Mynd: Birgir Þór
#stjórnmál #kosningar2016

Leið Bjarna að lokast og hinir flokkarnir horfa til vinstri

Stjórnarmyndunarviðræður milli Sjálfstæðisflokks og frjálslyndu miðjuflokkanna virðast ekki vera að skila neinu. Fyrirstaða er gagnvart samstarfi við aðra en Framsóknarflokk innan þingflokks Sjálfstæðisflokks. Flestir aðrir flokkar eru farnir að undirbúa sig undir flóknar tilraunir Katrínar Jakobsdóttur við að búa til stjórn frá miðju til vinstri.

Línur eru farnar að skýr­ast í stjórn­ar­mynd­un­ar­við­ræðum milli íslenskra stjórn­mála­flokka. Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn hefur nú haft umboð til að mynda rík­is­stjórn í rúma viku en hefur ekki enn ráð­ist í form­lega við­ræður við neinn stjórn­mála­flokk. Flokk­ur­inn, og for­mað­ur­inn Bjarni Bene­dikts­son, mun ekki fá marga daga í við­bót til að hefja slíkar áður en að aðrir stjórn­mála­flokkar taka ákvörð­un­ina fyrir hann. Sjálfur sagði hann við RÚV í gær að svo gæti vel farið að hann myndi skila stjórn­ar­mynd­un­ar­um­boð­inu fyrir helgi.

Ástæður þess eru að mestu tvær, og báðar nokkuð aug­ljós­ar. Í fyrsta lagi vegna þess að Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn sér að myndun stjórnar með frjáls­lyndu miðju­banda­lagi Við­reisnar og Bjartrar fram­tíðar verður nær ómögu­leg nema að annar hvor aðil­inn gefi eftir stefnu­mál með þeim hætti að kjós­endur þeirra myndu telja sig svikna. And­stæðar stefnur í Evr­ópu- og gjald­miðla­málum ann­ars vegar og í aðgerðum til að breyta sjáv­ar­út­vegs- og land­bún­að­ar­kerfum lands­ins eru þar helsta fyr­ir­stað­an. Fundir und­an­far­inna daga milli Bjarna og for­ystu­manna Bjartrar fram­tíðar og Við­reisnar hafa að mestu snú­ist um að reyna að fá þá til að slá af þeim kröf­um, en þeir hafa ekki skilað árangri. Frek­ari fund­ar­höld eru þó fyr­ir­huguð í dag og eftir þau gæti nið­ur­staða legið fyrir um hvort Bjarni þurfi að skila stjórn­ar­mynd­un­ar­um­boð­inu.

Það er líka fyr­ir­staða inni í þing­flokki Sjálf­stæð­is­flokks­ins gagn­vart myndun slíkrar rík­is­stjórn­ar. Þar er að finna nokkra þing­menn sem berj­ast hart gegn þriggja flokka stjórn með Við­reisn og Bjartri fram­tíð og þrýsta mjög á að Fram­sókn­ar­flokknum verði bætt inn í allar verð­andi rík­is­stjórn­ir, með öðrum hvorum frjáls­lynda miðju­flokkn­um. Slíkar hug­myndir koma ekki til greina innan Við­reisnar né Bjartrar fram­tíð­ar. Það ætlar ein­fald­lega eng­inn að verða þriðja hjólið undir vagni sitj­andi rík­is­stjórn­ar.

Vinstri græn þurfa ekk­ert að flýta sér

Í öðru lagi hefur Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn verið að bíða eftir að Vinstri græn taki við sér og sam­þykki að ræða við sig á grund­velli þess sem sam­eini flokk­anna í stað þess að ein­blína á það sem þeir séu ósam­mála um. Þar hefur Morg­un­blaðið til að mynda beitt sér mjög mikið og Styrmir Gunn­ars­son, fyrr­ver­andi rit­stjóri þess, hefur einnig verið að leggja slíkt sam­starf til. Mikið er lagt upp með að órói og ósætti sé á milli for­ystu Vinstri grænna og þing­flokks­ins ann­ars vegar – sem sé til­búin í íhalds­samt sam­starf með sitj­andi stjórn­ar­flokkum – og gras­rótar eða ung­liða­hreyf­ingar flokks­ins. Á meðal Vinstri grænna kann­ast eng­inn við þetta ósætti og við­mæl­endur úr röðum flokks­ins segja allir að fyrsti kostur sé stjórn til vinstri. Ekk­ert annað verði kannað fyrr en reynt hefur verið á þann kost.

Innan Vinstri grænna er hins vegar sú afstaða ráð­andi að fátt, ef nokk­uð, sam­eini flokk­anna. Og þar eru ráð­andi öfl meira en til­búin til að bíða af sér stjórn­ar­mynd­un­ar­til­raunir Sjálf­stæð­is­flokks­ins – sem þau telja að muni ekki skila neinum árangri – til að fá stjórn­ar­mynd­un­ar­um­boðið sjálf og reyna myndun stjórnar frá miðju til vinstri undir for­sæti Katrínar Jak­obs­dótt­ur. Þar er talið að Bjarni Bene­dikts­son sé að reyna að búa sér til stöðu með bið­leikjum sínum úr aðstæðum sem séu mjög þröngar og bjóði í raun ekki upp á aðra mögu­leika en rík­is­stjórn með Við­reisn og Bjartri fram­tíð.

Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn virð­ist vera mjög til­bú­inn til að koma að slíkri miðju-vinstri stjórn, og sömu­leiðis stjórn til hægri ef svo ólík­lega vildi til að slík yrði á borð­inu með hann inn­an­borðs. Aðilar alls staðar að úr hinu póli­tíska lit­rófi segja að Fram­sókn virð­ist vera til­bú­inn að gera nán­ast allt til að kom­ast í rík­is­stjórn. Þar á meðal að ein­angra Sig­mund Davíð Gunn­laugs­son og jafn­vel Gunnar Braga Sveins­son.

Sam­ein­ing í loft­inu?

Í hvora átt­ina sem hið nýmynd­aða frjáls­lynda miðju­banda­lag Við­reisnar og Bjartrar fram­tíðar fer í stjórn­ar­mynd­un, og hvort sem það endar í rík­is­stjórn eða ekki, þá er að eiga sér stað póli­tísk þróun innan þess sem mun hafa áhrif á íslensk stjórn­mál næstu miss­er­in. Það eru nefni­lega aðilar innan bæði Við­reisnar og Bjartrar fram­tíðar sem vilja ganga lengra í sam­starf­inu, og jafn­vel renna flokk­unum alfarið sam­an.

Þar er m.a. horft á næstu sveita­stjórn­ar­kosn­ing­ar. Björt fram­tíð fékk ell­efu sæti í sjö sveit­ar­stjórnum í kosn­ing­unum 2014 og mynd­aði meiri­hluta í Reykja­vík, Hafn­ar­firði, Kópa­vogi og á Akra­nesi. Í þremur þess­ara sveit­ar­fé­laga vinnur Björt fram­tíð með Sjálf­stæð­is­flokknum en í Reykja­vík með regn­boga­stjórn til vinstri. Þessi til­vist á sveit­ar­stjórn­ar­stíg­inu, og sýni­leg geta til að vinna í báðar átt­ir, gæti verið mik­il­væg fyrir Við­reisn þegar sá flokkur hefur inn­reið sína í þau stjórn­mál árið 2018.

Þá blasir hið aug­ljósa við: að einn ell­efu manna þing­flokkur er mun sterk­ari en tveir sjö og fjög­urra manna. Það mun verða mun auð­veld­ara fyrir sam­ein­aðan þing­flokk að sinna t.d. nefnd­ar­störfum almenni­lega og af við­eig­andi dýpt en það verður fyrir tvo litla þing­flokka. Sér­stak­lega á það við í til­felli Bjartrar fram­tíðar þar sem þing­sætin eru ein­ungis fjög­ur.

Þá er það ekk­ert sér­stakt leynd­ar­mál að upp­risa Bjartrar fram­tíðar á síð­ustu vikum kosn­inga­bar­átt­unn­ar, í kjöl­far afstöðu þeirra gegn sam­þykkt búvöru­samn­inga, kom jafn­vel flokks­mönnum þar inn­an­borðs á óvart. Flokk­ur­inn hafði vart mælst með púls allt þetta ár og ekk­ert virt­ist stefna í að hann væri raun­veru­legur val­kostur fyrir kjós­endur í kosn­ing­unum í lok októ­ber. Bjartri fram­tíð vantar til­finn­an­lega víð­femara innra skipu­lag í flokka­starf sitt og það er hlutur sem Við­reisn hefur lagt áherslu á að vera með í lagi. Það voru til að mynda um 400 manns á stofn­fundi flokks­ins í Hörpu í maí og um 300 flokks­fé­lagar mættu á lands­þing í sept­em­ber á sama stað. Flokk­ur­inn var enda í rúm tvö ár í mótun og und­ir­bún­ingi áður en að hann var form­lega kynntur til leiks sem stjórn­mála­flokk­ur, meðal ann­ars til þess að vera með inn­viði til­búna þegar leikar myndu hefj­ast.

Sam­fylk­ing í boði

Ef af sam­þætt­ing­ar­hug­myndum verður er lík­leg­ast að fyrstu skrefin verði í formi sam­starfs. Þ.e. flokk­arnir verði ekki sam­ein­aðir form­lega en vinni saman í rík­is­stjórn, sitji þeir þar, og innan þings. Um það verði gert form­legt sam­komu­lag. Þá væri hægt að und­ir­búa sam­ein­ingu og látið af henni verði í aðdrag­anda sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ing­anna 2018.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, gæti þurft að finna sér nýtt pólitískt heimili í ljósi skelfilegrar stöðu Samfylkingarinnar.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Sumir í þessum kreðsum láta sig meira að segja dreyma um að ná Sam­fylk­ing­unni inn í þetta sam­starf. Hún er í nán­ast óleys­an­legri til­vist­ar­kreppu og er að margra mati dauð sem vöru­merki. Inn­viðir flokks­ins eru í mol­um, búið er að segja upp öllu starfs­fólki, stór hluti skráðra flokks­manna kaus ekki flokk­inn og fjár­fram­lög til hans munu ein­ungis verða um 14 millj­ónir króna á næsta ári.

Þrír þing­menn Sam­fylk­ingar verða líka í stök­ustu vand­ræðum með að sinna öllum þing­störf­um, til að mynda nefnd­ar­störf­um, með þeim hætti að flokk­ur­inn geti verið inni í öllum mál­um. Sam­starf við Við­reisn og Bjarta fram­tíð myndi búa til 14 manna þing­flokk sem yrði í allt annarri stöðu til að taka afstöðu til allra mála. Þá má ekki gleyma því að Sam­fylk­ingin er með sterka stöðu á sveit­ar­stjórn­ar­stíg­inu, mun sterk­ari stöðu en nið­ur­staða flokks­ins í þing­kosn­ing­unum gefur til kynna. Flokk­ur­inn á til að mynda stjórn­mála­mann með mikið per­sónu­fylgi í Degi B. Egg­erts­syni, borg­ar­stjóra Reykja­vík­ur, sem náði í 31,9 pró­sent atkvæða í höf­uð­borg­inni í síð­ustu sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ing­um. Ef Sam­fylk­ingin er búið spil þá þarf Dagur og borg­ar­stjórn­ar­flokkur hans að finna sér nýtt heim­ili.

Fleiri mögu­leikar

Aðrir mögu­leikar eru líka í stöð­unni fyrir Sam­fylk­ing­una. Magnús Orri Schram, sem sótt­ist eftir að verða for­maður flokks­ins fyrr á þessu ári, lagði til í maí að skap­aður yrði nýr sam­eig­in­legur vett­vangur fyrir Sam­fylk­ing­ar­fólk og aðra sem séu ýmist utan flokka eða í öðrum flokk­um. Í grófum dráttum að leggja niður Sam­fylk­ing­una og stofna ein­hvers konar jafn­að­ar­manna­flokk Íslands sem myndi rúma fjöl­breyttar raddir og mörg sjón­ar­mið. Þá hafa verið viðr­aðar hug­myndir um að end­ur­reisa Alþýðu­flokk­inn, sem er enn til þótt að starf­semi hans hafi runnið inn í Sam­fylk­ing­una um síð­ustu ald­ar­mót. Þeir sem virð­ast standa að þeirri hug­mynd eru fyrst og fremst gamlir áhrifa­menn innan Alþýðu­flokks­ins, sem hafa ekki starfað í stjórn­málum í ár eða ára­tugi. Eitt er þó víst, það verða ein­hverjar breyt­ing­ar.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar