Rob Ford, fyrrverandi borgarstjóri Toronto-borgar, lést í dag, 46 ára að aldri. Þegar hneykslismál Ford voru í hámæli fyrir tæpum þremur árum skrifaði Guðmundur Kristján Jónsson í Kanada þessa stórskemmtilegu fréttaskýringu um Ford, sem Kjarninn endurbirtir hér að neðan.
Það gustar um Rob Ford borgarstjóra Toronto um þessar mundir. Lögreglan í þessari fjórðu stærstu borg Norður Ameríku hefur eftir viðamikla rannsókn og aðgerðir undir höndum myndband þar sem Ford sést reykja krakk í vafasömum félagsskap nafngreindra glæpamanna. Annað myndband, þar sem hann hótar óþekktum einstaklingi hrottalegu lífláti fer eins og eldur um sinu í netheimum. Þrátt fyrir að krakk-reykinga-myndbandið hafi ekki enn borist fyrir sjónir almennings hefur Ford viðurkennt verknaðinn og segir hann hafa átt sér stað í ölæði. Raunar hefur Ford ítrekað borið fyrir sig ölæði þegar ýmis umdeild mál honum tengdum hafa komið upp en ferill hans sem stjórnmálamaður hefur óneitanlega verið skrautlegur í gegnum tíðina.
Rob Ford hefur verið borgarfulltrúi úthverfisins Etobicoke síðan árið 2000 og gegnt embætti borgarstjóra síðan í október 2010 eftir að hafa hlotið rúmlega 47 prósent atkvæða. Sem borgarfulltrúi lagði hann einkum áherslur á að reisa verslunarmiðstöðvar og stórar matvöruverslanakeðjur vítt og breitt um kjördæmi sitt, sem og að draga úr hlunnindum opinbera starfsmanna og auka löggæslu. Sem borgarstjóri hefur hann lagt megin áherslu á að starfa í þágu skattgreiðenda, einkum og sér í lagi bíleigenda. Meðal hans fyrstu verka var að afnema ýmis gjöld og reglugerðir sem forveri hans í starfi, David Miller, hafði komið á til að sporna við síaukinni bílaumferð í borginni. Ford hefur einnig sagt upp fjölda opinbera starfsmanna með ýmisskonar einkavæðingaraðgerðum, einkum í tengslum við þrif og sorphirðu.
Allt frá árinu 2006, þegar Ford var vísað út af íshokkíleik vegna dólgsláta hafa hneykslismál af ýmsum toga fylgt Ford líkt og skugginn. Í maí 2008 kærði eiginkona hans hann fyrir líkamsmeiðingar og hótanir og árið 2010 kom á daginn að hann hafði verið handtekinn fyrir ölvunarakstur og varðveislu fíkniefna í Flórída árið 1999. Í öllum tilvikum neitaði Ford sök, en neyddist síðan til að játa upp á sig sökina þegar sönnunargögn í formi lögregluskýrslna, ljósmynda og myndskeiða litu dagsins ljós. Hann hefur reyndar alla tíð neitað ásökunum eiginkonu sinnar um meint heimilisofbeldi en málið var að endingu látið niður falla og þau eru enn gift.
Árið 2012 var Ford dæmdur til að segja af sér sem borgarstjóri eftir að hafa brotið siðareglur Torontoborgar, sem hann viðurkenndi fyrir dómi að hafa aldrei kynnt sér. Málið tengdist ýmsum ívilnunum sem menntaskóla-ruðningsliðið Don Bosco Eagles sem Ford þjálfaði naut. Liðið hafði fengið ýmsa styrki frá borginni auk þess sem Ford nýtti sér starfsmenn borgarinnar, strætisvagna og bréfsefni í þágu liðsins. Eftir margra mánaða áfrýjunarréttarhöld úrskurðaði áfrýunardómstóll að Ford þyrfti ekki að segja af sér þrátt fyrir ítrekuð brot á siðareglum borgarinnar. Ford lét hinsvegar loks af störfum sem þjálfari ruðningsliðsins í maí síðastliðnum eftir að hafa ítrekað sleppt borgarráðsfundum og vanvirt skyldur sínar sem borgarstjóri til að sinna þjálfun liðsins og mæta á kappleiki. Ofan á allt saman kom loks í ljós í febrúar á þessu ári að Ford þverbraut ýmsar fjármálareglur í aðdraganda síðustu kosninga og eyddi bæði upphæðum umfram leyfilegt hámark í auglýsingar auk þess sem að of stór hluti þeirra fjármuna sem hann aflaði í kosningabaráttunni kom frá stórfyrirtæki fjölskyldunnar, Deco Labels and Tags sem sérhæfir sig í prentlausnum og veltir milljörðum á ári.
Hér er einungis stiklað á stóru, en stormasamur ferill Ford er nú í hámæli vegna játninga hans á neyslu eiturlyfja eftir margra mánaða afneitun. Borgarstjórinn, sem ítrekað hefur lýst yfir stríði gegnum glæpum og eiturlyfjum, hefur verið undir stöðugu eftirliti lögreglu á láði og úr lofti vegna meintra eiturlyfjamisferla sinna og hefur lögreglan undir höndum mikið magn myndefnis þar sem hann sést í félagsskap eiturlyfjasala og dæmdra glæpamanna. Enn er óljóst hvað lögreglan hyggst fyrir, en það er talið mögulegt að Ford verði birtar ákærur fyrir eiturlyfjamisferli í náinni framtíð. Ford stendur hinsvegar keikur og neitar að segja af sér, enda mælist hann ennþá með um 40 prósent fylgi og er talinn líklegur til að ná endurkjöri í komandi kosningum árið 2014.
En hvernig má það vera að jafn breiskur maður og Ford haldi velli sem borgarstjóri stærstu borgar fyrirmyndarlandsins Kanada þegar hneykslismálin honum tengdum gætu fyllt heila bók? Skýringuna má finna í pólitísku landslagi Toronto eftir að nágrannasveitarfélög voru sameinuð í eitt kjördæmi árið1998. Úthverfin sem þá runnu saman í eitt við hinn eiginlega Toronto-kjarna mynduðu skyndilega tvo þriðju atkvæða borgarinnar, og þar sækir Ford nær allt sitt fylgi.
Andstæðingar Fords búa flestir miðsvæðis og eru vel menntaðir og efnaðir. Þeir nýta sér almenningssamgöngur og hjólreiðar og búa í dýrum húsnæðum. Stuðningsmenn Ford, eða Ford-þjóðin eins og þeir eru jafnan kallaðir eru hinsvegar að stórum hluta fyrstu kynslóður innflytjendur og verkafólk af erlendum uppruna. Flestir eiga þeir það sameiginlegt að vera bíleigendur og búa í úthverfum. Hluti þeirra er efnaður en flestir hafa takmarkaða menntun. Álögur á húsnæði á bíla skiptir Ford-þjóðina öllu máli og í þeim efnum hefur borgarstjórinn engan svikið, enda hafa bifreiða- og húsnæðisgjöld lækkað umtalsvert í borgarstjóratíð Ford.
Pólitíska landslagið í Toronto er uggvænlegt og einkennist af mikilli stéttarskiptingu á meðal kjósenda. Virðingarleysið og togstreitan á milli íbúa mismunandi borgarhluta er nær algjört, og á meðan glæpatíðni eykst í úthverfunum fjölgar lífrænum kaffihúsum í miðbænum þar sem fyrirmyndarborgarnir koma saman og ræða um hinn alræmda borgarstjóra. Ford-þjóðin sakar menntafólkið í miðbænum um elítuisma og hroka og skyldi engan undra. Á meðan húsnæðisverð í miðbænum hækkar jafnt og þétt, hrökklast hinir efnaminni út í úthverfin þar sem fátækt og glæpatíðni eykst með ári hverju. Toronto hefur verið skipt í tvo menningarheima; úthverfin og miðborgina - sem auglýst er í glanstímaritum og dregur að ferðamenn. Í fljótu bragði mætti draga þá ályktun að Ford-þjóðin sé svo gegnumsýrð af neysluhyggju og veraldlegum gæðum að hún skilji á milli persónunar og stjórnmálamannsins. Á meðan að stjórnmálamaðurinn haldi sköttum í lágmarki þá skiptir engu hvort að hann reyki krakk og berji konuna sína. Svo er hinsvegar ekki, því fylgjendur Fords eru að stórum hluta minnihlutahópar með takmarkaða innkomu. Þeir kjósa Ford vegna þess að þeir telja sig ekki eiga samleið með þeim þriðjungi íbúa Toronto sem býr miðsvæðis og vill setja umhverfis- og samgöngumál á oddinn í skipulagi borgarinnar. Ford-þjóðinni er alveg sama um orðspor Toronto því hún upplifir Toronto vera alveg sama um sig.
Vandamálið í Toronto er mun stærra og alvarlegra en einn krakkreykjandi borgarstjóri og einnig mun flóknara en svo að sameining eða sundrung sveitarfélaga fái það leyst. Vandi Toronto felst í stéttaskiptingu og samskiptaleysi sem skipt hefur milljóna samfélagi í tvær andstæðar fylkingar, litaðar af kynþáttafordómum og virðingarleysi í garð hvors annars. Á meðan beinist hinsvegar kastljós fjölmiðla nær eingöngu að sorglegri hegðun borgarstjórans sem hefur enga stjórn á sjálfum sér og hvað þá Toronto borg.