0,1 prósent landsmanna á 187 milljarða í eigin fé
Nokkur hundruð manna hópur Íslendinga jók hreina eign sína um 20 milljarða króna í fyrra. Eignir hópsins hafa ekki aukist um fleiri krónur milli ára frá því fyrir hrun. Eigið fé allra landsmanna jókst um 123 milljarða í fyrra. Fimm prósent þjóðarinnar fékk þriðjung þess.
Hrein eign ríkasta 0,1 prósent landsmanna jókst um 20 milljarða króna í fyrra. Hún hefur ekki aukist um svo háa upphæð milli ára síðan á milli áranna 2006 og 2007, á hápunkti bankagóðærisins. Alls átti þessi hópur, sem telur nokkur hundruð manns, 187 milljarða króna í eigin fé um síðustu áramót. Hlutfallsleg eign hópsins af heildar eigin fé landsmanna lækkaði á milli ára og var 6,7 prósent. Þessi hópur fjölgaði hins vegar krónunum í vasa sínum mun meira en nokkur annar. Þannig átti 0,1 prósenta hópurinn þriðjung af allri hreinni eign ríkasta prósent landsmanna, sem á móti átti fimmtung af öllu eigin fé í landinu í lok árs 2015.
Þetta kemur fram í svari Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn Árna Páls Árnasonar, þingmanns Samfylkingarinnar, um eignir og tekjur landsmanna á árinu 2015 sem birt var á vef Alþingis i gær.
Allir eiga meira, en sumir eiga miklu meira
Eigið fé er sú hreina eign sem stendur eftir þegar búið er að draga skuldir frá eignum.
Samkvæmt tölum Ríkisskattstjóra var eigið fé landsmanna 2.813 milljarðar króna í lok árs 2015. Ári áður var það 2.443 milljarðar króna. Það jókst því um 370 milljarða króna á árinu 2015. Þar af fór 123,4 milljarðar króna til þeirra fimm prósent landsmanna sem áttu mest, eða þriðjungur af öllu nýju eigin fé. Um er að ræða mestu aukningu í eigin fé Alls áttu ríkasta fimm prósent landsmanna 44,4 prósent af öllu eigin fé landsmanna um síðustu áramót.
Ríkasta eina prósent landsmanna, 1.922 framteljendur (629 samskattaðir og 1.293 einhleypir) áttu 559 milljarða króna í lok síðasta árs í hreinni eign. Auður þeirra óx um 53 milljarða króna á árinu, eða um 10,5 prósent. Þessi hópur átti 19,9 prósent af allri hreinni eign landsmanna um síðustu áramót, eða fimmtu hverja krónu sem landsmenn áttu í eigið fé. Á tíu árum hefur eigið fé ríkasta prósents landsmanna vaxið um 305 milljarða króna í krónum talið. Þar á hins vegar eftir að taka inn verðbólgu þannig að hækkunin á raunvirði er mun minni. Hlutfallslega á ríkasta eina prósent landsmanna stærra hlutfall af heildarauðnum í dag en það átti árið 2006.
Í tölunum er líka tekið saman hversu mikið ríkasta 0,1 prósent landsmanna á. Þar er um að ræða færri en 200 framteljendur, samskattaða og einstaklinga. Þessi fámenni hópur á 187 milljarða króna í hreinni eign og jókst eign hans um 20 milljarða króna á föstu verðlagi milli ára. Hrein eign hópsins í krónum talið hafði dregist saman á árunum 2009 og út árið 2011. Í lok þess árs var hún 155 milljarðar króna. Á árinu 2012 hækkaði eigið fé hópsins upp í 167 milljarða króna og hélst nokkuð stöðug út árið 2014. Síðan átti sér stað mikil eignaaukning hjá hópnum á síðasta ári þegar hrein eign hans jókst, líkt og áður segir, um 20 milljarða króna í krónum talið á einu ári. Það er mesta aukning á hreinni eign sem átt hefur sér stað hjá þessum fámenna hópi síðan á árinu 2007, þegar eigið fé hans jókst um tæpa 62 milljarða króna á einu ári.
Alls á þessi nokkur hundruð manna hópur 6,7 prósent af öllum hreinum eignum landsmanna.
Ríkasta prósentið fær þorra fjármagnstekna
Kjarninn greindi frá því fyrr í þessum mánuði að tekjuhæsta eina prósent landsmanna hefði þénað samtals tæpa 42 milljarða króna í fjármagnstekjur á árinu 2015. Þessi hópur þénaði alls 44 prósent af öllum fjármagnstekjum sem íslenskir skattgreiðendur þénuðu í fyrra. Það þýðir að 99 prósent þjóðarinnar skipti með sér 56 prósent fjármagnstekna í fyrra. Þetta kom fram í staðtölum skatta vegna ársins 2015, sem birtar voru á vef Ríkisskattstjóra í byrjun október.
Heildarfjármagnstekjur einstaklinga, samkvæmt staðtölunum, voru 95,3 milljarðar króna.Fjármagnstekjur eru tekjur sem einstaklingar hafa af fjármagnseignum sínum. Þ.e. ekki launum. Þær tekjur geta verið af ýmsum toga. Til dæmis tekjur af vöxtum af innlánsreikningum eða skuldabréfaeign, tekjur af útleigu húsnæðis, arðgreiðslur, hækkun á virði hlutabréfa eða hagnaður af sölu fasteigna eða verðbréfa.
Ef tekjurnar eru útleystar, þannig að þær standi eiganda þeirra frjálsar til ráðstöfunar, ber að greiða af þeim 20 prósent fjármagnstekjuskatt sem rennur óskiptur til ríkisins. Ljóst er að einungis lítill hluti af fjármagnstekjum var útleystur í fyrra. Skattur á fjármagnstekjur var 38,8 milljarðar króna í fyrra og jókst úr 30,6 milljörðum króna árið 2014. Alls greiddu íslensk heimili, einstaklingar og samskattaðir, 16,7 milljarða króna. Til viðbótar greiddu fyrirtæki, sjóðir og ríkissjóður rúmlega 20 milljarða króna í fjármagnstekjuskatt.
Fasteignaverð hefur hækkað um 62 prósent frá 2010
Helsta ástæða þess að eigið fé flestra Íslendinga hefur aukist hratt á síðustu árum er gríðarleg hækkun á húsnæðisverði. Sú hækkun hefur haft áhrif á alla hópa samfélagsins, en þó hlutfallslega mest áhrif á þá sem höfðu eignast fasteignir en áttu lítið eða ekkert í þeim. Þorri eigna venjulegra íslenskra launamanna eru enda bundnar í fasteignum, þegar eign þeirra í lífeyrissjóðum er undanskilin. Frá árinu 2010, þegar fasteignamarkaðurinn náði botni sínum eftir hrunið, hefur vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 62 prósent. Á því tímabili hefur eigið fé Íslendinga í fasteignum sínum tvöfaldast.
Eigið fé fátækari helmings íslensku þjóðarinnar var, samkvæmt samantekt Hagstofu Íslands, neikvætt um 505 milljarða króna í lok árs 2010. Það er nú neikvætt um 210 milljarða króna og hefur braggast mjög. Þar skiptir mestu máli að eigið fé hópsins í fasteign er nú jákvætt um rúmlega 20 milljarða króna en var neikvætt um 88 milljarða króna í lok árs 2010. Hækkun á fasteignaverði, og sú afborgun lána sem átt hefur sér stað á tímabilinu, hefur því hækkað eigin fé þessa hóps um 108 milljarða króna.