Vill Ísland ekki ungt fólk?
Ungt fólk á Íslandi á minna af eignum nú en fyrir áratug. Það hefur dregist aftur úr í ráðstöfunartekjum, finnur ekki störf við hæfi á Íslandi, bætur til þess hafa lækkað og velferðarkerfið er lakara en í nágrannalöndunum. Er skrýtið að ungt fólk flytja frá Íslandi?
Hagstofa Íslands birti í gær tölur úr lífskjararannsókn sinni um dreifingu ráðstöfunartekna á milli áranna 2014 og 2015. Helstu tíðindi hennar eru þau að ungt fólk, á aldrinum 25-34 ára, hefur dregist aftur úr öðrum hópum á undanförnum áratug og hlutfall tekna þeirra af miðgildi ráðstöfunartekna er nú 95,3 prósent. Það þýðir á einföldu máli að ungt fólk hefur lægri laun en það hafði áður.
Þetta var enn ein fréttin um hagtölur eða rannsóknir sem bendir til verri stöðu ungs fólks á Íslandi. Á undanförnum árum hafa verið lagðar fram tölur um færri atvinnutækifæri, minni eignarmyndun, lægri laun, skerta þjónustu og síðast en ekki síst stórtækan húsnæðisvanda þessa hóps sem hefur leitt til þess að hann virðist vera að leita tækifæranna annars staðar frekar en hérlendis.
Íslendingar fara, útlendingar koma
Þessar aðstæður hafa nú ratað inn í framtíðarspár. í vikunni birti Hagstofa Íslands mannfjöldaspá sína til ársins 2065. Samkvæmt henni mun íbúum á Íslandi fjölga um þriðjung næstu hálfu öldina og verða 442 þúsund árið 2065. Í spánni er hins vegar gert ráð fyrir því að fjölgunin verði aðallega vegna erlendra innflytjenda. Samkvæmt henni munu fleiri Íslendingar áfram flytja frá landinu en þeir sem snúa aftur til baka til þess. Spáin greinir ekki hvaða aldurshópar það eru sem munu flytja burt og Hagstofan heldur ekki utan um tölur um hvernig spekileki, hvaða starfsreynsla eða menntun er hjá þeim einstaklingum sem flytja, hverfur úr hagkerfinu. Um það hefur þó töluvert verið fjallað í fjölmiðlum og umræðu á undanförnum misserum. Í nóvember í fyrra greindi Morgunblaðið frá því að 3.210 Íslendingar hefðu flutt frá Íslandi á fyrstu níu mánuðum ársins 2015, eða 1.130 fleiri en fluttu til þess.
Í grein blaðsins var rætt við Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands. Hann sagði að það virtist eitthvað djúpstæðara á ferðinni en vanalega og að vísbendingar væru um að margt háskólafólk flytti úr landi. Batinn á vinnumarkaði, sem átt hefði sér stað á undanförnum árum, hefði ekki skilað sér til menntaðs fólks nema að takmörkuðu leyti. Karl Sigurðsson, sérfræðingur hjá Vinnumálastofnun, sagði svipaða sögu við Morgunblaðið. Vísbendingar væru um að margir finni ekki atvinnu sem henti námi þeirra og bakgrunni.
Flytja þrátt fyrir efnahagslegan uppgang
Þáverandi forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, og aðstoðarmenn hans héldu því fram í opinberri umræðu að það væri rangt að fjöldi brottfluttra væri óeðlilega mikill. Fólk væri ekki að flýja Sigmund Davíð.
Forsætisráðherrann fyrrverandi gerði málið m.a. að umtalsefni í áramótagrein sinni í Morgunblaðinu og sagði hlutfall brottfluttra undir 40 ára á árinu 2015 lágt í samanburði við liðin ár og áratugi. Það væri afmarkaður en hávær hópur fólks, sem ætti erfitt að sætta sig við góðar fréttir, sem héldi hinu gagnstæða fram. Jákvæð þróun veki hjá hópnum gremju, hún sé litin hornauga og tortryggð á allan mögulegan hátt. Þetta sé sá hópur fólks sem getur ekki sætt sig við að jákvæðir hlutir gerist ef þeir gerast ekki í krafti hinnar einu „réttu“ hugmyndafræði.
Í byrjun janúar 2016 birti Alþýðusamband Íslands (ASÍ) greiningu á brott- og aðflutningi til Íslands síðustu 50 árin. Þar kom fram að þrátt fyrir bætt efnahagsleg skilyrði hefur brottflutningu íslenskra ríkisborgara frá Íslandi aukist á undanförnum tveimur árum. Fleiri Íslendingar flytja frá landinu en flytja til þess. Frá árinu 1961 hafa verið átta tímabil þar sem brottflutningur á hverju ári hefur verið yfir meðaltali áranna 1961 til 2015. Sjö þeirra tímabila hafa verið í tengslum við öfgar í efnahagslífi þjóðarinnar á borð við brotthvarf síldarinnar, mikla verðbólgu eða hátt atvinnuleysi. Eina tímabilið af þessum átta sem sker sig úr er 2014 til 2015 þar sem engar hefðbundnar efnahagslegar forsendur eru fyrir auknum brottflutningi. Fólk flutti frá Íslandi þrátt fyrir efnahagslegan uppgang.
Ekki verið að skapa réttu störfin
En hvað veldur? Þrjár megin ástæður virðast vera fyrir því að ungt fólk finnur sig knúið til að leita tækifæranna annars staðar. Fyrst ber að nefna atvinnumál.
Í janúar 2016 birti VR skýrslu þar sem rýnt var í nettó aðflutning hingað til lands og sjónum beint að því sem kallað er falið atvinnuleysi. Í skýrslunni kom fram að fjöldi þeirra sem eru með háskólamenntun en eru án atvinnu hafi aukist um 275 prósent á tíu árum.
Þessi þróun endurspeglast í tölum Vinnumálastofnunar um menntun atvinnulausra. Á fyrstu ellefu mánuðum ársins 2005 var fjöldi atvinnulausra með háskólamenntun 10,6 prósent af heildarfjölda atvinnulausra. Á sama tíma 2015 var hlutfallið 25,2 prósent. „Ef lítið framboð verður af verðmætum störfum á Íslandi á næstu árum er það mikið áhyggjuefni og gæti stuðlað að frekari brottflutningi þrátt fyrir gott ástand í efnahagslífinu,” sagði í skýrslu VR.
Á sama tíma og lítið framboð er á verðmætum störfum hafa aldrei fleiri lagt stund á háskólanám. Ár hvert er slegið nýtt met í fjölda útskrifaðra, sem eru vel á fjórða þúsund ár hvert.
Í lok maí birti Stjórnstöð ferðamála nýja könnun þar sem fram kom að rúmlega tíu prósent starfsmanna á íslenskum vinnumarkaði starfa í ferðaþjónustu. Um 22 þúsund manns að vinna að jafnaði í ferðaþjónustu á þessu ári. Um 40 prósent þeirra koma erlendis frá vegna þess að ekki er til vinnuafl á Íslandi til að vinna störfin. Alls verða erlendir starfsmenn greinarinnar um sex þúsund á þessu ári. Ef afleidd störf þeirra sem starfa í geirum sem hafa meginþorra tekna sinna af ferðamönnum eru talin með hækkar þessi tala um nokkur þúsund. Þá er ótalið t.d. allur sá fjöldi útlendinga sem fluttir eru til landsins til að vinna við allar þær miklu framkvæmdir sem eru í gangi, og snúast að mestu um að þjónusta ferðaþjónustuna með hótelbyggingum.
Að langmestu leyti er um að ræða láglaunastörf að ræða sem krefjast ekki menntunar. Verkamannastörf, ræstingar, sölu- og afgreiðslustörf, fólksflutningar eða allskyns störf í eldhúsi. Nánast öll ný störf sem verða til á Íslandi eru af þessum toga.
Þetta eru ekki störfin sem Íslendingar eru að sækjast eftir.
Lægri bætur og minni velferð
Í öðru lagi setur ungt fólk velferðarmál fyrir sig. Það er auðvitað, sökum aldurs síns, langlíklegasti aldurshópur landsins hverju sinni til að vera að koma sér upp fjölskyldu og þarf því að sækja mun meiri þjónustu í heilbrigðis- og menntakerfið en aðrir aldurshópar sem enn eru á vinnumarkaði.
Í liðinni viku var birt ný velferðarvísitala The Social Progress Imperative (SPI). Hún horfir til annarra þátta en landsframleiðslu til að mæla velferð í þjóðfélögum. Þ.e. lífsgæði sem mælast ekki í tekjuöflun. Samkvæmt henni féll Ísland um sex sæti á milli ára og situr nú í tíunda sæti listans. Ísland er nú neðst allra Norðurlandanna á listanum. Vísitalan sem um ræðir raðar ríkjum á lista eftir frammistöðu þeirra í 53 mismunandi þáttum. Á meðal þeirra þátta sem litið er til eru gæði menntunar, heilbrigðisþjónusta, umburðarlyndi og tækifæri í samfélögum.
Sama dag var birt frétt á heimasíðu fjármála- og efnahagsráðuneytisins um álagningu opinberra gjalda á einstaklinga árið 2016. Þar kom fram að almennar vaxtabætur sem skuldsettir íbúðaeigendur fá greiddar vegna vaxtagjalda íbúðalána sinna, hafi lækkað um 25,7 prósent á milli ára og þeim fjölskyldum sem fá þær bætur greiddur fækkar um 21,3 prósent. Ástæða þessa var sögð betri eignarstaða heimila landsins. Líkt og vikið verður að síðar þá skilar sú bætta eignarstaða sér nær ekkert til fólks undir fertugu.
Þá lækkuðu heildargreiðslur barnabóta úr tíu milljörðum króna í 9,3 milljarða króna. Ástæða þessa eru sagðar að laun hafi hækkað meira en tekjuviðmiðunarfjárhæðir og því skerðast greiðslur barnabóta til fleiri einstaklingar.
Eftir hrun voru hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði skertar verulega. Ef þær hefðu ekki verið skertar, og hefðu fylgt verðlagsþróun, þá væru þær tæplega 820 þúsund krónur í dag. Þess í stað nema greiðslurnar nú 370 þúsund krónum á mánuði að hámarki.
Þessi þróun hefur haft veruleg áhrif á töku fæðingarorlofs, sérstaklega hjá feðrum. Þegar þakið var hæst árið 2008 voru umsóknir feðra um fæðingarorlof 90% af umsóknum mæðra. Árið 2014 var þetta hlutfall komið niður í 80%. Færri feður taka fæðingarorlof og þeir sem taka fæðingarorlof gera það í mun færri daga en þegar mest var. Árið 2008 var meðaldagafjöldinn í fæðingarorlofi feðra 103 dagar, en samkvæmt bráðabirgðatölum fyrir 2015 var meðaldagafjöldinn kominn niður í 74 daga.
Húsnæðisvandi og engin eiginfjármyndun
Þriðja atriðið sem ungt fólk setur fyrir sig tengist húsnæði, eða skorti á því. Staðan hérlendis er sú að aukning ferðamanna hefur gert það að verkum að á fjórða þúsund íbúða hið minnsta eru ekki lengur aðgengilegar Íslendingum vegna þess að þær eru í útleigu til ferðamanna. Samhliða hefur allt of lítið verið byggt og því er staðan á markaðnum sú að eftirspurn er miklu meiri en framboð. Samhliða hefur húsnæðisverð hækkað hratt og leiguverð sömuleiðis. Spár gera ráð fyrir því að í lok árs 2018 hafi íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu, þar sem 65 prósent landsmanna búa, tvöfaldast frá árinu 2011. Það þýðir t.d. að íbúð sem kostaði 25 milljónir króna þá mun kosta 50 milljónir króna eftir tvö og hálft ár.
Þessi þróun hefur skilið ungt fólk eftir í miklum vanda. Umfang þeirrar útborgunar sem það þarf að verða sér út um til að komast inn á eignarmarkað hækkað stanslaust samhliða hækkunum á húsnæðismarkaði og geta þeirra til að leggja þá útborgun fyrir verður sífellt minni vegna þess að leiguverð hefur líka hækkað mikið. Vegna þess býr fjórði hver Íslendingur á þrítugsaldri enn í foreldrahúsum.
Á sama tíma og yngsti hópurinn, sem er að dragast hratt aftur úr í ráðstöfunartekjum, glímir við ofangreinda erfiðleika, er eignarmyndun annarra aldurshópa að verða meiri og meiri. Frá árinu 2011 og út árið 2014 jókst eigið fé þess 1 prósents Íslendinga sem átti þegar mest um 64 milljarða króna. Það átti 507 milljarða króna um síðustu áramót. Þessi hópur á 21 prósent af öllum eignum landsmanna. Þessar tölur eru reyndar vanmetnar þar sem virði verðbréfa, t.d. hlutabréfa, er fært inn á nafnvirði. Markaðsvirði þeirra er margfalt hærra.
Samanlagðar eignir aldurshópsins 25-40 ára í lok árs 2014 voru um 583 milljarðar króna, samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Aldurshópurinn 40-55 ára átti 1.306 milljarða króna og þeir sem eru eldri en það 2.467 milljarða króna. Samtals átti hópurinn 25-40 ára 13,1 prósent allra eigna.
Tíu árum áður, í lok árs 2004, hafði hópurinn átt 22 prósent allra eigna. Hópurinn hefur því dregist hratt aftur úr í eignarmyndun á þessum áratug á meðan að eldri aldurshópar hafa efnast mun meira. Á sama tíma og eignir einstaklinga hérlendis hafa nær þrefaldast hafa eignir þessa hóps aukist um 56 prósent.
Þegar horft er á eigið fé aldurshópa, þ.e. mismun eigna og skulda, er staðan en skakkari. Árið 2004 átti aldurshópurinn 25-40 ára samtals 67,6 milljarða króna og sex prósent alls eiginfjár. Tíu árum síðar átti aldurshópurinn 57,6 milljarða króna í eigið fé, eða minna en árið 2004, og samtals 2,2 prósent alls eiginfjár Íslendinga. Í millitíðinni hafði heildar eigið fé farið úr 1.142 milljörðum króna í 2.510 milljarða króna, eða aukist um 120 prósent.
Sú eignarmyndun sem er að eiga sér stað á Íslandi er því alfarið hjá þeim sem eru eldri en 40 ára.