Stjórmálaleiðtogarnir ræða saman fyrir umræðuþátt á Stöð 2 á fimmtudagskvöldið.
Mynd: Birgir Þór

VG rak bestu baráttuna en Framsókn á vanstilltustu auglýsinguna

Kosningabaráttan fór að miklu leyti fram stafrænt. Samfélagsmiðlar spiluðu stórt hlutverk þar sem stjórnmálaflokkarnir kepptust við að birta kosningaáróður í myndböndum. Kjarninn rýndi í baráttu hvers flokks.

rýnir kosningabaráttuna
rýnir kosningabaráttuna

Kosningabaráttan sem nú er á enda hefur um margt verið söguleg. Í fyrsta skipti fór hún að stóru leyti fram stafrænt og sérstaklega á samfélagsmiðlum, bæði umræðan og ekki síður framsetning kosningaáróðurs flokkanna sem keppast um atkvæði okkar í dag. Kjarninn rýndi í baráttu hvers flokks fyrir sig, hverjar megináherslur hans voru í baráttunni, hvernig þær voru framsettar og hvernir þeir notuðu nýmiðlun til að koma skilaboðum sínum á framfæri.

Sjálfstæðisflokkurinn

Stöðugleiki, stöðugleiki, stöðugleiki

Áhersla Sjálfstæðismanna í baráttunni var nær öll á Bjarna Benediktssyni, formanni flokksins og fjármála- og efnahagsráðherra. Aðrir frambjóðendur sáust varla í þeim auglýsingaherferðum sem flokkurinn er að keyra í hefðbundnum fjölmiðlum og samfélagsmiðlum. Myndböndin, hjartað í kosningabaráttu flokksins, eru nær öll með allan fókus á Bjarna. Sjónvarpsauglýsingar sýndu hann tala um ábyrgð, stöðugleika og vara við vinstri stjórn. Eini frambjóðandinn sem fékk eitthvað vægi utan Bjarna var ritari flokksins, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.

Af tólf síðustu myndböndum sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur birt á Facebook-síðu sinni eru þó sjö af Bjarna. Myndbandið sem hefur vakið mesta athygli, og fengið mest áhorf allra kosningamyndbanda í þessari kosningabaráttu, er án efa það sem sýnir Bjarna baka afmælisköku fyrir dóttur sína þar sem kakan sem Bjarni er að nostra við þjónar einnig þeim tilgangi að vera líking fyrir íslenskan efnahag.

Sjálfstæðisflokkurinn var ekki með höfuðáherslu á neitt eitt kosningaloforð heldur lagði hann áherslu á áframhaldandi stöðugleika í efnahagsmálum – sem sé tilkomin vegna góðra starfa flokksins á kjörtímabilinu – sem forsendu þess að hægt sé að ráðast þær umbætur sem þarf á íslenska samfélagsmódelinu. Kosningaslagorðið er enda: „Á réttri leið“.


Framsóknarflokkurinn

Óvenjulega rólegt en svo allt í einu Höddi Magg

Hinn ríkisstjórnarflokkurinn, Framsóknarflokkurinn, hefur rekið heldur óhefðubundna kosningabaráttu á sinn mælikvarða. Flokkurinn er þekktur fyrir að „stela“ kosningum með því að keyra á einu risastóru loforði og að ná að láta kosningabaráttuna hverfast að mestu um þau. Nærtækustu dæmin eru þegar hann lofaði 90 prósent lánum fyrir kosningarnar 2003 og bjó til sniðugar sjónvarpsauglýsingar þar sem því var komið á framfæri sem vöktu mikla athygli. Fyrir kosningarnar 2009 var loforðið 20 prósenta leiðrétting skulda og það loforð var síðan endurnýtt með smávægilegum breytingum fyrir kosningarnar 2013 sem „Leiðrétting stökkbreyttra húsnæðislána“. Þessi loforð svínvirkuðu öll fyrir flokkinn.

Það hefur ekki farið fram hjá neinum að Framsóknarflokkurinn kemur nú til kosninga plagaður af innanmeinum. Harðvítug barátta um formannssætið hefur skilið flokkinn eftir í sárum og nokkuð ljóst er að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður flokksins, ætlar sér ekki að danska í takt við lag sem nýi formaðurinn Sigurður Ingi Jóhannsson hefur samið. Sigmundur Davíð er enn sinn eigin formaður.

Sigurður Ingi Jóhannsson og Lilja Alfreðsdóttir eru andlit Framsóknarflokksins í þeirri kosningabaráttu sem nú er að ljúka.
Mynd: Framsokn.is

Kosningabarátta Framsóknar hófst seint af þessum sökum og þegar stefnumálið voru loks kynnt þá vantaði allan „hókus pókus“-þátt í þau. Efst á baugi voru annars vegar skattalækkanir – óvenjulegt Framsóknarloforð – sem gengið hefur illa að útskýra og koma á dagskrá, og hins vegar andstæða gegn því að nýtt framtíðarsjúkrahús verði byggt upp við Hringbraut, sem er í andstöðu við afstöðu allra annarra flokka sem líkur eiga á að komast á þing. Ólíkt síðustu kosningum hafa loforð Framsóknarflokksins því ekki náð neinu almennilegu flugi í þetta skiptið.

Í statískum auglýsingum er öll áhersla á formanninn og varaformanninn, Sigurð Inga og Lilju Alfreðsdóttur. Sigmundur Davíð, stærsti hlutinn af persónuleika Framsóknarflokksins síðustu átta árin, er hvergi sjáanlegur. Á samfélagsmiðlum hefur myndband af mannlegum Sigurði Inga að moka flór og sinna öðrum bústörfum, með áherslu á að hann gangi hreint til verka, verið fyrirferðamikið.

Á þriðjudag birtist síðan myndband þar sem slegin er annar tónn. Þar var varað við því að hjól efnahagslífsins muni stöðvast ef vinstri stjórn tekur við völdum. Og hræðsluáróðurinn náði síðan nýjum, og áður óséðum, hæðum í íslenskri stjórnmálabaráttu á fimmtudagskvöld þegar Framsóknarflokkurinn birti hið nú alræmda fótboltalíkingarmyndband sitt, þar sem stjórnarandstaðan er teiknuð upp sem líkamlega takmarkað fólk sem geti ekki unnið kappleiki en Framsóknarflokkurinn sem hinn fullkomni knattspyrnumaður sem getur ekki hægt að skora. Andstæðingurinn í leiknum í auglýsingunni er Evrópusambandið. Og Hörður Magnússon er látinn lýsa öllu saman í hefðbundnu æsingarkasti.

Það má slá því föstu að myndbandið stal titlinum af krókaveiðamyndbandi Dögunar sem vanstilltasta kosningamyndband þessara kosninga á lokaspretti þeirra.

Viðreisn

Fagmannlegt og Færeyjar

Viðreisn hefur tekist ágætlega að setja áhersluna á málefnastöðu flokksins og hvað það sé sem aðskilji hann frá öðrum sem eru nálægt honum í hinu pólitíska litrofi. Það sást til að mynda ágætlega þegar flokkurinn hélt blaðamannafundi til að leggja áherslu á sín helstu stefnumál á sama tíma og stjórnarandstöðuflokkarnir fjórir voru að hittast til að leggja drög að nýrri ríkisstjórn eftir kosningar. Allt kosningaefni flokksins var fagmannlega unnið og snyrtilega framsett, svona eins og flestir frambjóðendur flokksins. En fékk kannski ekki blóðið til að renna hraðar í kjósendum.

Flokkurinn býr að því að hafa raðað á lista og fengið fullt af fólki sem mismunandi sérþekkingu og aðdráttarafl til að taka slaginn með sér. Því er flest öllu flaggað. Raunar má segja að Viðreisn sé eini flokkurinn sem setji formann sinn ekki í aðalhlutverkið í kosningabaráttunni. ungt fólk á borð við Pawel Bartoszek og Sigríði Maríu Egilsdóttur hafa verið áberandi ásamt Þorsteini Víglundssyni, Hönnu Katrínu Friðriksson og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur.

Það mál sem Viðreisn hefur sett á oddinn er myntráð og að það sé lausn sem geti leyst þau vandamál Íslendinga að búa við endalausa háa vexti og gengissveiflur. Það var framan af gert með yfirveguðum, hefðbundnum og vel framleiddum hætti.

Nokkrum dögum fyrir kosningar var skipt um gír og myntráðshugmyndin sett fram á nýstárlegan, bráðsnjallan og skemmtilegan hátt sem samtal milli Íslands og Færeyja um peningastefnumál í Messenger-kerfi Facebook.

Samfylkingin

Oddný sem Hillary og of síðbúið neyðarkall Dags

Kosningastjórar Samfylkingarinnar ákváðu greinilega að allt sviðsljós ætti að vera á Oddnýju Harðardóttur, nýkjörnum formanni flokksins. Hún hefur verið dubbuð upp sem einhvers konar íslensk útgáfa af Hillary Clinton, sem Oddný er alls ekki. Þá virðist eins og að meðvitað sé verið að fela Árna Pál Árnason og Össur Skarphéðinsson, tvo fyrrverandi formenn flokksins. En fyrir lá að Samfylkingin hefur upplifað sitt mesta hnignunarskeið í sögu flokksins undanfarin misseri og nýja leikáætlun þyrfti til að hressa upp á stöðuna.

Þessi áhersla á Oddnýju hefur margar birtingarmyndir. Hún er í aðalhlutverki í nær öllum prent og net kosningaáróðri flokksins, er í þeim myndböndum sem mest áhersla hefur verið lögð á að dreifa og búinn var til sérstakur flipi á heimasíðu Samfylkingarinnar sem heitir einfaldlega „Oddný“. Hann er við hlið annars flipa sem allt hitt „Fólkið“ í framboði deilir. Engin annar stjórnmálaflokkur sem mælist inni er með sérstaka undirsíðu sem er einungis helguð formanni flokksins.

Það má slá því föstu að þessi aðferðarfræði hafi, svona vægast sagt, ekki gengið upp. Fylgið hefur haldið áfram að hrynja af Samfylkingunni dag frá degi án þess að brugðist hafi verið við. Þ.e. þangað til í gær, degi fyrir kosningar. Þá var loks hringt í Dag,þ.e. borgarstjórann Dag B. Eggertsson, til að senda út neyðarkall til kjósenda um að halda Samfylkingunni lifandi. Dagur er eini stjórnmálamaðurinn í Samfylkingunni með persónufylgi og því ekkert einkennilegt við að hann sé virkjaður. En það verður að teljast sérkennilegt að beðið hafi verið með neyðarkallið fram á síðasta dag fyrir kosningar.

Björt framtíð

Björt bjargar Bjartri

Kosningabarátta Bjartar framtíðar hefur verið einföldust allra flokka. Flokkurinn vaknaði óvart aftur til lífsins með því að standa einn flokka gegn samþykkt búvörusamninga og hefur blóðmjólkað þá afstöðu með þeim árangri að hann getur nú gert raunhæfar væntingar til að slaga langleiðina upp í kjörfylgi sitt í síðustu kosningum. Það verður að teljast mikill sigur.

Hitt sem hefur virkað vel fyrir Bjarta framtíð er Björt Ólafsdóttir. Hún hefur verið mjög dugleg við að finna sér rifrildi til að halda sér í umræðunni og til að búa til aðskilnað milli sín og Bjartrar framtíðar og hinna flokkanna sem eru að fiska eftir atkvæðum í sömu tjörn. Það má segja að Björt hafi að mörgu leyti bjargað Bjartri framtíð frá því að lognast út af sem þjóðmálaafl.

Eftir að hafa náð fótfestu og fundið sér farveg sem virkaði hefur Björt framtíð haldið við sig þá uppskrift að keyra baráttuna á annars vegar Björt og hins vegar hinum geðuga, kurteisa, málefnalega en auðvitað óvenjulega formanni sínum Óttarri Proppé. Þetta ólíka tveggja manna teymi er afar áberandi í kosningaauglýsingum og sem fulltrúar flokksins út á við, t.d. sem viðmælendur í fjölmiðlum. Þau fundu einfaldlega eitthvað sem virkaði og breyttu engu eftir það.

Vinstri græn

Katrín og Rassi Prump með annara rössum

Sigurvegari kosningabaráttunnar, þegar horft er á kosningaáróður og framsetningu hans, verður að teljast Vinstri græn. Flokkurinn sem var nálægt því að þurrkast nokkrum vikum fyrir kosningarnar 2013 hefur fundið sér ágætan farveg undir forystu vinsælasta stjórnmálamanns þjóðarinnar, Katrínar Jakobsdóttur. Öll áhersla í auglýsingum í hefðbundnum miðlum hefur verið á Katrínu og mikla athygli hefur vakið að Steingrímur J. Sigfússon, helsta burðarásin að stofnun flokksins og formaður hans árum saman, er mjög vandlega falin alls staðar annars staðar en í heimakjördæmi sínu, þar sem hann nýtur mikils persónufylgis. Ástæðan er einföld: Steingrímur er á meðal umdeildustu stjórnmálamanna þjóðarinnar á meðan að Katrín nýtur hylli hjá fólki úr öllum stigum samfélagsins.

Í aðalsjónvarpsauglýsingu Vinstri grænna sést Katrín fara yfir hvers konar ríkisstjórn hún vonist til að sjá eftir næstu kosningar en hvetur síðan fólk til að kjósa „stjórnmálafólk og flokka sem það treystir.“

Föstudaginn fyrir viku setti flokkurinn síðan af stað annars konar herferð sem miðuð var á samfélagsmiðla og þá markhópa sem nálgast flestar sínar upplýsingar á þeim. Sú herferð, sem samanstendur af fjórum auglýsingum þar sem hinn heimsfrægi listamaður Ragnar Kjartansson, einnig þekktur sem Rassi Prump, er í aðalhlutverki, hefur vakið verðskuldaða athygli. Myndböndin eru sniðug, fyndin, vel gerð, innihalda ókynferðislega hlaðna nekt og skarta íslenskri listastjörnu sem nýtur bæði virðingar og þykir móðins.

Myndböndin náðu líka að vekja umtal. Eitt þeirra sýndi nakta listakonu með hrossahöfuð framkvæma gjörning og var bannað af Facebook skömmu eftir að það kom í loftið. Annað sýndi Ragnar og Katrínu ná saman og blanda sér kokteila þar sem hráefnin voru líkingar fyrir samfélagið. Það myndband er líkast til í andstöðu við áfengis- og tóbaksvarnarlög. En fangaði sannarlega athygli og olli VG nær örugglega engum skaða. Þvert á móti.

Þrátt fyrir að Píratar séu flokkur sem stofnaður var í kringum internetið og upplýsingafrelsi þá var flokkurinn ekki neitt sérstaklega áberandi í kosningaáróðri á þeim vettvangi í baráttunni. Líkt og við var búist þá var fókus flokksins á spillingu og hann notaði hvert tilefni sem gafst til að minna á af hverju það er verið að kjósa nú, í október, en ekki í apríl eins og stóð til. 

Lykilfólk Pírata hafa verið Birgitta Jónsdóttir, alþjóðlegt andlit hreyfingarinnar, Smári McCarthy, sem virðist njóta mikillar virðingar innanflokks en hefur verið helsti skotspónn hatrammra andstæðinga Pírata alla baráttuna, og Jón Þór Ólafsson, sem hefur til að mynda verið mjög sýnilegur í fjölmiðlum og komið þar fram sem fulltrúi flokksins. Þá hefur þingmaðurinn Ásta Guðrún Helgadóttir einnig verið áberandi. 

Píratar náðu að halda vel í hráleikann sem hefur aðgreint þá frá öðrum nýjum flokkum án þess að áróðursefni flokksins sé sjoppulegt og illa unnið eins og hjá mörgum smáflokkum, þar sem ekkert var hugsað um lýsingu, hljóð myndgæði eða í raun hvað væri verið að segja heldur var bara ýtt á rec og vonað það besta.

Á lokametrum kosningabaráttunnar fóru Píratar að hamra á því helsta sem flokkast sem spilling á kjörtímabilinu og frambjóðendur flokksins notuðu hvert tækifæri til að minna á Panamaskjölin. Síðast gerðist það í gær í lokaumræðum leiðtoga stjórnmálaflokkanna þegar Birgitta Jónsdóttir tók upp spjald sem á stóð Panamaskjölin og sýndi í beinni útsendingu á meðan að Bjarni Benediktsson var að tala.

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar