eu #danmark Rapport: Sådan siger de udsatte grønlandske kvinder: Rådet for Socialt Udsatte udgiver i da... https://t.co/vjl4qCT1LE
— OPENN-NEWS-HQ ®©™ (@openomroep) March 14, 2016
Um 14.000 Grænlendingar eru búsettir í Danmörku. Þar af er reiknað með að um 1.100-1.400 séu í félagslega viðkvæmri stöðu (socialt udsatte). Þetta þýðir að hátt í 10% Grænlendinga í Danmörku eigi á hættu að lenda á botni hinnar félagslegu fæðukeðju, á einn eða annan hátt. Það er ansi hátt hlutfall.
Þó að Grænland tilheyri Danmörku eru félagsleg stuðningskerfi landanna aðskilin. Við flutning til Danmerkur fellur grænlenski bótarétturinn niður eftir nokkra mánuði, alls óháð því hvort Grænlendingarnir hafi fyrir þann tíma náð að sækja um og fá danskar bætur. Óöryggið sem fylgir því að missa greiðslurnar sem hingað til hafa haldið fólki á floti, og vita ekki hvert maður á að leita í nýju kerfi, getur verið nóg til að ýta fólki í viðkvæmri stöðu út fyrir brúnina.
Ósýnilegar í samfélaginu
Jafnvel þær konur sem eru farnar að kunna á kerfið eiga samt erfitt með að sleppa úr vítahringnum. Minningar um, og sálrænir örðugleikar tengdir fyrra ofbeldi gera það að verkum að þær beiðast frekar skjóls hjá vinum og kunningjum en að leita í gistiskýli fyrir heimilislausa. Tengslanetið byggir oftar en ekki á fólki sem einnig er í neyslu, eða mönnum sem áður hafa beitt konurnar líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi.
Rapport om grønlandske kvinder i DK er hjerteskærende læsning om en særligt udsat, ofte usynlig gruppe. https://t.co/7nGw3j1BXl
— Emma Holten (@emma_holten) March 14, 2016
„Erna” er önnur grænlensk kona sem sagði skýrsluhöfundum sína sögu. Hún kom til Danmerkur í þeim tilgangi að smygla hassi tilbaka til Grænlands. Hún hætti við þegar til Danmerkur var komið og finnst hún ekki eiga afturkvæmt til Grænlands fyrir vikið. Hún er nánast ósýnileg dönsku samfélagi. Hún hefur ekkert lögheimili og fær enga fjárhagsaðstoð. Skilur litla dönsku og talar nánast enga. Hún forðast gistiskýli fyrir heimilislausa eftir nauðgunartilraun þar.
„[Erna] er hrædd en þorir ekki að biðja um hjálp af því að henni finnst hún ekki vera velkomin í Danmörku. Hún skilur ekki það sem er sagt, og er hrædd við að leita aðstoðar hjá sveitarfélaginu. ... Eins og er finnst henni betri hugmynd að safna flöskum og sofa hér og þar, eða að leita aðstoðar hjá grænlenskum vinum. Þar skilur hún þó það sem er sagt og líður eins og hún sé örlítið á heimavelli.”
Grønlandske kvinder i Danmark er udelukket for indflydelse. De har ingen stemmer og har færre rettigheder end indvandrere. #100aaret #fv15
— Nauja Lynge (@nauja2lynge) June 5, 2015
Ílendast í vítahringnum
Ofbeldismynstrið sem konurnar voru að reyna að flýja frá í Grænlandi endar oft á að fylgja þeim yfir hafið. Margar þeirra hafa tilhneigingu til að ganga inn sambönd við menn af því þær hafa engin betri úrræði, segir í skýrslunni.
Rapport afslører seksuel misbrug, sult og vold mod grønlandske børn: Selvom Grønland bryder Børnekonventionen,... https://t.co/QVC261zXvp
— ChristofferSamuelsen (@Samuelsen10) November 2, 2015
Margar þeirra voru í tygjum við danskan mann við komuna til Danmerkur og finnst þær vera háðar áframhaldandi sambandi við hann til að komast af í nýju landi. Þær treysta sér þess vegna ekki til að fara úr ofbeldisfullu sambandi, því þær hafa ekki trú á eigin getu til að koma undir sig fótunum. “Þær konur sem ekki eru í föstu sambandi hafa margar hverjar neyðst til að falbjóða kynlíf í skiptum fyrir húsaskjól, áfengi og eiturlyf, og hreinlega til þess að komast af sem utangarðskonur,” segir í skýrslunni.
„Ekki spyrja mig hvernig ég hef lifað af á götunni. Af því ég veit vel... að vera kona... Það eru sumir mennirnir sem hafa tekið mig. Ég hef notað líkamann til að komast í skjól þar sem var hlýtt”, segir Lisa, 57 ára, á brotinni dönsku.
Fordomme står i vejen for #grønlændere i Danmark https://t.co/lbfnxiiw09 #dksocial
— SUS social udvikling (@SUS_DK) October 22, 2015
Einnig hinir sem áttu gott
Þó nokkrir af þeim Grænlendingum sem koma til Danmerkur hafa átt örðugt líf. En ekki allir. Margir Grænlendingar upplifa að sú félagslega staða sem þeir hafa notið í heimalandinu, þar sem allt gekk vel og þeir kunnu á lífið, verði að engu í nýju landi. Gildin eru önnur, fordómar miklir gegn Grænlendingum, og grænlensk menntun ekki metin jafnmikils og dönsk menntun.
Jafnvel krakkar sem hafa verið klárir í skóla á Grænlandi geta farið halloka þegar þeir fara til náms í Danmörku. Þeir kunna ekki tungumálið nægilega vel til að standa jafnfætis innfæddum. Það hefur áhrif á sjálfstraustið.
Margir flytja til Danmerkur án þess að hafa kynnt sér hvað bíður þeirra, útvegað sér húsnæði eða vinnu. Þetta er án efa hluti af ástæðunni fyrir því að 6% Grænlendinga í Danmörku búi í gistiskýlum fyrir heimilislausa. Allt að 58% Grænlendinga hefur á einhverjum tímapunkti nýtt sér þá þjónustu.
Bæjarstarfsmenn hjá Álaborg segja Grænlendinga vera um fjórðung heimilislausra ungmenna í borginni. Þeir segja að margir flytji til Danmerkur án þess að gera sér raunhæfa hugmynd um það hvað bíði þeirra. Þess vegna hefur Álaborg farið að bjóða nýlentum Grænlendingum upp á fræðslu um það hvernig danska kerfið virki og hvernig þeir eigi að koma undir sig fótunum í Danmörku.
Grænlendingar og Danir hafna þannig í vítahring fordóma. Nærri helmingur Grænlendinga í Danmörku (44%) segjast hafa fundið fyrir fordómum innfæddra Dana í sinn garð.
Fordómarnir brjótast m.a. út í neikvæðu viðhorfi Dana til Grænlendinga og lítilli tiltrú, eins og sjá má í slanguryrðinu Grønlenderstiv, sem vísar til þess að vera ofurölvi. Fordómarnir styrkja og ýta undir útskúfun Grænlendinga og gerir það enn erfiðara fyrir þá að koma undir sig fótunum í nýju landi, fá vinnu eða leita sér hjálpar þegar þess er þörf. Hjálparleysi Grænlendinganna, og hin sýnilegu einkenni útskúfunarinnar styrkja aftur fordóma Dananna.
Danskerne er fulde af negative fordomme om #Inuit grønlændere.http://t.co/1XPLenYpLC #Danmark #Racisme
— Ove Poulsen (@ove_poulsen) June 14, 2015