Mynd: Pexels.com
#velferðarmál #stjórnmál #efnahagsmál

0,1 prósent landsmanna á 187 milljarða í eigin fé

Nokkur hundruð manna hópur Íslendinga jók hreina eign sína um 20 milljarða króna í fyrra. Eignir hópsins hafa ekki aukist um fleiri krónur milli ára frá því fyrir hrun. Eigið fé allra landsmanna jókst um 123 milljarða í fyrra. Fimm prósent þjóðarinnar fékk þriðjung þess.

Hrein eign rík­asta 0,1 pró­sent lands­manna jókst um 20 millj­arða króna í fyrra. Hún hefur ekki auk­ist um svo háa upp­hæð milli ára síðan á milli áranna 2006 og 2007, á hápunkti banka­góð­ær­is­ins. Alls átti þessi hóp­ur, sem telur nokkur hund­ruð manns, 187 millj­arða króna í eigin fé um síð­ustu ára­mót. Hlut­falls­leg eign hóps­ins af heildar eigin fé lands­manna lækk­aði á milli ára og var 6,7 pró­sent. Þessi hópur fjölg­aði hins vegar krón­unum í vasa sínum mun meira en nokkur ann­ar. Þannig átti 0,1 pró­senta hóp­ur­inn þriðj­ung af allri hreinni eign rík­asta pró­sent lands­manna, sem á móti átti fimmt­ung af öllu eigin fé í land­inu í lok árs 2015. 

Þetta kemur fram í svari Bjarna Bene­dikts­son­ar, fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra, við fyr­ir­spurn Árna Páls Árna­son­ar, þing­manns Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, um eignir og tekjur lands­manna á árinu 2015 sem birt var á vef Alþingis i gær.

Allir eiga meira, en sumir eiga miklu meira

Eigið fé er sú hreina eign sem stendur eftir þegar búið er að draga skuldir frá eign­um.

Sam­kvæmt tölum Rík­is­skatt­stjóra var eigið fé lands­manna 2.813 millj­arðar króna í lok árs 2015. Ári áður var það 2.443 millj­arðar króna. Það jókst því um 370 millj­arða króna á árinu 2015. Þar af fór 123,4 millj­arðar króna til þeirra fimm pró­sent lands­manna sem áttu mest, eða þriðj­ungur af öllu nýju eigin fé. Um er að ræða mestu aukn­ingu í eigin fé Alls áttu rík­asta fimm pró­sent lands­manna 44,4 pró­sent af öllu eigin fé lands­manna um síð­ustu ára­mót.

Rík­asta eina pró­sent lands­manna, 1.922 fram­telj­endur (629 sam­skatt­aðir og 1.293 ein­hleyp­ir) áttu 559 millj­arða króna í lok síð­asta árs í hreinni eign. Auður þeirra óx um 53 millj­arða króna á árinu, eða um 10,5 pró­sent. Þessi hópur átti 19,9 pró­sent af allri hreinni eign lands­manna um síð­ustu ára­mót, eða fimmtu hverja krónu sem lands­menn áttu í eigið fé. Á tíu árum hefur eigið fé rík­asta pró­sents lands­manna vaxið um 305 millj­arða króna í krónum talið. Þar á hins vegar eftir að taka inn verð­bólgu þannig að hækk­unin á raun­virði er mun minni. Hlut­falls­lega á rík­asta eina pró­sent lands­manna stærra hlut­fall af heild­ar­auðnum í dag en það átti árið 2006.

Í töl­unum er líka tekið saman hversu mikið rík­asta 0,1 pró­sent lands­manna á. Þar er um að ræða færri en 200 fram­telj­end­ur, sam­skatt­aða og ein­stak­linga. Þessi fámenni hópur á 187 millj­arða króna í hreinni eign og jókst eign hans um 20 millj­arða króna á föstu verð­lagi milli ára. Hrein eign hóps­ins í krónum talið hafði dreg­ist saman á árunum 2009 og út árið 2011. Í lok þess árs var hún 155 millj­arðar króna. Á árinu 2012 hækk­aði eigið fé hóps­ins upp í 167 millj­arða króna og hélst nokkuð stöðug út árið 2014. Síðan átti sér stað mikil eigna­aukn­ing hjá hópnum á síð­asta ári þegar hrein eign hans jókst, líkt og áður seg­ir, um 20 millj­arða króna í krónum talið á einu ári. Það er mesta aukn­ing á hreinni eign sem átt hefur sér stað hjá þessum fámenna hópi síðan á árinu 2007, þegar eigið fé hans jókst um tæpa 62 millj­arða króna á einu ári.

Alls á þessi nokkur hund­ruð manna hópur 6,7 pró­sent af öllum hreinum eignum lands­manna.

Rík­asta pró­sentið fær þorra fjár­magnstekna

Kjarn­inn greindi frá því fyrr í þessum mán­uði að tekju­hæsta eina pró­sent lands­manna hefði þénað sam­tals tæpa 42 millj­arða króna í fjár­magnstekjur á árinu 2015. Þessi hópur þén­aði alls 44 pró­sent af öllum fjár­magnstekjum sem íslenskir skatt­greið­endur þén­uðu í fyrra. Það þýðir að 99 pró­sent þjóð­ar­innar skipti með sér 56 pró­sent fjár­magnstekna í fyrra. Þetta kom fram í stað­tölum skatta vegna árs­ins 2015, sem birtar voru á vef Rík­is­skatt­stjóra í byrjun októ­ber.

Heild­ar­fjár­magnstekjur ein­stak­linga, sam­kvæmt stað­töl­un­um, voru 95,3 millj­arðar króna.Fjár­magnstekjur eru tekjur sem ein­stak­l­ingar hafa af fjár­­­magns­­eign­um sín­­um. Þ.e. ekki laun­­um. Þær tekjur geta verið af ýmsum toga. Til dæmis tekjur af vöxtum af inn­­láns­­reikn­ingum eða skulda­bréfa­­eign, tekjur af útleigu hús­næð­is, arð­greiðsl­­ur, hækkun á virði hluta­bréfa eða hagn­aður af sölu fast­­eigna eða verð­bréfa.

Misskipting auðs hefur verið mjög ofarlega í umræðunni á Íslandi á undanförnum árum.
mynd: Birgir Þór Harðarson

Ef tekj­­urnar eru útleystar, þannig að þær standi eig­anda þeirra frjálsar til ráð­­stöf­un­­ar, ber að greiða af þeim 20 pró­­sent fjár­­­magnstekju­skatt sem rennur óskiptur til rík­­is­ins. Ljóst er að ein­ung­is ­lít­ill hluti af fjár­­­magnstekjum var útleystur í fyrra. Skattur á fjár­magnstekjur var 38,8 millj­arðar króna í fyrra og jókst úr 30,6 millj­örðum króna árið 2014. Alls greiddu íslensk heim­ili, ein­stak­l­ingar og sam­skatt­aðir, 16,7 millj­arða króna. Til við­­bótar greiddu fyr­ir­tæki, sjóðir og rík­is­­­sjóður rúm­lega 20 millj­­arða króna í fjár­­­magnstekju­skatt.

Fast­eigna­verð hefur hækkað um 62 pró­sent frá 2010

Helsta ástæða þess að eigið fé flestra Íslend­inga hefur auk­ist hratt á síð­ustu árum er gríð­ar­leg hækkun á hús­næð­is­verði. Sú hækkun hefur haft áhrif á alla hópa sam­fé­lags­ins, en þó hlut­falls­lega mest áhrif á þá sem höfðu eign­ast fast­eignir en áttu lítið eða ekk­ert í þeim. Þorri eigna venju­legra íslenskra launa­manna eru enda bundnar í fast­eign­um, þegar eign þeirra í líf­eyr­is­sjóðum er und­an­skil­in. Frá árinu 2010, þegar fast­eigna­mark­að­ur­inn náði botni sínum eftir hrun­ið, hefur vísi­tala íbúða­verðs á höf­uð­borg­ar­svæð­inu hækkað um 62 pró­sent. Á því tíma­bili hefur eigið fé Íslend­inga í fast­eignum sínum tvö­fald­ast.

Eigið fé fátæk­ari helm­ings íslensku þjóð­ar­innar var, sam­kvæmt sam­an­tekt Hag­stofu Íslands, nei­kvætt um 505 millj­arða króna í lok árs 2010. Það er nú nei­kvætt um 210 millj­arða króna og hefur bragg­ast mjög. Þar skiptir mestu máli að eigið fé hóps­ins í fast­eign er nú jákvætt um rúm­lega 20 millj­arða króna en var nei­kvætt um 88 millj­arða króna í lok árs 2010. Hækkun á fast­eigna­verði, og sú afborgun lána sem átt hefur sér stað á tíma­bil­inu, hefur því hækkað eigin fé þessa hóps um 108 millj­arða króna.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar