Íslendingar komu með 72 milljarða í gegnum fjárfestingarleiðina
Seðlabankinn bauð árum saman upp á leið til að skipta gjaldeyri í krónur. Íslendingar komu með 72 milljarða og fengu 17 milljarða í virðisaukningu. Ekki fást upplýsingar um hverjir þetta voru og því ekki hægt að bera saman nöfn í Panamaskjölunum.
794 innlendir aðilar komu með peninga inn í íslenskt hagkerfi í gegnum útboð fjárfestingarleiðar Seðlabanka Íslands. Peningar þeirra námu 35 prósent þeirrar fjárhæðar sem alls komu inn í landið með þessari leið, en hún tryggði um 20 prósent afslátt á eignum sem keyptar voru fyrir peninganna á Íslandi. Alls fengu þessir aðilar 72 milljarða króna fyrir þann gjaldeyri sem þeir skiptu í íslenskar krónur samkvæmt skilmálum útboða fjárfestingarleiðarinnar. Afslátturinn, eða virðisaukningin, sem þeir fengu með þessu umfram það ef þeir hefðu skipt gjaldeyrinum á skráðu gengi Seðlabankans er um 17 milljarðar króna. Seðlabankinn segir að sér sé ekki heimilt að greina frá nöfnum þátttakenda í gjaldeyrisútboðum sínum vegna þagnarskylduákvæðis í lögum um Seðlabanka Íslands.
Erlend fjármunaeign Íslendinga hefur verið mjög í sviðsljósinu undanfarnar vikur í kjölfar frétta úr gagnaleka frá panamísku lögfræðistofunni Mossack Fonseca. Í þeim kemur fram að um 600 Íslendingar tengist um 800 aflandsfélögum sem koma fram í skjölunum. Samkvæmt síðustu birtu upplýsingum frá Seðlabanka Íslands eiga Íslendingar rúmlega þúsund milljarða króna utan íslenska hagkerfisins. Hluti þeirra fjármuna eru vistaðir í þekktum skattaskjólum. Í lok árs 2014 áttu Íslendingar til dæmis 32 milljarða króna á Tortóla-eyju, sem tilheyrir Bresku Jómfrúareyjunum.
Ekki upplýst hverjir komu með fé í gegnum fjárfestingarleiðina
Fjárfestingaleið Seðlabanka Íslands, sem einnig var nefnd 50/50 leiðin, var gríðarlega umdeild aðferð sem bankinn beitti til minnka hina svokölluðu snjóhengju, krónueignir erlendra aðila sem fastar voru innan fjármagnshafta og gerðu stjórnvöldum erfitt fyrir að vinna að frekari losun þeirra hafta. Samkvæmt henni gátu þeir sem samþykktu að koma með gjaldeyri til Íslands skipt þeim í íslenskar krónur á hagstæðara gengi en ef þeir myndu gera það í næsta banka. Mun hagstæðara gengi.
Þeir sem tóku á sig „tapið“ í þessum viðskiptum voru aðilar sem áttu krónur fastar innan hafta en vildu komast út úr íslenska hagkerfinu með þær. Þeir sem „græddu“ voru aðilar sem áttu erlendan gjaldeyri en voru tilbúnir að koma til Íslands og fjárfesta fyrir hann. Seðlabankinn var síðan í hlutverki milligönguaðila sem gerði viðskiptin möguleg. Líkt og verslun sem leiddi heildsala og neytendur saman.
Alls fóru fram 21 útboð eftir fjárfestingaleiðinni frá því í febrúar 2012 til febrúar 2015, þegar síðasta útboðið fór fram. Alls komu um 1.100 milljónir evra til landsins á grundvelli útboða fjárfestingarleiðarinnar, sem samsvarar um 206 milljörðum króna. Ef þeir sem komu með þennan gjaldeyri til Íslands hefðu skipt þeim á opinberu gengi Seðlabankans, líkt og venjulegt fólk þarf að gera, hefðu þeir fengið um 157 milljarða króna fyrir hann. Virðisaukningin sem fjárfestingaleiðin færði eigendur gjaldeyrisins í íslenskum krónum var því 48,7 milljarðar króna. Skilyrt var að binda þyrfti féð sem fært var inn í landið með þessu hætti í fasteignum, verðbréfum, fyrirtækjum eða öðrum fjárfestingakostum. Því má segja að þeir sem hafi nýtt sér fjárfestingarleiðina hafi fengið um 20 prósent afslátt af þeim eignum sem þeir keyptu.
Gagnrýni á fjárfestingarleiðina kom úr mörgum áttum, áður en ákveðið var að hætta útboðum hennar fyrir rúmu ári síðan. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, gagnrýndi hana meðal annars fyrir að vera ósanngjarna. Í samtali við Kjarnann í febrúar 2014 sagði hann leiðina fela í sér aðstöðumun milli innlendra og erlendra aðila.
Fjölmiðlar hafa verið duglegir við að segja fréttir af þeim aðilum sem blasað hefur við að hafi nýtt sér fjárfestingarleiðina við að flytja peninga erlendis frá til landsins. Félög í eigu þeirra aðila hafa þá oftar en ekki ráðist í skuldabréfaútgáfu sem sömu aðilar hafa keypt fyrir krónurnar sem þeir fá fyrir gjaldeyrinn sinn, og þar með hefur ákvæði um bindingu í verðbréfum verið fullnægt. Á meðal þeirra sem hafa nýtt sér þessa leið eru félög í eigu bræðranna Lýðs og Ágústs Guðmundssona, Hreiðars Más Sigurðssonar, Jóns Ólafssonar, Jóns Von Tetzchner, knattspyrnumannsins Gylfa Þórs Sigurðssonar, Ólafs Ólafssonar, Hjörleifs Jakobssonar, Ármanns Þorvaldssonar, Kjartans Gunnarssonar, Skúla Mogensen, rekstrarfélags Iceland Foods, Alvogen, Karls og Steingríms Wernerssona og danskra eigenda Húsasmiðjunnar.
Athyglin hefur aftur beinst að leiðinni í kjölfar opinberunar á víðfemu eignarhaldi Íslendinga á aflandsfélögum sem hægt er að finna upplýsingar um í gögnum sem lekið var frá panamísku lögfræðistofunni Mossack Fonseca. Sú stofna sérhæfir sig í stofnun og umsýslu skúffufélaga fyrir aðila sem telja sig þurfa að eiga slík félög.
Í ljósi þeirrar opinberunar óskaði Kjarninn eftir því að fá upplýsingar um hversu margir einstaklingar og félög í eigu Íslendinga hafi nýtt sér fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands. Í svari bankans kom fram að lausleg greining hans sýndi að 794 innlendir fjárfestar hefðu komið með um 35 prósent fjárhæðarinnar til landsins en 280 erlendir aðilar með 65 prósent hennar. „Við greininguna voru erlend félög í eigu innlendra aðila talin sem innlendir fjárfestar,“ segir í svari Seðlabankans.
Kjarninn fór einnig fram á að fá upplýsingar um hverjir hefðu tekið þátt í útboðum fjárfestingarleiðarinnar. Seðlabankinn telur sig ekki hafa heimild til að greina frá nöfnum þeirra sem það gerðu og vísaði í þagnarskylduákvæði laga um Seðlabanka Íslands.
Menn í rannsókn máttu koma með peninga til landsins
Fjárfestingarleiðin var einungis fyrir efnað fólk. Lengi vel þurfti viðkomandi að eiga að minnsta kosti 50 þúsund evrur sem hann vildi skipta í krónur til að taka þátt en sú upphæð var lækkuð í 25 þúsund evrur allra síðustu mánuðina sem hún var við lýði. Lengst af þurfti því að minnsta kosti að eiga andvirði um sjö milljóna króna í reiðufé til að taka þátt.
Ákveðin skilyrði voru fyrir því að mega fara í gegnum fjárfestingarleiðina. Á meðal þeirra er að fjárfestirinn væri raunverulegur eigandi þeirra fjármuna sem hann ætlar sér að flytja inn til landsins. Auk þess er óheimilt að flytja fjármuni fyrir hönd annars eða annarra aðila. Annað skilyrði var að fjárfestir lægi„ekki undir rökstuddum grun hjá gjaldeyriseftirliti Seðlabankans um meint brot, ákærður af handhafa ákæruvalds eða kærður til lögreglu af Seðlabankanum, og máli vegna þess sé enn ólokið hjá ákæruvaldi eða lögreglu“.
Skilmálunum var þó breytt í desember 2012 þegar því var bætt inn að þeir aðilar sem liggi undir rökstuddum grun hjá gjaldeyriseftirliti Seðlabankans um meint brot mættu ekki heldur taka þátt í útboðum fjárfestingarleiðarinnar.
Engar takmarkanir voru hins vegar á þátttöku í fjárfestingarleiðinni fyrir aðila sem voru til rannsóknar eða jafnvel í ákæruferli hjá öðrum embættum en gjaldeyriseftirliti Seðlabankans. Þannig gat einstaklingur setið í dómssal að morgni þar sem honum var gefið að hafa framið stórkostlega efnahagsglæpi. Síðdegis gat hann tekið þátt í gjaldeyrisútboði Seðlabankans og tryggt sér tugprósentaafslátt af íslenskum krónum. Um kvöldið gat hann keypt sér íslenskt fyrirtæki fyrir þessar sömu krónur.
Þessari fréttaskýringu hefur verið breytt lítillega. Í upphaflegu útgáfu hennar stóð að PwC á Íslandi hefði nýtt sér fjárfestingarleiðina. Það er ekki rétt.