Viðreisn og Björt framtíð reyna að stilla Sjálfstæðisflokki upp við vegg
Bjarni Benediktsson reynir nú að mynda ríkisstjórn með Viðreisn og Bjartri framtíð. Litlar líkur eru á því að aðrir flokkar bætist við þá ríkisstjórn, þrátt fyrir vilja Sjálfstæðisflokksins þar um. Vinstri græn bíða róleg á hliðarlínunni eftir tækifæri til að mynda minnihlutastjórn frá miðju til vinstri mistakist Bjarna ætlunarverk sitt.
Óformlegar viðræður standa yfir um myndun ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Tveir síðarnefndu flokkarnir hafa læst sig saman í þessum viðræðum og koma því fram sem frjálslynt miðju afl með 18 prósent fylgi og ellefu þingmenn.
Sjálfstæðismenn hafa þrýst mjög á það undanfarna daga að Framsóknarflokkurinn verði hluti af slíkri ríkisstjórn í samtölum við forystumenn hinna flokkanna og lagt þar áherslu á að um gjörbreyttan flokk sé að ræða undir stjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar. Slíkri málaleitan hefur verið tekið afar fálega, enda telur áhrifafólk innan bæði Viðreisnar og Bjartrar framtíðar að það væri nokkurs konar pólitískur koss dauðans að verða þriðja og fjórða hjólið undir ríkisstjórn sitjandi stjórnarflokka. Það telur sig líka vera í betri stöðu til að ná fram mikilvægum stefnumálum ef viðsemjandinn er bara Sjálfstæðisflokkurinn. Þau stefnumál snúast um táknrænar breytingar á landbúnaðarkerfinu, markaðslausnir í sjávarútvegi, stjórnarskrárbreytingar (sérstaklega varðandi það að gera landið að einu kjördæmi) og, síðast en ekki síst, þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi viðræður um Evrópusambandið. Ljóst er að það verður erfitt fyrir ýmsa innan Sjálfstæðisflokksins að kyngja þessum kröfum.
Gangi viðræður þessa þriggja flokka ekki eftir er næsti kostur minnihlutastjórn frá miðju til vinstri sem myndi mögulega innihalda Framsóknarflokkinn og njóta þátttöku eða stuðnings Samfylkingar og Pírata. Slík stjórn er mun ofar á óskalista Vinstri grænna en nokkru sinni samstarf við Sjálfstæðisflokkinn.
Bjarni fékk umboðið
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, afhenti Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, stjórnarmyndunarumboð fyrr í dag. Það kom fæstum á óvart, enda nánast fordæmalaus staða uppi í íslenskum stjórnmálum þar sem engir tveggja flokka ríkisstjórnarmöguleikar eru í boði. Því var rökrétt að fela formanni stærsta þingflokksins umboðið í ljósi þess að forystumenn nokkurra annarra flokka höfðu ekki útilokað að mynda stjórn með honum.
Þreifingar um ríkisstjórnarmyndun voru þó löngu byrjaðar og hafa staðið allt frá því á kosninganótt. Frjálslyndu miðjuflokkarnir tveir, Björt framtíð og Viðreisn, hafa bundið sig saman í þeim viðræðum sem nú standa yfir. Mikil samlegð er á milli flokkanna varðandi stefnumál og báðir leggja mikla áherslu á kerfisbreytingar í sjávarútvegs-, landbúnaðar- og alþjóðamálum.
Kjarninn í þeirri ríkisstjórn sem nú er verið að reyna að mynda er þetta frjálslynda miðjubandalag og Sjálfstæðisflokkurinn, sem leggur reyndar mikla áherslu á að fá fjórða flokkinn að borðinu til að styrkja meirihlutann. Bjarni sagði það síðast á Bessastöðum í dag, þegar hann var spurður um ríkisstjórnarsamstarf við Viðreisn og Bjarta framtíð, að gallinn „við þann möguleika er hversu knappur meirihluti það er,“ en flokkarnir þrír hafa 32 þingmenn samanlagt.
Viðmælendur Kjarnans segja að Sjálfstæðismenn hafi þrýst mjög á það í samtölum sínum við forsvarsmenn Bjartrar framtíðar og Viðreisnar að þeim möguleika yrði haldið opnum að taka Framsóknarflokkinn inn í nýja stjórn. Söluræðan sé sú að Framsókn sé allt annar flokkur með Sigurð Inga Jóhannsson í brúnni og að vilyrði liggi fyrir að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi formaður flokksins, verði einangraður á komandi þingi. Framsókn sé að tala um sig sem sjö manna þingflokk þegar hún er að bjóða sig fram sem möguleika í ríkisstjórn.
Þessum umleitunum Sjálfstæðismanna hefur verið tekið fálega, og nokkuð ljóst er að lítill sem enginn vilji er hjá miðjuflokkunum að vinna bæði með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki. Það framlengi líf kerfisvarnarríkisstjórnar og geri Bjartri framtíð og Viðreisn, sem vilja ákveðnar kerfisbreytingar, erfitt fyrir að koma sínum áherslum fram. Flokkarnir séu í mun betri stöðu til þess sameinaðir gegn Sjálfstæðisflokknum einum í mjög tæpum meirihluta.
Stjórnarmyndunarviðræðurnar við hann muni snúast um hversu langt hann sé tilbúinn að ganga í eftirgjöf gagnvart helstu málefnaáherslum Bjartrar framtíðar og Viðreisnar. Flokkarnir eru vongóðir um að þar sé töluvert svigrúm til að semja. Sjálfstæðisflokkurinn hafi sýnt það t.d. í síðustu stjórnarmyndunarviðræðum að hann sé tilbúinn að ganga gegn sínum eigin stefnum til að mynda stjórn, eins og sást með því að hann samþykkti Leiðréttingu Framsóknarflokksins, 80 milljarða króna millifærslu úr ríkissjóði til valins hóps Íslendinga.
Minnihlutastjórn til vinstri hinn kosturinn
Gangi þessar viðræður ekki þá á Sjálfstæðisflokkurinn ekki marga möguleika í stöðunni. Marga innan flokksins dreymir um samstarf við Vinstri græna vegna þess að þeir telja að þá yrðu lykilmál eins og Evrópusambandsaðild og breytingar á sjávarútvegs- og landbúnaðarkerfinu auðveldari viðfangs. Mun styttra sé á milli þessara tveggja flokka í þeim málum en annarra, utan Framsóknarflokksins.
Viðmælendur Kjarnans innan Vinstri grænna segja hins vegar að það yrði einungis eftir margra mánaða stjórnarkreppu sem það yrði snefill af möguleika að flokkurinn myndi skoða að mynda ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Og jafnvel þá væri meiri áhugi á nýjum kosningum en slíku samstarfi. Þar er einfaldlega ekki áhugi að bætast við ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar, að minnsta kosti ekki fyrr en að reynt hafi verið á hvort hægt sé að mynda stjórn frá miðju til vinstri án Sjálfstæðisflokks. Það er líka kergja á vinstri vængnum gagnvart Óttarri Proppé fyrir að hafa svona auðveldlega snúið sér í viðræður við aðra flokka en stjórnarandstöðuflokkanna. Yfirlýsing hans í samtali við Stundina fyrr í dag, þar sem hann segist ekkert vera neitt sérstaklega spenntur fyrir þriggja flokka stjórnarsamstarfi með Viðreisn og Sjálfstæðisflokki,vegna þess að það væri svo langt á milli þeirra og Sjálfstæðisflokks, sé fyrst og fremst taktísk þar sem óformlegar viðræður séu þegar í gangi.
Fari þær viðræður út um þúfur er hins vegar lítið annað í stöðunni fyrir Bjarna Benediktsson en að skila stjórnarmyndunarumboðinu. Það færi þá annað hvort til Benedikts Jóhannessonar, formanns Viðreisnar, eða Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri grænna, og tilraun yrði gerð til að mynda ríkisstjórn minnihlutastjórn frá miðju til vinstri, með eða án aðkomu Framsóknarflokksins, og með stuðningi Pírata. Þá virðist það vera skoðun margra að hljóðið í Samfylkingunni hafi breyst umtalsvert með formannsskiptunum í byrjun viku. Logi Einarsson, nýr formaður flokksins, sé ekki jafn afdráttarlaus gagnvart því að Samfylkingin verði utan ríkisstjórnar og Oddný Harðardóttir var. Þar séu því þrír þingmenn sem mætti bæta inn í slíka stjórn.
Gangi hvorug ofangreindra leiða eftir er ljóst að stjórnarkreppa verður í landinu og lítið annað að gera en að kalla þing saman og fyrir starfsstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar að leggja fram fjárlagafrumvarp Bjarna Benediktssonar. Í ljósi þess að sú starfsstjórn er ekki með meirihluta á þingi gæti það ferli orðið ansi áhugavert. Í kjölfarið yrði reynt til þrautar að mynda ólíklegra ríkisstjórn ólíkra flokka. Tækist það ekki væri fátt annað eftir en að boða til nýrra kosninga á næsta ári.