Leið Bjarna að lokast og hinir flokkarnir horfa til vinstri
Stjórnarmyndunarviðræður milli Sjálfstæðisflokks og frjálslyndu miðjuflokkanna virðast ekki vera að skila neinu. Fyrirstaða er gagnvart samstarfi við aðra en Framsóknarflokk innan þingflokks Sjálfstæðisflokks. Flestir aðrir flokkar eru farnir að undirbúa sig undir flóknar tilraunir Katrínar Jakobsdóttur við að búa til stjórn frá miðju til vinstri.
Línur eru farnar að skýrast í stjórnarmyndunarviðræðum milli íslenskra stjórnmálaflokka. Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú haft umboð til að mynda ríkisstjórn í rúma viku en hefur ekki enn ráðist í formlega viðræður við neinn stjórnmálaflokk. Flokkurinn, og formaðurinn Bjarni Benediktsson, mun ekki fá marga daga í viðbót til að hefja slíkar áður en að aðrir stjórnmálaflokkar taka ákvörðunina fyrir hann. Sjálfur sagði hann við RÚV í gær að svo gæti vel farið að hann myndi skila stjórnarmyndunarumboðinu fyrir helgi.
Ástæður þess eru að mestu tvær, og báðar nokkuð augljósar. Í fyrsta lagi vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn sér að myndun stjórnar með frjálslyndu miðjubandalagi Viðreisnar og Bjartrar framtíðar verður nær ómöguleg nema að annar hvor aðilinn gefi eftir stefnumál með þeim hætti að kjósendur þeirra myndu telja sig svikna. Andstæðar stefnur í Evrópu- og gjaldmiðlamálum annars vegar og í aðgerðum til að breyta sjávarútvegs- og landbúnaðarkerfum landsins eru þar helsta fyrirstaðan. Fundir undanfarinna daga milli Bjarna og forystumanna Bjartrar framtíðar og Viðreisnar hafa að mestu snúist um að reyna að fá þá til að slá af þeim kröfum, en þeir hafa ekki skilað árangri. Frekari fundarhöld eru þó fyrirhuguð í dag og eftir þau gæti niðurstaða legið fyrir um hvort Bjarni þurfi að skila stjórnarmyndunarumboðinu.
Það er líka fyrirstaða inni í þingflokki Sjálfstæðisflokksins gagnvart myndun slíkrar ríkisstjórnar. Þar er að finna nokkra þingmenn sem berjast hart gegn þriggja flokka stjórn með Viðreisn og Bjartri framtíð og þrýsta mjög á að Framsóknarflokknum verði bætt inn í allar verðandi ríkisstjórnir, með öðrum hvorum frjálslynda miðjuflokknum. Slíkar hugmyndir koma ekki til greina innan Viðreisnar né Bjartrar framtíðar. Það ætlar einfaldlega enginn að verða þriðja hjólið undir vagni sitjandi ríkisstjórnar.
Vinstri græn þurfa ekkert að flýta sér
Í öðru lagi hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið að bíða eftir að Vinstri græn taki við sér og samþykki að ræða við sig á grundvelli þess sem sameini flokkanna í stað þess að einblína á það sem þeir séu ósammála um. Þar hefur Morgunblaðið til að mynda beitt sér mjög mikið og Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri þess, hefur einnig verið að leggja slíkt samstarf til. Mikið er lagt upp með að órói og ósætti sé á milli forystu Vinstri grænna og þingflokksins annars vegar – sem sé tilbúin í íhaldssamt samstarf með sitjandi stjórnarflokkum – og grasrótar eða ungliðahreyfingar flokksins. Á meðal Vinstri grænna kannast enginn við þetta ósætti og viðmælendur úr röðum flokksins segja allir að fyrsti kostur sé stjórn til vinstri. Ekkert annað verði kannað fyrr en reynt hefur verið á þann kost.
Innan Vinstri grænna er hins vegar sú afstaða ráðandi að fátt, ef nokkuð, sameini flokkanna. Og þar eru ráðandi öfl meira en tilbúin til að bíða af sér stjórnarmyndunartilraunir Sjálfstæðisflokksins – sem þau telja að muni ekki skila neinum árangri – til að fá stjórnarmyndunarumboðið sjálf og reyna myndun stjórnar frá miðju til vinstri undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur. Þar er talið að Bjarni Benediktsson sé að reyna að búa sér til stöðu með biðleikjum sínum úr aðstæðum sem séu mjög þröngar og bjóði í raun ekki upp á aðra möguleika en ríkisstjórn með Viðreisn og Bjartri framtíð.
Framsóknarflokkurinn virðist vera mjög tilbúinn til að koma að slíkri miðju-vinstri stjórn, og sömuleiðis stjórn til hægri ef svo ólíklega vildi til að slík yrði á borðinu með hann innanborðs. Aðilar alls staðar að úr hinu pólitíska litrófi segja að Framsókn virðist vera tilbúinn að gera nánast allt til að komast í ríkisstjórn. Þar á meðal að einangra Sigmund Davíð Gunnlaugsson og jafnvel Gunnar Braga Sveinsson.
Sameining í loftinu?
Í hvora áttina sem hið nýmyndaða frjálslynda miðjubandalag Viðreisnar og Bjartrar framtíðar fer í stjórnarmyndun, og hvort sem það endar í ríkisstjórn eða ekki, þá er að eiga sér stað pólitísk þróun innan þess sem mun hafa áhrif á íslensk stjórnmál næstu misserin. Það eru nefnilega aðilar innan bæði Viðreisnar og Bjartrar framtíðar sem vilja ganga lengra í samstarfinu, og jafnvel renna flokkunum alfarið saman.
Þar er m.a. horft á næstu sveitastjórnarkosningar. Björt framtíð fékk ellefu sæti í sjö sveitarstjórnum í kosningunum 2014 og myndaði meirihluta í Reykjavík, Hafnarfirði, Kópavogi og á Akranesi. Í þremur þessara sveitarfélaga vinnur Björt framtíð með Sjálfstæðisflokknum en í Reykjavík með regnbogastjórn til vinstri. Þessi tilvist á sveitarstjórnarstíginu, og sýnileg geta til að vinna í báðar áttir, gæti verið mikilvæg fyrir Viðreisn þegar sá flokkur hefur innreið sína í þau stjórnmál árið 2018.
Þá blasir hið augljósa við: að einn ellefu manna þingflokkur er mun sterkari en tveir sjö og fjögurra manna. Það mun verða mun auðveldara fyrir sameinaðan þingflokk að sinna t.d. nefndarstörfum almennilega og af viðeigandi dýpt en það verður fyrir tvo litla þingflokka. Sérstaklega á það við í tilfelli Bjartrar framtíðar þar sem þingsætin eru einungis fjögur.
Þá er það ekkert sérstakt leyndarmál að upprisa Bjartrar framtíðar á síðustu vikum kosningabaráttunnar, í kjölfar afstöðu þeirra gegn samþykkt búvörusamninga, kom jafnvel flokksmönnum þar innanborðs á óvart. Flokkurinn hafði vart mælst með púls allt þetta ár og ekkert virtist stefna í að hann væri raunverulegur valkostur fyrir kjósendur í kosningunum í lok október. Bjartri framtíð vantar tilfinnanlega víðfemara innra skipulag í flokkastarf sitt og það er hlutur sem Viðreisn hefur lagt áherslu á að vera með í lagi. Það voru til að mynda um 400 manns á stofnfundi flokksins í Hörpu í maí og um 300 flokksfélagar mættu á landsþing í september á sama stað. Flokkurinn var enda í rúm tvö ár í mótun og undirbúningi áður en að hann var formlega kynntur til leiks sem stjórnmálaflokkur, meðal annars til þess að vera með innviði tilbúna þegar leikar myndu hefjast.
Samfylking í boði
Ef af samþættingarhugmyndum verður er líklegast að fyrstu skrefin verði í formi samstarfs. Þ.e. flokkarnir verði ekki sameinaðir formlega en vinni saman í ríkisstjórn, sitji þeir þar, og innan þings. Um það verði gert formlegt samkomulag. Þá væri hægt að undirbúa sameiningu og látið af henni verði í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna 2018.
Sumir í þessum kreðsum láta sig meira að segja dreyma um að ná Samfylkingunni inn í þetta samstarf. Hún er í nánast óleysanlegri tilvistarkreppu og er að margra mati dauð sem vörumerki. Innviðir flokksins eru í molum, búið er að segja upp öllu starfsfólki, stór hluti skráðra flokksmanna kaus ekki flokkinn og fjárframlög til hans munu einungis verða um 14 milljónir króna á næsta ári.
Þrír þingmenn Samfylkingar verða líka í stökustu vandræðum með að sinna öllum þingstörfum, til að mynda nefndarstörfum, með þeim hætti að flokkurinn geti verið inni í öllum málum. Samstarf við Viðreisn og Bjarta framtíð myndi búa til 14 manna þingflokk sem yrði í allt annarri stöðu til að taka afstöðu til allra mála. Þá má ekki gleyma því að Samfylkingin er með sterka stöðu á sveitarstjórnarstíginu, mun sterkari stöðu en niðurstaða flokksins í þingkosningunum gefur til kynna. Flokkurinn á til að mynda stjórnmálamann með mikið persónufylgi í Degi B. Eggertssyni, borgarstjóra Reykjavíkur, sem náði í 31,9 prósent atkvæða í höfuðborginni í síðustu sveitarstjórnarkosningum. Ef Samfylkingin er búið spil þá þarf Dagur og borgarstjórnarflokkur hans að finna sér nýtt heimili.
Fleiri möguleikar
Aðrir möguleikar eru líka í stöðunni fyrir Samfylkinguna. Magnús Orri Schram, sem sóttist eftir að verða formaður flokksins fyrr á þessu ári, lagði til í maí að skapaður yrði nýr sameiginlegur vettvangur fyrir Samfylkingarfólk og aðra sem séu ýmist utan flokka eða í öðrum flokkum. Í grófum dráttum að leggja niður Samfylkinguna og stofna einhvers konar jafnaðarmannaflokk Íslands sem myndi rúma fjölbreyttar raddir og mörg sjónarmið. Þá hafa verið viðraðar hugmyndir um að endurreisa Alþýðuflokkinn, sem er enn til þótt að starfsemi hans hafi runnið inn í Samfylkinguna um síðustu aldarmót. Þeir sem virðast standa að þeirri hugmynd eru fyrst og fremst gamlir áhrifamenn innan Alþýðuflokksins, sem hafa ekki starfað í stjórnmálum í ár eða áratugi. Eitt er þó víst, það verða einhverjar breytingar.